Ástand heilbrigðismála

Fimmtudaginn 08. febrúar 1996, kl. 16:15:36 (2821)

1996-02-08 16:15:36# 120. lþ. 87.91 fundur 175#B ástand heilbrigðismála# (umræður utan dagskrár), JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 87. fundur


[16:15]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. 8. þm. Reykv. að skilningur á því að ná niður halla ríkissjóðs hefur vaxið. Það kom í ljós við afgreiðslu fjárlaga nú fyrir jólin að það er í raun ekki ágreiningur um það meginmarkmið. Hins vegar hefur Alþb. ætíð leyst málin þannig að það hafa verið fluttar ýmsar útgjaldatillögur og síðan hafa verið fluttar einhverjar tillögur um tekjur sem passa og dæmið látið ganga upp. En það er ekki þannig sem málin verða leyst til frambúðar. Það vantar einfaldlega að segja skýrt og skorinort hvar bera á niður til þess að ná niður þessum halla. Alþb. hefur verið í stjórn með okkur framsóknarmönnum. Við höfum barist við þetta vandamál áður. Ég man ekki til þess að þar hafi verið neinar patentlausnir uppi þegar við vorum að berjast í þessu saman. Það er einfaldlega mikil útgjaldaþörf í ríkiskerfinu og viðkvæmir málaflokkar eru margir. Það er því miður ekki hægt að skilja viðkvæma málaflokka eins og heilbrigðis- og tryggingamál, félagsmál og fleira út undan þegar leiða er leitað. Það er í rauninni mergurinn málsins.