Ferill 13. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 13 . mál.


13. Frumvarp til laga



um réttarstöðu kjörbarna og foreldra þeirra.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Sigríður A. Þórðardóttir.



I. KAFLI


Breyting á lögum nr. 57/1987, um fæðingarorlof.


1. gr.


    Við 1. gr. laganna bætist: eða ættleiðingar.

2. gr.


    Við 3. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Ef barn, sem ættleiða á, er sótt til útlanda er ættleiðandi móður heimilt að hefja töku fæðingarorlofs við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að hún fái barn til ættleiðingar.

3. gr.


    Orðin „Ættleiðandi foreldrar“ og orðin „eða leyfi til ættleiðingar eftir því sem við á“ í 5. gr. laganna falla brott.

II. KAFLI


Breyting á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar.


4. gr.


    2. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
    Sömu réttarstöðu hafa stjúpbörn og kjörbörn þegar eins stendur á. Þó skal ekki greiddur barnalífeyrir vegna fráfalls eða örorku stjúpforeldris ef barnið á framfærsluskylt foreldri á lífi.

5. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
    1. mgr. orðast svo:
                  Fæðingarstyrkur skal vera 25.090 kr. á mánuði í sex mánuði og greiðast móður við hverja fæðingu barns, eða frumættleiðingu, enda eigi hún lögheimili hér á landi og hafi átt síðustu 12 mánuðina á undan, sbr. þó 2. mgr. Hefja má greiðslu fæðingarstyrks allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði. Sé barn sótt til útlanda til ættleiðingar er verðandi móður heimilt að hefja töku fæðingarstyrks við upphaf ferðar, enda hafi viðkomandi yfirvöld eða stofnun staðfest að hún fái barn til ættleiðingar.
    Á eftir orðunum „ef fleiri fæðast“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: eða eru ættleidd.
    Orðin „ættleiðandi foreldri“ og orðin „eða leyfi til ættleiðingar eftir því sem við á“ í 6. mgr. falla brott.

6. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
    Á eftir orðunum „fyrir fæðinguna“ í 1. málsl. a-liðar kemur: eða frumættleiðinguna.
    Á eftir orðunum „eftir fæðingu“ í 1. málsl. f-liðar kemur: eða ættleiðingu.
    Orðin „Ættleiðandi foreldrar“ í m-lið falla brott.

III. KAFLI


Breyting á lögum nr. 95/1980, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda.


7. gr.


    2. málsl. 2. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: Kjörbarn þeirra skapar sama rétt.

IV. KAFLI


Breyting á lögum nr. 50/1984, um lífeyrissjóð bænda.


8. gr.


    3. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Kjörbarn þeirra skapar sama rétt.

V. KAFLI


9. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Fyrir tilstilli Íslenskrar ættleiðingar og dómsmálaráðuneytisins, auk einstaklinga, hafa á undanförnum tveimur áratugum opnast leiðir til að ættleiða börn frá útlöndum. Ættleiðingum hefur því fjölgað talsvert og hafa þær fært fjölda manna ómælda hamingju. Andi gildandi laga er ótvírætt í þá veru að réttarstaða kjörbarna og kjörforeldra sé hin sama og kynforeldra og barna þeirra. Nægir að vísa um það til 15. gr. ættleiðingarlaganna, nr. 15 frá 8. maí 1978. Öll siðferðileg rök mæla einnig gegn því að löggjafinn mismuni börnum og foreldrum þeirra eftir því hvort um kjörbarn er að ræða eða ekki.
    Í lögum um fæðingarorlof og lögum um almannatryggingar er þó að finna ákvæði sem takmarka rétt kjörforeldra miðað við kynforeldra og í lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda og Lífeyrissjóð bænda njóta kjörbörn ekki að öllu leyti sömu réttarstöðu og börn kynforeldra. Sum þessara ákvæða eru að mati flutningsmanna röng frá siðferðilegum sjónarhóli og önnur úrelt í ljósi þróunar ættleiðinga á síðustu áratugum. Með þessu frumvarpi er lagt til að staða kjörbarna og kjörforeldra verði að öllu leyti hin sama í lögum og staða annarra barna og foreldra.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Fæðingarorlof er skilgreint í 1. gr. laga nr. 57 frá 31. mars 1987 sem leyfi frá launuðum störfum vegna meðgöngu eða fæðingar. Tilgangur frumvarpsins er að ættleiðing skapi sama rétt og fæðing gagnvart hinu opinbera. Í þeim anda er lagt til að skilgreiningu greinarinnar á fæðingarorlofi verði breytt þannig að hún nái einnig yfir ættleiðingu barns. Af breytingunni leiðir að ákvæði 2. gr. laganna mun einnig gilda um foreldra sem ættleiða barn og við það verður fæðingarorlof þeirra jafnlangt orlofi kynforeldra og lengist úr fimm mánuðum í sex mánuði.
    Reglur um fæðingarorlof voru upphaflega lögfestar til að gera móðurinni kleift að ná sér eftir fæðingu en jafnframt til að veita uppalendum tóm til að skapa traust tengsl milli sín og barnsins í frumbernskunni. Æ fleiri rannsóknir hafa leitt í ljós að þessi tengsl eru hin mikilvægustu sem einstaklingurinn myndar á lífsleiðinni. Sú staðreynd liggur ekki síst til grundvallar hugmyndum um lengingu fæðingarorlofs sem njóta vaxandi fylgis hér og erlendis. Ekki þarf að rökstyðja að ættleitt barn þarfnast þessara nánu tengsla a.m.k. í jafnríkum mæli og barn sem er alið upp af kynmóður sinni.

Um 2. gr.


    Samkvæmt 3. gr. laganna um fæðingarorlof er verðandi móður heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að mánuði fyrir fæðingu. Ættleiðingar Íslendinga hafa þróast með þeim hætti að yfirgnæfandi meiri hluti kjörbarna kemur frá útlöndum, langoftast úr öðrum heimsálfum. Móðir, sem ættleiðir barn, á þó ekki kost á að hefja orlofið fyrr en barnið er komið til landsins. Eigi að síður þurfa verðandi foreldrar í langflestum tilvikum að dveljast talsverðan tíma í viðkomandi landi uns ættleiðingu fyrir þarlendum dómstólum er lokið. Fjögurra vikna dvöl er til dæmis lágmark í Kólumbíu, en sex til átta vikna dvöl er algeng. Í löndum á borð við Brasilíu getur hún orðið allt að þremur mánuðum. Kostnaðurinn við ættleiðingar er því mikill vegna ferðalaga og vinnutaps. Það er því sanngirnismál og í jafnréttisanda frumvarpsins að lagt er til að þær mæður, sem ættleiða barn, eigi kost á því að hefja töku fæðingarorlofs mánuði áður en ættleiðingarferillinn getur hafist hér á landi. Með því öðlast þær sama rétt og kynmæður.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 4. gr.


    Í 14. gr. laga um almannatryggingar er réttur til barnalífeyris vegna kjörbarns skertur miðað við börn kynforeldra. Gerð er krafa um að barnið hafi verið á framfæri kjörforeldris í a.m.k. tvö ár fyrir fráfall þess eða örorku til að réttur skapist. Engin slík krafa er gerð varðandi börn kynforeldra. Frumvarpsgreinin gerir ráð fyrir að þessi mismunun verði numin brott úr lögum.

Um 5. gr.


    Sömu rök eiga við um a-lið og koma fram í skýringum við 2. gr. frumvarpsins.
    Í 15. gr. laganna um almannatryggingar er mælt fyrir um að greiðsla fæðingarstyrks framlengist um einn mánuð við hvert barn sem fæðist umfram eitt. Með b-lið er lagt til að sami réttur skapist þegar fleiri en eitt barn eru ættleidd í einu.


Um 6. gr.


    Í 16. gr. laga um almannatryggingar er heimilað að faðir geti einnig notið fæðingardagpeninga að vissum skilyrðum uppfylltum. Í b-lið er lagt til að ættleiðandi faðir njóti sama réttar.

Um 7. og 8. gr.


    Samkvæmt 12. gr. laga um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda og 11. gr. laga um Lífeyrissjóð bænda skapar kjörbarn ekki sama rétt og barn kynforeldra til makalífeyris við fráfall sjóðfélaga, nema ættleiðing hafi átt sér stað:
    áður en sjóðfélagi náði 60 ára aldri;
    áður en hann missti starfsorkuna;
    að minnsta kosti einu ári áður en hann lést.
    Engin rök eru fyrir þessari misjöfnu stöðu. Með frumvarpsgreinunum er lagt til að kjörbarn skapi foreldrum sínum nákvæmlega sama rétt og börn kynforeldra.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.