2. umr. fjárlaga og heilbrigðiskerfið

Fimmtudaginn 14. desember 1995, kl. 10:37:43 (1904)

1995-12-14 10:37:43# 120. lþ. 65.91 fundur 140#B 2. umr. fjárlaga og heilbrigðiskerfið# (aths. um störf þingsins), JónK
[prenta uppsett í dálka] 65. fundur


[10:37]

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Fjárln. hefur haft til meðferðar þau erindi sem henni hafa borist nú um langt skeið og meginhluti þeirra er til umfjöllunar við 2. umr. Hins vegar eru nokkur afar stór erindi sem bíða 3. umr. sem tekið hefur langan tíma að fara ofan í kjölinn á. Þar eru, eins og hv. 15. þm. Reykv. sagði, tillögur sem varða heilbrigðismálin í landinu.

Þetta er síður en svo fordæmislaust og það hefur því miður oft komið fyrir á undanförnum árum að einmitt þessir þættir hafa tekið lengri tíma í meðförum fjárln. en æskilegt hefði verið. Ég vil sérstaklega nefna árið 1992 í því sambandi þar sem hliðstæð frestun á heilbrigðismálum var á milli 2. og 3. umr.

Ef farið er lengra aftur í tímann, eða til ársins 1987, var svipað ástatt. Þá var veigamiklum þáttum fjárlaganna frestað milli 2. og 3. umr. Það er unnið að því hörðum höndum að leggja fram tillögur í þessu efni og ég vona að þær tillögur fái ítarlega umfjöllun við 3. umr. málsins. Það er ósk fjárln. að þessi umræða fari fram í dag, eða ósk meiri hlutans. Ég vona að það gangi ekki á lýðræðislegan rétt þingmanna að svo verði.