Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 15:55:31 (5899)

1996-05-10 15:55:31# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[15:55]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að það sé kominn tími til þess að skýra það út fyrir hv. þm. Sighvati Björgvinssyni að enginn sem er með æviráðningu nú mun missa hana. Hins vegar þegar nýir starfsmenn eru ráðnir, þá hafa þeir að sjálfsögðu ekki æviráðningu áður en búið er að ráða þá. Þeir munu þess vegna ekki missa neina æviráðningu við það að vera ráðnir án þess að hún sé til staðar. Ég vona að hv. þm. skilji hvað ég á við.

Varðandi biðlaunin þá missir enginn biðlaun vegna þess að það eina sem gerist er að laun sem viðkomandi hefur í öðru starfi sem hann kann að taka upp eftir að starf er lagt niður eru reiknuð frá.

Varðandi áhyggjur hv. þm. yfir því að ég muni missa biðlaun eftir næstu kosningar, þá held ég að hv. þm. geti alveg verið rólegur út af því. Eins og hv. þm. veit þá hygg ég að það muni ekki skipta öllu máli fyrir mig persónulega hvort svo verður eða ekki og ég held að hann geti alveg sofið rólegur fyrir því.