Náttúruvernd

Miðvikudaginn 05. júní 1996, kl. 19:46:22 (7330)

1996-06-05 19:46:22# 120. lþ. 161.10 fundur 366. mál: #A náttúruvernd# (heildarlög) frv. 93/1996, KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 161. fundur

[19:46]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Já, herra forseti, það má vel vera að við séum ekki alveg á sömu nótum í sambandi við einföldun og skilningsauka í sambandi við hvernig frv. er upp sett og ég ætla nú ekki að fara neitt nánar út í það. Ég sagði að gildandi skipan hefði að mörgu leyti gefist vel og ég sé út af fyrir sig ekkert á móti því að það sé sett á stofn stofnun sem heyri á formlegri hátt undir hæstv. umhvrh. eins og ætlunin er með Náttúruvernd ríkisins. Það sem ég gagnrýni fyrst og fremst er hvernig að þeirri stofnun virðist eiga að búa og fyrst og fremst líka hvernig skipa eigi í stjórn hennar. Þessari stofnun eru ætluð það mörg og margvísleg verkefni að ég sé ekki að hún muni valda þeim svona. Þess vegna vísaði ég til þess fyrirkomulags sem hefur gilt að undanförnu og hefur gefist vel einmitt vegna skipunar Náttúruverndarráðs, vegna þess að sú skipan hefur tryggt ákveðin tengsl við aðila utan stofnunarinnar sem hafa bjargað því sem bjargað hefur verið. Það er það sem ég hef lagt áherslu á í mínu máli. Ég get vel séð þessar hugmyndir útfærðar heldur betur þar sem búið væri betur bæði að þeirri stofnun sem hér á að setja á fót svo og því ráði sem er ætlað eða ég hafði talið að væri ætlað, mjög gagnrýnið mikilvægt hlutverk til að tryggja sem besta skipan þessara mála.

Hvað lokanir og gjaldtöku varðar þá get ég vísað til ræðu minnar með það. Ég held að þetta sé ekki nægilega hugsað og ekki nægilega útfært til þess að það geti gengið. En eins og ég segi með lokanirnar þá óttast ég ekki að það verði misnotað. En (Forseti hringir.) það eru líka margar náttúruperlur eins og hæstv. ráðherra sagði sem ekki mundu flokkast undir það að vera í óbyggðum.

(Forseti (GÁS): Forseti vill biðja hv. þm. um að virða þau tímamörk sem andsvaraformið veitir.)