Skýrsla um útbreiðslu fíkniefna og þróun ofbeldis

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 10:38:31 (1722)

1995-12-08 10:38:31# 120. lþ. 58.91 fundur 130#B skýrsla um útbreiðslu fíkniefna og þróun ofbeldis# (aths. um störf þingsins), Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[10:38]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Vegna þessara orða hv. þm. vill forseti taka það fram sem ljóst er að það hefur dregist að leggja fram þessa skýrslu, en ástæðan er sú að hæstv. forsrh. ritaði forseta bréf þann 16. okt. sl. þar sem hann gerði grein fyrir því hversu mikil vinna fælist í því að svara þessari skýrslubeiðni og ef hv. þm. líta á þskj., sem er 65. mál þingsins, þá sjá þeir að það er ekki lítið verk að svara þessari beiðni.

Hæstv. forsrh. ritaði forseta bréf þar sem hann benti á þetta og óskaði jafnframt eftir því að eiga samtöl við forseta um hvernig með málið skyldi fara. Forseti tekur það á sig að þessi samtöl hafa ekki átt sér stað, eða þeim er ekki lokið er réttara segja nú á þessum degi. Það er rangt hjá hv. 6. þm. Norðurl. e. að hæstv. forsrh. hafi ákveðið það einn og sjálfur, eins og það var orðað, að vísa málinu frá sér. Það er rangt. Hæstv. forsrh. hefur sem sagt óskað eftir viðræðum við forseta þingsins um hvernig með málið verður farið og þær viðræður munu eiga sér stað.