Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 16:10:48 (3755)

1996-03-11 16:10:48# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[16:10]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það lýsir vel rakalausum málflutningi hv. 13. þm. Reykv. í þessari umræðu þegar hv. þm. tönnlast hvað eftir annað á því að fjmrn. hafi komist að þeirri niðurstöðu að þetta frv. eigi ekki að leysa úr vanda nema 20--40 einstaklinga. Öll ræðan var byggð á þessari röksemdafærslu. Allar ályktanir sem hv. þm. dró voru byggðar á þessari röksemdafærslu. Þó stendur alveg skýrt og skilmerkilega í álitinu að það sé ógerlegt að leggja mat á það hversu margir muni sækja um og síðan er tekið dæmi. Sé það þessi fjöldi, hefur það þennan kostnað í för með sér. En allar ályktanir sem hv. þm. dró með stóryrðum sínum voru dregnar af þessari fölsku framsetningu á áliti fjmrn. á málinu. Og ef hv. þm. hefði svo lesið lögin eða lagafrv., hefði hann auðvitað líka séð það að í lagatextanum er hvergi gerð nein tilraun til þess að takmarka fjölda þeirra einstaklinga sem eiga að njóta þeirra réttinda sem hér er verið að kveða á um.

Staðreynd málsins er sú að það er ekki hægt að segja um það fyrir fram hversu margir munu leita eftir því að njóta þessara réttinda. En ég held að það verði ekki á móti því mælt að ráðagerð eins og þessi bætir stöðu manna og auðveldar þeim sem eru í erfiðleikum að leita úrlausnar. Hún er verulegt framlag til aðstoðar slíku fólki. Það er algerlega ástæðulaust að gera lítið úr henni og með öllu tilhæfulaust að draga ályktanir af rangri lýsingu á áliti fjmrn. sem birtist með frv.