Ferill 31. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 31 . mál.


31. Tillaga til þingsályktunar


um mótmæli við kjarnorkutilraunum Frakka og Kínverja.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Ásta R. Jóhannesdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir,

Siv Friðleifsdóttir, Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að mótmæla harðlega tilraunum Frakka og Kínverja með kjarnavopn að undanförnu. Sérstaklega mótmælir Alþingi endurteknum tilraunasprengingum Frakka í Kyrrahafi. Alþingi hvetur franska þjóðþingið og frönsku ríkisstjórnina til að hætta við frekari kjarnorkutilraunir í óþökk svo til allrar heimsbyggðarinnar og sérstakri óþökk þjóða við Kyrrahaf.
    Jafnframt felur Alþingi ríkisstjórninni að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir aðgerðum sem þrýsti á frönsk og kínversk stjórnvöld að breyta um stefnu og hætta við frekari kjarnorkutilraunir.

Greinargerð.

     Óþarfi er að rökstyðja tillögu þessa með mörgum orðum. Kjarnorkutilraunir Kínverja og Frakka hafa vakið öldu mótmæla og reiði um allan heim. Tilraunirnar nú eru enn fráleitari en ella í ljósi væntanlegrar gildistöku samkomulags um bann við frekari tilraunum með kjarnavopn í kjölfar Genfarviðræðnanna.
    Framkoma Frakka er sérstaklega ósvífin í ljósi þess að þeir framkvæma tilraunirnar í Kyrrahafi, fjarri Frakklandi, í mikilli óþökk eyþjóðanna á þeim slóðum, í blóra við Rarotonga-samkomulagið um kjarnorkufriðlýsingu Suður-Kyrrahafsins og yfirlýsta stefnu margra Kyrrahafsþjóða eins og Nýsjálendinga um kjarnorkuvopnaleysi.
    Flutningsmönnum þykir rétt að Alþingi mótmæli tilraununum sérstaklega í eigin nafni, en feli jafnframt ríkisstjórninni að vinna áfram að málinu á alþjóðavettvangi með stuðningi af sérstakri samþykkt Alþingis og í þeim anda sem meðfylgjandi fréttatilkynningar frá utanríkisráðuneytinu bera vott um.


Fylgiskjal.


Fréttatilkynningar frá utanríkisráðuneytinu.


Fréttatilkynning nr. 78,
2. október 1995:


    Íslensk stjórnvöld harma mjög að Frakkar hafi sprengt að nýju kjarnasprengju í tilraunaskyni þrátt fyrir öflug mótmæli um heim allan og vísa til fyrri orðsendinga sinna vegna tilraunasprenginga Kínverja og Frakka.
    Þessi afstaða íslenskra stjórnvalda hefur enn á ný verið áréttuð við sendiherra Frakka á Íslandi.

Fréttatilkynning nr. 69,
6. september 1995:


    Norðurlöndin eru afar mótfallin tilraunum Frakka með kjarnavopn í frönsku Pólýnesíu.
    Okkur þykir mjög miður að Frakkar skuli hafa hunsað öflug mótmæli um heim allan gegn þeirri ákvörðun þeirra að hefja tilraunasprengingar á ný.
    Við lýsum yfir vonbrigðum okkar með tilraunasprengingar Frakka, sem og tilraunasprengingar Kínverja, í ljósi þess að á ráðstefnu fyrr á þessu ári um bannsamninginn gegn dreifingu kjarnavopna gengust kjarnavopnaveldin undir þá skuldbindingu að forðast tilraunir með kjarnavopn.
    Tilraunasprengingarnar eru skref afturábak í viðleitni þjóða heims til að dreifa ekki kjarnavopnum og gæti torveldað viðræðurnar sem nú standa yfir í Genf um samning um algjört bann við kjarnasprengingum í tilraunaskyni. Auk þess geta tilraunir sem þessar stofnað heilsu manna og umhverfi í hættu á viðkomandi svæði.
    Enn á ný hvetja Norðurlöndin því frönsku stjórnina til að falla frá núverandi áætlun um tilraunir með kjarnavopn og hætta við allar frekari tilraunasprengingar.


Fréttatilkynning nr. 62,
17. ágúst 1995:


    Norðurlöndin harma mjög að snemma í morgun sprengdu Kínverjar í annað sinn á þessu ári kjarnasprengju neðanjarðar.
    Forsætisráðherrar Norðurlandanna hafa nýverið, síðast á fundi sínum í Ilulissat/Jakobshöfn hinn 15. þ.m., hvatt kínversku ríkisstjórnina til að hætta við frekari tilraunasprengingar.
    Norðurlöndin minna á að Kína var í hópi þeirra 178 ríkja sem beindu þeim tilmælum til kjarnavopnaveldanna, á ráðstefnunni í New York sl. vor um bannsamninginn við dreifingu kjarnavopna, að forðast frekari tilraunasprengingar.
    Kjarnavopnaveldunum ber að koma til móts við öflugan stuðning þjóða heims við bannsamninginn um dreifingu kjarnavopna með samsvarandi skuldbindingum í samningaviðræðum um afvopnun, einkum og sér í lagi í viðræðunum í Genf um samning um algjört bann við kjarnorkusprengingum í tilraunaskyni.
    Norðurlöndin hvetja Kína og önnur kjarnavopnaveldi til að gera sitt ýtrasta svo að unnt verði að ljúka viðræðunum um samning um algjört bann við kjarnorkusprengingum í tilraunaskyni sem fyrst og eigi síðar en á árinu 1996. Kjarnorkusprengingar eru enn háskalegar heilsu mannkynsins og umhverfinu.
    Sendiráð Norðurlandanna í Peking munu tilkynna kínversku ríkisstjórninni við fyrsta tækifæri að Norðurlöndin harmi mjög þessa síðustu tilraunasprengingu Kínverja og jafnframt hvetja þá eindregið til að falla frá frekari kjarnasprengingum.