Ráðstafanir í ríkisfjármálum

Föstudaginn 08. desember 1995, kl. 19:44:44 (1809)

1995-12-08 19:44:44# 120. lþ. 58.4 fundur 225. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum# (breyting ýmissa laga) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur


[19:44]

Svavar Gestsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, slíkar tekjur mega skerða bótarétt. En af hverju sagði ráðherrann þetta ekki fyrr? Af hverju hefur hann ekki útskýrt málin betur fyrr? Af hverju þurfti að slíta þessar upplýsingar út úr honum með töngum? Af hverju gerði hann ekki grein fyrir þessu máli áður? Það er auðvitað ótrúlegt að það eru búnar að standa hér yfir viðræður við hæstv. ráðherra í allan dag og hann hefur ekki gert grein fyrir þessu atriði. Auðvitað tel ég ekkert að því að þetta fólk borgi fjármagnstekjuskatt, en það eiga allir að gera það. Ég tel að það sé rangt að byrja á því að skattleggja þetta fólk. Það er rangt að byrja á því að skattleggja aldraða og öryrkja í gegnum Tryggingastofnun ríkisins. Það er rangt að gera Tryggingastofnun ríkisins að útibúi frá skattstofunni, en það er það sem hæstv. ráðherrar eru hér að gera. Þessi nýi fjármagnstekjuskattur á gamalt fólk og öryrkja er þess vegna fráleitur eins og staðan er.

Auðvitað er það rétt hjá hæstv. ráðherra að fjárlög eru líka lög. Það er einmitt það sem ég hef verið að segja hér. T.d. hafa bílalánin og endurhæfingarlífeyririnn verið tilgreind sérstaklega í greinargerðum fjárlagafrv. undanfarin ár og áratugi. Þess vegna er í raun og veru alveg fráleitt að setja hlutina upp hér eins og mér virðist að hæstv. heilbrrh. hafi í seinni tíð lært af hæstv. fjmrh.