Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 16. apríl 1996, kl. 20:00:32 (4857)

1996-04-16 20:00:32# 120. lþ. 119.3 fundur 421. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjármagnstekjur) frv. 97/1996, 422. mál: #A staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur# frv. 94/1996, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur

[20:00]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þetta stutta svar hans við andsvari sem hann flutti áðan. Af því tilefni get ég ekki látið hjá líða að benda á að þessi hv. þm. hefur setið í allan dag og hlustað á þann málflutning sem hér hefur farið fram og myndað sér skoðanir, m.a. á grundvelli hans og þeirrar afstöðu sem hann tilkynnti að hann hefði áður haft í sínum flokki. Hvernig má það svo vera, virðulegi forseti, að þeir sem um málið eiga að fjalla í efh.- og viðskn. að tveimur mönnum undanskildum skuli láta sig hafa það að vera fjarverandi alla umræðuna í dag því að þessi hv. þm., Guðni Ágústsson, á því miður ekki sæti í þeirri þingnefnd sem á að fjalla um málið. Hins vegar hefur hann vegna þess að hann hefur setið hér í allan dag og fylgst með málefnalegum umræðum komist að þeirri niðurstöðu að það sé rétt að skoða málið að nýju sem hann lýsti áðan. Það hefði betur farið ef formaður þeirrar nefndar sem á að fjalla um málið og þingflokksformaður hv. þm. Guðna Ágústssonar sem á einnig sæti í nefndinni hefðu eins og hann setið hér í allan dag og hlustað á málflutning manna því að sjálfsagt hefði mátt gera ráð fyrir að þeir hefðu komist að sömu niðurstöðu og hv. þm. Guðni Ágústsson, enda ekkert síður greindur vel en aðrir framsóknarmenn, að þessi málflutningur gæfi tilefni til þess að ætla að það þyrfti að skoða málið að nýju.