Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 14:29:09 (2791)

1996-02-08 14:29:09# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[14:29]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sturla Böðvarsson gat þess réttilega að það væri ekki verið að tala um neitt nýtt fjármagn. Hins vegar má hann ekki horfa fram hjá því að í minni ræðu vék ég að tveimur atriðum sem ég taldi að gætu leitt til þess að það yrði betri nýting á þeim fjármunum sem nú eru fyrir hendi eða með orðum hæstv. heilbrrh., við fengjum meira fyrir sama fjármagn. Það skiptir máli. Að öðru leyti til að glöggva hv. þm. á afstöðu Sjálfstfl. til þessara tillagna þá vil ég geta þess að hér í borg er gefið út blað sem heitir Alþýðublaðið. Það birti á haustdögum brot úr drögum að stjórnmálaályktun landsfundar Sjálfstfl. sem guð einn veit hvenær verður haldinn, sennilega ekki fyrr en á næstu öld. Í drögunum kom fram að lagt var til að Sjálfstfl. samþykkti stuðning við þetta kerfi sem ég var að lýsa hér áðan og það að fjármagnið fylgdi sjúklingi. En það er forsendan fyrir því að það sé eitthvert vit í þessari uppstokkun.