Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994

Fimmtudaginn 09. nóvember 1995, kl. 15:30:42 (849)

1995-11-09 15:30:42# 120. lþ. 32.6 fundur 73#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1994# (munnl. skýrsla), EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur


[15:30]

Einar K. Guðfinnsson(andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þm., sem oft er ákaflega nákvæmur í orðavali þegar kemur að skýrslugerð og þess háttar, hefði átt að veita því athygli að ég sagði að ég hefði ekki ætlað hv. þm. eða ýmsum af hans félögum það að hafa viljað standa gegn þessum flutningi. Það var allt saman af ásettu ráði sagt. En það er rétt sem ég sagði áðan í þessari umræðu að það voru ýmsir sem lögðust gegn því að flytja þessa starfsemi út á land. Báru auðvitað fyrir sig ýmis rök, m.a. þau að það væri óhagkvæmt að þessi starfsemi væri annars staðar en í Reykjavík. Það eru ekki ný rök og þau koma alltaf upp og munu alltaf koma upp. Það er einmitt m.a. vegna þess sem ég hef sjálfur verið að komast æ meira á þá skoðun að það sé tæplega ómaksins vert að reyna að flytja stofnanir út á landi vegna þess að það sé svo erfitt og við eigum þess vegna að reyna að einbeita okkur að því þegar við setjum upp nýjar ríkisstofnanir að reyna eins og mögulegt er að staðsetja þær úti á landi sem hluti af þeirri meðvituðu byggðastefnu sem við viljum fylgja.