Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 14:24:41 (2787)

1996-02-08 14:24:41# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[14:24]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson gat þess réttilega í sinni ræðu að þegar á þarf að halda eru sjúklingar af öllu landinu fluttir á hátæknisjúkrahúsin hér á höfuðborgarsvæðinu og reyndar einnig að einhverju leyti til sjúkrahússins á Akureyri. Þetta er rétt og er auðvitað vegna þess að þar er þekkingin, þar eru tækin og aðstaðan til að sinna alvarlegustu sjúkdómstilvikunum, vegna þess m.a. að aðstaða er ekki fyrir hendi á litlu héraðssjúkrahúsunum sem þar ofan í kaupið er ekki ætlað að sinna slíkum verkum í dag. Því vildi ég spyrja hv. þm. vegna þess að hann talaði hér um það að fjármagn ætti að fylgja sjúklingum: Hvaðan á það fjármagn að koma? Ber að líta svo á að fjármagnið sé til staðar hjá héraðssjúkrahúsunum sem eigi þá að flytja og draga úr fjárveitingum til þeirra til þess að þær fjárveitingar geti fylgt þeim sjúklingum sem af landsbyggðinni eru fluttir, óskipulega eins og hv. þm. gat réttilega um, til stóru hátæknisjúkrahúsanna? Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir þessu þegar verið er að tala um þá hugmyndafræði um að fjármagnið flytjist með sjúklingunum. Hvaðan á að flytja það? Þetta er grundvallaratriði, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, og ég vildi þess vegna veita andsvar við ræðu hv. þm.