Ferill 73. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 73 . mál.


73. Frumvarp til lagaum mannanöfn.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)I. KAFLI


Fullt nafn og nafngjöf.


1. gr.


    Fullt nafn manns er eiginnafn hans eða eiginnöfn, millinafn, ef því er að skipta, og kenninafn.
    Eiginnöfn og millinafn mega aldrei vera fleiri en þrjú samtals.
    

2. gr.


    Skylt er að gefa barni nafn innan sex mánaða frá fæðingu þess.
    Barn öðlast nafn við skírn í þjóðkirkjunni eða skráðu trúfélagi eða með tilkynningu um nafngjöf til Hagstofu Íslands, Þjóðskrár, prests eða forstöðumanns skráðs trúfélags.
    

3. gr.


    Eigi að gefa barni nafn við skírn sem prestur þjóðkirkjunnar, forstöðumaður eða prestur skráðs trúfélags á að annast skal forsjármaður þess, um leið og skírnar er óskað, skýra honum frá því nafni eða nöfnum sem barnið á að hljóta. Sé eiginnafn eða millinafn sem barn á að hljóta ekki á mannanafnaskrá, sbr. 22. gr., skal prestur eða forstöðumaður trúfélags hvorki samþykkja það að svo stöddu né gefa það við skírn heldur skal málið borið undir mannanafnanefnd, sbr. þó 3. mgr. 6. gr. og 7. og 10. gr.
    Berist Þjóðskrá tilkynning um eiginnafn eða millinafn sem ekki er á mannanafnaskrá skal það ekki skráð að svo stöddu heldur skal málinu vísað til mannanafnanefndar.
    

II. KAFLI


Eiginnöfn.


4. gr.


    Hverju barni skal gefa eiginnafn, þó ekki fleiri en þrjú.
    Þeir sem fara með forsjá barns hafa bæði rétt og skyldu til að gefa því eiginnafn eftir því sem greinir í lögum þessum.

5. gr.


    Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
    Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
    Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

III. KAFLI


Millinöfn.


6. gr.


    Heimilt er að gefa barni eitt millinafn auk eiginnafns þess eða eiginnafna. Millinafn má hvort heldur er gefa stúlku eða dreng.
    Millinafn skal dregið af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli en má þó ekki hafa nefnifallsendingu. Nöfn, sem aðeins hafa unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna, eru ekki heimil sem millinöfn. Eignarfallsmyndir eiginnafna eru ekki heldur heimilar sem millinöfn. Millinöfn sem eru mynduð með sama hætti og föður- og móðurnöfn, sbr. 3. mgr. 8. gr., eru einnig óheimil.
    Millinafn sem víkur frá ákvæðum 2. mgr. er heimilt þegar svo stendur á að eitthvert alsystkini þess sem á að bera nafnið, foreldri, afi eða amma ber eða hefur borið nafnið sem eiginnafn eða millinafn.
    Millinafn skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
    Millinafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
    

7. gr.


    Ættarnafn er einungis heimilt sem millinafn í þeim tilvikum sem um getur í þessari grein.
    Hver maður sem ber ættarnafn í þjóðskrá má breyta því í millinafn, sbr. 15. gr.
    Hver maður sem ekki ber ættarnafn en á rétt til þess má bera það sem millinafn.
    Maður má bera ættarnafn sem millinafn hafi eitthvert alsystkini hans, foreldri, afi eða amma borið það sem eiginnafn, millinafn eða ættarnafn.
    Maður á og rétt á að taka sér ættarnafn maka síns sem millinafn. Honum er einnig heimilt að taka sér nafnið sem millinafn beri maki hans það sem millinafn skv. 2. eða 3. mgr.
    Þeir sem fá eða taka sér millinafn skulu kenna sig til föður eða móður.
    

IV. KAFLI


Kenninöfn.


8. gr.


    Kenninöfn eru tvenns konar, föður- eða móðurnöfn og ættarnöfn.
    Hver maður skal kenna sig til föður eða móður nema hann eigi rétt á að bera ættarnafn og kjósi að gera svo, sbr. 5. mgr. Heimilt er þó að ófeðrað barn sé kennt til afa síns.
    Föður- og móðurnöfn eru mynduð þannig að á eftir eiginnafni eða eiginnöfnum og millinafni, ef því er að skipta, kemur nafn föður eða móður í eignarfalli, að viðbættu son ef karlmaður er en dóttir ef kvenmaður er.
    Nú óskar maður þess að hann eða barn hans beri kenninafn sem dregið er af erlendu eiginnafni foreldris og má þá með úrskurði mannanafnanefndar laga kenninafnið að íslensku máli.
    Maður, sem samkvæmt þjóðskrá ber ættarnafn við gildistöku þessara laga, má bera það áfram. Sama gildir um niðja hans hvort heldur er í karllegg eða kvenlegg.
    Maður, sem samkvæmt þjóðskrá er kenndur til föður eða móður maka síns við gildistöku þessara laga, má kenna sig svo áfram.
    Ekki er manni heimilt að bera fleiri en eitt kenninafn.
    Óheimilt er að taka upp nýtt ættarnafn hér á landi.

9. gr.


    Íslenskur ríkisborgari má ekki taka sér ættarnafn maka síns.
    Maður, sem við gildistöku þessara laga ber ættarnafn maka síns, má bera það áfram. Eftir að hjúskap lýkur er honum og heimilt að bera ættarnafn fyrrverandi maka síns. Þó getur maður krafist þess að dómsmálaráðherra úrskurði að fyrri maka sé óheimilt að bera ættarnafn hans eftir að hinn fyrri maki gengur í hjúskap að nýju. Sé viðkomandi maður látinn hefur eftirlifandi maki hans sama rétt til að gera þess háttar kröfu. Krafa skal gerð innan sex mánaða frá því að hlutaðeigandi gekk í hjúskap. Dómsmálaráðherra reisir úrskurð sinn á því hvort þyngri séu á metum hagsmunir fyrri maka af því að halda nafni eða þau rök sem fram eru borin fyrir því að hann hætti að bera fyrra nafn.
    Hafi annað íslenskra hjóna tekið upp föður- eða móðurnafn hins við búsetu erlendis er því skylt að leggja það niður við flutning til landsins. Sama gildir um niðja þeirra.
    

V. KAFLI


Nafnréttur manna af erlendum uppruna.


10. gr.


    Ákvæði 2. og 5. gr. taka ekki til barns hér á landi ef báðir foreldrar þess eru erlendir ríkisborgarar. Sama gildir um ófeðrað barn erlendrar móður.
    Sé annað foreldri barns erlendur ríkisborgari eða hafi verið það er heimilt að barninu sé gefið eitt eiginnafn og/eða millinafn sem víkur frá ákvæðum 5.–7. gr. ef unnt er að sýna fram á að hið erlenda nafn sé gjaldgengt í heimalandi hins erlenda foreldris. Barnið skal þó ávallt bera eitt eiginnafn sem samrýmist 5. gr.
    

11. gr.


    Nú fær maður sem heitir erlendu nafni íslenskt ríkisfang með lögum og má hann þá halda fullu nafni sínu óbreyttu. Honum er þó heimilt að taka upp eiginnafn, millinafn og/eða kenninafn í samræmi við ákvæði laga þessara.
    Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um börn manns sem fær íslenskt ríkisfang með lögum og öðlast íslenskt ríkisfang með honum, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 100/1952.
    Ákvæði 1. mgr. taka enn fremur til manna sem fá íslenskt ríkisfang skv. 2.–4. gr. laga nr. 100/1952.
    Þeim sem fyrir gildistöku laga þessara hafa fengið íslenskt ríkisfang með því skilyrði að þeir breyttu nöfnum sínum skal með leyfi dómsmálaráðherra heimilt að taka aftur upp þau nöfn sem þeir báru fyrir og/eða fella niður þau nöfn sem þeim var gert að taka sér, þó þannig að eiginnöfn þeirra og millinöfn verði ekki fleiri en þrjú samtals, sbr. 2. mgr. 1. gr. Sama gildir um niðja þeirra.
    

12. gr.


    Erlendur ríkisborgari sem stofnar til hjúskapar við Íslending má taka upp ættarnafn maka síns ef til er eða kenna sig til föður hans eða móður og skal kenninafn hans þá dregið af sama eiginnafni og kenninafn maka hans.

VI. KAFLI


Nafnbreytingar.


A. Eiginnöfn og millinöfn.


13. gr.


    Dómsmálaráðherra er heimilt að leyfa manni breytingu á eiginnafni og/eða millinafni skv. 2. mgr. 6. gr., þar með talið að taka nafn eða nöfn til viðbótar því eða þeim sem hann ber eða fella niður nafn eða nöfn sem hann ber ef telja verður að ástæður mæli með því.
    Nafnbreyting barns undir 16 ára aldri er háð því skilyrði að séu forsjármenn þess tveir standi þeir báðir að beiðni um nafnbreytinguna. Beri forsjármaður barns fram ósk um breytingu á nafni þess og hafi orðið breyting á forsjánni frá því barninu var gefið nafn skal, ef unnt er, leita samþykkis þess foreldris sem með forsjána fór við fyrri nafngjöf. Þótt samþykki þess foreldris liggi ekki fyrir getur dómsmálaráðherra engu að síður heimilað nafnbreytingu ef ótvíræðir hagsmunir barns mæla með því.
    Sé barn undir 16 ára aldri ættleitt eftir að því var gefið nafn má gefa því nafn eða nöfn í ættleiðingarbréfi í stað hinna fyrri eða til viðbótar nafni eða nöfnum sem það hefur áður hlotið.
    Breyting á eiginnafni eða millinafni barns undir 16 ára aldri skal háð samþykki þess hafi það náð 12 ára aldri.
    Það er skilyrði nafnbreytingar að hin nýju nöfn séu á mannanafnaskrá eða samþykkt af mannanafnanefnd, sbr. þó 3. mgr. 6. gr. og 7. og 10. gr.
    

B. Kenninöfn.


14. gr.


    Breytingar á kenninöfnum samkvæmt þessari grein gilda um börn yngri en 16 ára.
    Nú gengur móðir ófeðraðs barns í hjónaband og má þá kenna barnið til stjúpföður þess.
    Heimilt er með leyfi dómsmálaráðherra að feðrað barn sé kennt til stjúpforeldris. Leita skal samþykkis þess kynforeldris sem ekki fer með forsjá barnsins, ef unnt er, áður en ákvörðun er tekin um slíkt leyfi. Nú er kynforeldri ekki samþykkt breytingu á kenninafni og getur dómsmálaráðherra þá engu að síður leyft breytinguna ef sérstaklega stendur á og telja verður að breytingin verði barninu til verulegs hagræðis.
    Ákvörðun skv. 2. og 3. mgr. skal háð samþykki stjúpforeldris.
    Þegar barn er ættleitt skal það kennt til kjörforeldris nema kjörforeldri óski eftir að barnið haldi fyrra kenninafni sínu.
    Breyting á kenninafni barns undir 16 ára aldri skal háð samþykki þess hafi það náð 12 ára aldri.
    

15. gr.


    Maður getur fellt niður ættarnafn sem hann hefur borið eða tekið það upp sem millinafn, sbr. 2. mgr. 7. gr., og kennt sig svo sem segir í 3. mgr. 8. gr.
    

16. gr.


    Dómsmálaráðherra er heimilt að leyfa manni eldri en 16 ára að taka upp nýtt kenninafn ef telja verður að gildar ástæður mæli með því.
    

17. gr.


    Nafnbreytingar samkvæmt lögum þessum, hvort sem um er að ræða breytingar tilkynntar Þjóðskrá eða samkvæmt leyfi dómsmálaráðherra, skulu einungis heimilaðar einu sinni nema sérstaklega standi á.

VII. KAFLI


Skráning og notkun nafns.


18. gr.


    Við skráningu kenninafns barns í þjóðskrá skal fara eftir ákvæðum 3. mgr. 8. gr. nema fram sé tekið í tilkynningu til Þjóðskrár að barnið skuli bera ættarnafn, sbr. 5. mgr. 8. gr.
    Allar nafnbreytingar samkvæmt lögum þessum, sem ekki eru bundnar leyfi dómsmálaráðherra, skulu tilkynntar Þjóðskrá.
    Breyting á eiginnafni, millinafni eða kenninafni samkvæmt lögum þessum tekur ekki gildi fyrr en hún hefur verið færð í þjóðskrá.
    

19. gr.


    Á öllum opinberum skrám og öðrum opinberum gögnum skulu nöfn manna rituð eins og þau eru skráð í þjóðskrá á hverjum tíma.
    Í skiptum við opinbera aðila, við samningsgerð, skriflega og munnlega, svo og í öllum lögskiptum skulu menn tjá nafn sitt eins og það er ritað í þjóðskrá á hverjum tíma.
    

20. gr.


    Hagstofa Íslands, Þjóðskrá, getur heimilað að ritun nafns í þjóðskrá sé breytt án þess að um sé að ræða eiginlega nafnbreytingu. Slík breyting á nafnritun skal fara eftir reglum sem Hagstofan setur að höfðu samráði við mannanafnanefnd. Hver maður getur aðeins fengið slíka breytingu gerða einu sinni nema sérstakar ástæður séu fyrir hendi.
    

VIII. KAFLI


Mannanafnanefnd.


21. gr.


    Dómsmálaráðherra skipar mannanafnanefnd til fjögurra ára í senn. Nefndin skal skipuð þremur mönnum og jafnmörgum til vara. Skulu tveir nefndarmenn skipaðir að fengnum tillögum heimspekideildar Háskóla Íslands en einn að fenginni tillögu lagadeildar Háskóla Íslands. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Nefndin skiptir sjálf með sér verkum. Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.
    

22. gr.


    Mannanafnanefnd hefur eftirtalin verkefni samkvæmt lögum þessum:
    Að semja skrá um eiginnöfn og millinöfn sem heimil teljast skv. 5. og 6. gr. og er hún nefnd mannanafnaskrá í lögum þessum. Hagstofa Íslands gefur skrána út, kynnir hana og gerir aðgengilega almenningi og sendir hana öllum sóknarprestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga. Skrána skal endurskoða eftir því sem þörf er á en hún skal gefin út í heild eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.
    Að vera prestum, forstöðumönnum skráðra trúfélaga, Hagstofunni, dómsmálaráðherra og forsjármönnum barna til ráðuneytis um nafngjafir og skera úr álita- og ágreiningsefnum um nöfn samkvæmt lögum þessum.
    Að skera úr öðrum álita- eða ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um nafngjafir, nafnritun og fleira þess háttar.
    Úrskurðum mannanafnanefndar er ekki unnt að skjóta til æðra stjórnvalds. Nefndin skal birta niðurstöður úrskurða sinna árlega.

23. gr.


    Mannanafnanefnd kveður upp úrskurði í þeim málum sem til hennar er vísað skv. 3. gr. og 4. mgr. 8. gr. Úrskurðir skulu kveðnir upp svo fljótt sem við verður komið og ekki síðar en innan fjögurra vikna frá því mál berast nefndinni.
    

IX. KAFLI


Ýmis ákvæði.


24. gr.


    Geti maður fært sönnur að því að annar maður noti nafn hans eða nafn sem líkist því svo mjög að villu geti valdið getur hann krafist þess í dómsmáli að hinn sé skyldaður til að láta af notkun nafnsins.
    

25. gr.


    Sé barni ekki gefið nafn innan þess tíma sem um getur í 1. mgr. 2. gr. skal Hagstofa Íslands, Þjóðskrá, vekja athygli forsjármanna barnsins á þessu ákvæði laganna og skora á þá að gefa barninu nafn án tafar. Sinni forsjármenn ekki þessari áskorun innan eins mánaðar og tilgreini ekki gildar ástæður fyrir drætti á nafngjöf er Hagstofu Íslands heimilt, að undangenginni ítrekaðri skriflegri áskorun, að leggja dagsektir allt að 1.000 kr. á forsjármenn barns og falla þær á þar til barni er gefið nafn. Hámarksfjárhæð dagsekta miðast við lánskjaravísitölu í janúar 1995 og breytist í samræmi við breytingar hennar. Dagsektir renna í ríkissjóð og má gera aðför til fullnustu þeirra.
    Að öðru leyti varða brot gegn lögum þessum sektum nema þyngri viðurlög liggi við eftir öðrum lögum.
    

26. gr.


    Ríkisstjórninni er heimilt að gera samninga við önnur ríki um mörkin milli íslenskrar og erlendrar mannanafnalöggjafar.
    Dómsmálaráðherra er enn fremur heimilt að kveða á með reglugerð um mörkin milli íslenskrar löggjafar um mannanöfn og löggjafar annarra þjóða á því sviði.
    

27. gr.


    Dómsmálaráðherra fer með mál er varða mannanöfn og er honum heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd þessara laga.
    

28. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1997.
    Jafnframt falla þá úr gildi lög um mannanöfn, nr. 37 27. mars 1991.
    

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Hagstofa Íslands, Þjóðskrá, skal setja skýrar reglur um skráningu nafna í þeim tilvikum þegar ekki er unnt að skrá nafn manns að fullu í þjóðskrá.
    

II.


    Dómsmálaráðherra skal þegar eftir birtingu laga þessara gera ráðstafanir til að kynna almenningi efni þeirra.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 118. löggjafarþingi en varð ekki útrætt. Það er nú endurflutt efnislega óbreytt.
    Frumvarpið var samið af nefnd sem dómsmálaráðherra skipaði 5. ágúst 1993. Í nefndinni áttu sæti Drífa Pálsdóttir, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu, formaður, dr. Halldór Ármann Sigurðsson prófessor og sr. Hjálmar Jónsson prófastur. Með nefndinni hefur starfað Áslaug Þórarinsdóttir, deildarstjóri í dómsmálaráðuneytinu. Á fund nefndarinnar komu Markús Sigurbjörnsson, þáverandi lagaprófessor, Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri og Skúli Guðmundsson, skrifstofustjóri Þjóðskrár.
    Í skipunarbréfum nefndarmanna var þeim falið að „endurskoða lög um mannanöfn, nr. 37/1991, og semja frumvarp til breytinga á lögunum“. Að höfðu samráði við dómsmálaráðherra töldu nefndarmenn þó rétt að semja frumvarp til nýrra mannanafnalaga.
    Við starf sitt hafa nefndarmenn tekið mið af lögum nr. 37/1991 en jafnframt litið til eldri laga um mannanöfn á Íslandi (nr. 31/1913 og 54/1925) og frumvarpa til laga um mannanöfn sem lögð voru fyrir 75. löggjafarþing 1955 og 92. löggjafarþing 1971. Enn fremur hafa nefndarmenn kynnt sér sögu íslenskrar nafnalöggjafar að öðru leyti og athugað nafnalöggjöf annars staðar á Norðurlöndum eftir því sem ástæða reyndist til. Einkum hefur nefndin þó stuðst við þá reynslu sem fengist hefur af framkvæmd laga nr. 37/1991 og litið til þeirrar gagnrýni á lögin sem fram hefur komið.
    
Lög nr. 37/1991, um mannanöfn.
    Lög nr. 37/1991 leystu af hólmi lög nr. 54/1925, um mannanöfn, og voru ekki sett að ástæðulausu. Lögin frá 1925 voru ágripskennd og ófullkomin og framkvæmd þeirra um margt í ólestri. Lögð voru fram frumvörp til endurskoðunar þeirra ásamt rækilegum greinargerðum árin 1955 og 1971 en hvorugt náði fram að ganga. Skriður komst enn á málið með ályktun kirkjuþings árið 1986 en í greinargerð með henni segir m.a.: „Mannanöfn hafa breyst mikið, eldri nöfn jafnvel horfið og ný komið í staðinn. Sum hinna nýju nafna orka mjög tvímælis, eru jafnvel afkáraleg og geta orðið þeim sem þau bera til ama. Nafnið er hluti af persónu hvers einstaklings. Persónu- og tilfinningatengsl hvers manns við nafn sitt eru náin og sterk. Því ber að vanda mjög til nafngjafa. Ljóst er að á því er nokkur misbrestur. Aðhald er lítið í þessum efnum og samræmdar reglur nánast engar.“
    Þremur árum síðar, með bréfi þáverandi menntamálaráðherra, Svavars Gestssonar, dagsettu 2. október 1989, var enn skipuð nefnd til að endurskoða mannanafnalögin frá 1925 og leiddi sú nefndarskipun til þess að loks tókst að setja ný lög í þeirra stað.
    Ýmislegt í lögum nr. 37/1991 var mjög til bóta. Þar voru t.d. settar skýrar reglur um eftirfarandi atriði:
    Hvernig að nafngjöf skal standa og hver frestur til þess er.
    Þau skilyrði sem eiginnöfn og kenninöfn skulu fullnægja.
    Skráningu og notkun nafna.
    Nafnbreytingar.
    Nafnrétt erlendra manna sem gerast íslenskir ríkisborgarar, svo og þeirra sem hafa erlent ríkisfang en eru búsettir hér á landi.
    Á meðal mikilvægra nýmæla í lögunum voru þessi:
    Þar er kveðið á um skipun mannanafnanefndar sem m.a. hefur það hlutverk að semja mannanafnaskrá og skera úr ágreiningi um mannanöfn.
    Yfirstjórn mannanafnamála er færð frá menntamálaráðherra til dómsmálaráðherra.
    Erlendir menn, sem gerast íslenskir ríkisborgarar, eru ekki lengur skyldaðir til að kasta nafni sínu heldur nægir að þeir taki sér eitt íslenskt nafn til viðbótar eiginnafni sínu.
    Kynjamisrétti eldri mannanafnalaga er að mestu útrýmt, m.a. með ákvæði sem heimilar að ættarnöfn gangi í kvenlegg.
    Margt af þessu var auðsæilega mjög til bóta og í samræmi við nýjan tíðaranda. Lögin horfðu auk þess til meiri festu um mannanöfn en verið hafði og var ekki vanþörf á því.
    
Gagnrýni á lög nr. 37/1991.
    Þótt framför væri að mannanafnalögunum frá 1991 sættu þau brátt nokkurri gagnrýni almennings. Beindist gagnrýnin einkum að 2. gr. laganna og framkvæmd hennar, en greinin hljóðar svo:
    „Eiginnafn skal vera íslenskt eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Það má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Eiginnafn má ekki heldur vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
    Hvorki má gefa stúlku karlmannsnafn né dreng kvenmannsnafn.
    Óheimilt er að gefa barni ættarnafn sem eiginnafn nema hefð sé fyrir því nafni.“
    Ákvæði 1. málsl. 1. gr. felur það í sér að öll eiginnöfn af erlendum uppruna eru óheimil nema því aðeins að þau hafi unnið sér hefð í íslensku máli, hvort sem þau eru löguð að almennum reglum íslensks máls og hérlendum ritvenjum eða ekki.
    Af þeirri grunnreglu 2. gr. að eiginnöfn séu annaðhvort karlmanns- eða kvenmannsnöfn leiðir einnig að ekki má gefa „kynlaus“ millinöfn eins og nöfn sem enda á - fjörð, -nes, -dal og -feld. Sama máli gegnir um eignarfallsmyndir eins og Eggerts og Guðrúnar. Þegar Alþingi fjallaði um frumvarp til laga nr. 37/1991 kom reyndar fram tillaga um að millinöfn yrðu leyfð en hún náði ekki fram að ganga.
    Í samræmi við ákvæði 2. gr. og grunnreglu hennar hefur mannanafnanefnd hafnað öllum tökunöfnum sem ekki hafa unnið sér hefð í íslensku máli og öllum „kynlausum“ millinöfnum og hefur það sætt gagnrýni.
    Þessi gagnrýni er að hluta sprottin af því að með lögum nr. 37/1991 var komið á aðhaldi sem ekki var til staðar áður. Flest ákvæði laga nr. 54/1925 höfðu verið þverbrotin um langa hríð og það látið átölulaust en lögum nr. 37/1991 hefur hins vegar verið framfylgt og þau eru auk þess skýrari en lögin frá 1925. Því er stundum haldið fram að það sé þjóðareinkenni Íslendinga að vilja gjarnan setja öðrum reglur en síður fara eftir þeim sjálfir. Ef rétt er þarf það ekki að vekja furðu þótt sumir landsmenn hafi ekki tekið því vel að þurfa nú að fara að settum reglum um mannanöfn.
    Meginástæða gagnrýninnar er þó sú að ákvæði 2. gr. laga nr. 37/1991 um eiginnöfn eru of ströng. Með greininni er í fyrsta sinn í sögunni tekið alveg fyrir að ný tökunöfn skjóti rótum hér á landi og þar skortir einnig heimild fyrir millinöfnum, jafnvel þótt sá siður að gefa slík nöfn hefði, þegar lögin voru sett, náð nokkurri útbreiðslu og fengið að þróast að mestu afskiptalaust um alllangt skeið.
    Lög nr. 37/1991 byggðust í veigamiklum atriðum á frumvarpinu frá 1971 og það byggðist aftur að verulegu leyti á frumvarpinu frá 1955. Þau sjónarmið um eiginnöfn, sem fram koma í lögunum, eiga því að nokkru rætur í öðrum tíðaranda en þeim sem nú er ríkjandi. Fjarað hefur undan þessum sjónarmiðum, m.a. vegna stóraukinna samskipta Íslendinga við erlenda menn. Þetta kemur glöggt fram í skoðanakönnun sem Gallup á Íslandi gerði seinni hluta árs 1994. Spurt var: „Til eru lög um mannanöfn á Íslandi. Finnst þér að það eigi að vera takmörkun á hvaða nöfn má gefa eins og er í lögunum eða á þetta að vera alveg frjálst?“
    Niðurstöðurnar voru þessar:     
    Meiri takmarkanir en nú vildu innan við 1%.
    Ánægðir með núgildandi lög voru um 21%.
    Aukið frjálsræði en þó einhverjar takmarkanir vildu um 45%.
    Algert frjálsræði vildu um 34%.
    Reyndar skiptir verulegu máli hvernig orðalag er í könnunum af þessu tagi og því verður að túlka þessar niðurstöður varlega. Þannig sýnist afar ósennilegt að 34% þjóðarinnar mundu svara játandi ef spurt væri: „Finnst þér að foreldrar eigi að fá að gefa börnum sínum nöfnin Skessa, Hel, Þrjótur og Satanus ef þeim sýnist svo?“ Það verður með öðrum orðum að draga þá niðurstöðu mjög í efa að rúmlega þriðjungur þjóðarinnar vilji algert frelsi í nafngiftum þegar alls er gætt. Einsýnt er þó að túlka má niðurstöður Gallups á þann veg að mikill meiri hluti fólks vilji aukið frjálsræði í nafngiftum.
    Eiginnafnaákvæði 2. gr. laga nr. 37/1991 eru auðsæilega gölluð og að því leyti óraunsæ að þau fara í bág við almannavilja. Engu að síður er athyglisvert að gagnrýni á lög nr. 37/1991 skuli nær eingöngu hafa beinst að þessari grein. Starf nefndarinnar hefur leitt í ljós að ýmsar aðrar greinar laganna þarfnast einnig endurskoðunar, ekki síst greinar sem lúta að jafnræði borgaranna og nafnrétti manna af erlendum uppruna.
    
Meginhugmyndir og markmið nefndarinnar.
    Nefndarmenn telja brýnt að unnið sé að varðveislu íslenska mannanafnaforðans og íslenskra nafnasiða en álíta hins vegar að yfirleitt sé farsælla að vinna að því markmiði með fræðslu og áróðri en með lögboði. Nafn manns er einn mikilvægasti þáttur sjálfsímyndar hans og varðar fyrst og fremst einkahagi hans en síður almannahag. Réttur foreldra til að ráða nafni barns síns hlýtur og að vera ríkur en réttur löggjafans til afskipta af nafngjöfum að sama skapi takmarkaður. Sumir nafnsiðir eru þó þess eðlis að þeir snerta ekki síður veigamikla hagsmuni samfélagsins en einkahagi manna og er réttur löggjafans til afskipta af þeim þá meiri en ella. Eins og hér kemur fram síðar lítur nefndin svo á að þetta eigi einkum við um íslenska kenninafnasiðinn.
    Markmið nefndarinnar hafa einkum verið þessi:
    Að auka frelsi í nafngiftum frá því sem nú er, einkum með því að heimila aðlöguð erlend nöfn, jafnvel þótt þau styðjist ekki við hefð í íslensku máli, og með því að heimila millinöfn, sjá síðar í þessum athugasemdum.
    Að jafna nafnrétt manna eftir því sem kostur er, m.a. með því að auka rétt erlendra manna sem gerast íslenskir ríkisborgarar.
    Að stuðla að því að ættarnöfn verði fremur notuð sem millinöfn en sem kenninöfn.
    Enn fremur hefur nefndin lagt áherslu á að gera uppbyggingu frumvarpsins sem rökréttasta og gæta samræmis en á það skortir nokkuð í lögum nr. 37/1991.

Athugasemdir við einstakar greinar og kafla frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Í þessum kafla eru dregin saman ýmis ákvæði um fullt nafn og nafngjöf. Sáralitlar breytingar eru gerðar frá samsvarandi ákvæðum í gildandi mannanafnalögum og því verður hér aðeins fjallað mjög stuttlega um greinar kaflans.
    

Um 1. gr.


    Hér svarar 1. mgr. til 1. málsl. 20. gr. laga nr. 37/1991 að því breyttu að nú er gert ráð fyrir þremur flokkum nafna, þ.e. millinöfnum auk eiginnafna og kenninafna. Eðlilegt þykir að skilgreining á hugtakinu „fullt nafn“ sé fremst í lögunum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að eiginnöfn og millinöfn megi aldrei vera fleiri en þrjú samtals og er það því óbreytt frá lögum nr. 37/1991 að ekki er heimilt að gefa fleiri en þrjú nöfn.
    

Um 2. gr.


    Þessi grein er óbreytt 4. gr. laga nr. 37/1991 að öðru leyti en því að röð málsgreina hefur verið snúið við.
    

Um 3. gr.


    Þessi grein svarar til 5. gr. gildandi mannanafnalaga og er óbreytt efnislega að öðru leyti en því að felld hefur verið niður 2. mgr. 5. gr. sem hljóðar svo:
    „Hafi barn verið skírt skemmri skírn má, þegar skírn er lýst eða hún tilkynnt skv. 1. mgr. 4. gr., gefa barni nýtt nafn í stað þess sem því var áður gefið eða annað nafn til viðbótar áður gefnu nafni.“
    Á þetta ákvæði hefur aldrei reynt og sýnist það því óþarft. Vilji forráðamenn breyta nafni barns síns við þær aðstæður sem um getur í málsgreininni er þeim í lófa lagið að gera það með leyfi dómsmálaráðherra skv. 1. mgr. 13. gr., enda hefur þeirri málsgrein nú verið breytt á þann veg að ekki er lengur áskilið að ástæður nafnbreytingar þurfi að vera gildar.
    

Um II. kafla.


    Í þessum kafla eru tvær greinar um eiginnöfn. Hin fyrri er óbreytt 1. gr. laga nr. 37/1991 en hin síðari kemur í stað 2. gr. þeirra laga og felur í sér umtalsverða rýmkun á henni.
    

Um 4. gr.


    Þessi grein samsvarar 1. gr. laga nr. 37/1991 og er alveg óbreytt. Tekið er fram að hverju barni skuli gefa eiginnafn og að forsjármenn barns hafi bæði rétt og skyldu til þess. Af sjálfu leiðir því að notkun a.m.k. eins eiginnafns er skylda og að menn geta ekki notað millinafn sem sitt eina eða fyrsta nafn.
    

Um 5. gr.


    Þessi grein svarar til 2. gr. í gildandi lögum um mannanöfn, nr. 37/1991. Mikilvægar breytingar hafa verið gerðar á greininni, enda hefur hún verið umdeildasta grein mannanafnalaganna frá 1991.
    Í 1. mgr. segir að eiginnafn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli og þar er einnig kveðið á um að nafnið skuli ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi og skuli ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
    Í 1. málsl. er kveðið á um að eiginnafn skuli geta tekið íslenska eignarfallsendingu en skuli að öðrum kosti hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Þarna er því sú breyting að ekki er lengur tilskilið að eiginnafn skuli að jafnaði vera íslenskt. Þessi breyting felur í sér mikla rýmkun því að fjöldi tökunafna, sem ekki hafa unnið sér hefð í íslensku máli, getur tekið íslenska eignarfallsendingu.
    Með íslenskri eignarfallsendingu er átt við eignarfallsendingu sem á sér hliðstæðu í íslensku máli, annaðhvort í mannanöfnum eða hinum almenna orðaforða málsins. Á meðal nafna sem taka íslenska eignarfallsendingu eru t.d. flest nöfn sem eru endingarlaus í nefnifalli, öll karlmannsnöfn sem enda á - i í nefnifalli og öll kvenmannsnöfn sem hafa nefnifallsendinguna - a.
    Þessu ákvæði um eignarfallsendingu er ætlað að tryggja að ný tökunöfn lagist að reglum íslensks máls að nokkru marki að minnsta kosti og stefni íslenska beygingakerfinu ekki í voða. Þegar þannig stendur á að endingarleysi í eignarfalli á sér kerfisbundnar samsvaranir í íslensku máli verður þó að fallast á það í tökunöfnum. Dæmi um slíkt er t.d. karlmannsnafnið Ross, sbr. íslenska nafnorðið foss.
    Á tímabilinu frá 1. nóvember 1991 til 1. september 1994 hafnaði mannanafnanefnd samtals 237 beiðnum um eiginnöfn og nafnritanir. Þessar hafnanir má flokka á eftirfarandi hátt:

                                        Stúlknanöfn     Drengjanöfn     Samtals
    Millinöfn
42
48 90
    Ritmyndir
9
4 13
    Önnur nöfn
87
47 134
     Samtals
138
99 237
    
    Sú breyting, sem hér er lögð til að nægjanlegt sé að nafn geti tekið íslenska eignarfallsendingu (eða hafi unnið sér hefð), varðar ekki millinöfn og ritmyndir sem síðar verður vikið að. Á hinn bóginn hefur þessi breyting mikil áhrif á meðferð beiðna um nöfn í þriðja flokknum, „önnur nöfn“.
    Einungis 9 af 87 stúlknanöfnum í flokknun „önnur nöfn“ geta ekki tekið íslenska eignarfallsendingu svo að sæmilega fari, þ.e.: Apríl, Dawn, Hildegard, Lillian, Maí, Maj, May, Miriam, Nathalie. Á meðal hinna 78 stúlknanafnanna í þessum flokki eru t.d. þessi, sem nú verða öll heimil: Adama, Amel, Anetta, Annabella, Aretta, Aþanasía, Aþena, Belinda, Bella, Benney, Bergetta, Bergitta, Bína, Blín, Bogga, Dýrley, Dön, Edna, Emelíta, Gauja, Georgía, Giddý, Hallý, Hanný.
    Af 47 drengjanöfnum í flokknum „önnur nöfn“ geta aðeins eftirfarandi fimm nöfn ekki tekið íslenska eignarfallsendingu með góðu móti (en reyndar hefur nánari athugun leitt í ljós að Nikolai hefur unnið sér hefð í íslensku máli og er því heimilt þrátt fyrir að eignarfallsmynd þess sé á reiki): Casey, Eddý, Jean, Mooney, Nikolai. Á meðal hinna 42 drengjanafnanna í þessum flokki eru t.d. þessi: Alf, Bert, Davor, Elentínus, Elinór, Evan, Garibaldi, Gerald, Húgó, Maggi, Manfreð, Manúel, Marselíus, Mekkínó, Októ, Orvar, Preben.
    Að sjálfsögðu er oft matsatriði hvort nafn getur tekið íslenska eignarfallsendingu eða ekki og verður að eftirláta mannanafnanefnd að meta það hverju sinni.
    Þetta ákvæði hefur jafnframt í för með sér að heimil verða blendingsnöfn, sett saman af íslenskum nafnstofni eða íslenskri nafnrót, erlendu viðskeyti og íslenskri nefnifallsendingu, t.d. Sigmundsína og Sigurðína.
    Ákvæði 2. gr. gildandi mannanafnalaga þess efnis að eiginnafn skuli vera íslenskt eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli gefur vísbendingu um hvað skuli teljast „nafn“. Þannig er t.d. unnt að halda því fram að gælunöfn eins og Frissi, Bíbí og Gudda séu ekki „íslensk nöfn“ í skilningi laga nr. 37/1991 og þar eð þau hafa ekki heldur unnið sér hefð í íslensku máli eru þau óheimil. Það orðalag 5. gr., sem nú er lagt til, felur hins vegar ekki í sér neina slíka vísbendingu um hvað skuli teljast „nafn“ og þar eru því engin þrengjandi ákvæði um nafnstofna. Þetta hefur í för með sér að ýmsar merkingarlausar stafarunur verða heimilir nafnstofnar (svo fremi þær brjóti ekki gegn öðrum ákvæðum laganna). „Nöfn“ eins og Skjarpur og Skunnar verða því heimil, rétt eins og Garpur og Gunnar. Sömuleiðis verða framannefnd gælunöfn heimil. Þetta er óhjákvæmileg afleiðing þeirrar ákvörðunar að heimila óhefðuð erlend nöfn eins og Vilma. Nafnstofninn Vilm- er merkingarlaus stafaruna í íslensku máli og engin leið er að skilgreina hugtakið „nafnstofn“ þannig að Vilm- teljist tækur nafnstofn en Skunn-, Friss- og Gudd- ekki. Það er t.d. alveg ófær leið að setja það sem skilyrði að nafnstofninn verði að koma fyrir í raunverulegu nafni í einhverjum tilteknum tungumálum, t.d. germönskum málum. Engin tök sýnast á að gera mun á þeim málum og öðrum með frambærilegum rökum og ekki eru heldur tiltækar hér á landi neinar tæmandi upplýsingar um raunveruleg nöfn í þeim.
    Nokkrar almennar takmarkanir eiga þó við um nafnstofna. Einstakir bókstafir teljast t.d. ekki tækir nafnstofnar. Nafnstofnar mega heldur ekki vera til ama, sbr. 3. mgr., og þeir mega ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi, sbr. 2. málsl. 1. mgr. Dæmi um hið síðastnefnda eru stofnar sem brjóta gegn hljóðskipunarlögum íslenskrar tungu, þ.e. þeim reglum sem gilda um það hvernig hljóð raðast saman í íslensku. Þannig eru tsj, dsj og djí ótæk hljóðasambönd í íslensku og nöfnin Tsjækovski og Jean („dsjín“ eða „djín“ í framburði) því óheimil. Að sjálfsögðu þarf einnig að vera unnt að kveða að öllum nöfnum og nafnstofnum.
    Hið aukna frjálsræði, sem ákvæði 1. málsl. um íslenska eignarfallsendingu hefur í för með sér, heimilar auðsæilega mörg nöfn sem ýmsir telja óæskileg. Eins og áður segir er þetta óhjákvæmileg afleiðing þess að heimila aðlöguð tökunöfn sem ekki hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Það sýnist og vafasamt að stjórnvöld setji strangar reglur í þessum efnum. Ríkjandi smekkur veldur því að litlar sem engar líkur eru á að stafarunur eins og Skunnar verði teknar upp sem eiginnöfn, jafnvel þótt þær séu ekki bannaðar með lögum.
    Í 1. málsl. er kveðið á um að þau nöfn sem ekki geta tekið íslenska eignarfallsendingu skuli hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Þessi hluti málsliðarins er samhljóða hefðarákvæði í 1. málsl. 2. gr. gildandi laga en hefur allt annað gildissvið. Ákvæðið heimilar tökunöfn sem hafa unnið sér hefð jafnvel þótt vafi kunni að leika á um það hvort þau taka íslenska eignarfallsendingu. Nauðsynlegt er að um þetta efni séu settar sem skýrastar reglur svo að unnt sé að gæta jafnræðis borgaranna gagnvart lögunum við framkvæmd þeirra. Mannanafnanefnd hefur sett ákveðnar reglur um hvaða skilyrðum tökunöfn þurfi að fullnægja til þess að teljast hafa unnið sér hefð samkvæmt gildandi lögum. Þessar reglur hafa gefist vel og sýnist því fara best á að hafa þær sem næst óbreyttar, ekki síst þegar haft er í huga að þær fá nú miklu þrengra gildissvið en áður og eru nú fyrst og fremst til rýmkunar á því ákvæði að eiginnöfn skuli geta tekið eignarfallsendingu, sbr. framannefnt dæmi um Nikolai. Þau ákvæði reglnanna, sem eðlilegt er að áfram verði stuðst við, eru þessi:
    Ung tökunöfn eru þau tökunöfn sem hafa komið inn í íslenskt mál eftir 1703. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð ef það fullnægir einhverju einu af eftirfarandi skilyrðum:
         
    
    Það er nú borið af a.m.k. 20 Íslendingum.
         
    
    Það er nú borið af 15–19 Íslendingum og sá elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri.
         
    
    Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og sá elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri.
         
    
    Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910 (eða fyrr).
         
    
    Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1845 (eða fyrr).
         
    
    Það er nú ekki borið af neinum Íslendingi en kemur þegar fyrir í manntalinu 1845 (eða fyrr) og hefð þess hefur ekki rofnað.
    Hefð ungs tökunafns telst rofin ef það kemur hvorki fyrir í manntalinu 1910 né síðar.
    Gömul tökunöfn eru þau tökunöfn sem hafa komið inn í íslenskt mál 1703 eða fyrr. Hefð gamals tökunafns telst rofin ef það kemur hvorki fyrir í manntölunum 1845 og 1910 né síðar. Hefð tökunafna sem hafa unnið sér menningarhelgi rofnar þó ekki. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum íslenskum fornritum í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.
    Þótt nauðsynlegt sé að áfram verði stuðst við skýrar reglur í þessu efni er ljóst að það mun nú heyra til undantekninga að á þær reyni. Reglurnar þarf auðsæilega að endurskoða á svo sem áratugar fresti.
    Ákvæði 2. málsl. um að eiginnafn megi ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi svarar til 2. málsl. 2. gr. gildandi laga og er efnislega óbreytt. Íslenskt málkerfi er samsafn þeirra reglna sem unnið hafa sér hefð í íslensku máli. Þessu ákvæði er því einkum ætlað að koma í veg fyrir að rótgrónum nöfnum sé breytt til horfs sem stríðir gegn hefð þeirra. Afbakanir eins og Guðmund og Þorstein (í nefnifalli) eru því óheimilar. Enn fremur kemur ákvæðið í veg fyrir nýmyndanir sem brjóta í bág við íslenskar orðmyndunarreglur, t.d. þríliðuð nöfn eins og Guðmundrún, Guðmundpáll og Ragnhildmundur. Ákvæðið hindrar einnig að teknir séu inn í íslenskt mál nafnstofnar af erlendum uppruna sem eru ósamrýmanlegir íslenskum hljóðskipunarreglum, sbr. fyrrnefnd dæmi um Tsjækovski og Jean. Hins vegar hindrar ákvæðið ekki notkun neinna nafna eða nafnmynda sem þegar hafa unnið sér hefð í íslensku, t.d. endingarlausra nafna eins og Erling og Svanberg.
    Í 3. málsl. 1. mgr. er tekið fram að eiginnöfn skuli rituð í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þeirra. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsingar menntamálaráðherra um íslenska stafsetningu nr. 132/1974 í Stjórnartíðindum B, ásamt auglýsingu um breytingu á þeirri auglýsingu, nr. 261/1977 í Stjórnartíðundum B. Ekkert samsvarandi ákvæði er í gildandi lögum. Nauðsynlegt er að kveða sérstaklega á um rithátt nafna því að ekki er unnt að líta svo á að ritvenjur falli undir ákvæði 2. málsl. um íslenskt málkerfi. Með ákvæðinu er komið í veg fyrir að hróflað sé við rithætti rótgróinna nafna en jafnframt veitt heimild fyrir ritmyndum sem hafa unnið sér hefð, t.d. Zóphonías, Walter og Esther. Enn fremur hefur þetta ákvæði þau áhrif að tökunöfn, sem ekki hafa unnið sér hefð í íslensku máli, eru óheimil nema ritháttur þeirra sé í samræmi við íslenskar ritvenjur. Ritmyndin Vilma er því heimil en Wilma ekki.
    Í 2. mgr. segir að stúlku skuli gefið kvenmannsnafn en dreng karlmannsnafn. Þetta ákvæði kemur í stað 2. mgr. 2. gr. gildandi laga, en þar segir að hvorki megi gefa stúlku karlmannsnafn né dreng kvenmannsnafn. Ákvæðið hefur í för með sér að ekkert eiginnafn getur talist vera bæði karlmanns- og kvenmannsnafn nema hefð sé fyrir því að gefa það báðum kynjum. Þannig er t.d. óheimilt að gefa drengjum nafnið Ilmur og stúlkum nöfnin Sturla og Blær. Á sama hátt er óheimilt að gefa stúlkum nafnið Sigurður þótt hægt væri að beygja það eins og kvenmannsnafn (þ.e. eins og Sigríður). Þetta ákvæði hefur enn fremur í för með sér að mannanafnanefnd verður að skera úr um það hverju sinni hvort tökunafn, sem ekki hefur unnið sér hefð í íslensku máli, t.d. Robin, skuli heimilt sem karlmannsnafn eða sem kvenmannsnafn.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að eiginnafn megi ekki vera nafnbera til ama. Ákvæðið er efnislega samhljóða 3. málsl. 1 mgr. 2. gr. gildandi laga. Ekki þykir annað fært en hafa þetta ákvæði áfram í lögum. Það eru auðsæilega mikilvægir hagsmunir barna að þeim séu ekki gefin nöfn sem telja verður ósiðleg, niðrandi eða meiðandi, eins og t.d. Skessa, Þrjótur eða Hel. Ákvæðið er þó vandmeðfarið því að erfitt er að leggja hlutlægt mat á ama. Besta tryggingin fyrir því að gætt sé jafnræðis borgaranna við framkvæmd ákvæðisins er að því sé beitt mjög varlega. Þannig sýnast ekki rök til að beita ákvæðinu sérstaklega gegn gælunöfnum eða yfirhöfuð á grundvelli nafnformsins eins. Eðlilegt er því að ákvæðinu sé því aðeins beitt að telja megi merkingu nafns neikvæða eða óvirðulega. Samsvarandi ákvæði í gildandi lögum hefur einungis verið beitt tvívegis, til synjunar kvenmannsnöfnunum Villimey og Rist.
    Tillögur nefndarmanna um eiginnöfn miða að því að auka frjálsræði í nafngiftum umtalsvert frá því sem nú er án þess þó gefa þær með öllu frjálsar. Nefndarmenn telja þó einnig koma til greina að ganga enn lengra í frjálsræðisátt með því að fella 1. mgr. 5. gr. alveg niður. Greinin hljóðaði þá svo:
     Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
    Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.

    Með þessu móti mundi greinin aðeins vernda brýnustu hagsmuni barna en ekki fela í sér nein þrengjandi ákvæði um form nafna.
    Þótt nefndarmenn hafi rætt þennan kost og telji hann koma til álita mæla þeir ekki með honum. Hann hefði m.a. í för með sér að hvers kyns afbakanir á rótgrónum nöfnum yrðu heimilar, t.d. Zigurd og Gúdmúnd í stað Sigurður og Guðmundur. Enn fremur leiddi þessi kostur til þess að margliðuð nöfn eins og Ragnhildmundur og stafarunur sem brjóta gegn hljóðskipunarlögum íslenskrar tungu yrðu heimilar. Þótt þessi leið væri farin yrði ekki komist hjá því að gefa út mannanafnaskrá þar sem skorið væri úr um hvaða nöfn væru karlmannsnöfn og hver kvenmannsnöfn og opinber mannanafnaskrá með hvers kyns afbökunum er til tjóns eins.
    

Um III. kafla.


    Með þessum kafla er heimilaður nýr flokkur nafna, svokölluð millinöfn. Um er að ræða nöfn eins og Önfjörð, Vatnsnes, Sædal, Mosfells og Bláfeld.
    Nöfn þessi eru að því leyti eins og ættarnöfn að þau eru borin af báðum kynjum en frábrugðin þeim að því leyti að þau eru ekki kenninöfn. Í faglegri umræðu um mannanöfn hafa nöfn af þessu tagi stundum verið nefnd viðurnöfn en það þótti nefndarmönnum ekki heppilegt heiti og ákváðu því að nota það heiti sem almenningi er tamast, millinöfn, enda var það heiti einnig notað í 3. mgr. 1. gr. frumvarps þess um mannanöfn sem lagt var fyrir 92. löggjafarþing 1971. Eins og síðar verður vikið að svipar tillögum nefndarinnar um millinöfn til ákvæða dönsku mannanafnalaganna, nr. 193/1981, um nöfn sem á dönsku eru nefnd mellemnavn.
    Ástæður þess að nefndin leggur þetta nýmæli til eru einkum þessar:
    Allmikil ásókn er í að fá að gefa millinöfn. Um það bil 38% af þeim nöfnum sem mannanafnanefnd hafnaði frá 1. nóvember 1991 til 1. september 1994 voru millinöfn (90 af 237). Með því að heimila þau er frjálsræði um nafngiftir því aukið verulega og telur nefndin það eftirsóknarvert markmið.
    Lítt var amast við millinöfnum allt til þess að lög nr. 37/1991, um mannanöfn, tóku gildi. Fjöldi manna ber því nöfn af þessu tagi.
    Algengt er að margir í sömu fjölskyldu beri sama millinafn og því tengist notkun þeirra mjög vitund fólks um uppruna sinn og tilfinningum þess í garð náinna ættingja. Reynslan sýnir að synjun slíkra nafna veldur þeim sem í hlut eiga oft miklu angri og vekur hörð viðbrögð þeirra. Stjórnvaldsaðgerð sem veldur borgurunum hugarangri getur að sjálfsögðu verið réttlætanleg þegar mikilvægir hagsmunir samfélagsins eru í húfi. Ekki verður séð að hagsmunir samfélagsins af því að banna millinöfn séu nægjanlega ríkir til þess að réttlæta slíkt bann.
    Menningarlegir hagsmunir samfélagsins af því að varðveita íslenska kenninafnasiðinn (föður- og móðurnafnakerfið) eru ótvíræðir, eins og vikið verður að síðar í þessari greinargerð. Ættarnöfn hafa þann höfuðókost að þau stefna þessum sið í voða. Auk þess leiðir ættarnafnakerfið oftast til þess að kenninöfn kvenna víkja fyrir kenninöfnum karla. Millinöfnin hafa hvorugan af þessum ókostum en geta hins vegar haft þann sama kost og ættarnöfnin að auka samkennd fjölskyldna og vitund fólks um uppruna sinn, þ.e. þegar margir í sömu fjölskyldu eða ætt bera sama millinafn. Þeirri mótbáru er reyndar stundum hreyft gegn millinöfnum að þau séu eða geti verið „dulbúin ættarnöfn“, menn taki oft að nota millinafn sem ættarnafn og leggi af föður- eða móðurnafn sitt. Eftir að Hagstofa Íslands tók að fylgja reglum um skráningu nafna jafnfast eftir og nú er raunin virðist þessi ótti þó vera ástæðulaus.
    Með millinafnakerfinu er þeim sem nú bera ættarnafn gert kleift að kenna sig til föður eða móður að íslenskum sið án þess að þurfa jafnframt að kasta ættarnafninu. Upptaka millinafna á því að geta orðið íslenska kenninafnasiðnum til eflingar.
    Eins og vikið verður að síðar felst verulegt misrétti í ákvæðum gildandi mannanafnalaga um ættarnöfn. Nokkur hópur manna hefur val sem þorri fólks hefur ekki. Millinafnakerfið dregur úr þessari mismunun. Viss tegund af nöfnum verður nú öllum heimil, reyndar ekki sem kenninöfn en sem millinöfn.
    Við þetta er því að bæta að upphafleg hugmynd nefndarinnar var sú að öll ættarnöfn breyttust smám saman í millinöfn, eins og vikið verður að síðar.
    

Um 6. gr.


    Í 1. mgr. er veitt almenn heimild fyrir millinöfnum, tekið fram að eiginnöfn ásamt millinafni megi aldrei vera fleiri en þrjú samtals og kveðið á um að millinöfn séu ekki kynbundin, þ.e. að dreng og stúlku megi gefa sama millinafn.
    Í 2. mgr. eru almennar reglur um myndun og form millinafna. Í 1. málsl. er tekið fram að millinöfn skuli annaðhvort dregin af íslenskum orðstofnum eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli og að þau skuli ekki hafa nefnifallsendingu. Nefndarmenn ræddu það sjónarmið að þetta kynnu að vera of strangar takmarkanir en eftir nokkrar umræður varð samkomulag um núverandi orðalag málsgreinarinnar. Millinöfn eru nýmæli og því sýnist réttlætanlegt að setja þeim nokkrar skorður. Dæmi um millinöfn sem eru dregin af íslenskum orðstofnum eru öll eftirtalin nöfn: Önfjörð, Vatnsnes, Sædal, Mosfells og Bláfeld. Samkvæmt orðalagi málsgreinarinnar eru millinöfn eins og Marcher og Öder hins vegar óheimil (nema í sérstökum tilvikum eins og síðar víkur að) þar sem þau eru ekki dregin af íslenskum orðstofnum og hafa ekki heldur unnið sér hefð í íslensku máli. Loks eru millinöfn eins og Vídalín heimil á grundvelli hefðar þótt þau séu ekki dregin beint af íslenskum orðstofnum (heldur af útlenskuðum formum íslenskra orðstofna). Nöfn eins og Sædalur og Ön(undar)fjörður þykja ótæk millinöfn, einkum á stúlkum, og því er hér sett það ákvæði að millinöfn skuli ekki hafa nefnifallsendingu. Ákvæðið hefur í för með sér að t.d. Gígja og Gauti eru (almennt) óheimil sem millinöfn (en að sjálfsögðu heimil sem eiginnöfn, Gígja sem kvenmannsnafn og Gauti sem karlmannsnafn, og þess utan hafa allir þeir sem bera Gígja sem ættarnafn rétt til þess að taka það upp sem millinafn, sbr. hér síðar).
    Rétt er að taka fram að hugtakið „hefð“ hefur hér sömu merkingu og í 5. gr. Mat á hefð millinafna byggist því á sömu reglum og mat á hefð eiginnafna, sbr. athugasemdir við 5. gr. Þó er sá munur á að þegar hefð eiginnafns er metin er aðeins litið til hefðar þess sem annaðhvort karlmannsnafns eða kvenmannsnafns (þ.e. takmörkuð notkun nafns sem karlmannsnafns getur ekki styrkt hefð þess sem kvenmannsnafns eða öfugt þegar um eiginnöfn er að ræða). Enn fremur skal tekið fram að með hugtakinu „íslenskur orðstofn“ er átt við orðstofna sem fest hafa rætur í íslensku máli hvort sem þeir eru upphaflegir í málinu eða ekki. Áldal væri því heimilt millinafn engu síður en Sædal.
    Í 2. málsl. 2. mgr. er kveðið á um að jafnvel þótt nöfn séu endingarlaus í nefnifalli séu þau óheimil sem millinöfn hafi þau aðeins unnið sér hefð sem annaðhvort eiginnöfn karla eða eiginnöfn kvenna. Með ákvæðinu er komið í veg fyrir að endingarlaus eiginnöfn eins og Þórdís, Agnes, Hermann, Jón og Erling séu gefin sem millinöfn.
    Í 3. málsl. 2. mgr. er tekið fram að eignarfallsmyndir eiginnafna séu óheimilar sem millinöfn. Um er að ræða nafnmyndir eins og Egils og Guðrúnar. Ákvæðið kemur því í veg fyrir „dulbúin“ tvöföld kenninöfn eins og í Jón Guðrúnar Egilsson og María Egils Guðrúnardóttir. Aðrar eignarfallsmyndir eru hins vegar heimilar sem millinöfn, t.d. Mosfells og Sædals. Sumum kann raunar að þykja óþarft að reisa skorður við tvöföldum kenninöfnum en það varð engu að síður niðurstaða nefndarinnar, enda eiga tvöföld kenninöfn sér enga almenna hefð í íslensku máli.
    Í 4. málsl. 2. mgr. er loks tekið fram að millinöfn, sem eru mynduð eins og föður- eða móðurnöfn, séu óheimil. Er þetta í samræmi við íslenska hefð og þá stefnu nefndarinnar að tvöföld kenninöfn skuli ekki leyfð.
    Í 3. mgr. er veitt heimild fyrir millinöfnum jafnvel þótt þau fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. standi svo á að þau hafi tíðkast í fjölskyldu þess sem nafnið á að bera. Nokkuð algengt er að nöfn af þessu tagi, svo sem eignarfallsmyndir eiginnafna, hafi tíðkast í ákveðnum fjölskyldum. Þykir ótækt annað en að heimila þessum tilteknu fjölskyldum áframhaldandi notkun þessara nafna, úr því að millinöfn eru á annað borð leyfð. Millinöfn, sem gefin eru skv. 3. mgr., eru ekki öllum heimil og skulu því ekki færð á mannanafnaskrá.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að millinöfn skuli rituð í samræmi við almennar ritvenjur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess og í 5. mgr. er tekið fram að millinafn megi ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Sams konar ákvæði eru í 5. gr. um eiginnöfn og þarfnast þau því ekki sérstakra skýringa hér.

Um 7. gr.


    Í þessari grein er kveðið á um að ættarnöfn séu aðeins heimil sem millinöfn í ákveðnum undantekningartilvikum sem gerð er grein fyrir í 2.–5. mgr.
    Sú meginregla að ættarnöfn skuli ekki almennt heimil sem millinöfn styðst við þá ríkjandi skoðun í persónurétti, bæði íslenskum og erlendum, að ættarnöfn njóti mun ríkari nafnverndar en eiginnöfn.
    Það kann reyndar að vera umdeilanlegt hvaða ættarnöfn skuli njóta þeirrar nafnverndar sem um ræðir. Ættarnöfn hafa komist á hér á landi með mjög mismunandi hætti. Um ýmis þeirra gildir að menn hafa keypt einkarétt til þeirra og er þar annars vegar um að ræða ættarnöfn sem tilkynnt voru til Stjórnarráðsins fyrir 1. janúar 1915 og hins vegar ættarnöfn sem menn tóku sér á árunum 1915–25 á grundvelli laga um mannanöfn, nr. 41/1913. Síðarnefndu nöfnin skyldu ekki ganga til annarra niðja en barna, sbr. 3. gr. laga nr. 54/1925, en gerðu það þó átölulaust allt tímbilið 1925–91. Fjölmörg ættarnöfn hafa borist hingað til lands með erlendum mönnum og enn önnur hafa menn fæddir hérlendis af íslensku foreldri tekið sér án þess að sú aðgerð þeirra ætti sér nokkra lagastoð. Þótt ættarnöfn séu til komin með svo ólíkum hætti sem raun ber vitni ber að líta til þess að lög nr. 37/1991 lögleiddu öll ættarnöfn sem voru í þjóðskrá 1. nóvember 1991. Verður því að telja að öll ættarnöfn í þjóðskrá njóti nafnverndar. Nafnverndin nær reyndar einnig til ættarnafns sem ekki er lengur í þjóðskrá svo lengi sem einhver hefur rétt til að bera það sem ættarnafn en eftir að sá réttur fellur niður fellur nafnverndin einnig niður og verður nafnið þá almennt heimilt sem millinafn. Þegar svona stendur á verður einhver þeirra sem réttinn eiga að reka hans, ella er nafnið öðrum heimilt sem millinafn ef það fullnægir skilyrðum 2. mgr. 6. gr. Erfitt er að setja tímamörk um það hvenær réttarins skal rekið en eðlilegt virðist þó að líta svo á að hann falli niður að ákveðnum tíma liðnum, t.d. ef maðurinn sjálfur, alsystkini hans og forfeður hafa ekki notað nafnið í hálfa öld.
    Um rétt til ættarnafns gildir sú almenna regla sem gert er ráð fyrir í 4. mgr. 7. gr. frumvarpsins að hann hafa þeir og aðeins þeir sem bera nafnið í þjóðskrá við gildistöku laganna og niðjar þeirra. Álitamál um nafnvernd ættarnafna sem falla út af þjóðskrá munu því ekki rísa fyrr en að alllöngum tíma liðnum eftir gildistöku laganna.
    Í 11. gr. dönsku mannanafnalaganna, nr. 193/1981, er kveðið á um að hverjum manni sé heimilt að bera millinafn sem fullnægir einu af þremur skilyrðum:
    Nafnið er borið sem millinafn af föður eða móður mannsins.
    Nafnið er manninum heimilt sem ættarnafn.
    Nafnið tengist manninum sérstaklega.
    Heimildirnar í 2. og 3. tölul. eru allvíðtækar og fela m.a. í sér að menn geta fengið ættarnafn eða millinafn hálfsystkinis eða stjúpforeldris sem millinafn, enn fremur geta menn fengið sem millinafn sérhvert það ættarnafn sem hefur verið borið af einhverjum forföður í 1., 2. eða 3. lið, barni umsækjandans, fósturforeldri hans, eða systkini foreldris hans (að tilskildu samþykki barns, fósturforeldris eða systkinis foreldris) og þar að auki sérhvert það ættarnafn sem umsækjandinn getur sýnt fram á að hann (eða barn hans sé um nafngjöf að ræða) tengist með einhverjum þeim hætti öðrum sem telja verður sérstakan fyrir hann (eða barn hans), t.d. þannig að hefð sé fyrir notkun nafnsins í ætt hans jafnvel þótt ættin hafi ekki átt upphaflegan rétt til nafnsins.
    Nefndin hefur tekið nokkurt mið af þeim hugmyndum sem fram koma í ákvæðum dönsku mannanafnalaganna um millinöfn en telur jafnframt að dönsku reglurnar geti ekki átt við nema að litlu leyti hér á landi og séu allt of flóknar í framkvæmd. Nefndin leggur því til að einungis verði gerðar fáar og einfaldar undantekningar frá þeirri meginreglu að ættarnöfn séu óheimil sem millinöfn. Þessar undantekningar eru raktar í 2.–5. mgr. 7. gr. Í 2. mgr. er þeim sem bera ættarnafn heimilað að breyta því í millinafn og vísað til 15. gr. um nánari ákvæði um slíka nafnbreytingu. Ákvæðið brýtur að sjálfsögðu engan rétt á þeim sem bera ættarnöfn en gerir þeim kleift að kenna sig til föður eða móður að íslenskum sið án þess að þurfa jafnframt að kasta ættarnafni sínu. Þennan millinafnsrétt er ekki unnt að takmarka við þá sem bera ættarnafnið heldur verður hann að ná til allra sem eiga rétt til ættarnafnsins og er sérstaklega kveðið á um það í 3. mgr., að öðrum kosti yrðu þeir sem í hlut eiga fyrst að taka nafnið upp sem ættarnafn og breyta því síðan í millinafn og eru það að sjálfsögðu alveg óþarfir vafningar. Í 4. mgr. er mönnum heimilað að bera ættarnafn sem millinafn hafi alsystkini þeirra, foreldri, afi eða amma borið nafnið sem eiginnafn, millinafn eða ættarnafn. Rétt þykir að fjalla sérstaklega um þetta ákvæði og verður það gert hér á eftir. Í 5. mgr. er mönnum loks leyft að taka sér ættarnafn maka síns sem millinafn, hvort sem makinn sjálfur breytir því í millinafn eða ekki. Í 1. mgr. 8. gr. er lagt bann við því að íslenskir ríkisborgarar taki sér ættarnöfn maka sinna eftirleiðis (sem kenninöfn) og verða ástæður þess raktar síðar. Rétt þykir hins vegar að koma nokkuð til móts við þá sem í hlut eiga með því að heimila þeim ættarnöfnin sem millinöfn.
    Í öllum þessum tilvikum gildir ávallt einu hvort nafnið fullnægir skilyrðum 2. mgr. 6. gr. eða ekki (og verða því erlend ættarnöfn heimil sem millinöfn í fjölskyldum sem eiga ættir að rekja til útlanda, t.d. Marcher og Öder).
    Eins og fyrr segir þykir rétt að fjalla sérstaklega um 4. mgr., en þar segir að menn megi bera ættarnafn sem millinafn hafi alsystkini þeirra, foreldri, afi eða amma borið nafnið sem eiginnafn, millinafn eða ættarnafn. Með þessu ákvæði er m.a. gætt réttar þeirra sem eru af erlendu bergi brotnir því að það veldur því að nánustu afkomendur þeirra sem borið hafa erlend ættarnöfn en lagt þau af (t.d. Öder) geta tekið þau upp sem millinöfn. Nánustu niðjar innfæddra Íslendinga sem leggja ættarnafn sitt af eða breyta því í millinafn hafa einnig rétt til að bera það sem millinafn og er sá réttur tryggður með orðalagi 4. mgr. Auk þess hafa fjarlægari niðjar sama rétt ef nánustu ættingjar þeirra nýta sér hann (en að öðrum kosti fellur hann niður). Í 4. mgr. er einnig kveðið á um að menn eigi rétt til að bera ættarnafn sem millinafn ef náið skyldmenni hefur borið nafnið sem eiginnafn, þ.e. fyrir gildistöku laganna (og þar af leiðandi á tíma þegar hugtakið „millinafn“ hafði enga stöðu í íslenskri nafnalöggjöf og viðkomandi nöfn urðu því að teljast vera eiginnöfn). Rökin fyrir þessu eru einkum þessi:
    Mjög margar af þeim umsóknum um millinöfn, sem mannanafnanefnd berast, eru einmitt um nöfn sem eru ættarnöfn en hafa jafnframt tíðkast sem eiginnöfn í fjölskyldu umsækjandans. Ef mönnum er meinað að bera eða gefa nafnið þegar svona stendur á nær sú breyting að heimila millinöfn ekki tilgangi sínum nema að takmörkuðu leyti og horfir ekki til þess aukna frjálsræðis í nafngiftum sem að er stefnt.
    Notkun þeirra nafna sem um ræðir sem eiginnafna/millinafna hefur verið látin átölulaus og hefur því unnið sér nokkurn hefðarrétt.
    Um mörg ættarnöfn í þjóðskrá gildir að þau eru miklu algengari sem eiginnöfn/millinöfn en sem ættarnöfn. Ef þeim fjölskyldum, sem hafa notað þessi nöfn sem eiginnöfn/millinöfn, væri meinað að gera það eftirleiðis væri um að ræða oftúlkun á nafnvernd ættarnafna. Það sýnast með öðrum orðum ekki rök til þess að láta nafnrétt þeirra sem bera viðkomandi nöfn sem eiginnöfn/millinöfn víkja með öllu fyrir nafnrétti þeirra sem bera þau sem ættarnöfn. Óbreytt er að einungis hinir síðarnefndu hafa rétt til nafnsins sem ættarnafns.
    Ekki er vitað til þess að mál hafi verið höfðað fyrir íslenskum dómstóli vegna notkunar ættarnafns sem eiginnafns/millinafns og sannar sagan því að þeir sem bera ættarnöfn hér á landi amast ekki við slíkri notkun þeirra. Jafnframt sýnir reynslan af störfum mannanafnanefndar að synjun um nöfn sem eru ættarnöfn en hafa tíðkast sem eiginnöfn/millinöfn í tilteknum fjölskyldum veldur oft miklu angri þeirra sem í hlut eiga. Tillaga nefndarinnar er því hvort tveggja í senn sanngjörn málamiðlun og það fyrirkomulag sem ætla má að mestur friður verði um.
    Í 6. mgr. 7. gr. er loks tekið fram að þeir sem fá eða taka sér millinafn skuli kenna sig til föður eða móður. Ákvæðið kemur í veg fyrir notkun tvöfaldra ættarnafna og er í samræmi við þá stefnu sem kemur fram annars staðar í frumvarpinu að tvöföld kenninöfn skuli ekki heimil.
    Réttur til millinafna skv. 7. gr. og 3. mgr. 6. gr. er ekki almennur heldur ættbundinn. Þau nöfn sem um er að ræða færast því ekki á mannanafnaskrá.
    Við nafngjöf og nafntilkynningu fer eins um millinöfn og eiginnöfn að öðru leyti en því að taka verður skýrt fram í skírnarskýrslu eða nafntilkynningu hvort nafn sé eiginnafn eða millinafn, enda hafa þessir flokkar nafna ólíka stöðu að ýmsu leyti. Aðeins má gefa eitt millinafn, engin skylda er að gefa slíkt nafn og það getur aldrei verið stofn í föður- eða móðurnafni.
    Í 1. mgr. 13. gr. kveður á um að dómsmálaráðherra sé heimilt að leyfa breytingu á eiginnafni og/eða millinafni, þar með talda upptöku viðbótarnafns ef ástæður mæla með því. Þetta ákvæði nær þó ekki til upptöku millinafns skv. 7. gr. eða 3. mgr. 6. gr. Þeir sem í hlut eiga hafa ættbundinn rétt til þessara nafna og eiga því auðsæilega ekki að þurfa að tíunda ástæður sínar í sérstakri umsókn til ráðherra. Nægilegt er að þeir tilkynni vilja sinn til Þjóðskrár og að hún gangi síðan úr skugga um hvort þær ástæður, sem taldar eru í 3. mgr. 6. gr. og 7. gr., eigi við. Hér skiptir þó máli hvort millinafnið er hrein viðbót eða kemur í stað einhvers eiginnafns eða millinafns, beri menn tvö eða þrjú nöfn. Eigi millinafn að að koma í stað annars nafns verður að sækja um niðurfellingu hins síðarnefnda til dómsmálaráðherra skv. 1. mgr. 13. gr.
    

Um IV. kafla.


    Íslendingar eru eina þjóðin á Norðurlöndum og þótt miklu víðar væri leitað sem tekist hefur að varðveita þann ævaforna sið að menn séu kenndir til föður eða móður. Þessi forni kenninafnasiður markar Íslendingum mikla sérstöðu og er nátengdur tilfinningu þeirra fyrir sögu þeirra, menningu og sjálfstæði. Nöfn nútímafólks eru flest með sama sniði og nöfn áa þess um aldir. Vigdís Finnbogadóttir, Ásgeir Ásgeirsson, Guðrún Ósvífursdóttir og Snorri Sturluson, allt eru þetta nöfn sem vitna um órofa samhengi íslenskrar menningar og tungu, samhengi sem á sér naumast sinn líka annars staðar í heiminum. Auk þess að vera forn, sérstakur og þjóðlegur hefur íslenski kenninafnasiðurinn þann mikla kost að kenninöfn kvenna víkja ekki fyrir kenninöfnum karla. Nöfn eru mjög mikilvægur þáttur sjálfshugmyndar fólks og má því hiklaust telja að þetta einkenni íslenska kenninafnakerfisins stuðli að sterkari sjálfsímynd kvenna og þar með betri stöðu þeirra í samfélaginu en ella væri. Allar rannsóknir á ævi og kjörum kvenna og að sjálfsögðu einnig á ætterni þeirra eru og auðveldari en ella fyrir þá sök að þær halda nafni sínu óbreyttu frá vöggu til grafar, koma fram í öllum skrám og skjölum sem fullveðja og sjálfstæðir einstaklingar.
    Það væri óbætanlegur skaði ef Íslendingar glötuðu þeim merkilega arfi sem kenninafnasiður þeirra er. Þeir hafa þá skyldu við sjálfa sig, afkomendur sína og umheiminn að reyna eftir fremsta megni að varðveita þennan arf.
    Sáralitlar rannsóknir hafa verið gerðar á sögu ættarnafna á Íslandi og verður því fátt um hana fullyrt. Engu að síður er unnt að staðhæfa að notkun ættarnafna hefur færst mjög í aukana á undanförnum áratugum. Í manntalinu 1855 voru ættarnöfn borin af einstaklingum fæddum hér á landi 108 talsins en í manntali 1910 er sambærileg tala 297. Samkvæmt athugun sem nefndin hefur unnið upp úr gögnum frá Hagstofa Íslands, Þjóðskrá, voru ættarnöfn íslenskra ríkisborgara hér á landi 2.227 talsins 21. október 1994. Þessar tölur um fjölda ættarnafna eru hér dregnar saman í töflu:
    
                         Ár               Ættarnöfn
                        1855             108
                        1910             297
                        1994          2.227
    
    Aðeins eru talin með nöfn íslenskra ríkisborgara sem voru búsettir hér á landi 21. október 1994 en hvorki þeirra fjölmörgu Íslendinga í þjóðskrá sem búa í öðrum löndum og bera erlent ættarnafn né þeirra erlendu ríkisborgara sem búa hér á landi. Ættarnöfn sem enda á -son valda því að ekki er unnt að fá alveg nákvæma tölu um fjölda ættarnafna nema með mikilli fyrirhöfn og kostnaði. Auk þess eru tölurnar í töflunni ekki alveg sambærilegar því að tölurnar fyrir 1855 og 1910 miðast aðeins við fólk fætt hér á landi en í gögnum Hagstofu Íslands um fjölda ættarnafna 1994 er ekki greint á milli íslenskra ríkisborgara eftir fæðingarstað heldur aðeins eftir búsetu. Þar á móti vegur að ýmsir af þeim Íslendingum sem nú búa erlendis eiga eftir að flytja erlend ættarnöfn með sér hingað til lands og enn fremur að ættarnöfn margra erlendra ríkisborgara hér á landi munu skjóta hér rótum. Hvernig sem þetta er metið er auðsætt að ættarnöfnum hefur fjölgað stórkostlega hér á landi á þessari öld. Þessi fjölgun er athyglisverð í ljósi þess að upptaka nýrra ættarnafna hefur verið ólögleg allar götur frá 1925.
    Flest ættarnöfn eru aðeins borin af örfáum mönnum en fjöldi íslenskra ríkisborgara sem báru ættarnöfn í þjóðskrá 21. október 1994 og voru þá búsettir hér á landi reyndist þó vera um 13.000 eða um 5% íbúa landsins. Tölur frá fyrri tíð um fjölda þeirra sem hafa borið ættarnöfn eru ekki tiltækar en naumast þarf að fara í grafgötur um að ekki aðeins fjöldi heldur einnig tíðni ættarnafna hefur aukist mjög á undanförnum áratugum og heldur enn áfram að aukast hröðum skrefum.
    Hagstofa Íslands, Þjóðskrá, hefur tekið saman tölur um fjölda nafnbreytinga á tímabilinu frá 1. nóvember 1991 til 30. júní 1994. Þessi samantekt leiðir m.a. eftirfarandi í ljós:
    
                                        Konur     Karlar     Samtals
    Ættarnafn tekið upp í karllegg     164     172     336
    Ættarnafn tekið upp í kvenlegg     119     106     225
    Ættarnafn maka tekið upp      70       4      74
     Samtals          323     282     635
    
    Ættarnafn fellt niður      33      25      58
    Ættarnafn maka fellt niður      13       –      13
     Samtals           46      25      71
    
    Upptaka ættarnafns samkvæmt heimildarákvæðum gildandi mannanafnalaga þar um er því um níu sinnum algengari en niðurfelling ættarnafns.
    Í 4. mgr. 9. gr. gildandi laga um mannanöfn er lagt bann við upptöku nýrra ættarnafna á Íslandi. Þrátt fyrir þetta bann koma lögin hvorki í veg fyrir fjölgun ættarnafna né aukna tíðni þeirra í kenninafnaflóru Íslendinga og veldur því einkum tvennt:
    Ættarnöfn ganga nú bæði í karl- og kvenlegg og það stuðlar að aukinni tíðni þeirra ættarnafna sem þegar hafa fest rætur á Íslandi.
    Ný ættarnöfn berast stöðugt inn í málið. Þessi nöfn berast með margvíslegum hætti en þó einna helst með börnum erlendra karla og íslenskra kvenna. Þessi börn bera oft eða oftast hið erlenda ættarnafn föður síns og heimilt er að nafnið gangi áfram til niðja þeirra í fyllingu tímans, sbr. 1. málsl. 11. gr. og 2. mgr. 9. gr. laga nr. 37/1991.
    Flest algengustu ættarnöfnin eru kunnugleg, svo sem Thorarensen, Blöndal, Hansen, Thoroddsen og Bergmann. Sé hins vegar litið til fátíðari ættarnafna, þ.e. þeirra ættarnafna sem nú eru að hasla sér völl hér á landi, kemur í ljós að þau eru með allt öðru yfirbragði. Svo að dæmi sé tekið er hvert eftirfarandi 108 ættarnafna nú borið af þremur íslenskum körlum búsettum hér á landi: Adessa, Andreasen, Antoniussen, Banine, Bauer, Becker, Bek, Berry, Bjarkan, Blanco, Brekkan, Brown, Bruun, Busk, Cabrera, Carlsen, Cassata, Chelbat, Cilia, Datye, Danielsen, Davidsen, Edelstein, Eldon, Elmers, Eyvinds, Falkner, Fernandez, Foss, Franklín, Garðars, Glad, Guðmann, Haarde, Haelser, Haralz, Haugen, Heide, Hersir, Hinz, Hopkins, Hounslow, Hólmjárn, Huntingdon-Williams, Huybens, Hvanndal, Ívars, Jabali, Jespersen, Jessen, Jimma, Kaldalóns, Kale, Kaspersen, Kazmi, Kinstry, Kuran, Lee, Lefever, Lemarquis, Lyngmó, Martinez, McKee, Melax, Melstað, Melsteð, Meyer, Miller, Mortensen, Naabye, Nardeau, Nilsen, Ormslev, Pajdak, Passaro, Pollock, Radmanesh, Randrup, Reed, Reykjalín, Reyndal, Reynis, Rist, Rosdahl, Rossen, Rósinkranz, Said, Sanchez, Sen, Shahin, Solheim, Spencer, Stanojev, Strand, Torp, Turner, Tönsberg, Urbancic, Weihe, Weisshappel, Wessman, Wheat, White, Wolfram, Woll, Wöhler, Överby og Özcan.
    Af þessum 108 nöfnum eru einungis 19 sem geta talist íslensk og er þó öllu til tjaldað, svo sem Franklín, Eldon og Haralz.
    Einhver af þessum nöfnum eru vísast borin af fólki sem á eftir að hverfa af landi brott en þó er ástæða til að ætla að flest þeirra muni breiðast út hér á landi. Ýmis af algengustu ættarnöfnum hér á landi bárust hingað til lands með erlendum mönnum sem tóku sér bólfestu hér og er engin ástæða til að ætla að þetta verði með öðrum hætti eftirleiðis en hingað til. Hér má t.d. telja nöfnin Hansen, nú borið af 234 íslenskum ríkisborgurum hér á landi, Möller (160), Olsen (155), Nielsen (129), Richter (76) og Hall (74). Nokkru fátíðari nöfn í þessum flokki eru t.d. Schram (58), Mogensen (43), Diego (30), Kröyer (30) og Cortes (21). Innan fárra áratuga kann því að fara svo að tugir eða hundruð manna beri ýmis af þeim ættarnöfnum sem nú eru einungis borin af örfáum einstaklingum, t.d. Brown, Bruun, Busk, Cabrera, Carlsen, Cassata, Chelbat, Cilia og Datye eða Turner, Tönsberg, Urbancic, Weihe, Weisshappel, Wessman, Wheat, White, Wolfram, Woll, Wöhler, Överby og Özcan.
    Einsýnt er að ættarnöfn eru í hraðari sókn hér á landi en menn gera sér almennt grein fyrir, svo hraðri að íslenska kenninafnasiðnum stendur af henni veruleg ógn. Verði ekkert að gert kann svo að fara að ekki líði margir áratugir þar til kenninafnaflóra Íslendinga einkennist af ættarnöfnum sem þar á ofan verða flest útlend og með æðiframandlegum blæ. Reyndar er nú þegar svo komið að ættarnöfn karla eru nú nokkru fleiri en föðurnöfn þeirra en ættarnöfn kvenna allmiklu fleiri en föðurnöfn þeirra.
    Hér er raunar um fleira að tefla en örlög íslenska kenninafnasiðarins. Ákvæði gildandi mannanafnalaga um kenninöfn mismuna þegnum landsins eftir ætt, uppruna og jafnvel kynferði. Helstu dæmin um mismunun eru þessi:
    Flestir innfæddir Íslendingar eiga ekki val um neitt annað en föður- eða móðurnafn en aðrir geta valið á milli slíks nafns og ættarnafns, jafnvel þótt ættarnafnið eigi í sumum tilvikum rætur að rekja til sjálftöku sem ekki átti sér neina lagastoð.
    Ættarnöfn þeirra sem eru Íslendingar að fæðingu ganga til niðja þeirra en ekki ættarnöfn þeirra sem fengið hafa íslenskan ríkisborgararétt með lögum (nema til þeirra barna þeirra sem eru 16 ára og eldri þegar þeir fá ríkisborgararéttinn, sbr. 4. lið hér á eftir).
    Útlendir karlar hafa í raun lakari nafnrétt en útlendar konur, þótt þeir eigi þess kost að taka sér kenninafn íslensks maka síns (t.d. Jónsdóttir) getur það ekki talist raunverulegt „val“.
    Þess eru jafnvel dæmi að alsystkini hafi ólíkan nafnrétt. Börn þeirra sem fá íslenskan ríkisborgararétt með lögum og hafa náð 16 ára aldri mega halda ættarnafni sínu en yngri alsystkini þeirra ekki.
    Auðsætt er að við svo búið má ekki standa.
    Unnt er að útrýma þessari mismunun með því að lögleiða almennt ættarnafnakerfi hér á landi og leyfa upptöku nýrra íslenskra ættarnafna. Með því móti ynnist einnig það að komið væri í veg fyrir þau hraklegu örlög að kenninöfn Íslendinga verði fyrst og fremst útlend ættarnöfn. Reynsla annarra þjóða bendir til þess að þar sem ættarnöfn fá að þrífast óáreitt við hlið föðurnafna fari ættarnöfnin ávallt með sigur af hólmi og því má búast við að íslensk ættarnöfn hömluðu betur gegn útbreiðslu erlendra ættarnafna en föður- og móðurnöfnin íslensku gera. Þessi aðgerð mundi hins vegar leiða til þess að íslenski kenninafnasiðurinn liði brátt undir lok og er því alls ófýsilegur kostur.
    Önnur leið út úr þessum ógöngum væri að banna ættarnöfn með öllu hér á landi en þótt ýmsum kunni að þykja sú leið æskileg verður að telja hana ófæra. Það er auðsætt brot á mannréttindum að taka af mönnum þau nöfn sem þeir bera. Eins og minnst var á í athugasemdum við III. kafla hugðist nefndin því leggja til að farinn yrði sá meðalvegur í þessu efni að öll ættarnöfn breyttust smám saman í millinöfn, með því móti að ófæddir niðjar þeirra sem nú bera ættarnöfn mættu bera þau sem millinöfn ásamt föður- eða móðurnafni en ekki sem ættarnöfn (þó með þeirri undantekningu að barn mætti fá ættarnafn ef það ætti alsystkini sem þegar bæri nafnið). Það orðalag, sem nefndin hafði í huga, var nokkurn veginn eftirfarandi: „Hver maður skal kenna sig til föður eða móður þannig að . . . Maður sem ber ættarnafn má þó bera það áfram en það gengur ekki til niðja hans. Þó er ávallt heimilt að barn fái sama kenninafn og alsystkini þess.“
    Í upphaflegum hugmyndum nefndarinnar var, eins og nú, enn fremur gert ráð fyrir að niðjar þeirra sem nú bera ættarnöfn mættu bera þau sem millinöfn.
    Áður er minnst á nafnvernd ættarnafna. Nefndin dregur ekki í efa að ættarnöfn njóti ríkrar verndar fyrir hvers konar misnotkun, þar á meðal gegn því að maður taki upp ættarnafn annars manns í heimildarleysi. Á hinn bóginn telur nefndin ekki sýnt að réttur þeirra sem bera ættarnöfn sé svo ríkur að almannavaldinu sé um aldur og ævi ókleift að breyta stöðu ættarnafna í nafnakerfi þjóðarinnar, enda feli breytingin ekki í sér skerðingu á sjálfum einkaréttinum til nafnsins (sem millinafns) og sé gerð með þeim hætti að allir sem þegar bera ættarnöfn fái að bera þau áfram óáreittir. Í þessu sambandi má og minna á að lög nr. 54/1925 skertu rétt margra sem báru ættarnöfn mun freklegar en hér er til umræðu. Þótt sú skerðing næði ekki fram að ganga vegna aðgerðaleysis ríkisvaldsins breytir það því ekki að löggjafinn taldi hana framkvæmanlega.
    Í starfi sínu varð nefndin þess hins vegar áskynja að víða væri hörð andstaða gegn því að nokkuð yrði hróflað við ættarnöfnum. Hefur nefndin því ekki talið raunhæft að halda þessari tillögu til streitu. Nefndin telur þó enn að þessi millinafnaleið sé besta leiðin út úr þeim ógöngum sem kenninafnakerfi Íslendinga hefur ratað í.
    Þar eð nefndin telur sér ekki fært að leggja þennan kost til gerir hún það að tillögu sinni að ákvæði gildandi mannanafnalaga um kenninöfn haldist að mestu óbreytt, þó þannig að dregið verði úr mismunun og sú skorða reist við útbreiðslu ættarnafna að íslenskir ríkisborgarar fái ekki að taka upp ættarnafn maka síns eftirleiðis. Jafnframt hlýtur nefndin þó að ítreka að þessi niðurstaða kann að leiða til þess að Íslendingar muni innan fárra áratuga fyrst og fremst bera kenninöfn sem eru útlend ættarnöfn.
    

Um 8. gr.


    Þessi grein kemur einkum í stað 9. gr. laga nr. 37/1991. Í 4. mgr. er þó ákvæði sem kemur í stað 2. málsl. 11. gr. laga nr. 37/1991, í 2. málsl. 2. mgr. er ákvæði sem svarar til heimildar í 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna og í 6. mgr. er ákvæði 3. mgr. 10. gr. þeirra tekið upp óbreytt.
    Í 1. mgr. er hugtakið „kenninafn“ skilgreint og þarfnast sú skilgreining ekki nánari skýringar.
    Í 1. málsl. 2. mgr. er sett fram sú meginregla að hver maður skuli kenna sig til föður eða móður nema hann eigi rétt til að bera ættarnafn og kjósi það. Þetta ákvæði kemur í stað upphafs 1. mgr. 9. gr. laga nr. 37/1991 og er efnislega óbreytt. Í 2. málsl. er heimilað það frávik að ófeðrað barn sé kennt til afa síns og svarar þetta ákvæði til heimildar 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 37/1991.
    Það kann að þykja óeðlilegt að kenna börn til afa síns þegar svona stendur á og ræddi nefndin það sjónarmið en komst að þeirri niðurstöðu að óhjákvæmilegt væri að hafa þessa heimild áfram í lögum. Þótt kenna megi ófeðrað barn til móður þess ber reynsla Þjóðskrár og mannanafnanefndar órækt vitni um að mæður telja það í flestum tilvikum alveg ófullnægjandi lausn, einkum þegar um drengi er að ræða. Óttast þær einkum að slík kenning valdi barninu áreitni og óþægindum í skóla en reyndar einnig síðar í lífinu. Að sjálfsögðu ætti svo ekki að vera en hér sem oftar sannast að hugsjón um jafnstöðu kynjanna og nafna þeirra er eitt og veruleikinn annað. Þar að auki má benda á að það stuðlar ekki að jafnstöðu kynjanna að skerða þann rétt sem ófeðruð börn og mæður þeirra hafa nú.
    Í 3. mgr. er tekið fram að föður- og móðurnöfn séu dregin af eignarfalli nafns föður eða móður með því að bæta við það son ef karlmaður er en dóttir ef kvenmaður er. Auk kenninafna sem mynduð eru með þessum hætti er nokkuð um kenninöfn sem eru dregin af afbrigðilegu eignarfalli, t.d. Sigurðsson, Magnússon og Jónasdóttir (í stað Sigurðarson, Magnúsarson og Jónasardóttir, sbr. hins vegar Sigurðardóttir). Þótt það sé ekki sérstaklega tekið fram er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að þessi kenninöfn verði áfram heimil, enda hafa þau unnið sér hefð í málinu og eru mynduð í samræmi við rótgrónar orðmyndunarreglur íslenskra kenninafna. Þegar ekki er um slíka hefð að ræða eru samsetningar af þessu tagi hins vegar óheimilar, t.d. Jóndóttir eða Guðmundson, enda brjóta þær í bág við íslenskt málkerfi. Á hinn bóginn verður að líta svo á að rétt mynduð kenninöfn, svo sem Magnúsarson, séu ávallt heimil jafnvel þótt þau kunni að eiga sér litla eða enga hefð.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að heimilt sé með úrskurði mannanafnanefndar að laga kenninöfn sem dregin eru af erlendum nöfnum foreldra að íslensku máli. Standi t.d. þannig á að faðir heiti Sven getur mannanafnanefnd úrskurðað að börn hans megi vera Sveinssynir og Sveinsdætur. Ákvæðið kemur í stað heimildar í 2. málsl. 11. gr. laga nr. 37/1991 en verður nú almennt heimildarákvæði en ekki bundið við börn erlendra karla og íslenskra kvenna.
    Hér er rétt að vekja athygli á að gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að menn af erlendum uppruna hafi sama kenninafnsrétt og aðrir (með þeirri einu undantekningu sem gerð er í 1. mgr. 9. gr. að íslenskir ríkisborgarar mega ekki taka upp ættarnafn maka eftirleiðis). Þannig geta menn nú kennt sig eða börn sín til eiginnafns óháð því hvort nafnið er íslenskt eða fullnægir skilyrðum 5. gr. (en eiginnöfnin sjálf verða hins vegar ekki heimil nema þau samræmist 5. gr.). Á hliðstæðan hátt er réttur manna til að sækja um aðlögun kenninafns nú óháður uppruna þeirra.
    Í 5. mgr. segir að menn, sem bera ættarnöfn við gildistöku laganna, megi bera þau áfram, svo og niðjar þeirra í karllegg og kvenlegg. Ákvæðið svarar til 2. mgr. 9. gr. laga nr. 37/1991 en er nú breytt að því leyti að það er ekki bundið við þá eina sem eru íslenskir ríkisborgarar við gildistöku laganna. Búast má við því að þessi breyting stuðli að enn frekari útbreiðslu ættarnafna hér á landi. Nefndarmönnum er því óljúft að leggja hana til en sjá ekki að unnt sé að komast hjá henni. Það er óhæfa að réttur þeirra sem eru af erlendum uppruna sé gerður minni en annarra með lagasetningu og verður réttur þeirra til ættarnafna því ekki skertur svo að vel fari nema slík aðgerð sé almenn, skerði rétt allra jafnt.
    Í 6. mgr. er tekið fram að þeir sem samkvæmt þjóðskrá eru kenndir til föður eða móður maka síns við gildistöku laganna megi vera það áfram. Ákvæðið er efnislega óbreytt frá 3. mgr. 10. gr. laga nr. 37/1991 og í samræmi við þá stefnu að lögin skuli aldrei vera afturvirk.
    7. og 8. mgr. svara til 3. og 4. mgr. 9. gr. laga nr. 37/1991 og eru efnislega óbreyttar frá þeim. Í 7. mgr. er tekið fram að menn megi ekki bera fleiri en eitt kenninafn. Þótt það sé ekki sérstaklega tekið fram er engu að síður gert ráð fyrir að þeir sem bera tvö kenninöfn við gildistöku laganna megi bera þau áfram, enda eiga lögin ekki að vera afturvirk. Í 8. mgr. er kveðið á um að óheimilt sé að taka upp nýtt ættarnafn hér á landi.

Um 9. gr.


    Þessi grein kemur að mestu í stað 13. og 14. gr. gildandi mannanafnalaga en 3. mgr. svarar þó til 2. mgr. 10. gr. þeirra. Veigamesta breytingin, sem hér er lögð til, er í 1. mgr. þar sem kveðið er á um að íslenskum ríkisborgara sé eftirleiðis óheimilt að taka upp ættarnafn maka síns. Rökin fyrir þessari breytingu eru margvísleg:
    Ákvæði gildandi laga um ættarnöfn valda því að ættarnöfn geta borist til manna sem alls ekki eru af viðkomandi ætt. Þetta gerist með eftirfarandi hætti. Maður tekur upp ættarnafn maka síns og heldur því eftir skilnað eða andlát makans. Maðurinn giftist öðru sinni og börn hans með nýja makanum hafa þá rétt til ættarnafnsins. Nýi makinn á reyndar einnig rétt til þess þótt hann hafi aldrei tengst ættinni og því getur ættarnafnið jafnvel borist til barna hans með enn öðrum karli eða konu sem ekki hefur heldur tengst ættinni með nokkru móti. Með þeirri breytingu sem lögð er til í 1. mgr. er komið í veg fyrir að nokkuð af þessu geti gerst.
    Sá siður að menn taki kenninafn maka síns er útlendur að uppruna. Það er á hinn bóginn höfuðeinkenni íslenska kenninafnakerfisins að hver maður heldur kenninafni sínu óbreyttu frá vöggu til grafar og engin ástæða er til að maður víki frá þessari reglu þótt hann giftist manni sem ber ættarnafn. Með öðrum orðum: Þegar svona stendur á er um tvennt að ræða, að fara að útlendri fyrirmynd eða fylgja íslenskri reglu og ekki eru nein haldbær rök sjáanleg fyrir því að menn taki hina útlendu fyrirmynd fram yfir íslensku regluna.
    Þessi útlendi siður veldur því yfirleitt að kenninöfn kvenna víkja fyrir kenninöfnum karla. Breytingin kemur í veg fyrir það.
    Breytingin hamlar gegn útbreiðslu ættarnafna og á því er ekki vanþörf eins og áður er rakið.
    Eins og áður er minnst á í athugasemdum við 7. gr. er komið nokkuð til móts við þá sem hér eiga í hlut með því að heimila þeim að taka sér ættarnafn maka síns sem millinafn.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að maður, sem við gildistöku laganna ber ættarnafn maka síns, megi bera það áfram og þar er einnig ákvæði um að hann megi bera ættarnafnið áfram eftir að hjúskap lýkur, svo fremi sem dómsmálaráðherra úrskurði ekki að honum sé það óheimilt að framkominni kröfu þar um. Ákvæðið er að mestu óbreytt frá 13. gr. gildandi mannanafnalaga, enda þykir ekki vert að skerða rétt þeirra sem þegar bera ættarnöfn.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að maður, sem hefur tekið upp föður- eða móðurnafn maka síns við búsetu erlendis, skuli leggja það niður við flutning til landsins og að það skuli niðjar þeirra sömuleiðis gera. Ákvæðið er efnislega óbreytt frá 2. mgr. 10. gr. laga nr. 37/1991 að öðru leyti en því að nú ber öllum niðjum hjónanna en ekki aðeins börnum þeirra að leggja kenninafnið niður við flutning til landsins.
    

Um V. kafla.


    Í þessum kafla eru reglur um nafnrétt manna af erlendum uppruna, bæði þeirra sem fá eða hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt og þeirra erlendu ríkisborgara sem eru búsettir hér á landi. Lagt er til að nafnréttur hinna fyrrnefndu og niðja þeirra verði rýmkaður verulega. Með þessari veigamiklu breytingu er stefnt að því að draga úr þeirri mismunun sem gerð var að umtalsefni í athugasemdum við IV. kafla, eftir því sem kostur er.

Um 10. gr.


    Hér segir í 1. mgr. að ákvæði 2. gr. um nafngjöf og 5. gr. um eiginnöfn taki ekki til barns ef báðir foreldrar þess eru erlendir ríkisborgarar eða þegar svo stendur á að barnið er ófeðrað og móðir þess erlend. Málsgreinin svarar til 1. mgr. 8. gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að barn sé að nokkru undanþegið ákvæðum 5., 6. og 7. gr. um eiginnöfn og millinöfn ef annað foreldri þess er erlendur ríkisborgari eða hefur verið það. Ákvæðið samsvarar 2. mgr. 8. gr. gildandi laga.
    Nöfn, sem gefin eru skv. 1. málsl. 2. mgr., skulu að sjálfsögðu ekki færð á mannanafnaskrá.
    

Um 11. gr.


    Þessi grein kemur að mestu í stað 15. gr. gildandi laga og bætir nafnrétt þeirra sem fá eða hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt með lögum.
    Í 1. mgr. er lagt til að maður, sem fær íslenskan ríkisborgararétt með lögum, megi halda fullu nafni sínu óbreyttu. Honum er þó heimilt að taka upp eiginnafn, millinafn og/eða kenninafn í samræmi við ákvæði laganna, þ.e. ákvæði 5. gr. um eiginnöfn, 6. og 7. gr. um millinöfn og 2.–4. mgr. 8. gr. um kenninöfn.
    Í 2. mgr. er tekið fram að ákvæði 1. mgr. eigi við um börn manns sem fær íslenskt ríkisfang með lögum og öðlast íslenskt ríkisfang með honum og í 3. mgr. segir að ákvæði 1. mgr. eigi einnig við um þá sem fá íslenskt ríkisfang skv. 2.–4. gr. laga nr. 100/1952.
    Barn, sem fæðist eftir að foreldri þess hefur fengið íslenskan ríkisborgararétt með lögum, hefur að flestu leyti sama nafnrétt og önnur íslensk börn, t.d. rétt til ættarnafns í samræmi við ákvæði 5. mgr. 8. gr. Að sjálfsögðu tekur undanþágan í 2. mgr. 10. gr. þó til þeirra barna sem hér eiga í hlut og þau eiga einnig rétt á aðlögun kenninafns í samræmi við 4. mgr. 8. gr.
    Í 4. mgr. er lagt til að þeim sem áður hafa fengið íslenskt ríkisfang með því skilyrði að þeir breyttu nöfnum sínum skuli heimilt með leyfi dómsmálaráðherra að taka aftur upp þau nöfn sem þeir báru fyrir og/eða fella niður þau nöfn sem þeim var gert að taka sér, þó þannig að eiginnöfn þeirra og millinöfn verði ekki fleiri en þrjú samtals. Einnig er lagt til að niðjar þessara manna hafi sama rétt. Um nafnbreytingar samkvæmt þessari málsgrein gilda hinar almennu reglur VI. kafla um nafnbreytingar.
    

Um 12. gr.


    Í þessari grein segir að erlendur ríkisborgari, sem stofnar til hjúskapar við Íslending, megi taka upp ættarnafn maka síns ef til er eða kenna sig til föður hans eða móður og skuli kenninafn hans þá dregið af sama eiginnafni og kenninafn maka hans.
    Ákvæðið um ættarnöfn veitir þeim sem í hlut eiga sama rétt og 1. málsl. 13. gr. gildandi laga. Heimild hins erlenda ríkisborgara til að kenna sig til föður eða móður maka síns kemur hins vegar í stað 1. málsl. 10. gr. gildandi laga og felur í sér nokkra breytingu. Í gildandi ákvæði er tekið svo til orða að maðurinn megi kenna sig til föður eða móður maka síns „á sama hátt og hann“. Erlend eiginkona karls sem er Jónsson má því nefna sig „Jónsson“ og erlendur eiginmaður konu sem er Jónsdóttir má á sama hátt nefna sig „Jónsdóttir“. Eins og getið var um í athugasemdum við IV. kafla er nafnréttur karla hér því í rauninni fyrir borð borinn og telur nefndin nauðsynlegt að bæta úr því. Með því orðalagi sem lagt er til fær eiginmaður konu sem er Jónsdóttir rétt til að nefna sig „Jónsson“ (en ekki „Jónsdóttir“) og eiginkona karls sem er Jónsson fær á sama hátt rétt til að nefna sig „Jónsdóttir“ (en ekki „Jónsson“). Hinum erlenda maka er að sjálfsögðu einnig heimilt að halda kenninafni sínu óbreyttu.
    

Um VI. kafla.


    Í þessum kafla eru ákvæði um nafnbreytingar, annars vegar breytingar á eiginnöfnum og millinöfnum í þætti A og hins vegar breytingar á kenninöfnum í þætti B.

Um 13. gr.


    Í 1. mgr. segir að dómsmálaráðherra sé heimilt að leyfa manni breytingu á eiginnafni og/eða millinafni, þar með talið að taka sér viðbótarnafn eða -nöfn og/eða fella niður nafn eða nöfn ef telja verður að ástæður mæli með því.
    Málsgreinin svarar til 1. málsl. 3. mgr. 7. gr. gildandi laga og felur í sér þrjár breytingar. Hin fyrsta er að málsgreinin tekur nú til millinafna eins og eiginnafna og þarfnast sú breyting ekki skýringa. Önnur breytingin er aðeins orðalagsbreyting á þá leið að niðurfelling nafna falli undir nafnbreytingu. Ekki er sérstaklega kveðið á um þetta í 1. málsl. 3. mgr. 7. gr. gildandi laga, en hann hefur þó verið túlkaður þannig að hann taki til niðurfellingar nafns svo að hér er ekki um efnisbreytingu að ræða. Þriðja breytingin er sú að nú er nægjanlegt að ástæður mæli með nafnbreytingu í stað gildra ástæðna áður. Í greinargerð með 7. gr. gildandi laga kemur fram að tilgangur orðalagsins „gildar ástæður“ var að veita þrönga heimild til breytinga á eiginnöfnum. Við framkvæmd laganna hefur hins vegar komið í ljós rík þörf fyrir rýmri heimild til breytinga á eiginnöfnum og leggur nefndin því til þá rýmkun sem að framan greinir. Þessi breyting á þó ekki að leiða til tíðari nafnbreytinga en áður því að í 17. gr. frumvarpsins er kveðið á um að nafnbreytingar skuli einungis heimilaðar einu sinni nema sérstaklega standi á. Á það við um breytingar á eiginnöfnum, millinöfnum og kenninöfnum.
    Þótt heimilt sé að fella nafn niður skal maður að sjálfsögðu ávallt bera að minnsta kosti eitt eiginnafn. Einnig er rétt að benda á að niðurfelling nafns skv. 1. mgr. 13. gr. er annað en breyting á skráningu nafns skv. 20. gr. frumvarpsins, en slík breyting á skráningu getur m.a. falist í því að nafn, sem maður ber í rauninni áfram, er fellt niður í þjóðskrá.
    Barn manns sem hefur breytt eiginnafni sínu má halda kenninafni sínu óbreyttu eða taka upp kenninafn í samræmi við breytt eiginnafn foreldrisins.
    Í 2. mgr. 13. gr. er kveðið á um nafnbreytingar barna undir 16 ára aldri. Málsgreinin svarar til 2. og 3. málsl. 3. mgr. og 2. málsl. 5. mgr. 7. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.
    Í 3. mgr. er sérstök heimild til nafnbreytingar barns við ættleiðingu. Málsgreinin svarar til 4. mgr. 7. gr. gildandi laga og er óbreytt að öðru leyti en því að lagt er til að 2. málsl. þeirrar greinar falli niður, en í honum segir að nafnbreyting barns við ættleiðingu skuli háð samþykki þess sjálfs sé þess kostur. Í staðinn er nú lagt til að um samþykki barnsins fari eftir hinu almenna ákvæði 4. mgr. 13. gr. sem nú skal vikið að.
    Í 4. mgr. segir að breyting á eiginnafni eða millinafni barns undir 16 ára aldri skuli háð samþykki þess hafi það náð 12 ára aldri. Málsgreinin felur í sér þá mikilvægu breytingu að eftirleiðis þarf ávallt að leita eftir samþykki barns, 12 ára eða eldra, við nafnbreytingu þess, en ekki aðeins þegar nafnbreytingin á sér stað við ættleiðingu, eins og er í gildandi lögum. Ákvæðið er reist á virðingu fyrir vilja barnsins og í samræmi við mannréttindasáttmála sem Ísland er aðili að, m.a. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
    Ástæður þess að lagt er til að miða skuli við 12 ára aldur eru að nauðsynlegt þykir að hafa hér skýr aldursmörk og að 12 ára mörkin eru í samræmi við þau aldursmörk sem almennt er miðað við í norrænum rétti. Enn fremur eru þau í samræmi við ákvæði barnalaga, nr. 20/1992, og ættleiðingarlaga, nr. 15/1978. Ekkert mælir þó gegn því að leitað sé eftir samþykki yngra barns ef ástæða þykir til og má ætla að svo verði gert.
    Í 5. mgr. er tekið fram að það sé skilyrði nafnbreytingar að hin nýju nöfn séu á mannanafnaskrá eða samþykkt af mannanafnanefnd, sbr. þó 3. mgr. 6. gr. og 7. og 10. gr. Ákvæðið svarar til 1. málsl. 5. mgr. 7. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 14. gr.


    Hér er kveðið á um breytingar á kenninöfnum barna undir 16 ára aldri eins og tekið er fram í 1. mgr.
    Í 2. mgr. segir að kenna megi ófeðrað barn til stjúpföður þess. Ákvæðið er að efni til óbreyttur 2. málsl. 1. mgr. 12. gr. gildandi laga.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að með leyfi dómsmálaráðherra megi kenna feðrað barn til stjúpforeldris. Málsgreinin samsvarar 2. mgr. 12. gr. gildandi laga. 2. málsl. 2. mgr. þeirrar greinar er þó felldur niður, enda gefur auga leið að beiðni um breytingu á kenninafni barns skal undirrituð af forsjármönnum þess.
    Í 4. mgr. segir að ákvörðun skv. 2. og 3. mgr. skuli háð samþykki stjúpforeldris.
    Ákvæði 5. mgr. er óbreytt 3. mgr. 12. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.
    Í 6. mgr. segir að breyting á kenninafni barns undir 16 ára aldri skuli háð samþykki þess hafi það náð 12 ára aldri. Ákvæðið svarar til hluta af 4. mgr. 12. gr. gildandi laga. Hliðstætt ákvæði er í 4. mgr. 13. gr. frumvarpsins og þarfnast þetta ákvæði því ekki sérstakra skýringa hér.
    

Um 15. gr.


    Þessi grein kemur að hluta í stað 1. mgr. 14. gr. gildandi laga. Í greininni er mælt fyrir um að maður geti fellt niður ættarnafn sitt eða tekið það upp sem millinafn og skal hann þá kenna sig til móður eða föður skv. 3. mgr. 8. gr. Fjallað hefur verið um þessi atriði í athugasemdum við 7. og 8. gr. og er hér vísað til þeirra. Heimild til breytinga samkvæmt þessari grein er ekki bundin við ákveðinn aldur.

Um 16. gr.


    Þessi grein svarar til 16. gr. gildandi laga og er í rauninni efnislega óbreytt. Til að taka af tvímæli er hér þó tekið sérstaklega fram að greinin eigi aðeins við um þá sem hafa náð 16 ára aldri. Heimildir til breytinga á kenninöfnum barna undir 16 ára aldri geta því einungis átt sér stoð í 14. og 15. gr.
    Rétt þykir að ákvæði þessarar greinar verði túlkað þröngt. Ýmsar gildar ástæður geta þó legið til þess að heimila manni kenninafnsbreytingu. Sé kenninafn mjög fátítt kann að standa svo á að það sé sérstaklega tengt þekktum afbrotamanni í hugum almennings og er þá auðsæilega gild ástæða til að heimila þeim sem það ber kenninafnsbreytingu. Einnig geta fátíð kenninöfn verið svo klaufaleg eða jafnvel niðrandi að menn líði beinlínis fyrir að bera þau, en í slíkum tilvikum virðist þó eðlilegt að leitað sé umsagnar mannanafnanefndar áður en breytingin er heimiluð, sbr. ákvæði 3. mgr. 5. gr. um ama sem mannanafnanefnd úrskurðar um. Það kann og að vera sanngjarnt og réttmætt að leyfa manni að kenna sig til stjúp- eða fósturforeldris þegar þannig stendur á að hann hefur lítil sem engin samskipti haft við kynforeldri sitt. Slíkt leyfi yrði að sjálfsögðu háð samþykki stjúp- eða fósturforeldris ef unnt væri að afla þess. Ekki eru sjáanleg rök fyrir því að heimila t.d. 15 ára barni að kenna sig til stjúpforeldris skv. 3. mgr. 14. gr. en ekki 17 ára ungmenni á grundvelli 16. gr.
    Í 1. mgr. 13. gr. er einungis áskilið að ástæður mæli með breytingu á eiginnafni og/eða millinafni en í þessari grein er tekið fram að ástæður fyrir kenninafnsbreytingu þurfi að vera gildar. Það er því ljóst að verulega ríkari ástæður þurfa til að koma til að manni verði heimiluð kenninafnsbreyting en eiginnafns- eða millinafnsbreyting.
    

Um 17. gr.


    Í þessari grein er mælt fyrir um að nafnbreytingar skuli einungis heimilaðar einu sinni nema sérstaklega standi á. Ákvæðið tekur til eiginnafnsbreytinga, millinafnsbreytinga og kenninafnsbreytinga og á jafnt við um breytingar sem aðeins eru tilkynntar Þjóðskrá og breytingar sem dómsmálaráðherra heimilar. Hliðstæð ákvæði eru í lokamálslið 3. mgr. 7. gr. gildandi laga og í lokamálslið 21. gr., hið fyrra um breytingar á eiginnöfnum og hið síðara um breytingar á ritun nafns í þjóðskrá.
    

Um VII. kafla.


    Í þessum kafla eru tekin saman ákvæði um skráningu nafns í þjóðskrá og notkun nafns í opinberum gögnum og lögskiptum. Hér er fátt um nýjungar en þó þykir rétt að skýra hverja grein kaflans sérstaklega.
    

Um 18. gr.


    Í 1. mgr. er tekið fram að við skráningu á kenninafni barns skuli það kennt til föður eða móður skv. 3. mgr. 8. gr. nema tekið sé fram í tilkynningu til Þjóðskrár að barnið skuli bera ættarnafn sem það hefur rétt til. Málsgreinin er efnislega samhljóða 2. mgr. 19. gr. laga nr. 37/1991.
    Í 2. mgr. er nýtt ákvæði þess efnis að allar nafnbreytingar sem ekki eru bundnar leyfi dómsmálaráðherra skuli tilkynntar Þjóðskrá. Þær breytingar, sem um er að ræða, eru eftirfarandi:
    Maður tekur sér millinafn skv. 3. mgr. 6. gr. eða skv. 7. gr., sbr. þó 1. mgr. 13. gr. (þar sem kveðið er á um að einungis ráðherra geti heimilað niðurfellingu nafns sem kann að vera nauðsynleg samhliða upptöku millinafns).
    Aðlögun kenninafns skv. 4. mgr. 8. gr.
    Maður leggur niður föður- eða móðurnafn maka síns við flutning til landsins skv. 3. mgr. 9. gr.
    Erlendur ríkisborgari breytir kenninafni sínu skv. 12. gr.
    Ófeðrað barn er kennt til stjúpföður skv. 2. mgr. 14. gr.
    Maður fellir niður ættarnafn eða breytir því í millinafn skv. 15. gr.
    Breyting á skráningu nafns (eiginnafns, millinafns eða kenninafns) skv. 20. gr., sbr. athugasemdir við þá grein.
    Í 3. mgr. er tekið fram að breyting á nafni taki ekki gildi fyrr en hún hefur verið færð í þjóðskrá. Málsgreinin er samhljóða 1. mgr. 19. gr. laga nr. 37/1991 að öðru leyti en því að hún tekur nú til millinafna auk eiginnafna og kenninafna.
    

Um 19. gr.


    Í 1. mgr. er tekið fram að nöfn manna skuli rituð eins og þau eru skráð í þjóðskrá í öllum opinberum skrám og gögnum. Í 2. mgr. er kveðið á um að menn skuli tjá nafn sitt eins og það er ritað í þjóðskrá í skiptum við opinbera aðila, við samningsgerð og í öllum lögskiptum.
    Greinin er samhljóða 20. gr. laga nr. 37/1991 að öðru leyti en því að skilgreiningin á hugtakinu „fullt nafn“, sem er í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 37/1991, hefur verið gerð að 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins (og tekið tillit til millinafna í skilgreiningunni).
    

Um 20. gr.


    Í þessari grein er tekið fram að Hagstofa Íslands, Þjóðskrá, geti heimilað að ritun nafns í þjóðskrá sé breytt án þess að um sé að ræða eiginlega nafnbreytingu og kveðið nánar á um skilyrði fyrir slíkri ritháttarbreytingu. Greinin er samhljóða 21. gr. laga nr. 37/1991.
    Þær breytingar sem falla undir þessa grein eru eftirfarandi:
    Breyting á rithætti eiginnafns eða millinafns í samræmi við úrskurði mannanafnanefndar um heimila rithætti nafna (t.d. Esther í stað Ester eða öfugt).
    Breyting á nafnritun sem felur það í sér að eiginnafn eða millinafn er fellt úr þjóðskrá eða skammstafað.
    Breyting á kenninafni þannig að menn taki upp ættarnafn sem þeir eiga rétt á eða kenni sig til móður í stað föður eða öfugt. Enn fremur breyting á kenninafni sem felur það í sér að maður kennir sig til annars eiginnafns foreldris en hann hefur áður gert.
    Aðlögun kenninafns skv. 4. mgr. 8. gr. að því tilskildu að mannanafnanefnd hafi þegar fjallað um málið eða alveg hliðstætt mál.
    Óski forsjármenn barns eftir einhverri af framangreindum breytingum á nafnritun þess skulu þeir beina umsókn þar að lútandi til Þjóðskrár.
    

Um VIII. kafla.


    Í þessum kafla eru dregin saman ákvæði um skipan mannanafnanefndar, verksvið hennar og störf. Ákvæði kaflans svara til ákvæða sem voru í 3., 6., 17. og 18. gr. laga nr. 37/1991 og eru að mestu óbreytt.
    

Um 21. gr.


    Hér er kveðið á um að dómsmálaráðherra skipi þrjá aðalmenn og jafnmarga varamenn í mannanafnanefnd til fjögurra ára í senn. Einnig er tekið fram að tveir aðalmenn skuli skipaðir að fengnum tillögum heimspekideildar Háskóla Íslands en einn að fenginni tillögu lagadeildar skólans og að varamenn skuli skipaðir með sama hætti. Loks er tekið fram að nefndin skipti sjálf með sér verkum og að kostnaður af störfum hennar greiðist úr ríkissjóði.
    Þessi grein svarar til 17. gr. laga nr. 37/1991 og er óbreytt að öðru leyti en því að lagt er til að dómsmálaráðherra skipi í mannanafnanefnd að fengnum tillögum heimspekideildar og lagadeildar en ekki eftir tilnefningum þeirra. Þó að lagt sé til að ráðherra sé ekki bundinn af tillögum deildanna má ætla að hann skipi í mannanafnanefnd í samræmi við þær tillögur í langflestum tilvikum. Breytingin er í samræmi við ríkjandi stefnu í lagasetningu.
    

Um 22. gr.


    Þessi grein sameinar 3. og 18. gr. laga nr. 37/1991 en er að mestu óbreytt efnislega.
    Í 1. mgr. eru verkefni mannanafnanefndar talin upp í 1.–3. tölul.
    Í 1. tölul. er nefndinni falið að semja skrá um heimil eiginnöfn og millinöfn skv. 5. og 6. gr., svokallaða mannanafnaskrá. Inn í töluliðinn hafa verið felld ákvæði 3. gr. laga nr. 37/1991 um það hvernig mannanafnaskráin skal gefin út og kynnt en að öðru leyti svarar liðurinn til 1. tölul. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 37/1991, þó þannig að hann tekur nú til millinafna auk eiginnafna.
    Í 2. tölul. er tekið fram að mannanafnanefnd skuli vera prestum, forstöðumönnum skráðra trúfélaga, Hagstofunni, dómsmálaráðherra og forsjármönnum barna til ráðuneytis um nafngjafir og skera úr álita- og ágreiningsefnum um nöfn, sbr. 3., 5., 6., 8., 13. og 23. gr. Töluliðurinn er efnislega samhljóða 2. tölul. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 37/1991.
    Í 3. tölul. er mannanafnanefnd loks falið að skera úr öðrum álita- eða ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um nafngjafir, nafnritun og fleira þess háttar. Töluliðurinn er samhljóða 3. tölul. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 37/1991.
    Í 2. mgr. segir að úrskurðum mannanafnanefndar sé ekki unnt að skjóta til æðra stjórnvalds og að nefndin skuli birta niðurstöður úrskurða sinna árlega. Þessi ákvæði eru efnislega óbreytt frá ákvæðum 2. mgr. 18. gr. laga nr. 37/1991 og orðalagi aðeins hnikað á þann veg að nú segir að úrskurðum mannanafnanefndar sé ekki unnt að skjóta til æðra stjórnvalds en í lögunum segir að þeir séu fullnaðarúrskurðir.
    Það sjónarmið kom fram á fundum nefndarinnar að óeðlilegt væri að Hagstofa Íslands gæfi mannanafnaskrána út. Eftir nokkrar umræður komst nefndin þó að þeirri niðurstöðu að heppilegast væri að hafa sama hátt á um útgáfu skrárinnar og hingað til. Gerð mannanafnaskrár byggist einkum á ýmsum upplýsingum sem mannanafnanefnd verður að sækja til Hagstofu Íslands, Þjóðskrár, m.a. upplýsingum um nöfn í þjóðskrá og tíðni þeirra. Þegar alls er gætt virðist því einfaldast að Hagstofa Íslands standi eftir sem áður að útgáfu skrárinnar.
    

Um 23. gr.


    Hér segir að mannanafnanefnd skuli kveða upp úrskurði í þeim málum sem til hennar er vísað svo fljótt sem við verður komið og ekki síðar en innan fjögurra vikna frá því mál berast nefndinni.
    Þessi grein kemur í stað 6. gr. laga nr. 37/1991. Tvær breytingar hafa verið gerðar á greininni. Sú fyrri er að mannanafnanefnd hefur nú fjögurra vikna frest til að kveða upp úrskurði sína í stað tveggja vikna áður. Þykir ekki fært að gera þá kröfu til nefndarmanna að þeir séu tiltækir á tveggja vikna fresti allan ársins hring, jafnt um hátíðir og á sumarleyfistíma sem ella.
    Síðari breytingin er sú að eftirfarandi ákvæði hefur verið fellt niður: „Ef felldur er synjunarúrskurður skal forsjármaður barns velja því annað eiginnafn. Skal nafn þá ekki fært í þjóðskrá fyrr en barninu hefur verið gefið eiginnafn sem er á mannanafnaskrá eða mannanafnanefnd samþykkir, sbr. enn fremur ákvæði til bráðabirgða II.“ Óþarfi þykir að taka þetta fram í lagatextanum. Það liggur í hlutarins eðli og leiðir af ákvæðum 3. gr. og 1. mgr. 22. gr. að nafn sem er synjað af mannanafnanefnd færist ekki í mannanafnaskrá og er þar af leiðandi óheimilt. Við þessar aðstæður leiðir því af sjálfu sér að forsjármaður barns verður að velja því annað nafn (sé um einnefni að ræða) og að önnur nöfn en þau sem mannanafnanefnd samþykkir færast ekki í þjóðskrá, sbr. þó 3. mgr. 6. gr. og 7. og 10. gr.
    

Um IX. kafla.


    Þessi kafli er nánast óbreyttur V. kafli laga nr. 37/1991 og þykir því óþarft að fjalla sérstaklega um hverja grein hans.
    Í 25. gr., sem svarar til 23. gr. laga nr. 37/1991, er sú smávægilega breyting gerð að hámarksfjárhæð dagsekta er miðuð við vísitölu í janúar 1995 í stað janúar 1991. Auk þess hefur ákvæði 3. mgr. 26. gr. gildandi mannanafnalaga verið fært til og gert að ákvæði til bráðabirgða II.
    Sú hugmynd kom fram í nefndinni að fella niður dagsektarákvæði 25. gr. en eftir viðræður við starfsmenn Þjóðskrár var horfið frá henni. Þótt dagsektarákvæðinu hafi aldrei verið beitt telja starfsmenn Þjóðskrár að það hafi svo mikil varnaðaráhrif að óhjákvæmilegt sé að hafa það áfram í lögum. Jafnframt kom fram í máli þeirra að nafngjafir dragast nú síður á langinn en fyrir gildistöku laga nr. 37/1991 og að mikil umskipti til hins betra hafa orðið að þessu leyti.
    Í 1. mgr. 28. gr. er tekið fram að lögin öðlist gildi 1. janúar 1997. Hin nýja heimild fyrir millinöfnum veldur því að gefa verður út nýja mannanafnaskrá áður en lögin taka gildi og reynslan sýnir að vinna við gerð mannanafnaskrár er mjög tímafrek. Að þessu athuguðu þótti rétt að miða gildistöku við 1. janúar 1997.
    

Um ákvæði til bráðabirgða I.


    Umboðsmaður Alþingis hefur í áliti sínu í tilefni af skráningu Þjóðskrár á mannanöfnum frá 20. september 1994 komist að þeirri niðurstöðu að nokkur aðstöðumunur sé við framkvæmd löggjafar um mannanöfn, þar sem full nöfn þeirra einstaklinga, sem heita mjög löngum nöfnum eða mörgum eiginnöfnum, verða ekki skráð í þjóðskrá. Hann telur nauðsyn bera til að tekið verði til athugunar hvort fært sé að breyta þessu. Verði slíkum breytingum ekki komið við telur hann nauðsynlegt að settar verði skýrar reglur um með hvaða hætti skuli brugðist við þegar fullt nafn verður ekki skráð í þjóðskrá.
    Af tilefni framangreinds álits umboðsmanns Alþingis bar varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, Hjálmar Jónsson, fram fyrirspurn á Alþingi til forsætisráðherra 7. nóvember 1994, m.a. um það hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir breytingu á tölvukerfi Hagstofunnar í þá veru að landsmönnum verði ekki mismunað með þessum hætti. Í svari forsætisráðherra kemur fram að hann muni beita sér fyrir því að þjóðskrá og öðrum opinberum skrám verði breytt. Þetta verk sé hins vegar mjög umfangsmikið og óvisst hvenær því lýkur. Endurnýjun þessi eigi að ná til alls tölvukerfis Þjóðskrár, þar með talið til rýmis fyrir nöfn.
    Þar sem ekki er ljóst hvenær þeirri breytingu verður komið á sem felst í svari forsætisráðherra telur nefndin nauðsynlegt, á grundvelli álits umboðsmanns Alþingis, að lögfesta ákvæði um að Hagstofa Íslands, Þjóðskrá, skuli setja skýrar reglur um skráningu nafna í þeim tilvikum þegar ekki er unnt að skrá nafn manns að fullu í þjóðskrá. Reglur þessar skulu gilda þar til nauðsynlegum breytingum á skráningu þjóðskrár á mannanöfnum verður komið á.
    

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa, en það er óbreytt 3. mgr. 26. gr. laga nr. 37/1991.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa
:
    

Umsögn um frumvarp til laga um mannanöfn.


    Með frumvarpi þessu er verið að endurskoða lög um mannanöfn, nr. 37/1991, og gera á þeim nokkrar breytingar. Gert er ráð fyrir að mannanafnanefnd skv. 21.–22. gr. frumvarpsins muni starfa áfram á sama hátt og hún hefur gert og almenn umsjá dómsmálaráðuneytisins með þessum málaflokki mun verða óbreytt.
    Ekki verður séð að frumvarp þetta hafi kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð verði það að lögum.