Löndun undirmálsfisks

Miðvikudaginn 01. nóvember 1995, kl. 15:44:36 (616)

1995-11-01 15:44:36# 120. lþ. 23.11 fundur 112. mál: #A löndun undirmálsfisks# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., sjútvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur


[15:44]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég tek undir það sjónarmið sem hér hefur komið fram að úrkast á fiski er eitt það stærsta vandamál sem við eigum við að etja varðandi fiskveiðistjórnun. Sá tími sem hér gefst er hins vegar ekki nægjanlegur til þess að fara yfir öll sjónarmið í því efni. Ég taldi og hef talið mjög brýnt að leiða saman sjómenn og útvegsmenn ásamt sérfræðingum Hafrannsóknarstofnunar til þess að vinna að tillögum sem geta stuðlað að betri umgengni og mun halda áfram að vinna á þeim grundvelli. Þess vegna fól ég samstarfsnefndinni að endurskoða þær tillögur sem hún kom fram með í fyrra og við ákváðum að verða við og framkvæma vegna þess að um þetta hafa orðið miklar umræður.

[15:45]

Ég minni á að fyrri reglan, sem var á margan hátt mjög skýr og góð í framsetningu, virðist hafa leitt til þess, ef niðurstöður samstarfsnefndarinnar eru réttar, að menn hafi í stórum stíl farið í kringum þær og útgerðarmönnum í því tilliti var ekki treystandi til þess að fara að reglunum. Það kemur mönnum auðvitað í koll og þjóðfélaginu í koll þegar menn fara ekki að settum reglum. Það þurfa menn að hafa í huga í þessu sambandi.

Það er einnig mjög mikilvægt að við búum yfir þeim úrræðum að tryggja það að útvegsmennirnir geti ekki gengið á svig við þær reglur sem settar eru um nýtingu auðlindarinnar. En það er allt of mikið um það að menn vilji hafa lausatök í þeim efnum. Ég get ekki sagt um það fyrir fram hver niðurstaða þessarar endurskoðunar verður en ég taldi nauðsynlegt í ljósi þeirrar umræðu, sem fór fram, að nefndin tæki tillögur sínar í þessu efni til endurskoðunar og ég á von á því að fá niðurstöður af þeirri endurskoðun fyrir lok þessa árs.