Menningarborg Evrópu

Miðvikudaginn 29. nóvember 1995, kl. 14:59:14 (1441)

1995-11-29 14:59:14# 120. lþ. 43.7 fundur 185. mál: #A menningarborg Evrópu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur


[14:59]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir svör hans. Vegna þess sem síðasti ræðumaður sagði verð ég að segja að ég tel ekki að maður geti fullyrt að ríkið hafi skuldbundið sig til þess að taka þátt í þessu. En ég verð auðvitað að segja að það sé eðlilegt að ríkið komi að málinu. Þó að við Reykvíkingar myndum aldrei stefna í tölur eins og Kaupmannahöfn er þó staðreynd að í Kaupmannahöfn er kostnaðurinn greiddur að einum þriðja hluta af ríkinu, einum þriðja hluta af borginni og einum þriðja af frjálsum framlögum.

Herra forseti. Ég nefndi tónlistarhús ekki sérstaklega og spurði ráðherrann ekki um það. Ég veit um áhuga hans á því og vil segja frá því sem mér hefur borist til eyrna og var rætt í borgarráði Reykjavíkur í gær að það hafi skapast lóð í miðbæ Reykjavíkur við breytingu á skipulagi. Þar sem átti að vera bílageymsla og miðstöð fyrir strætó í miðbænum mun vera lóð sem gæti mögulega hentað undir tónlistarhús og væri afskaplega skemmtilegt mál að geta tekið ákvörðun um það fyrir árið 2000. En fyrir árið 2000 verða líka kosningar í borgarstjórn Reykjavíkur, 1998, og ég vænti þess að sjálfstæðismenn geti verið komnir í meiri hluta í borginni þá og haldið veglega upp á þetta. (Gripið fram í: Hvað bendir til þess?)