Fjárlög 1996

Föstudaginn 15. desember 1995, kl. 12:13:12 (1985)

1995-12-15 12:13:12# 120. lþ. 66.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1996# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur


[12:13]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með hv. 9. þm. Reykv. að það er fagnaðarefni að það skuli gefast tími til þess í andsvörum að ræða grundvallaratriði, kannski fjórar mínútur á mánuði eða svo, það er veruleg framför frá því sem maður hefur kynnst hér stundum.

Varðandi það hins vegar sem hann nefndi í sambandi við veiðileyfagjaldið, þá segi ég bara nákvæmlega eins og hann. Ég skil ekki, hæstv. forseti, að formaður Alþfl., jafnaðarmannaflokks Íslands, skuli fá trúarglampa í augun þegar minnst er á veiðileyfagjald af því að ég sé ekki og skil ekki að það leysi þann vanda sem hann rekur hér. En ég er sammála skilgreiningu hans á vandanum. Það er eins og talað út úr mínum ræðum frá 1983--1987 þegar ég hafði með þessa hluti að gera á vegum míns flokks að sú eignauppsöfnun sem á sér stað í sjávarútveginum hjá tilteknum fáum aðilum er auðvitað algerlega siðlaus. Og að það skuli gerast án þess að þeir greiði fyrir það er líka siðlaust. Það að afhenda þeim þetta hluti er líka siðlaust. En veiðileyfagjaldið afnemur ekki þetta siðleysi, heldur getur það orðið til þess að lögfesta og staðfesta þetta siðleysi og veita þeim rétt til að halda siðleysinu áfram af því að þeir segi fyrir dómstólum framtíðarinnar: Við borguðum fyrir siðleysið og þess vegna megum við eiga það. Þess vegna, hv. þm., átta ég mig ekki alveg á því í fullri vinsemd hvers vegna menn færast í þessar stellingar þegar menn nefna veiðileyfagjald, en ég útiloka ekki samtal um neitt.