Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 15:08:44 (4786)

1996-04-16 15:08:44# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[15:08]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég byrja á því að þakka hæstv. fjmrh. fyrir að gera mér grein fyrir því undir hvað ég skrifaði en ég tek það fram að mér var fyllilega ljóst undir hvað ég var að skrifa. Mér hefur greinilega verið það betur ljóst en hæstv. fjmrh. Í fyrsta lagi tek ég fram að menn voru í nefndinni að gera tillögur til fjmrh. Menn voru ekki að búa til einhverja endanlega niðurstöðu sem þeir teldu vera rétta og það hefur þegar verið rakið og kemur fram í nál. Hins vegar ítreka ég að það stendur í bókun nefndarinnar að þeir sem undir nál. rita áskilja sér allan rétt í málinu þar með að styðja brtt., ekki bara að styðja brtt., þannig að þetta er einungis túlkun hæstv. fjmrh. á bókuninni. Aðrir, sem rita undir hana og sem sömdu hana og ættu væntanlega að vera meðvitaðir um það hvað þeir voru að gera, hafa kosið að túlka hana öðruvísi. Það er vandamál sem verður ekki leyst hér en það er ekkert sem útilokar það í bókun nefndarinnar að lagðar séu fram sérstakar tillögur þar sem fram komi þau efnisatriði sem fulltrúar þessara flokka lögðu áherslu á í nefndinni.