Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 15:12:15 (4788)

1996-04-16 15:12:15# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[15:12]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilegt og hefur komið margsinnis fram í máli hæstv. fjmrh. að hann hefur misskilið efni þessarar bókunar. Þegar undir nál. er ritað með vísan til bókunar þá þarf væntanlega að túlka skilning þess sem undir bókunina skrifar með vísan til þess sem stendur í bókuninni. Þar eru ákveðnir fyrirvarar sem hæstv. ráðherra hefur kosið að túlka á einn veg. Það er hans mál, aðrir kjósa að túlka það á annan veg og þannig horfir málið við í dag. Niðurstaðan er sú að þær tillögur verða efnislega ræddar í þinginu sem fram komu hugmyndir um í nefndarstarfinu og voru þær ræddar mjög ítarlega. Þeir fulltrúar, sem rituðu undir bókunina a.m.k. fulltrúar þeirra flokka sem standa að hinum frv. tveimur, lýstu yfir að þeir vildu gjarnan gera að sínum tillögum þó að þeir gætu fallist á þessa leið að öðrum tillögum frágengnum eins og ég lít sjálf á minn fyrirvara. En það að hæstv. ráðherra hafi skilið þetta á þennan veg er alfarið hans mál.