Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 17. maí 1996, kl. 13:06:27 (6178)

1996-05-17 13:06:27# 120. lþ. 140.4 fundur 249. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# frv. 57/1996, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 140. fundur

[13:06]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur fyrir ágætt innlegg í þetta mál. Hún sagði að mín hugmynd gengi út á það að menn fengju ekkert greitt fyrir þetta. Ég gat þess einmitt að menn fengju greitt fyrir þetta. Það er gert ráð fyrir því í mínum hugmyndum að menn fái greitt lægst 5% en hæst 15% af vergu söluandvirði aflans til þess að þeir hafi hvata til að koma með aflann að landi og líka til að þeir fái borgað fyrir flutninginn til lands, löndun og sölu á aflanum því það er ætlast til að þeir selji. Þannig að það gætti ákveðins misskilning um þetta atriði.

Nú er það svo að margur sjómaðurinn og skipstjórinn mundi koma með afla að landi þótt hann fengi ekkert greitt fyrir hann bara af því að honum leiðist að henda fallegum fiski. En aðrir þurfa hvatningu. Það er spurningin um að stilla þessa hvatningu þannig af að hún sé nægilega mikil til að menn komi með aflann að landi en ekki of mikil þannig að menn geri út á hann.