Vaxtamál

Mánudaginn 26. febrúar 1996, kl. 15:22:35 (3242)

1996-02-26 15:22:35# 120. lþ. 95.1 fundur 200#B vaxtamál# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur

[15:22]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort hv. fyrirspyrjanda er það ljóst að á sl. ári var ríkissjóður mjög lítið á innlendum fjármagnsmarkaði. Hann uppfyllti þarfirnar á erlendum lánavettvangi. Það var gert vegna þess að Íslendingar voru þá í óða önn að draga úr skuldum sínum, greiða niður erlendar skuldir sínar þannig að það var mjög eðlilegt við þær aðstæður. Á hverjum tíma verður ríkið að haga sér þannig að það hafi sem heppilegust áhrif á jafnvægi á þessum markaði.

Ég get fullvissað hv. þm. um að efnahagsleg rök eru fyrir því að skammtímavextir lækki. Í því sambandi ber að minna á að Íslandsbanki hefur þegar lækkað vexti. Landsbankinn hefur auglýst vaxtalækkun með nokkuð góðum fyrirvara og ég á von á því --- það veit hins vegar hv. fyrirspyrjandi betur en ég --- að Búnaðarbankinn muni fylgja í kjölfarið.