Tæknifrjóvgun

Fimmtudaginn 02. maí 1996, kl. 22:22:53 (5541)

1996-05-02 22:22:53# 120. lþ. 129.15 fundur 154. mál: #A tæknifrjóvgun# frv. 55/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur

[22:22]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Fjeldsted fyrir að nefna sérstaklega mengunarvandann sem á þátt í minnkandi frjósemi karla og sæðisframleiðslu. Það minnir mig á að ég nefndi þetta í umræðu um utanríkismál á dögunum í sambandi við frjósemi karla og minnkandi magn á sæðisfrumum og að mengun væri ákveðinn þáttur í því máli. Það er einmitt nýkominn út bók um þetta efni ,,Our stolen future`` í Bandaríkjunum sem hefur vakið mjög mikla athygli. Þetta er auðvitað ekki eingöngu evrópskt vandamál heldur víðtækara. Varaforseti Bandaríkjanna ritar formála að því riti og þar er að finna mjög sterka hvatningu til að bregðast við þessari mengun, einkum mengun þrávirkra efna sem eru talin valda þessu öðru fremur.

Ég náði ekki alveg samhenginu hjá hv. þm. eða hvernig hún notar þetta til að rökstyðja sérstaklega stuðning við þetta frv., þ.e. þann þáttinn sem varðar gjafakynfrumur. Ég tel að það gildi út af fyrir sig alveg það sama um vanda frjóvgunar hvort sem um er að ræða eigin kynfrumur eða gjafakynfrumur. Hitt er svo rétt að við verðum að geta brugðist við þessum vanda. Best er auðvitað að taka þá á upptökunum, þ.e. menguninni. Ef hún er raunverulega ástæðan er það auðvitað hið eðlilega eins og hv. þm. sagði. Hitt er erfitt að þurfa að leggja út í flóknar aðgerðir og tvísýnar til þess að bregðast við, en það geta menn þó gert með tæknisæðingum.