Stéttarfélög og vinnudeilur

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 11:19:22 (6417)

1996-05-22 11:19:22# 120. lþ. 144.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur

[11:19]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni sérstaklega fyrir það að gera svo glögglega grein fyrir því hvernig farið var upphaflega af stað í hinum svokallaða samráðshópi aðila vinnumarkaðarins og félmrn. vegna þess að það skipti grundvallarmáli fyrir allt starf þessa hóps og fyrir allt málið eins og það liggur fyrir í dag, hvernig af stað var farið. Þó að þetta hafi verið margítrekað í ræðum virðist því miður sem hæstv. félmrh. hafi ekki enn áttað sig á þessu. Ég ætla a.m.k. ekki að trúa því að hann hafi vísvitandi misnotað það góða traust sem hæstv. fyrrv. félmrh. tókst að byggja upp með því að fá þennan hóp saman til starfa.

Eins og hv. þm. minntist á áðan, þá var það aldrei meiningin að setja lög, breyta vinnulöggjöfinni í andstöðu við einhvern þann aðila sem hlut á að máli. Það sem hæstv. félmrh. hefur nú afrekað hins vegar er að klúðra málinu svo gersamlega að hann hefur fengið gervalla verkalýðshreyfinguna upp á móti sér og ekki aðeins það heldur hefur hann með því ógnað algerlega þeim friði, hann hefur ógnað mjög því umhverfi sem við búum við á vinnumarkaði í dag. Hann verður að fara að átta sig á því að það er ekki aðeins einkamál hans. Við erum að tala um mikla hagsmuni sem varða alla íslensku þjóðina.

Herra forseti. Ég harma að þetta góða starf sem hæstv. fyrrv. félmrh. fór af stað með í góðri trú allra aðila skuli nú vera komið í það stand sem það er í dag og ég tek undir með hv. þm. sem talaði áðan að ég geri mér enn vonir um að hæstv. félmrh. eða a.m.k. einhverjir af flokksfélögum hans átti sig á því hversu alvarlegt þetta mál er og dragi frv. til baka.