Umboðsmaður aldraðra

Föstudaginn 03. maí 1996, kl. 18:03:14 (5644)

1996-05-03 18:03:14# 120. lþ. 130.8 fundur 359. mál: #A umboðsmaður aldraðra# þál., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur

[18:03]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég hefði viljað fá miklu nánar fram hjá hv. þm. hvernig raunverulega stuðningi hans við aldraða er háttað af því ég veit að þingmaðurinn er áhugamaður um málefni aldraðra. Það er ekki nægjanlegt að gera það með slíkum tillöguflutningi eins og hér er. Hv. þm. hefði sýnt miklu meiri reisn ef hann hefði tekið þátt í þeirri miklu umfjöllun sem varð hér bæði um fjárlögin og ráðstafanir í ríkisfjármálum sem snerist raunverulega mikið um það hvað verið var að ráðast að kjörum aldraðra í þjóðfélaginu og ýmsum hagsmunamálum. Þá sást hv. þm. ekki í þingsölum, ég man ekki eftir því (GHall: Það er rangt.) að hv. þm. hafi sagt hér orð í ræðustól til varnar öldruðum. Ég man ekki eftir því. (GHall: En manstu eftir mér í salnum?) Ég man ekki eftir því að hv. þm. hafi sagt hér orð til varnar öldruðum og það finnst mér bera vott um nokkurn tvískinnung að flytja slíka þáltill. en þegar aldraðir þurfa raunverulega á þingmanninum að halda að þá kemur hann ekki í ræðustól til að verja þeirra hagsmuni.