Fiskréttaverksmiðjur

Föstudaginn 19. apríl 1996, kl. 12:38:50 (5027)

1996-04-19 12:38:50# 120. lþ. 123.11 fundur 310. mál: #A fiskréttaverksmiðjur# þál., Flm. GMS
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur

[12:38]

Flm. (Gunnlaugur M. Sigmundsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem hafa tjáð sig um þessa tillögu fyrir að vera svo jákvæðir í hennar garð.

Tekjuskattsfrelsi í 25 ár, ég nefndi sjálfur að það kynni að orka tvímælis. Þetta er sett fram til að opna á að það þurfi með einhverjum hætti að skapa þeim tveimur fyrirtækjum sem nefnd eru í þessari tillögu einhvern hvata til að þau komi til Íslands. Hvort það er gert með tekjuskattsfrelsi, orkuverði eða hvað það er sem helst hjálpar skal ég ekki segja til um, en mér finnst vissulega koma til greina að lækka orkuverðið fyrir svona vinnslu. Reyndar mætti þar huga að fleiru eins og að nýta gróðurhús með lægra orkuverði til að skapa útflutningsgrein eins og ræktun túlípana og annað slíkt sem oft hefur verið lagt til en aldrei komist á.

Ég þakka hv. 4. þm. Vestf., Sighvati Björgvinssyni, fyrir þessa ábendingu með erlendu fjárfestinguna. Ég er honum samála um að það þarf að passa upp á þegar það mál kemur úr nefnd að ekki sé lokað á það, að menn girði ekki fyrir að hægt sé að koma á fót, og þá sérstaklega úti á landsbyggðinni, nýjum stóriðjufyrirtækjum eins og þessu, fullvinnslu sjávarafla, að við opnum ekki fyrir það með annarri hendinni en lokum fyrir með hinni með því að loka á erlenda fjárfestingu.