Fiskveiðar utan lögsögu Íslands

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 14:14:13 (7318)

1996-06-05 14:14:13# 120. lþ. 161.6 fundur 519. mál: #A fiskveiðar utan lögsögu Íslands# frv. 88/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[14:14]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sama sinnis og hæstv. ráðherra að svona almennt séð sé auðvitað eðlilegt að viðkomandi standi undir þeim kostnaði sem um er að ræða í okkar útvegi. Á hitt ber að líta að hér er um býsna sérstakt mál að ræða. Hér skellur yfir skyndilega breytt ástand að þessu leyti með samkomulagi sem íslensk stjórnvöld gerast aðilar að varðandi veiðieftirlit. Það er því eðlilegt að mínu mati að það sé farið yfir það hvort ekki sé réttlætanlegt við þessar aðstæður, tímabundið að létta þennan eftirlitskostnað á meðan leitað er leiða til þess að fá kannski breytt reglunum eins og hæstv. ráðherra hefur nefnt og vilji stendur til. Það finnst mér vera eðlilegt við þessar aðstæður og eigi ekki að þurfa að raska því meginsjónarmiði sem hæstv. ráðherra talaði fyrir og ég er út af fyrir sig sammála. En það er þannig að þetta getur riðið baggamuninn hjá ýmsum sem þarna hafa stundað útgerð. Nákvæmlega hvernig slíkum stuðningi verður við komið er aftur útfærsluatriði. Aðalatriðið er hvort vilji sé til þess að líta á slíkar lausnir tímabundnar.