Húsnæðisstofnun ríkisins

Fimmtudaginn 07. desember 1995, kl. 15:18:38 (1686)

1995-12-07 15:18:38# 120. lþ. 57.3 fundur 215. mál: #A húsnæðisstofnun ríkisins# (lánstími húsbréfa o.fl.) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur


[15:18]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. félmrh. er nokkuð hæverskur í sinni ræðu. Það er eðlilegt miðað við hvaða mál hann er að flytja og í hvaða búningi það er. Hann segir að hann hafi fólk í fyrirrúmi áfram og vinni eftir því en sá málflutningur sem hefur átt sér stað er afar fátæklegur. Við höfum hlustað á málflutning sem er í taktinum fyrir og eftir kosningar. Það sem gengur í eyrun á þér, kjósandi góður segi ég fyrir kosningar en nú eftir kosningar þarf ég að huga að öðru og þá geri ég bara allt annað.

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að í fyrra var samanlagt fjármagn til húsnæðislána hjá húsbréfa- og byggingarsjóðum nærri 18 milljarðar kr. Það verður um 600 millj. kr. lægra í ár. Lánshlutfallið hefur verið hækkað í 70% en sú staðreynd hefur alltaf legið fyrir að það muni kalla á 600--700 millj. aukalega. Þrátt fyrir þessa vitneskju var gengið út frá því að sama hlutfall yrði á félagslegum íbúðum. En þeim hefur nú verið fækkað úr 420 í 230. Það er alveg yfirgengilegt að hlusta á ráðherrann reyna að slá því fram að það þurfi að lagfæra svo margt eftir átta ára stjórnartíð Alþfl. þegar það frumvarp sem nú loksins fæðist er með þeim hætti sem hér hefur verið rakið. Við lofuðum aldrei að gera þetta strax, sagði ráðherrann. Nei, en þeir sögðu að þingið mætti ekki fara heim fyrir jólin í fyrra fyrr en væri búið að gera eitthvað stórkostlegt. Og það mátti ekki slíta þingi fyrir kosningar í vor öðruvísi en gera eitthvað stórkostlegt. Ef spámaður hefði setið meðal vor í þingsalnum í fyrravetur og haldið því fram að þetta frumvarp yrði framkvæmd Framsóknarfl. í húsnæðismálum en kæmi samt ekki fram fyrr en í desember hefði enginn trúað því sem hlustað hefur á málflutning Framsfl.

Það er alveg undarlegt að hlusta á þessa umræðu um húsnæðismál þegar það sem ráðherrann verður æstur yfir skuli vera bílastæðasektir.