Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 30. apríl 1996, kl. 22:40:03 (5434)

1996-04-30 22:40:03# 120. lþ. 128.9 fundur 254. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (EES-reglur, fiskveiðar og fiskvinnsla) frv. 46/1996, 308. mál: #A réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands# (erlend eignaraðild að skipum) frv. 53/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur

[22:40]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hún breyti engu um afstöðu manna til þessa máls, þessi sögulega upprifjun. Það er líka staðreynd að sá sem hér stendur beitti sér fyrir því að semja í alþjóðlegum samningum um skilyrðislausan rétt íslensku þjóðarinnar til þess að útiloka erlendar fjárfestingar. Það gerði ég ekki vegna þess að á bak við það væri nokkur sannfæring mín um það að þessa fjárfestingu bæri að óttast heldur í ljósi þeirrar staðreyndar að þá var sú meiri hluta skoðun ríkjandi að við mættum ekki gera slíka samninga og gætum ekki gert slíka samninga nema áskilja okkur þann rétt.

Það sem nú er að gerast er þetta: Við erum að endurskoða þetta mál í ljósi þess hvað eru okkar hagsmunir og í ljósi reynslunnar. Reynslan virðist kenna okkur það í vaxandi mæli og það hafa margir tekið undir það í þessum umræðum að við eigum að ganga lengra í frjálsræðisátt en við gerðum á þeim tíma. Það er hægt að finna mörg dæmi þess, ekki síst úr sögu Framsfl. ef við ættum að fara út í slíka sögulega upprifjun. Spurningin er sú hvort Framsfl. hefur stigið nægilega stór skref til þess að nálgast nútíðina. Það mætti kannski gera betur á ýmsum sviðum.