Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 16. nóvember 1995, kl. 16:42:13 (939)

1995-11-16 16:42:13# 120. lþ. 33.11 fundur 147. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (fjárhæðir, sérstakur tekjuskattur, frádráttur lífeyrisþega o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur


[16:42]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil bara ítreka það sem ég sagði að ég tel að það mikilvægasta sem við getum gert í efnahags- og kjaramálum núna, sé að athuga hvernig við getum haldið verðlagi í skefjum. Og ég vil benda á í þessu sambandi að í fjárlagafrv. er hvergi gert ráð fyrir því að gjöld hækki. Frystingin er algjör. Það er t.d. ekki gert ráð fyrir að afnotagjöld Pósts og síma eða Ríkisútvarpsins hækki, eða þá verð á bensíni. Það er hvergi gert ráð fyrir hækkunum vegna þess að við viljum halda verðlaginu í skefjum. Ég legg áherslu á þetta. Það sama á auðvitað við um matarverðið, þótt ég ætli ekki að fara hér í einstaka þætti þess máls.

En hv. þm. hefur hins vegar ekki lesið frv. sem hér er til umræðu. Í því er ekki verið að ræða um almannatryggingar. Það frv. á eftir að koma og hv. þm. getur þess vegna geymt ræðuna sína. Þetta er sama ræðan og hann flutti um daginn um fjárlögin og nú getur hann flutt hana í þriðja sinn þegar að bandorminum kemur, en þá verður fjallað um almannatryggingar.