Ferill 74. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 74 . mál.


74. Frumvarp til laga



um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist nýr töluliður, 9. tölul., svohljóðandi:
9.     Fyrir háttsemi, sem greinir í samningi gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 10. desember 1984. Mál samkvæmt þessum tölulið skal þó aðeins höfða eftir fyrirskipun dómsmálaráðherra.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Almennar athugasemdir.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan dómsmálaráðherra og fjallar um breytingar á 6. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Eru þessar breytingar taldar nauðsynlegar svo að unnt sé að fullgilda af Íslands hálfu samning á vegum Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 10. desember 1984. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með frumvarpi þessu.
     Jafnframt því sem þetta frumvarp er flutt, verður borin fram af utanríkisráðherra tillaga til þingsályktunar um heimild fyrir ríkisstjórnina til að fullgilda framangreindan samning.

     1.    Alþjóðasamningar þar sem bann er lagt við pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og um varnir gegn pyndingum.
    Samningurinn gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, sem var samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 10. desember 1984, er meðal mikilvægustu grundvallarsamninga um mannréttindi sem hafa verið gerðir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þar skipar hann bekk með alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, báðum frá 1966, alþjóðasamningi um afnám alls kynþáttamisréttis frá 1965, samningi um afnám allrar mismununar gagnvart konum frá 1979 og samningnum um réttindi barnsins frá 1989 en fyrrgreindir alþjóðasamningar hafa allir verið fullgiltir af Íslands hálfu.
    Ísland er aðili að ýmsum alþjóðasamningum um mannréttindi sem fela í sér skuldbindingu um að tryggja að enginn maður innan lögsögu ríkisins þurfi að sæta pyndingum eða annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Elstur slíkra samninga er Genfarsamningur frá árinu 1949 um verndun almennra borgara á stríðstímum. Mikilvægustu ákvæði um efnið í nýrri samningum eru 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi frá 16. desember 1966, 37. gr. samningsins um réttindi barnsins frá 20. nóvember 1989 og 3. gr. Evrópusamnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis (mannréttindasáttmála Evrópu) frá 4. nóvember 1950, en mannréttindasáttmálinn var lögfestur hér á landi með lögum nr. 62/1984. Loks hefur Ísland gerst aðili að Evrópusamningi um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 26. nóvember 1987. Hann nýtur sérstöðu að því leyti að í honum eru ekki bein efnisákvæði um bann við pyndingum heldur hefur hann það markmið helst að bæta eftirlitskerfi innan aðildarríkja að samningnum og að auka vernd réttinda samkvæmt áðurnefndri 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
    Samkvæmt Evrópusamningnum um varnir gegn pyndingum starfar sérstök nefnd sem getur heimsótt þá staði í aðildarríkjunum þar sem frjálsræðissviptir menn eru vistaðir. Nefndin gerir skýrslu um heimsóknina og þær athuganir sem hún hefur gert og er skýrslan send viðkomandi ríki. Ef aðildarríkið fer ekki að tillögum nefndarinnar um úrbætur eða neitar samvinnu getur nefndin gefið út opinbera yfirlýsingu um málið. Vegna aðildar Íslands að Evrópusamningnum um varnir gegn pyndingum voru sett sérstök lög, nr. 15/1990, þar sem settar eru reglur varðandi heimsóknir og störf áðurgreindrar nefndar hér á landi. Sumarið 1993 heimsótti nefndin Ísland og í kjölfar heimsóknarinnar gerði hún ítarlega skýrslu þar sem fram kom álit hennar á aðbúnaði manna sem dvelja í fangelsum, á lögreglustöðvum eftir handtöku og meðferðarstofnun fyrir ósakhæfa afbrotamenn og um önnur atriði. Í athugasemdum nefndarinnar var tekið fram að hún hefði engar ásakanir heyrt um pyndingar eða illa líkamlega meðferð frjálsræðissviptra manna á áðurgreindum stofnunum hér á landi eða orðið annars áskynja sem benti til þess að pyndingar hefðu átt sér stað.
    Þess má geta að aldrei hefur reynt á kæru gegn íslenska ríkinu vegna brota á alþjóðlegum mannréttindaákvæðum um pyndingar fyrir alþjóðlegum stofnunum þar sem kæruleiðir eru veittar vegna brota aðildarríkja á ákvæðum alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og mannréttindasáttmála Evrópu.

2.     Íslensk löggjöf.
    Ákvæði í alþjóðasamningum sem lýst hefur verið að framan þar sem lagðar eru þær skyldur á aðildarríki að leggja bann við pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu hafa ekki orðið tilefni sérstakrar lagasetningar eða lagabreytinga hér á landi. Hefur verið litið svo á að ákvæði almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, hafi veitt borgurunum nægilega refsivernd í þessu tilliti þótt þar sé ekki að finna sérstakt refsiákvæði sem beinist gagngert að banni gegn pyndingum. Sem mikilvægustu ákvæði almennu hegningarlaganna sem koma þess í stað má nefna ýmis ákvæði XXIII. kafla laganna um manndráp og líkamsmeiðingar, einkum 211. gr. um manndráp, 217. og 218. gr. um líkamsárásir, svo og bann við ólögmætri nauðung í 225. gr. laganna, og loks ákvæði XIV. kafla laganna um brot í opinberu starfi, einkum 131., 132. og 134. gr. Í síðastnefndum ákvæðum er meðal annars skýrlega gerð refsiverð háttsemi dómara eða annars opinbers starfsmanns sem á að halda uppi refsivaldi ríkisins og beitir ólöglegri aðferð til þess að koma manni til játningar eða sagna og framkvæmir ólöglegra handtöku, fangelsun eða rannsókn. Eins er lögð refsing við því ef slíkur opinber starfsmaður gætir ekki réttra aðferða við meðferð máls eða úrlausn, handtöku, leit, fangelsun eða framkvæmd refsingar. Loks er sérstakt refsiákvæði um aðstöðu þar sem opinber starfsmaður misnotar stöðu sína til að neyða mann til að gera eitthvað, þola eitthvað eða láta eitthvað ógert.
    Með breytingum, sem gerðar voru á mannréttindaákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar með lögum nr. 97/1995, var í fyrsta skipti bundið í stjórnarskrána fortakslaust bann við pyndingum en 1. mgr. 68. gr. hennar er nú svohljóðandi:
    „Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.“
    Er þetta ákvæði mjög sambærilegt við orðalag ákvæða í alþjóðlegum samningum um bann við pyndingum enda var eitt markmið stjórnarskrárbreytinganna einmitt að endurskoða mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar með tilliti til þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem Ísland hefur gengist undir á vettvangi mannréttinda. Er vafalaust að túlkun, sem hefur mótast í framkvæmd alþjóðlegra mannréttindastofnana á sambærilegum ákvæðum, verður mikilvæg við skýringu á því hvert verður inntak þessa stjórnarskrárákvæðis.

3.     Markmið samningsins.
    Þessi samningur nýtur að ýmsu leyti sambærilegrar sérstöðu og þeirrar sem áður var lýst varðandi Evrópusamning um varnir gegn pyndingum. Þannig eru ekki í honum bein efnisákvæði um bann gegn pyndingum heldur er í formála hans vísað til 5. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og 7. gr. samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Markmið samningsins er fyrst og fremst að setja reglur um hvernig ríki skuli framfylgja banni við pyndingum og uppræta þær og um ráðstafanir sem þeim er skylt að grípa til og fela í sér varnir gegn pyndingum.
    Þótt í samningnum sé látið nægja að vísa til annarra alþjóðasamninga með efnisákvæðum um bann við pyndingum felst ótvírætt mikilvægt efnislegt framlag í 1. gr. hans. Þetta ákvæði er í raun kjarni samningsins þar sem sett er fram ítarleg skilgreining á hugtakinu „pyndingar“ á meðan ákvæði annarra alþjóðasamninga sem fela í sér bann við pyndingum skortir slíka skilgreiningu. Þrátt fyrir að þessi skilgreining hugtaksins geti aldrei orðið afdráttarlaus og bjóði upp á ýmsar leiðir til túlkunar hefur hún almennt verið höfð að leiðarljósi við túlkun ákvæða í öðrum alþjóðlegum samningum þar sem bann er lagt við pyndingum, bæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og hjá stofnunum sem starfa samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu. Þó er óhætt að fullyrða að örðugt er að afmarka inntak hugtaksins pyndingar svo einhlítt sé og er það í reynd enn í mótun í framkvæmd alþjóðastofnana sem taka við kærum um brot á mannréttindasamningum.
    Ekki er reynt að skilgreina hugtökin „önnur grimmileg, ómannleg eða vanvirðandi meðferð“ með sambærilegum hætti og hugtakið pyndingar í upphafsákvæði samningsins. Í 16. gr. samningsins er tekið fram að aðildarríki skuldbindi sig til að hindra að framin verði önnur verk er teljast til grimmilegrar, ómannlegrar eða vanvirðandi meðferðar eða refsingar en skilgreining hugtaksins pyndingar í 1. gr. nær þó ekki til og er síðan sérstaklega vísað til skuldbindinga samkvæmt 10.–13. gr. samningsins.

4.     Skyldur ríkja samkvæmt samningnum til að framfylgja banni gegn pyndingum.
    Ákvæði um skyldur aðildarríkja samkvæmt samningnum, sem skipta máli við mat á því hvort breyta þurfi íslenskri löggjöf, koma fram í I. hluta samningsins, eða í 2.–15. gr. Verður þeim nú lýst í stuttu máli:
    Í 2. gr. er fjallað um virkar ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu eða réttarvörslu og aðgerðir til að koma í veg fyrir pyndingar og að bann við pyndingum sé fortakslaust.
    Í 3. gr. er fjallað um bann við framsali á manni til annars ríkis ef hætta er á að hann sæti þar pyndingum.
    Í 4. gr. er sú skylda lögð á aðildarríki að gera pyndingar refsiverð brot.
    Í 5. gr. er skylda lögð á aðildarríki að gera þær ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að fella brot skv. 4. gr. undir refsilögsögu sína.
    Í 6. gr. er fjallað um gæslu manns sem sakaður er um brot skv. 4. gr.
    Í 7. gr. er fjallað um meðferð refsimáls vegna pyndinga.
    Í 8. gr. er sú skylda lögð á aðildarríki að fella brot skv. 4. gr. undir afbrot sem geta varðað framsali milli ríkja.
    Í 9. gr. er fjallað um gagnkvæma aðstoð á milli aðildarríkja í tengslum við refsimál vegna brota skv. 4. gr.
    Í 10. gr. er fjallað um fræðslu um bann við pyndingum sem aðildarríki skulu tryggja að séu innifalin í þjálfun manna sem fást við gæslu, yfirheyrslur eða meðferð manns sem sætir handtöku, varðhaldi eða fangelsun.
    Í 11. gr. er fjallað um kerfisbundið eftirlit með yfirheyrslureglum og fyrirkomulagi gæslu og meðferðar manna sem sæta handtöku, varðhaldi eða fangelsun.
    Í 12. gr. er skylda lögð á aðildarríki að tryggja að lögbær stjórnvöld hlutist til um málsrannsókn ef grunur leikur á að pyndingar hafi átt sér stað.
    Í 13. gr. er aðildarríkjum gert skylt að tryggja að maður sem heldur fram að hann hafi verið beittur pyndingum geti borið fram kæru þess efnis til lögbærra stjórnvalda.
    Í 14. gr. er fjallað um bótarétt manns sem hefur sætt pyndingum.
    Í 15. gr. er fjallað um skyldu ríkis til að tryggja að engin yfirlýsing, sem fengin hefur verið með pyndingum, sé notuð sem sönnunargagn í málaferlum.

    Þegar litið er til framangreindra skyldna sem ríki gangast undir með aðild að samningnum verður ekki talið að þörf sé á breytingum eða viðbótum við íslenska löggjöf að öðru leyti en því sem leiðir af 5. gr. samningins um ráðstafanir til að víkka út refsilögsögu ríkja. Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á 6. gr. almennra hegningarlaga til þess að færa íslenska löggjöf til samræmis þessu ákvæði samningsins og verður nánar vikið að þeim hér á eftir í sérstökum athugasemdum við 1. gr.
    Í umfjöllun um íslenska löggjöf hér að framan var því lýst að ákvæði almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, veiti nægilega refsivernd til þess að uppfylla skyldu samkvæmt 4. gr. samningsins, þannig að pyndingar verði taldar refsivert brot að íslenskum lögum.
    Hvað varðar skyldur sem samningurinn leggur á aðildarríki í tengslum við framsal í 3. og 8. gr. samningsins og um aðstoð milli ríkja í tengslum við rekstur sakamáls skv. 9. gr. samningsins eru ítarlegar reglur um það efni í lögum nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Er íslensk löggjöf þannig í fullu samræmi við þessi ákvæði samningsins.
    Skyldur, sem eru að öðru leyti lagðar á aðildarríki í ákvæðum samningsins varðandi gæslu manna sem sakaðir eru um að hafa beitt pyndingum, rannsókn, meðferð og úrlausn refsimála vegna pyndinga og um kærurétt og bótarétt þess sem beittur hefur verið pyndingum, má leiða af almennum reglum laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 og er því ekki þörf lagabreytinga á þeim vettvangi.
    Þess má loks geta að skipun sérstakrar nefndar gegn pyndingum skv. II. hluta samningsins kallar ekki á neinar lagabreytingar í íslenskri löggjöf. Sambærilegar nefndir eru starfandi samkvæmt öðrum mannréttindasamningum á vegum Sameinuðu þjóðanna sem Ísland er aðili að, svo sem samningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, samningnum um afnám alls kynþáttamisréttis. samningnum um afnám allrar mismununar gagnvart konum og samningnum um réttindi barnsins, án þess að þær hafi orðið tilefni lagasetningar hér á landi. Eftirlitsstarf nefndarinnar gegn pyndingum samkvæmt þessum samningi er mjög frábrugðið starfi nefndar samkvæmt Evópusamningnum um varnir gegn pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu sem varð tilefni setningar laga nr. 15/1990. Þessi samningur leggur engar sambærilegar skyldur á aðildarríki að veita nefndinni sem starfar samkvæmt honum rétt til heimsækja þau og rannsaka aðstæður frjálsræðissviptra manna innan þeirra. Eftirlitsstarf nefndarinnar samkvæmt samningi þessum felst þannig fyrst og fremst í að rannsaka skýrslur sem aðildarríki senda henni um framkvæmd samningsins. Nefndin getur einnig tekið til athugunar erindi sem henni berast um að aðildarríki hafi brotið gegn ákvæðum samningsins, en þó aðeins að því tilskildu að aðildarríki hafi gefið sérstaka yfirlýsingu um að það viðurkenni þetta vald nefndarinnar, sbr. 21. gr. samningsins.
    Samþykkt þessa lagafrumvarps leiðir hvorki til ríkisútgjalda né neins konar aukinna ríkisumsvifa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Almenn ákvæði um refsilögsögu íslenska ríkisins er að finna í I. kafla almennra hegningarlaga í 4.–6. gr. Samkvæmt þessum reglum er unnt að refsa eftir íslenskum hegningarlögum þegar eitthvert eftirtalinna skilyrða er uppfyllt:
    brotið er framið innan íslenska ríkisins eða á íslenskum skipum eða í íslenskum loftförum,
    fyrir brot sem íslenskir ríkisborgarar eða menn búsettir á Íslandi hafa framið erlendis og einnig ef brotamaður er ríkisborgari í eða búsettur í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð og dvelst hér á landi,
    brotið er gegn sjálfstæði ríkisins, öryggi þess, stjórnskipan og stjórnvöldum,
    brotið er á skyldum, sem þeim er verkið vann, bar samkvæmt íslenskum lögum að rækja erlendis, svo og á skyldum samkvæmt ráðningu á íslenskt far,
    brotið er gegn hagsmunum íslensks ríkisborgara eða manna búsettra á Íslandi ef brot er framið á stað þar sem refsivald annarra ríkja nær ekki til að þjóðarétti eða
    um er að ræða brot sem milliríkjasamningar samkvæmt 4.–7. tölul. 6. gr. alm. hegningarlaga taka til svo og ef um ræðir rangan eiðfestan framburð fyrir EFTA dómstólnum sbr. 8. tölul. 6. gr.
    Samkvæmt framangreindum reglum um refsilögsögu er unnt að saksækja mann vegna háttsemi sem greinir í 1. gr., sbr. 4. gr. samningsins í tilvikum sem talin eru í a- og b-lið 1. mgr. 5. gr. samningsins. Að óbreyttum íslenskum lögum er hins vegar ekki unnt að saksækja mann hér á landi fyrir slíka háttsemi í tilvikum sem eru talin í c-lið 1. mgr. og í 2. mgr. 5. gr. samningsins. Sem dæmi um tilvik sem falla utan íslenskrar refsilögsögu má nefna að ekki er unnt að saksækja mann sem hefur brotið gegn íslenskum ríkisborgara ef brotið er framið á stað sem refsilögsaga annarra ríkja nær til, en c-lið 1. mgr. 5. gr. samningsins er ætlað að ná til þessara aðstæðna. Einnig má nefna að samkvæmt núgildandi íslenskum lögum er ekki unnt, eins og krafa er gerð um í 2. mgr. 5. gr. samningsins, að saksækja útlending hér á landi sem er ekki Norðurlandabúi og er búsettur erlendis, ef hann er handtekinn hér á landi eftir að hafa fullframið pyndingabrot utan íslensks yfirráðasvæðis og ekki er hægt að framselja hann.
    Til þess að hamla gegn því að brotamenn geti komist undan refsingu og fundið griðastað hér á landi vegna lagareglna sem takmarka refsilögsögu íslenska ríkisins er nauðsynlegt að bæta við 6. gr. almennu hegningarlaganna ákvæði um að unnt sé að refsa manni fyrir háttsemi sem greinir í samningnum án tillits til ríkisfangs hans, búsetu eða brotastaðar. Er þessi útvíkkun refsilögsögu sambærileg við ákvæði sem áður hefur verið bætt við 6. gr. samhliða fullgildingu einstakra alþjóðasamninga. Um er að ræða eftirfarandi ákvæði:
—    4. tölul. 6. gr. vegna háttsemi sem greinir í alþjóðasamningi frá 23. september 1971 um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna.
—    6. tölul. 6. gr. vegna háttsemi sem greinir í 1. gr. Evrópusamnings frá 27. janúar 1977 um varnir gegn hryðjuverkum.
—    7. tölul. 6. gr. vegna háttsemi sem greinir í alþjóðasamningi um varnir gegn töku gísla frá 18. desember 1979.
    Til þess að slá varnagla við fyrirhuguðu víðtæku refsivaldi, er lagt til að ákvörðun um ákæru skuli vera í höndum dómsmálaráðherra. Er þetta gert til samræmis við ákvæði 4., 6. og 7. tölul. 6. gr. varðandi framangreinda samninga.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal I.


Samningur gegn pyndingum og annarri grimmilegri,


ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.



    Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum,
    sem telja, í samræmi við meginreglur þær er fram koma í sáttmála Sameinuðu þjóðanna, að viðurkenning á jöfnum og óafsalanlegum réttindum allra manna séu undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum,
    sem viðurkenna að réttindi þessi grundvallist á meðfæddri göfgi mannsins,
    sem hafa í huga skuldbindingar ríkja samkvæmt sáttmálanum, sérstaklega skv. 55. gr., að efla almenna virðingu fyrir og halda í heiðri mannréttindi og grundvallarfrelsi,
    sem hafa hliðsjón af 5. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem báðar kveða á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu,
    sem einnig hafa hliðsjón af yfirlýsingu um vernd allra manna gegn því að sæta pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, sem samþykkt var á allsherjarþinginu hinn 9. desember 1975,
    sem vilja að baráttan gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði árangursríkari um heim allan,
    hafa komið sér saman um eftirfarandi:

I. HLUTI


1. gr.

    1. Í samningi þessum merkir hugtakið „pyndingar“ hvern þann verknað, sem manni er vísvitandi valdið alvarlegum líkamlegum eða andlegum sársauka eða þjáningu með, í því skyni að fá hjá honum eða þriðja manni upplýsingar eða játningu, refsa honum fyrir verk sem hann eða þriðji maður hefur framið eða er grunaður um að hafa framið, eða til að hræða eða neyða hann eða þriðja mann, eða af ástæðum sem byggjast á mismunun af einhverju tagi, þegar sársauka eða þjáningu er þannig valdið fyrir eða með frumkvæði eða með samþykki eða umlíðun opinbers starfsmanns eða annars manns sem er handhafi opinbers valds. Hugtakið tekur ekki til sársauka eða þjáningar sem einungis má rekja til eða tilheyrir eða leiðir af lögmætum viðurlögum.
    2. Grein þessi skerðir ekki gildi neins alþjóðasamnings eða ákvæða í landslögum sem hafa eða kunna að hafa ákvæði sem ganga lengra.

2. gr.

    1. Hvert aðildarríki skal gera virkar ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu og réttarvörslu, eða aðrar ráðstafanir til að koma í veg fyrir pyndingar á sérhverju landsvæði í lögsögu þess.
    2. Hvernig sem á stendur má aldrei höfða til sérstakra aðstæðna af nokkru tagi, svo sem ófriðarástands, ófriðarhættu, ótryggs stjórnmálaástands innanlands, eða nokkurs annars almenns neyðarástands til réttlætingar pyndingum.
    3. Ekki má vísa til fyrirmæla yfirboðara eða stjórnvalds til réttlætingar pyndingum.

3. gr.

    1. Ekkert aðildarríki skal vísa úr landi, endursenda (refouler) eða framselja mann til annars ríkis, ef veruleg ástæða er til að ætla að hann eigi þar á hættu að sæta pyndingum.
    2. Þegar ákveðið er hvort slíkar ástæður eru fyrir hendi skulu þar til bær yfirvöld hafa hliðsjón af öllum atriðum sem máli skipta, þar á meðal, eftir því sem við á, hvort í ríki því sem um ræðir viðgangist áberandi, gróf eða stórfelld mannréttindabrot.

4. gr.

    1. Hvert aðildarríki skal tryggja að pyndingar af öllu tagi teljist til afbrota samkvæmt refsilögum þess. Það sama skal gilda um tilraun til pyndinga og verk hvers þess manns sem telst aðili að eða þátttakandi í pyndingum.
    2. Hvert aðildarríki skal leggja hæfilegar refsingar við brotum þessum sem taka tillit til þess hversu alvarleg þau eru.

5. gr.

    1. Í eftirgreindum tilvikum skal hvert aðildarríki gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að fella þau brot sem um ræðir í 4. gr. undir lögsögu sína:
    Þegar brotin eru framin á landsvæði innan lögsögu þess, eða um borð í skipi eða loftfari sem skráð er í því ríki.
    Þegar sökunautur er þegn þess ríkis.
    Þegar sá sem fyrir broti verður er þegn þess ríkis og viðkomandi ríki telur rétt að gera svo.
    2. Sömuleiðis skal hvert aðildarríki gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að fella slík brot undir lögsögu þess ef sökunautur er staddur á landsvæði í lögsögu þess og hann er ekki framseldur skv. 8. gr. til einhvers þess ríkis sem 1. mgr. þessarar greinar tekur til.
    3. Samningur þessi skal ekki hindra beitingu neinnar refsilögsögu samkvæmt landslögum.

6. gr.


    1. Hvert aðildarríki skal, ef maður sem sakaður er um að hafa framið eitthvert þeirra brota sem um ræðir í 4. gr. er staddur innan lögsögu þess, er það hefur athugað þær upplýsingar sem því eru tiltækar og gengið úr skugga um að aðstæður réttlæti það, taka hann í gæslu eða gera aðrar ráðstafanir samkvæmt lögum til að tryggja nærveru hans. Um gæslu eða aðrar ráðstafanir samkvæmt lögum skal fara að lögum þess ríkis, en ekki mega ráðstafanir þessar haldast lengur en nauðsyn krefur til að unnt sé að höfða refsimál eða hlutast til um framsal.
    2. Viðkomandi ríki skal þegar framkvæma frumrannsókn á málavöxtum.
    3. Manni, sem hafður er í gæslu skv. 1. mgr. þessarar greinar, skal veitt aðstoð til að hafa þegar í stað samband við næsta fulltrúa hlutaðeigandi ríkis þar sem hann er þegn, eða, sé hann ríkisfangslaus, við fulltrúa þess ríkis þar sem hann dvelur að jafnaði.
    4. Þegar ríki hefur tekið mann í gæslu samkvæmt þessari grein skal það þegar tilkynna þeim ríkjum sem um getur í 1. mgr. 5. gr. að maðurinn sé þar í gæslu og um þær ástæður sem hún er byggð á. Ríki það, sem framkvæmir frumrannsókn þá sem gert er ráð fyrir í 2. mgr. þessarar greinar, skal þegar í stað tilkynna áðurgreindum ríkjum um það sem fram hefur komið og taka fram hvort það ætli að beita lögsögu sinni.

7. gr.

    1. Í þeim tilvikum sem um er fjallað í 5. gr. skal aðildarríki, ef á landsvæði í lögsögu þess er að finna mann sem sakaður er um að hafa framið eitthvert þeirra brota sem um ræðir í 4. gr., fela málið þar til bærum yfirvöldum sínum til höfðunar refsimáls ef maðurinn er ekki framseldur.
    2. Yfirvöld þessi skulu taka ákvörðun sína á sama hátt og um hvert annað alvarlegt afbrot væri að ræða samkvæmt lögum þess ríkis. Í tilvikum þeim sem um ræðir í 2. mgr. 5. gr. skulu kröfur um fyrirliggjandi sönnunargögn til höfðunar refsimáls og sakfellingar á engan hátt vera minni en þær sem við eiga í tilvikum þeim sem um ræðir í 1. mgr. 5. gr.
    3. Hverjum þeim manni, sem refsimál er höfðað gegn vegna brota sem um ræðir í 4. gr., skal tryggð réttlát málsmeðferð á öllum stigum málsins.

8. gr.

    1. Í öllum framsalssamningum sem þegar eru fyrir hendi milli aðildarríkja skal litið svo á að brot þau, sem um ræðir í 4. gr., teljist til afbrota sem geta varðað framsali. Aðildarríki skuldbinda sig til að fella slík brot undir afbrot sem varðað geta framsali í öllum framsalssamningum sem síðar eru gerðir milli þeirra.
    2. Nú berst aðildarríki, sem setur það skilyrði fyrir framsali að milliríkjasamningur sé fyrir hendi, framsalsbeiðni frá öðru ríki sem það hefur ekki gert framsalssamning við, og má það þá líta svo á sem samningur þessi veiti lagagrundvöll til framsals að því er slík brot varðar. Framsal skal háð öðrum skilyrðum sem lög þess ríkis sem framsalsbeiðni er beint til kveða á um.
    3. Aðildarríki, sem ekki setja það skilyrði fyrir framsali að milliríkjasamingur sé fyrir hendi, skulu sín á milli telja slík brot til afbrota sem varðað geti framsali samkvæmt þeim skilyrðum sem lög þess ríkis sem framsalssbeiðni er beint til setja.
    4. Að því er varðar framsal milli aðildarríkja skal farið með slík brot eins og þau hefðu verið framin bæði á þeim vettvangi þar sem þau áttu sér stað og einnig á landsvæði ríkja þeirra sem fella þau undir lögsögu sína skv. 1. mgr. 5. gr.

9. gr.

    1. Aðildarríki skulu af fremsta megni aðstoða hvert annað í tengslum við meðferð refsimáls vegna sérhvers þess brots sem um ræðir í 4. gr., þar með talið með afhendingu allra sönnunargagna sem þeim eru tiltæk og þörf er á við meðferð málsins.
    2. Aðildarríki skulu rækja skyldur sínar skv. 1. mgr. þessarar greinar í samræmi við sérhvern þann samning um gagnkvæma réttaraðstoð sem í gildi kann að vera milli þeirra.

10. gr.

    1. Hvert aðildarríki skal tryggja að kennsla og upplýsingar um bann við pyndingum verði gagngert innifaldar í þjálfun löggæslumanna á vegum borgaralegra yfirvalda eða hers, starfsfólks í heilsugæslu, opinberra starfsmanna og annarra sem kunna að fást við gæslu, yfirheyrslu eða meðferð hvers þess manns sem sætir handtöku, gæslu eða fangelsun af nokkru tagi.
    2. Hvert aðildarríki skal tilgreina bann þetta í reglum þeim eða fyrirmælum sem sett eru með hliðsjón af skyldum og verksviði allra slíkra starfsmanna.

11. gr.

    Hvert aðildarríki skal á kerfisbundinn hátt hafa eftirlit með yfirheyrslureglum, fyrirmælum, aðferðum, starfsvenjum og fyrirkomulagi við gæslu og meðferð manna sem sæta handtöku, gæslu eða fangelsun af nokkru tagi á öllum landsvæðum innan lögsögu þeirra, í því skyni að koma í veg fyrir að hvers konar pyndingar eigi sér stað.

12. gr.

    Hvert aðildarríki skal tryggja að þar til bær yfirvöld þess hlutist þegar til um óhlutdræga rannsókn hvenær sem skynsamleg ástæða er til að ætla að pyndingar hafi átt sér stað á nokkru landsvæði innan lögsögu þess.

13. gr.

    Hvert aðildarríki skal tryggja að sérhver einstaklingur sem heldur því fram að hann hafi verið beittur pyndingum á einhverju landsvæði í lögsögu þess, eigi rétt á að bera fram kæru til þar til bærra yfirvalda þess, og að mál hans sæti þegar óhlutdrægri rannsókn af þeirra hálfu. Gera skal ráðstafanir til að tryggja að kærandinn og vitni séu vernduð fyrir illri meðferð eða hótunum sem rekja má til kærunnar eða skýrslna sem gefnar hafa verið.

14. gr.

    1. Hvert aðildarríki skal í réttarkerfi sínu tryggja að sá sem hefur sætt pyndingum hljóti uppreisn og eigi framkvæmanlegan rétt til sanngjarnra og fullnægjandi bóta, þar með talið fyrir allri þeirri endurhæfingu sem kostur er á. Hljóti maður sem sætt hefur pyndingum bana af afleiðingum þeirra skulu þeir sem hann framfærir eiga rétt á bótum.
    2. Ákvæði þessarar greinar skulu engin áhrif hafa á bótarétt sem þegar er fyrir hendi í landslögum til þess er sætt hefur pyndingum eða annarra.

15. gr.

    Hvert aðildarríki skal tryggja að engin yfirlýsing sem reynst hefur verið fengin með pyndingum sé notuð sem sönnunargagn við meðferð máls, nema gegn þeim sem sakaður er um pyndingar til sönnunar því að yfirlýsingin hafi verið veitt.

16. gr.

    1. Hvert aðildarríki skuldbindur sig til að hindra að á nokkru landsvæði í lögsögu þess séu framin önnur verk er teljast til grimmilegrar, ómannlegrar eða vanvirðandi meðferðar eða refsingar, en skilgreining hugtaksins pynding í 1. gr. nær þó ekki til, þegar slík verk eru framin af eða fyrir frumkvæði eða með samþykki eða umlíðun opinbers starfsmanns eða annars manns sem er handhafi opinbers valds. Sérstaklega skulu skuldbindingar þær gilda sem um getur í 10., 11., 12. og 13. gr. þannig að í stað þess að vísað sé til pyndinga sé vísað til annarrar grimmilegrar, ómannlegrar eða vanvirðandi meðferðar eða refsingar.
    2. Ákvæði samnings þessa skerða ekki gildi neinna annarra alþjóðasamninga eða ákvæði í landslögum sem leggja bann við grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, eða tengjast framsali eða brottvísun úr landi.

II. HLUTI


17. gr.

    1. Stofna skal nefnd gegn pyndingum (hér eftir kölluð nefndin) sem rækja skal skyldur þær sem kveðið er á um hér á eftir. Nefndin skal skipuð tíu sérfræðingum, vammlausum og viðurkenndum að þekkingu á sviði mannréttinda, og skulu þeir skipa sæti sitt sem einstaklingar. Skulu sérfræðingarnir kjörnir af aðildarríkjunum, að teknu tilliti til landfræðilegrar dreifingar og gagnsemi þess að sumir nefndarmenn hafi lögfræðilega starfsreynslu.
    2. Nefndarmenn skulu kjörnir leynilegri kosningu af skrá um menn sem aðildarríki hafa tilnefnt. Hvert aðildarríki getur tilnefnt einn mann úr hópi þegna sinna. Skulu aðildarríki hafa í huga gagnsemi þess að tilnefna menn sem einnig eiga sæti í mannréttindanefndinni sem stofnuð var samkvæmt alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og vilja sitja í nefndinni gegn pyndingum.
    3. Kosning nefndarmanna skal fara fram á fundum aðildarríkjanna sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna kallar saman á tveggja ára fresti. Á fundum þessum, sem eru lögmætir ef þeir eru sóttir af tveimur þriðju hlutum aðildarríkjanna, skulu þeir taldir kjörnir í nefndina sem hljóta flest atkvæði og hreinan meiri hluta atkvæða fulltrúa aðildarríkjanna sem viðstaddir eru og greiða atkvæði.
    4. Fyrsta kosning skal fara fram eigi síðar en sex mánuðum eftir að samningur þessi öðlast gildi. Eigi síðar en fjórum mánuðum fyrir hverja kosningu skal aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna senda aðildarríkjunum bréf og bjóða þeim að senda tilnefningar sínar innan þriggja mánaða. Aðalframkvæmdastjórinn skal gera skrá í stafrófsröð um alla þá sem þannig eru tilnefndir þar sem getið er aðildarríkja sem tilnefndu þá og skal leggja hana fyrir aðildarríkin.
    5. Kjörtímabil nefndarmanna er fjögur ár. Þá má endurkjósa ef þeir eru tilnefndir að nýju. Þó rennur kjörtímabil fimm þeirra nefndarmanna sem kjörnir eru í fyrstu kosningunni út að tveimur árum liðnum. Þegar eftir fyrstu kosninguna skal fundarstjóri fundar þess sem um ræðir í 3. mgr. þessarar greinar velja nöfn þessara fimm manna með hlutkesti.
    6. Nú deyr nefndarmaður eða segir af sér, eða getur ekki af öðrum ástæðum rækt nefndarstörf sín, og skal þá aðildarríkið sem tilnefndi hann skipa annan sérfræðing af þegnum sínum til setu í nefndinni það sem eftir lifir kjörtímabils hans, að áskildu samþykki meiri hluta aðildarríkja. Samþykki skal talið veitt nema að minnsta kosti helmingur aðildarríkja svari neitandi inna sex vikna eftir að aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur tilkynnt þeim um hina fyrirhuguðu skipun.
    7. Aðildarríki standa straum af kostnaði nefndarmenna vegna starfa þeirra fyrir nefndina.

18. gr.

    1. Nefndin kýs embættismenn sína til tveggja ára í senn. Þá má endurkjósa.
    2. Nefndin setur sér sjálf starfsreglur. Þar skal meðal annars koma fram fram að:
    fundur sé lögmætur ef sex nefndarmenn sitja hann,
    ákvarðanir nefndarinnar skuli teknar með meiri hluta atkvæða viðstaddra nefndarmanna.
    3. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal sjá nefndinni fyrir nauðsynlegu starfsliði og aðstöðu til þess að hún geti rækt starf sitt á fullnægjandi hátt samkvæmt samningi þessum.
    4. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal kalla saman fyrsta fund nefndarinnar. Að honum loknum skal nefndin koma saman á þeim tímum sem ákveðið er í starfsreglum hennar.
    5. Aðildarríki skulu standa straum af kostnaði í tengslum við fundahöld þeirra og nefndarinnar, og þar á meðal endurgreiða Sameinuðu þjóðunum öll útgjöld vegna starfsliðs og aðstöðu skv. 3. mgr. þessarar greinar.

19. gr.

    1. Aðildarríki skulu, fyrir milligöngu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, leggja fyrir nefndina, innan eins árs frá því er samningur þessi tekur gildi gagnvart þeim, skýrslur um ráðstafanir þær sem þau hafa gert til að framkvæma skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum. Skulu aðildarríki síðan afhenda viðbótarskýrslur á fjögurra ára fresti um allar nýjar ráðstafanir sem þau hafa gert og aðrar þær skýrslur sem nefndin kann að fara fram á.
    2. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal senda öllum aðildarríkjum skýrslur þessar.
    3. Nefndin skal taka hverja skýrslu til athugunar, og gera athugasemdir um skýrslu eftir því sem hún sér ástæðu til en skal senda athugasemdirnar hlutaðeigandi aðildarríki. Getur aðildarríkið síðan brugðist við með því að senda nefndinni þær útskýringar sem það kýs.
    4. Ef nefndinni sýnist svo getur hún ákveðið að birta athugasemdir sem hún kann að hafa gert skv. 3. mgr. þessarar greinar ásamt útskýringum hlutaðeigandi aðildarríkis sem borist hafa í ársskýrslu sinni skv. 24. gr. Fari hlutaðeigandi aðildarríki fram á það, getur nefndin einnig birt skýrsluna sem lögð er fram skv. 1. mgr. þessarar greinar.

20. gr.

    1. Nú berast nefndinni áreiðanlegar upplýsingar sem henni þykir fela í sér traustar vísbendingar um að pyndingar séu stundaðar á kerfisbundinn hátt á landsvæði aðildarríkis, og skal hún þá bjóða því aðildarríki að starfa með sér að athugun upplýsinganna og leggja fram athugasemdir um viðkomandi upplýsingar í því skyni.
    2. Nefndin getur, með hliðsjón af athugasemdum sem viðkomandi aðildarríki kann að hafa lagt fram og öðrum upplýsingum sem henni eru tiltækar og málið varðar, og ef henni þykir rétt að gera svo, skipað einn eða fleiri nefndarmenn til að framkvæma rannsókn í trúnaði og gefa nefndinni skýrslu með hraði.
    3. Fari rannsókn fram skv. 2. mgr. þessarar greinar skal nefndin leita samstarfs við viðkomandi aðildarríki. Ef aðildarríkið samþykkir það getur heimsókn til landsvæðis þess orðið þáttur í slíkri rannsókn.
    4. Að lokinni athugun á niðurstöðum nefndarmanns eða -manna, sem fram eru lagðar skv. 2. mgr. þessarar greinar, skal nefndin senda þær viðkomandi aðildarríki ásamt umsögn þeirri eða tillögum sem viðeigandi eru með hliðsjón af aðstæðum.
    5. Öll sú málsmeðferð nefndarinnar, sem fjallað er um í 1.–4. mgr. þessarar greinar, skal fara fram með leynd, og skal á öllum stigum hennar leita samstarfs aðildarríkisins. Er slíkri málsmeðferð varðandi rannsókn skv. 2. mgr. er lokið getur nefndin að höfðu samráði við hlutaðeigandi aðildarríki ákveðið að birta samantekt um árangur málsmeðferðarinnar í ársskýrslu sinni sem gerð er skv. 24. gr.

21. gr.

    1. Aðildarríki að samningi þessum getur hvenær sem er lýst því yfir samkvæmt þessari grein að það viðurkenni að nefndin sé bær til að taka á móti og athuga erindi þar sem aðildarríki heldur því fram að annað aðildarríki framfylgi ekki skyldum sínum samkvæmt samningi þessum. Slíkum erindum má aðeins veita viðtöku og taka þau til athugunar samkvæmt málsmeðferðarreglum þessarar greinar ef þau koma frá aðildarríki sem hefur lýst því yfir að nefndin sé til þess bær að því er það sjálft varðar. Nefndin skal ekki taka erindi til athugunar samkvæmt þessari grein ef það varðar aðildarríki sem ekki hefur gefið slíka yfirlýsingu. Með erindi sem berast samkvæmt grein þessari skal farið samkvæmt eftirfarandi málsmeðferðarreglum:
    Ef aðildarríki álítur að annað aðildarríki framfylgi ekki ákvæðum samnings þessa getur það í skriflegu erindi vakið athygli þess á málinu. Innan þriggja mánaða frá móttöku erindisins skal móttökuríkið veita ríki því sem erindið sendi skýringu eða sérhverja aðra skriflega yfirlýsingu til útskýringar málinu, og er rétt að þar sé eftir því sem gerlegt er og við á vísað til þeirrar málsmeðferðar og úrræða sem gripið hefur verið til, yfir standa eða tiltæk eru innan lands.
    Ef málið er ekki útkljáð svo fullnægjandi sé fyrir bæði hlutaðeigandi aðildarríki innan sex mánaða frá því að móttökuríkið tók á móti upphaflegu orðsendingunni skal hvoru ríki um sig rétt að vísa málinu til nefndarinnar með tilkynningu til hennar og hins ríkisins.
    Nefndin skal aðeins fjalla um mál sem vísað er til hennar samkvæmt þessari grein eftir að hún hefur gengið úr skugga um að í málinu hafi verið reynt að neyta allra úrræða innan lands og þau tæmd í samræmi við almennt viðurkenndar meginreglur þjóðaréttar. Þetta gildir þó ekki ef beiting úrræðanna dregst óhæfilega á langinn eða er ólíkleg til þess að veita þeim manni sem orðið hefur fyrir broti á samningi þessum raunhæfar úrbætur.
    Nefndin skal halda fundi fyrir luktum dyrum er athugun á erindum samkvæmt þessari grein fer fram.
    Að gættum ákvæðum c-liðar skal nefndin af fremsta megni veita hlutaðeigandi aðildarríkjum liðsinni sitt með það fyrir augum að komast að vinsamlegri lausn í málinu byggðri á virðingu fyrir skuldbindingum samnings þessa. Í því skyni getur nefndin skipað sérstaka sáttanefnd þegar það á við.
    Í sérhverju máli sem vísað er til nefndarinnar samkvæmt þessari grein getur nefndin beint því til hlutaðeigandi aðildarríkja sem greinir í c-lið að láta í té allar upplýsingar sem máli skipta.
    Hlutaðeigandi aðildarríki sem greinir í b-lið, eiga rétt á að eiga málsvara þegar mál er til athugunar hjá nefndinni, og koma að munnlegum og/eða skriflegum athugasemdum.
    Innan tólf mánaða frá móttökudegi tilkynningar samkvæmt b-lið skal nefndin leggja fram skýrslu:
         (i)     Náist lausn samkvæmt ákvæðum e-liðar, skal nefndin einskorða skýrslu sína við stutta greinargerð um staðreyndir og lausn þá sem náðst hefur.
         (ii)    Náist ekki lausn samkvæmt ákvæðum e-liðar, skal nefndin einskorða skýrslu sína við stutta greinargerð um staðreyndir málsins. Þau skriflegu gögn, sem lögð voru fram af hlutaðeigandi aðildarríkjum, svo og bókun um það sem munnlega kom fram af þeirra hálfu, skulu fylgja skýrslunni.
    Skýrslunni skal ávallt komið á framfæri við hlutaðeigandi aðildarríki.
    2. Ákvæði þessarar greinar öðlast gildi þegar fimm aðildarríki samnings þessa hafa gefið yfirlýsingu skv. 1. mgr. hennar. Yfirlýsingar þessar skulu aðildarríkin afhenda aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, og skal hann senda öðrum aðildarríkjum afrit þeirra. Yfirlýsingu má draga til baka hvenær sem er með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra. Slík afturköllun skal ekki hafa áhrif á athugun máls sem greinir í erindi sem þegar hefur verið komið á framfæri samkvæmt þessari grein. Ekki skal veita viðtöku frekari erindum frá neinu aðildarríki eftir að tilkynning um afturköllun yfirlýsingarinnar hefur borist aðalframkvæmdastjóra, nema hlutaðeigandi aðildarríki hafi gefið nýja yfirlýsingu.

22. gr.

    1. Aðildarríki að samningi þessum getur hvenær sem er lýst því yfir samkvæmt þessari grein að það viðurkenni að nefndin sé bær til að taka á móti og athuga erindi frá einstaklingum eða fyrir hönd einstaklinga innan lögsögu sinnar og halda því fram að aðildarríki hafi brotið ákvæði hans gegn þeim. Nefndin skal ekki taka á móti neinu erindi varðandi aðildarríki sem hefur ekki gefið slíka yfirlýsingu.
    2. Nefndin skal vísa frá sérhverju því erindi samkvæmt grein þessari sem er nafnlaust eða sem hún telur vera misnotkun á réttinum til að senda slíkt erindi eða ósamrýmanlegt ákvæðum samningsins.
    3. Nefndin skal vekja athygli aðildarríkis að samningi þessum sem gefið hefur yfirlýsingu skv. 1. mgr. og sakað er um að brjóta gegn ákvæðum hans, á sérhverju erindi sem lagt er fyrir hana samkvæmt þessari grein, sbr. þó 2. mgr. Innan sex mánaða skal móttökuríkið leggja fyrir nefndina skriflegar skýringar eða yfirlýsingar til útskýringar málinu og um úrræði sem það kann að hafa gripið til.
    4. Nefndin skal taka erindi sem henni berast samkvæmt þessari grein til athugunar í ljósi allra upplýsinga sem henni eru veittar af hlutaðeigandi einstaklingi eða fyrir hans hönd og af hlutaðeigandi aðildarríki.
    5. Nefndin skal ekki athuga neitt erindi frá einstaklingi samkvæmt grein þessari nema hún hafi fullvissað sig um:
    að sama mál hafi ekki verið og sé ekki til athugunar samkvæmt öðrum alþjóðlegum rannsóknar- eða sáttareglum,
    að einstaklingurinn hafi tæmt öll tiltæk úrræði innan lands. Þetta gildir þó ekki ef beiting úrræðanna dregst óhæfilega á langinn eða er ólíkleg til þess að veita þeim manni sem orðið hefur fyrir broti á samningi þessum raunhæfar úrbætur.
    6. Nefndin skal halda fundi fyrir luktum dyrum er athugun á erindum samkvæmt þessari grein fer fram.
    7. Nefndin skal koma sjónarmiðum sínum á framfæri við hlutaðeigandi aðildarríki og einstakling.
    8. Ákvæði þessarar greinar öðlast gildi þegar fimm aðildarríki samnings þessa hafa gefið yfirlýsingu skv. 1. mgr. hennar. Yfirlýsingar þessar skulu aðildarríkin afhenda aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, og skal hann senda öðrum aðildarríkjum afrit þeirra. Yfirlýsingu má draga til baka hvenær sem er með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra. Slík afturköllun skal ekki hafa áhrif á athugun neins máls sem greinir í erindi er þegar hefur verið komið á framfæri. Ekki skal veita viðtöku frekari erindum frá einstaklingi eða fyrir hönd einstaklings eftir að tilkynning um afturköllun yfirlýsingarinnar hefur borist aðalframkvæmdastjóra, nema hlutaðeigandi aðildarríki hafi gefið nýja yfirlýsingu.

23. gr.

    Þeir sem sæti eiga í nefndinni og sérstökum sáttanefndum sem skipaðar kunna að vera skv. e-lið 1. mgr. 21. gr. skulu eiga rétt á aðstöðu, sérréttindum og friðhelgi sérfræðinga í erindagerðum fyrir Sameinuðu þjóðirnar svo sem ákveðið er í þeim köflum samnings um réttindi og friðhelgi Sameinuðu þjóðanna sem við eiga.

24. gr.

    Nefndin skal árlega leggja skýrslu um störf sín samkvæmt samningi þessum fyrir aðildarríkin og allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.

III. HLUTI


25. gr.

    1. Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar fyrir öll ríki.
    2. Samningur þessi er háður fullgildingu. Fullgildingarskjöl skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Samneinuðu þjóðanna.

26. gr.

    Öllum ríkjum er frjálst að lýsa yfir aðild að samningi þessum. Aðild öðlast gildi með afhendingu aðildarskjals til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

27. gr.

    1. Samningur þessi öðlast gildi á þrítugasta degi eftir þann dag sem tuttugasta fullgildingar- eða aðildarskjalið er afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
    2. Gagnvart sérhverju ríki sem fullgildir samning þennan eða gerist aðili að honum eftir að tuttugasta fullgildingar- eða aðildarskjalið hefur verið afhent öðlast samningurinn gildi á þrítugasta degi eftir að fullgildingar- eða aðildarskjal þess hefur verið afhent.

28. gr.

    1. Hvert ríki getur, við undirritun eða fullgildingu samnings þessa, eða yfirlýsingu um aðild að honum, lýst því yfir að það viðurkenni ekki valdbærni nefndarinnar skv. 20. gr.
    2. Hvert það ríki sem gert hefur fyrirvara skv. 1. mgr. þessarar greinar getur hvenær sem er fallið frá honum með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

29. gr.

    1. Sérhvert aðildarríki að samningi þessum getur borið fram tillögu til breytinga á honum og fengið hana skráða hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Skal aðalframkvæmdastjóri þá senda aðildarríkjunum breytingartillöguna, ásamt tilmælum um að þau tilkynni honum hvort þau séu hlynnt því að haldin verði ráðstefna aðildarríkjanna til að athuga og greiða atkvæði um tillöguna. Ef, innan fjögurra mánaða frá því er sending breytingartillögunnar er dagsett, þriðjungur samningsríkjanna er fylgjandi því að slík ráðstefna verði haldin skal aðalframkvæmdstjóri kalla hana saman undir umsjá Sameinuðu þjóðanna. Sérhverja breytingartillögu sem samþykkt er af meiri hluta þeirra aðildarríkja sem eru viðstödd og greiða atkvæði á ráðstefnunni, skal aðalframkvæmdastjóri leggja fyrir öll aðildarríki, til samþykktar.
    2. Breytingartillaga sem er samþykkt skv. 1. mgr. þessarar greinar öðlast gildi þegar tveir þriðju hlutar aðildarríkja samnings þessa hafa tilkynnt aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna að þau hafi samþykkt hana í samræmi við stjórnskipunarhætti þeirra hvers um sig.
    3. Þegar breytingartillögur öðlast gildi eru þær bindandi fyrir þau aðildarríki sem hafa samþykkt þær, en önnur aðildarríki eru áfram bundin ákvæðum samnings þessa og sérhverri fyrri breytingartillögu sem þau hafa samþykkt.

30. gr.

    1. Sérhverri deilu tveggja eða fleiri aðildarríkja um túlkun eða beitingu samnings þessa sem ekki tekst að leysa með samkomulagi skal, að ósk einhvers þeirra, lögð í gerð. Ef aðildarríki geta ekki innan sex mánaða frá því er gerðar er óskað komið sér saman um tilhögun hennar getur hvert einstakt þeirra vísað deilunni til Alþjóðadómstólsins með umsókn samkvæmt samþykktum hans.
    2. Hvert ríki getur, við undirritun eða fullgildingu samnings þess eða við aðild að honum, lýst því yfir að það telji sig ekki bundið af 1. mgr. þessarar greinar. Önnur aðildarríki skulu ekki bundin af 1. mgr. þessarar greinar gagnvart aðildarríki sem gert hefur slíkan fyrirvara.
    3. Hvert það ríki, sem gert hefur fyrirvara skv. 2. mgr. þessarar greinar getur hvenær sem er fallið frá honum með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.

31. gr.

    1. Aðildarríki getur sagt upp samningi þessum með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Uppsögn öðlast gildi einu ári eftir að aðalframkvæmdastjóri tekur við tilkynningunni.
    2. Uppsögn leysir ekki aðildarríkið undan skyldum sínum samkvæmt samningi þessum varðandi nokkurn verknað eða athafnaleysi sem á sér stað fyrir gildistökudag uppsagnarinnar, og skal heldur ekki hafa nein áhrif á framhaldsathugun máls sem þegar var til athugunar hjá nefndinni fyrir gildistökudag uppsagnar.
    3. Eftir þann dag er uppsögn aðildarríkis tekur gildi skal nefndin ekki hefja athugun á neinu nýju máli sem varðar það ríki.

32. gr.

    Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal tilkynna öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna og öllum ríkjum sem undirritað hafa samning þennan eða lýst yfir aðild að honum um:
    undirritanir, fullgildingar og aðildir skv. 25. og 26. gr.,
    gildistökudag samnings þessa skv. 27. gr. og gildistökudag allra breytinga skv. 29. gr.,
    uppsagnir skv. 31. gr.

33. gr.

    1. Samningur þessi, þar sem arabískur, enskur, franskur, kínverskur, rússneskur og spænskur texti hans eru jafngildir, skal afhentur aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til varðveislu.
    2. Aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skal senda öllum ríkjum staðfest afrit samnings þessa.



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á


almennum hegningarlögum, nr. 19/1940.


    Í frumvarpinu eru gerðar breytingar á almennum hegningarlögum sem eru taldar nauðsynlegar svo unnt sé að fullgilda samning á vegum Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1984 gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.
    Ekki verður séð að frumvarpið, verði það að lögum, hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð.