Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 16:01:08 (928)

1995-11-16 16:01:08# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[16:01]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vona að hv. þm. hafi heyrt að ég bar það upp sem spurningu hvort það gæti verið heilbrigð skynsemi sem stæði á móti því, ég fullyrti það ekki. Ég sagði ekki að menn væru óskynsamir. En það er vafasamt hvaða afleiðingar svona frv. hefur. Hv. þm. spyr mig að því af hverju ég telji sparnaðinn svo lítinn. Ég taldi það upp rétt áðan. Í 20, 30, 40 ár var sparifjáreigendum refsað og það er búið að kenna heilum kynslóðum að eyða og bruðla og spara ekki. Það er búið að segja fólki að það sé óskynsamlegt að spara. Þess vegna er sparnaðurinn svona lítill. Það tekur fjölda ára að kenna fólki aftur að spara og taka upp ráðdeildarsemi sem þó var þjóðareinkenni hér áður fyrr. Áður en verðbólgan kom. Það er svarið við spurningunni. Menn eru hreinlega að ná sér eftir það verðbólgufyllerí sem þjóðin fór á þegar hún brenndi upp sparifé sitt aftur og aftur. Það tekur langan tíma að kenna unga fólkinu, og líka þeim eldri, að spara á ný og hætta að eyða og bruðla.