Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 17:43:28 (1780)

1995-12-08 17:43:28# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[17:43]

Mörður Árnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að lýsa aðdáun minni á fjmrh. og ræðuflutningi hans. Í Íslandsklukkunni segir frá því þegar Árni Magnússon hafði misst Snæfríði Íslandssól í hendurnar á dómkirkjuprestinum, vegtyllur hans voru horfnar og handritin brunnin. Þá sagði Jón Grunnvíkingur: ,,Minn herra á öngvan vin.`` Það rifjar Guðmundur J. Guðmundsson stundum upp og það er rétt að hans herra á engan vin, ríkissjóður á of fáa vini.

Hæstv. fjmrh. segir að það sé algerlega nauðsynlegt fyrir þennan vin sinn að skera niður t.d. skaðabætur til þolenda afbrota, skera niður mæðra- og feðralaun og skera niður það sem hér hefur verið talað um í dag þó að sumt af þessu sé raunar ekki nema nokkrar milljónir. Hann hefur verið hér í fimm ár, það er rétt. Hann hefur á þeim tíma ekki staðið fyrir endurskipulagningu í ríkisrekstri svo að neinu nemi. Hann hefur samþykkt hvert einasta gæluverkefni hagsmunaflokkanna, Sjálfstfl. og Framsfl. og er enn að. Hann samþykkti 12--13 milljarða til aldamóta í búvörusamning sem engin framtíð er í. Hann hefur ekki tekið upp fjármagnstekjuskatt í fimm ár og hann hefur ekki enn þá komið t.d. á veiðileyfagjaldi eða þeim endurbótum í sjávarútvegi sem gætu fært honum betri tekjur. Ég hlýt að hvetja hæstv. fjmrh. til að taka undir sitt gamla slagorð sem hann var frægastur fyrir. ,,Báknið burt``.