Samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana

Föstudaginn 17. nóvember 1995, kl. 15:23:50 (1034)

1995-11-17 15:23:50# 120. lþ. 34.10 fundur 140. mál: #A samningar ríkisvaldsins um stofnframkvæmdir og viðhald heilbrigðisstofnana# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur


[15:23]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson spyr hvort ég væri tilbúinn til þess að skera niður framkvæmdir við heilsugæsluna í Kópavogi. Í rauninni hefur mikill og merkilegur hraði verið á byggingunni í Kópavogi og þeim til hróss sem að því hafa staðið. Þeir eru nánast að verða búnir að steypa upp heilsugæsluna þar miðað við þann samning sem var gerður og þeir byrjuðu strax sama dag og samningar voru undirritaðir. Ég er alls ekki að leggja til að dregið verði úr framkvæmdum í Kópavogi eða á neinum öðrum samningum sem hafa verið undirritaðir af hæstv. fjmrh. og heilbrrh. í þessu tilfelli. Ég hef alla tíð haldið því fram og sagði áðan að ég teldi það grundvallaratriði í stjórnsýslunni að samningar sem undirritaðir hafa verið af þessum aðilum af hálfu ríkisins t.d. við sveitarstjórnir standi nema annað komi upp sem breyti samningnum með samþykki beggja aðila. Ég held að það sé alveg kristaltært eins og hv. þm. segir svo oft, (Gripið fram í: Kýrskýrt.) jafnvel kýrskýrt, að í mínum huga standa slíkir samningar þar til báðir aðilar taka af skarið með því að breyta þeim. Þetta er nákvæmlega sama skoðun og hefur komið fram hjá hæstv. fjmrh. og ég man ekki betur en hæstv. heilbrrh. hafi lýst því einnig yfir að hún muni standa við þá samninga sem gerðir eru þótt hæstv. ráðherra vilji breytingar. Það geta allir skilið að það má reyna að breyta en ef menn samþykkja það ekki þá verður engu breytt.