Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 19:10:41 (4684)

1996-04-12 19:10:41# 120. lþ. 117.12 fundur 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, 416. mál: #A stjórn fiskveiða# (heildarafli þorsks, úrelding nótaskipa o.fl.) frv., 469. mál: #A fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum# (nýting afla o.fl.) frv. 58/1996, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[19:10]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Fiskvinnsluhúsum á Íslandi er skylt að koma úrgangi sínum fyrir vegna þess að úrgangurinn veldur mengun. Ef það væri engin mengun af úrganginum, þá væri heilbrigðiseftirlitið ekki að skipta sér af því. Ég tók það mjög skýrt fram að það hefði verið niðurstaða allra sem við sem vorum að undirbúa þetta frv. ræddum við, að það væru engin rök fyrir því að fiskúrgangi sem væri hent frá skipum, hvorki innyfli né annað, mundi valda neinni mengun í hafinu. Það var þetta sem ég sagði og vonaðist til að þingheimur hefði skilið. (JBH: Rædduð þið bara við hagsmunaaðilana?)

Þar sem ég þekkti til, var algengt að grjót kom í trollið, svo og ostur og öllu var hent fyrir borð. Það er grundvallaratriði og grundvallarhugsun að við ætlum að reyna að hirða allt sem verðmætt er og það er miðað við það, það sem verðmætt er, en annað ekki. Það er enginn að halda því fram að með frv. sé verið að hverfa frá þeirri grundvallarreglu að við ætlum að haga okkar fiskveiðum þannig að við fáum sem mestan arð af því sem við veiðum. Það er enginn að mæla með því að að óþörfu sé verið að henda því sem gæti verið verðmæti, enda er enginn að gera það að gamni sínu. Það liggur alveg fyrir að það kemur úrgangur úr fullvinnsluskipum, slóg, þunnildi, hryggir og annað slíkt. Hvað á að gera við það? Á að henda því í hafið eða á að henda því í mjölverksmiðju? Það er um tvo kosti að ræða. Eins og lögin eru nú, þá er þess krafist að mjölverksmiðja sé sett um borð í skipin og úrgangurinn settur í mjölverksmiðjuna. Ef það kemur svo í ljós að kostnaðurinn við mjölverksmiðjuna og framleiðsluna er miklu meiri en tekjurnar, hvers vegna eigum við þá að vera að því, hvers vegna í ósköpunum? Hvaða tilgangi þjónar það? Og hvern hneykslar það ef hent er í hafið því sem ekki mengar hafið, ef við komum þannig í veg fyrir kostnað? Hvern hneysklar það?