Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 19. október 1995, kl. 18:32:03 (484)

1995-10-19 18:32:03# 120. lþ. 17.1 fundur 47#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mjög ánægjulegt að talsmenn Sjálfstfl. í umræðunni, síðast hv. þm. Sólveig Pétursdóttir, hafa komið á framfæri ályktunum Alþb. á nýafstöðnum landsfundi varðandi afstöðuna til Atlantshafsbandalagsins og til veru erlends herliðs á Íslandi.

Það vill svo til að við erum stödd á árinu 1995 og ef menn bera saman stöðuna á þessu ári og fyrir 10 árum eða svo þá hljóta menn að spyrja sig: Hvernig stendur á því að þeir, sem báru fram rökin fyrir NATO fyrir 10 árum og auðvitað allt frá upphafi þess bandalags og fyrir dvöl erlends herliðs í landinu studdu tvískiptingu heimsins í tvær valdablokkir sem byggðu á ógnarjafnvægi í vígbúnaði og kjarnorkumálum í stað þess að leggjast á sveif með þeim sem töldu eðlilegt eftir hrun Sovétríkjanna að þessar valdablokkir yrðu lagðar af, hernaðarbandalagið NATO ekki síður en Varsjárbandalagið, hafa ekki fengið stuðning úr röðum þeirra sem hér tala svo eðlilegt og sjálfsagt sem það þó væri?

Ég vek athygli á því að þverstæðurnar koma einmitt fram í málflutningi þessara sömu þingmanna og undrast á afstöðu okkar alþýðubandalagsmanna, þ.e. að það séu miklir erfiðleikar og mikill vandi á höndum varðandi Atlantshafsbandalagið, að stækka það og opna náðarfaðm þess fyrir fleiri ríkjum. Þessar andstæður eru þarna. Þessi vandi er þarna. Með áframhaldandi tilvist Atlantshafsbandalagsins, sem byggir á kjarnorkuvígbúnaði og áskilur sér réttinn til að beita kjarnorkuvopnum að fyrra bragði, sem vill taka inn viss ríki en hafna öðrum, í því felst stórfeld hætta fyrir öryggismálin í Evrópu. Ég bið hv. alþm. að hugleiða þessi mál af víðsýni og í ljósi þess sem gerst hefur á undanförnum árum.