Náttúruvernd

Þriðjudaginn 07. nóvember 1995, kl. 18:50:39 (793)

1995-11-07 18:50:39# 120. lþ. 29.16 fundur 95. mál: #A náttúruvernd# (landslagsvernd) frv., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur


[18:50]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vildi með örfáum orðum þakka hæstv. ráðherra fyrir þátttöku í umræðunni og þau orð sem hann lét falla um málið. Ég skil hæstv. ráðherra svo að hann haldi því alveg opnu að þær tillögur, sem hér liggja fyrir, geti gengið inn í endurskoðun laga um þessi efni í þeim búningi sem það liggur hér fyrir eða með breytingum. Ég skil vel að hæstv. ráðherra vilji ekki binda sig á þessu stigi við mat á efnisþáttum frv. í einstökum atriðum.

Ég vil aðeins nefna eitt atriði sem hæstv. ráðherra vék að sem eru lögin um mat á umhverfisáhrifum. Eins og fram kom í máli mínu og getið er um í greinargerð eru stærðarmörkin sem þar er um að ræða varðandi efnisnám býsna víð, þ.e. mörkin eru stór, ramminn er stór, bæði hvað snertir flatarmál lands og rúmfang þannig að það tekur ekki á þeim fjölda minni efnistökustaða sem er víða þörf á að stofna til og þarf auðvitað að leita að farvegi fyrir. Þá koma þessi ákvæði um mat á umhverfisáhrifum ekki til hjálpar nema ráðherra víkkaði þann ramma með heimildum sínum sérstaklega.

Oft er það svo að það er ekki alltaf stærðarumfangið sem veldur lýtum og reynist illa til fundið. Oft eru það minni háttar efnisnámur, tiltölulega litlar sem geta valdið óbætanlegu tjóni ef ekki er rétt að staðið og undirbúningur vandaður. Því er nauðsynlegt að huga að málinu í heild og reyna að marka því farveg án þess að loka á það eins og reynt er að gera hér, útiloka að landeigendur geti staðið fyrir lítils háttar efnistöku til eigin nota án þess að það þurfi eitthvert flókið ferli til að koma. En þá verður auðvitað að treysta á almenna virðingu manna fyrir landi og treysta á góðan frágang og er sjálfsagt að lögbjóða hann líka og að reyna að hafa áhrif einnig á lítils háttar efnisnám af þessum toga.

Síðan er þetta stóra efni að marka þessa almennu stefnu um landslagsvernd þannig að kannski verði létt af að einhverju leyti þrýstingnum á að bregðast þurfi við með friðlýsingu til að verða nokkuð viss um að ekki sé stofnað til óæskilegrar röskunar á landinu. Þetta hefur verið gert með öðrum þjóðum og að ég tel með góðum árangri þannig að það gæti orðið til eftirbreytni fyrir okkur.