Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 15:12:01 (5730)

1996-05-07 15:12:01# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[15:12]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að réttast sé að takast einfaldlega á um það hér í þingsölum hvort menn telji eðlilegt að biðlaunarétturinn sé með þeim hætti eins og núverandi lög hafa verið túlkuð eða hvort biðlaunarétturinn verður eins og lagt er til í frv. (ÖJ: Það verða þá að vera einhverjir stjórnarliðar hér til að takast á við.) Mín afstaða er sú að það sé rétt að hafa biðlaunaréttinn með þeim hætti sem lagt er til í frv. Meiri hlutinn vill að sjálfsögðu afgreiða málið en gerir sér grein fyrir því að málið er erfitt. Ekki síst vegna þess að það er m.a. verið að takmarka þennan biðlaunarétt. Að sjálfsögðu gera menn sér grein fyrir því að það er ekkert auðvelt og ekki til vinsælda fallið hjá ákveðnum hópi fólks að fara þannig að. En ef menn trúa því að þeir séu að gera rétt í því og þetta sé skynsamlegt þá standa menn í lappirnar vegna þess að sjálfstæði þingsins er í veði.