Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Föstudaginn 12. apríl 1996, kl. 19:16:07 (4687)

1996-04-12 19:16:07# 120. lþ. 117.12 fundur 436. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (úreldingarstyrkur til krókabáta) frv. 109/1996, 416. mál: #A stjórn fiskveiða# (heildarafli þorsks, úrelding nótaskipa o.fl.) frv., 469. mál: #A fullvinnsla botnfiskafla um borð í veiðiskipum# (nýting afla o.fl.) frv. 58/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 117. fundur

[19:16]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í síðustu orðum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar kom einmitt fram það sem er mergurinn málsins í þessu öllu saman í málinu. Það eru útgerðarmennirnir sem eiga að ráða þessu. Það hefur verið reynt að benda á það í ræðum að ýmis önnur rök skipta máli, hv. þm., en hagkvæmnisrökin. Peningar eru bara ekki allt í þessu máli og málið er ekki eins einfalt eins og hv. þm. stillir því upp. Hér var komið inn á það áðan að þetta snerist líka um umgengni við auðlindir sjávarins og hv. þm. hlýtur að skilja að án réttrar umgengni við auðlindirnar verður lítið af peningum sem koma upp úr sjónum. Ég velti því fyrir mér hvort nægilega hafi verið staðið að því að kanna hvort að þetta væri rétta umgengnin við auðlindir sjávarins. Ég fór yfir listann, sem mér var bent á að væri aftast um þá sem hefðu komið á fund nefndarinnar, og þar eru þessir allir sem eru einróma um að það saki ekki að henda þessu um borð og ég sakna þar ákveðins aðila. Þetta eru fyrst og fremst hagsmunasamtök í sjávarútvegi, einir fimm frá LÍÚ og tveir frá Sjómannasambandinu, það eru fulltrúar frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, SR-mjöli o.s.frv. og skipstjórar fullvinnsluskipa. Af hverju er t.d. ekki leitað eftir áliti Líffræðistofnunar Háskólans, Náttúrfræðistofnunar, Náttúruverndarráðs, svo dæmi séu tekin, um þennan veigamikla þátt í málinu? Ef þessi þáttur skiptir máli, sem er þó viðurkennt í skýrslu nefndarinnar, af hverju í ósköpunum er þá nefndaskipanin eins og hún er? Af hverju eru þar ekki fulltrúar sem eiga að gæta þessara hagsmuna og tryggja að það sé nægilega vel gengið frá þessum málum? Þetta er stórmál. Mér heyrist á ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar frumvarpshöfundar kristallast þau sjónarmið sem við höfum verið að gagnrýna og vara við; að þetta sé einkamál útgerðarinnar, eingöngu byggt á hagkvæmnisrökum en ekki hafi nægilega verið staðið að því að kanna hvort með þessu væri ógnað lífríki hafsins.