Ferill 56. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 56 . mál.


56. Tillaga til þingsályktunar


um brú yfir Grunnafjörð.

Flm.: Gísli S. Einarsson.


    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að láta gera hagkvæmnisrannsókn á gerð brúar yfir Grunnafjörð á milli Súlueyrar í Melahreppi og Hvítaness í Skilmannahreppi. Stefnt verði að brúargerð þegar sú athugun hefur farið fram reynist hún hagkvæm. Veglína þessi verði hluti næstu vegáætlunar fyrir Vesturland.

Greinargerð.

    Verði af gerð jarðganga undir Hvalfjörð eins og allar líkur benda til og þjóðvegur liggi vestan Akrafjalls er augljóst að sú tillaga, sem hér er lögð fram, hlýtur að teljast mjög fýsilegur kostur. Þessir eru helstir:
    Stytting vegar um 7–10 km frá höfuðborgarsvæði vestur og norður í land.
    Stytting vegar milli Borgarness og Akraness. Þannig myndast góðir möguleikar á auknum samskiptum sveitarfélaganna í fjölmörgum málaflokkum.
    Betri veglína yrði að brú frá þjóðvegi 1 á Hafnarmelum og að brú frá Akranesvegi.
    Ótraust raflína sem hefur verið á möstrum yfir ósinn færi í jarðstreng í brúnni.
    Möguleiki skapast í Grunnafirði á fiskirækt í framhaldi af brúargerð.
    Tillaga þessi felur í sér að gerð verði úttekt á möguleikum brúargerðar og færslu veglínu sem yrði hagkvæm með langtímamarkmið í huga.
    Reiknað er með að veglína og brúargerð þessi falli á eðlilegan máta inn í áætlanir Vegagerðarinnar. Ekki er ástæða til að fjölyrða mjög um möguleika til atvinnusköpunar og tengingar atvinnufyrirtækja í framhaldi af þessari tillögu. Það staðfesta margar greinargerðir og skýrslur frá Byggðastofnun og fleiri aðilum.
    Mikilsvert er að góð úttekt verði gerð á þessu máli. Samgöngubætur milli Akraness og Borgarness leiða til styrkara atvinnusvæðis og meiri hagkvæmni atvinnufyrirtækja í sveitarfélögum norðan og sunnan Skarðsheiðar.


Repró kort af Borgarfirði.