Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Mánudaginn 11. mars 1996, kl. 18:25:56 (3784)

1996-03-11 18:25:56# 120. lþ. 104.10 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur

[18:25]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þau svör sem hann veitti. Ég tel að hann hafi að nokkru leyti fallist á þau sjónarmið sem hér hafa komið fram í umræðunni af hálfu hv. 12. þm. Reykv. og af minni hálfu líka að því er það varðar að hann telur það koma til greina að sú nefnd sem þarna er verið að tala um taki jafnvel endanlega ákvörðun í málinu. Ég verð að segja eins og er að ég sé ekki alveg hvernig það getur gerst. Ég held að það sé skynsamlegra að svona nefnd sé tillöguaðili, hún sé kannski ættuð með einhverjum hætti annars staðar að en gert er. Ég lít þannig á að hæstv. ráðherra hafi opnað fyrir það að menn velti fyrir sér öðrum leiðum í þessu efni í hv. nefnd og ég tel að það komi til móts við þau sjónarmið sem hér hafa verið sett fram með rökum.

Ég kann ekki gjafsóknarreglurnar en mér finnst hugsanlegt að gjafsóknarákvæðin séu að einhverju leyti höfð til hliðsjónar. Það er alveg rétt að þau hafa að mörgu leyti gefist vel og sú vinnuregla sem var tekin upp fyrir allmörgum árum er út af fyrir sig góð. Ég held að við öll þekkjum hins vegar það vel til í dómsmrn. að við vitum að þar getur ýmsum snjóað inn við ýmsar aðstæður sem jafnvel eru ráðherrar og það er ekki gott að hafa svona reglur allt of losaralegar.

Í annan stað vil ég síðan spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi ekki verið að kasta greiðsluaðlögunarmálinu alveg út af borðinu áðan því að hann sagði: ... fá reynslu af þessari aðferð fyrst varðandi skilvirkni og fjármuni. Svo má skoða hitt málið.

Hvenær er reynsla komin af þessari aðferð? Hvenær er tímabært að hans mati að taka upp athugun á greiðsluaðlögunarmálinu í ljósi þeirrar reynslu sem hefði aflast á grundvelli þess frv. sem hér liggur fyrir, ef það verður að lögum?