Ferill 76. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 76 . mál.


76. Tillaga til þingsályktunar



um rannsóknir í ferðaþjónustu.

Flm.: Tómas Ingi Olrich, Einar K. Guðfinnsson,


Sturla Böðvarsson, Valgerður Sverrisdóttir.



    Alþingi ályktar að brýnt sé að efla rannsóknir í ferðaþjónustu, tryggja með þeim hætti grundvöll stefnumótunar og langtímaáætlana í atvinnugreininni og stuðla að jafnvægi í fjárfestingu. Í því skyni verði gripið til eftirtalinna ráðstafana:
    Stofnuð verði gagnamiðstöð við skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands á Akureyri sem hafi það hlutverk:
         
    
    að skipuleggja öflun upplýsinga um atvinnugreinina þannig að þær varpi sem skýrustu ljósi á stöðu og þróun greinarinnar og verði traustur grundvöllur rannsókna, þróunarstarfs og fjárfestingar í ferðamennsku;
         
    
    að safna upplýsingum um erlenda ferðamarkaði og safna gögnum um erlendar rannsóknir í ferðamálum;
         
    
    að varðveita þessar upplýsingar og birta reglulega fréttir um stöðu greinarinnar.
    Stofnaður verði rannsóknasjóður við Ferðamálaráð Íslands.
    Stofnuð verði staða rannsóknarfulltrúa við skrifstofu Ferðamálaráðs Íslands á Akureyri. Hlutverk hans verði að efla rannsóknir í ferðaþjónustu og skipuleggja samstarf Ferðamálaráðs við fyrirtæki og rannsóknastofnanir á sviði rannsókna og þróunarstarfs.

Greinargerð.


    Ferðaþjónusta er orðin mjög mikilvæg atvinnugrein á Íslandi og vegur þungt í efnahag þjóðarinnar. Ferðamönnum hefur fjölgað mikið á undanförnum áratugum. Á árinu 1994 komu til landsins um 180.000 ferðamenn og hafði fjöldi þeirra þá tvöfaldast á tíu árum. Tekjur af erlendum ferðamönnum hafa verið sveiflukenndar. Þær námu árið 1980 tæplega 4% af heildargjaldeyristekjum eftir nokkurn samdrátt á áttunda áratugnum. Síðan hafa tekjur aukist verulega og námu þær á árinu 1994 tæpum 17 milljörðum króna sem eru um 11% af útfluttum vörum og þjónustu.
    Á sama tíma og þessi fjölgun hefur orðið hefur gætt verulegra erfiðleika í rekstri hótela og gistiheimila. Ljóst er að mikið hefur verið fjárfest í gistirými undanfarin ár. Einnig benda rannsóknir til þess að nýting gistirýmis hafi minnkað á öllum ársþriðjungum þrátt fyrir skipulega viðleitni til að fjölga ferðamönnum utan mesta annatíma.
    Ekki er þó einsýnt að hér sé um beina offjárfestingu að ræða. Ferðaþjónustan er flókin atvinnugrein þar sem hver þjónustugrein styður aðra. Hugsanlegt er að léleg nýting gistirýmis eigi rætur að rekja til þess að lítið hafi verið fjárfest í öðrum þáttum greinarinnar, t.d. í afþreyingu, vöruþróun og ýmiss konar hliðarþjónustu. Nauðsynlegt er að treysta grundvöll fjárfestinga í ferðaþjónustu með skipulagðri upplýsingaöflun og fræðilegu mati á stöðu og möguleikum greinarinnar.
    Meginaðdráttarafl landsins í augum erlendra ferðamanna er íslensk náttúra. Mikil fjölgun ferðamanna hefur leitt til þess að upp hafa komið alvarleg umhverfisvandamál á viðkvæmum ferðamannastöðum. Við þetta bætast væntingar ferðamannsins sjálfs. Þar sem mikil áhersla hefur verið lögð á ósnortna náttúru og óspillt umhverfi í markaðssetningu landsins er sá hluti ferðamanna sem metur umhverfismál öðrum málum fremur líklegur til þess að líta á vaxandi fjölda ferðamanna og „ósnortna náttúru“ sem ósættanlegar andstæður, jafnvel áður en álag vegna ferðamanna er farið að leiða til umhverfisspjalla. Brýnt er að mörkuð verði stefna í ferðamálum sem samræmir langtímahagsmuni ferðaþjónustu og umhverfisverndar.
    Samgönguráðherra hefur boðað að á næstunni verði unnið að opinberri stefnumörkun í ferðaþjónustu. Mikilvægt er að slík stefnumörkun styðjist við traustar upplýsingar um stöðu atvinnugreinarinnar og möguleika hennar á þeim ferðamarkaði sem best hentar íslenskri ferðaþjónustu og íslenskum umhverfisaðstæðum.
    Íslensk ferðaþjónusta hefur ekki notið sömu stöðu til rannsókna, þróunarstarfa og stefnumótunar og aðrar mikilvægar atvinnugreinar. Greinin styðst ekki við rannsóknastofnanir sem hafa sérhæfðu hlutverki að gegna á þessu sviði eins og landbúnaður, fiskveiðar og iðnaður. Til skamms tíma voru nánast engir styrkir til rannsóknarverkefna á sviði ferðaþjónustu veittir úr Rannsóknasjóði Rannsóknaráðs ríkisins. Í fylgiskjali með greinargerð þessari er yfirlit yfir hagnýtar rannsóknir 1977–93, og kemur þar fram að ferðaþjónusta er þar ekki á blaði. Árið 1993 tók Rannsóknaráð ríkisins málefni ferðaþjónustu sérstaklega á dagskrá og á sl. tveimur árum hefur Rannsóknaráð Íslands veitt alls fimm styrki til rannsóknarverkefna á sviði ferðaþjónustu.
    Mikilvægt er að það starf sem þannig er hafið verði eflt. Þær hugmyndir, sem settar eru fram í þingsályktunartillögu þessari, miða að því að gera Ferðamálaráði kleift að hafa yfirsýn yfir þær upplýsingar sem fyrir liggja um þróun og stöðu ferðaþjónustunnar, greina þörf atvinnugreinarinnar fyrir upplýsingar og beina öflun þeirra í æskilegan farveg. Þá er gert ráð fyrir því að með skipulegum hætti verði ráðinu gert kleift að taka þátt í rannsóknum með framlögum og starfa með einstökum fræðimönnum, fyrirtækjum og rannsóknastofnunum að því að varpa ljósi á stöðu og framtíðarmöguleika atvinnugreinarinnar. Ekki er hins vegar gert ráð fyrir því að Ferðamálaráð stundi rannsóknir.
    Lagt er til að gagnamiðstöð verði vistuð hjá skrifstofu Ferðamálaráðs á Akureyri og að rannsóknarfulltrúi starfi þar. Sú skrifstofa sér um upplýsingaöflun og útgáfu, umhverfismál, markaðsráðgjöf innan lands og öll samskipti við innlenda ferðaþjónustuaðila. Í gagnagrunni skrifstofunnar er að finna upplýsingar um alla ferðaþjónustuaðila á Íslandi, ásamt upplýsingum um framboð þjónustu og verðlagningu.
    Háskólinn á Akureyri hefur í erindi til samgönguráðherra lýst áhuga á því að koma á fót rannsóknadeild ferðamála innan Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri. Verkefni deildarinnar yrðu m.a.:
    Að safna og vinna úr upplýsingum um þróun, umfang og hag ferðaþjónustunnar.
    Að gera skipulegar kannanir á mati ferðamanna á gæðum ferðaþjónustunnar.
    Að veita stjórnvöldum og aðilum ferðaþjónustunnar ráðgjöf og þjónustu varðandi stefnumótun, áætlanagerð og markaðssetningu.
    Að stuðla að rannsóknum á sviði ferðamála og kynningu slíkra rannsókna í vísinda- og fagtímaritum.
    Samgönguráðuneytið hefur tekið mjög jákvætt í hugmyndir Háskólans á Akureyri og telur þær stuðla að því að byggja upp með skipulegum hætti rannsóknaumhverfi sem ferðaþjónustan þarfnast og bæta þannig úr brýnni þörf. Til greina kemur að gerður verði samningur milli Háskólans á Akureyri og Ferðamálaráðs Íslands um samstarf á sviði rannsókna, í svipuðu formi og tíðkast hefur í samstarfi Háskólans á Akureyri við rannsóknastofnanir atvinnuveganna. Rannsóknarfulltrúi Ferðamálaráðs Íslands yrði tengiliður ráðsins við Háskólann á Akureyri og aðrar stofnanir sem rannsóknum sinna á þessu sviði.
    Mikilvægt er að Íslendingar hafi góðan aðgang að erlendum upplýsingum og rannsóknum á sviði ferðaþjónustu. Rannsókna- og þróunarstarf á sviði ferðamála hefur aukist mjög hratt erlendis. Liggja til þess ýmsar ástæður. Tilraunir til að draga úr atvinnuleysi með átaki í hefðbundnum iðnaði hafa reynst árangurslitlar, en hins vegar er almennt mikil trú á vaxtarmöguleikum í ferðaþjónustu sem er vinnuaflsfrek atvinnugrein. Þá hefur ferðaþjónusta í mörgum Evrópulöndum þróast inn á brautir offramboðs og afsláttarmarkaðar. Er leitast við að finna leiðir til að auka arðsemi í greininni og lágmarka áhættu við fjárfestingu með rannsókna- og þróunarstarfi. Við þessar aðstæður hefur orðið til mikið safn rannsóknagagna og upplýsinga um erlenda ferðamarkaði sem er mikilvægt fyrir íslenska ferðaþjónustu að eiga aðgang að, ekki síst til þess að það takmarkaða fé, sem Íslendingar verja til rannsókna, nýtist sem best.
    Vaxandi áhersla á ferðaþjónustu erlendis og auknir styrkir til þróunar greinarinnar leiða óhjákvæmilega til þess að samkeppni um að nýta sér vaxtarmöguleika hennar kemur til með að harðna til muna á komandi árum. Íslensk ferðaþjónusta mun ekki fara varhluta af þeirri þróun. Það er því brýnt að búa í haginn fyrir stefnumótun í greininni og kanna sem best þá kosti sem þjóðin hefur í alþjóðlegri samkeppni á ferðamarkaði.
    Á síðari árum hefur þeim Íslendingum fjölgað verulega sem lagt hafa stund á ferðamálafræði. Mjög er brýnt að þessi mannafli verði virkjaður til að treysta framtíðarþróun ferðaþjónustunnar og styrkja atvinnugreinina í alþjóðlegri samkeppni.




Fylgiskjal I.


Úr ályktunum ferðamálaráðstefnunnar


í Vestmannaeyjum 5.–6. október 1995.



Ályktun um rannsóknastarfsemi.
    Reglubundin og skipulögð rannsóknastarfsemi er nauðsynleg í tengslum við áætlanagerð og er nauðsynleg forsenda við stefnumörkun í ferðaþjónustu. Eins og svo oft hefur verið rætt er vöntun á slíkri starfsemi og verður alls ekki lengur búið við óbreytt ástand.
    Ferðamálaráðstefnan 1995 skorar á ríkisvaldið að veita aukið fjármagn til rannsóknastarfsemi í ferðaþjónustu þannig að mögulegt verði að mynda sérstaka rannsóknadeild greinarinnar.

Ályktun um langtímastefnumörkun.
    Á undanförnum árum hefur skort stefnumörkun innan ferðaþjónustunnar. Nauðsynlegt er að marka langtímastefnu þannig að uppbygging innan greinarinnar verði markvissari. Það gæti einnig auðveldað fjármögnunaraðilum að koma til móts við greinina.
    Ferðamálaráðstefnan 1995 skorar á yfirvöld ferðamála að vinna að og gefa út langtímastefnumörkun í ferðaþjónustu.

Ályktun um upplýsingamiðlun.
    Ferðamálaráðstefnan í Vestmannaeyjum 5.–6. október 1995 lítur á upplýsingamiðstöðvar um allt land sem hluta af grunngerð íslensks samfélags líkt og flugvelli, vegi og hafnir. Því er lagt til að stjórnvöld, ríki og sveitarfélög beri ábyrgð á og standi að mestu leyti undir uppbyggingu og rekstri þessarar mikilvægu þjónustu. Ráðstefnan hvetur einnig til þess að leitað verði eftir samvinnu við aðila tengda ferðaþjónustu eins og Póst og síma, banka og olíufélög um eflingu upplýsingamiðstöðva.
    Ferðamálaráðstefnan í Vestmannaeyjum 5.–6. október 1995 skorar eindregið á Ferðamálaráð að gera tölvutengingu upplýsingamiðstöðva að forgangsverkefni í starfi sínu strax á næsta ári. Ráðstefnan telur það höfuðatriði í upplýsingamálum ferðaþjónustunnar að þau gögn, sem til eru tölvutæk hjá skrifstofu Ferðamálaráðs á Akureyri og eru í raun grunnur allrar upplýsingaþjónustu í greininni, verði hið allra fyrsta gerð sem flestum aðgengileg í gegnum tölvunet.
     . . .
    Ferðamálaráðstefnan í Vestmannaeyjum 5.–6. október 1995 beinir þeim tilmælum til Hagstofu Íslands og Þjóðhagsstofnunar að ferðaþjónustan verði betur skilgreind í gögnum stofnana, þannig að mikilvægar hagstærðir ferðaþjónustunnar verði sýnilegar og aðgengilegar.




Fylgiskjal II.


Rannsóknarráð Íslands:

Yfirlit yfir hagnýtar rannsóknir 1977–93.



(Tafla, ein síða, mynduð í prentsmiðju.)




Fylgiskjal III.


Upplýsingar úr ársskýrslu Ferðamálaráðs Íslands 1994.




(Línurit og stólparit, ein síða, myndað í prentsmiðju.)


Fylgiskjal IV.


Þorsteinn Gunnarsson rektor:

MINNISBLAÐ TIL MENNTAMÁLARÁÐHERRA


FRÁ HÁSKÓLANUM Á AKUREYRI



Rannsóknadeild ferðamála.


(13. júlí 1995.)



    Sú staðreynd að íslenskt efnahagslíf er afskaplega einhæft, sé tekið mið af vestrænum þjóðum, hefur lengi verið Íslendingum ljós. Jafnljós hefur verið sú nauðsyn að þessu þurfi að breyta. Til þess að af slíku megi verða er nauðsynlegt að Íslendingar séu í fremstu röð hvað varðar tæknikunnáttu og þekkingu. Til þess að vinna að þessu markmiði hefur rannsóknum, söfnun þekkingar og tæknikunnáttu og miðlun þessa til fyrirtækja verið skapaður hentugur vettvangur innan rannsóknastofnana atvinnuveganna. Þannig hafa flestum helstu máttarstólpum íslensks efnahagslífs verið sköpuð tækifæri til að standa í broddi fylkingar í alþjóðlegri samkeppni.
    Ofanritað á þó ekki við um íslenska ferðaþjónustu þrátt fyrir mikið og vaxandi gildi hennar fyrir efnahag landsins. Lítið hefur verið unnið að rannsóknum á sviði ferðamála, markviss stefnumótun innan greinarinnar heyrir til undantekninga og þekkingu á arðsemi og afkomu innan hennar er mjög ábótavant. Hvergi eru til á neinum einum stað þau gögn sem þó hefur verið aflað og lítið hefur verið gert að því að setja gögn þessi fram á aðgengilegan hátt og kynna þau innan starfsgreinarinnar.
    Úr ofangreindu ástandi er hægt að bæta með því að marka fastan farveg, óháðan duttlungum einstakra aðila innan greinarinnar, til að vinna að rannsóknum, upplýsingaöflun, kynningu og svo framvegis. Háskólinn á Akureyri leggur því til að komið verði á fót rannsóknadeild ferðamála innan Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri. Verkefni þessarar deildar yrðu meðal annars:
    Að safna og vinna úr upplýsingum um þróun, umfang og hag ferðaþjónustunnar. Þar má nefna þætti er varða fjárfestingu í greininni, nýtingu aðstöðunnar, fjárhagslega afkomu og upplýsingar vegna markaðssetningar.
    Að gera skipulegar kannanir á mati ferðamanna á gæðum ferðaþjónustunnar.
    Að veita stjórnvöldum og aðilum ferðaþjónustu ráðgjöf og þjónustu varðandi stefnumótum, áætlanagerð og markaðssetningu.
    Að stuðla að rannsóknum á sviði ferðamála og kynningu slíkra rannsókna, m.a. með því að kynna niðurstöður rannsókna í vísinda- og fagtímaritum.
    Aðstæður til að koma ofangreindri deild á fót við Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri eru í alla staði ákjósanlegar. Rannsóknastofnunin býr nú þegar við þokkalegan aðbúnað og samfellu í starfi og í 3. gr. reglugerðar nr. 292/1992 um stofnunina er heimild til deildaskiptingar hennar. Einnig er Rannsóknastofnunin í góðu sambýli við þær fjórar rannsóknastofnanir atvinnuveganna sem gert hafa formlega samninga um samstarf á sviði rannsókna og kennslu við Háskólann á Akureyri. Auk þess að taka forustu í málefnum gæðastjórnunar býr háskólinn yfir sérfræðiþekkingu á viðskiptasviði og á sviði ferðamála og yrði því traustur bakhjarl slíkrar deildar.

Fskj.

Rannsóknastofnun
Háskólans á Akureyri:


Kostnaðaráætlun.


    Gert er ráð fyrir að byrjað verði á því að ráða deildarstjóra yfir deild ferðamála innan Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri. Í fyrstu yrði hlutverk hans að skipuleggja starfsemi deildarinnar í smáatriðum og undirbúa það að hún geti tekið til starfa, en á síðari stigum færi stjórnunarþátturinn vaxandi í störfum hans. Áætla má að launakostnaður vegna þessa starfsmanns sé um 2.500.000 kr. á ári.
    Gera má ráð fyrir því að undirbúningsvinnunni fylgi nokkur ferðalög með tilheyrandi ferða- og risnukostnaði. Kostnaður þessi er áætluð 500.000 kr. fyrsta árið en lægri eftir það.
    Til að koma deild ferðamála á fót við Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri er því þörf á fjárveitingu sem nemur 3.000.000 kr.



Fylgiskjal V.


Bréf samgönguráðuneytis til Ferðamálaráðs Íslands.


(5. september 1995.)



    Hinn 13. júní sl. barst minnisblað frá Þorsteini Gunnarssyni, rektor Háskólans á Akureyri, þar sem reifaðar eru hugmyndir um að koma á fót rannsóknadeild ferðamála við Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri. Þetta erindi er hér með sent yður til umsagnar.
    Ráðuneytið lítur svo á að mjög brýnt sé að styrkja rannsóknir á sviði ferðamála. Telur ráðuneytið að framangreindar hugmyndir séu mjög athyglisverðar og stuðli að því að byggja upp með skipulegum hætti rannsóknarumhverfi sem ferðaþjónustan þarfnast og bæta þannig úr brýnni þörf.

F.h.r.



Jón Birgir Jónsson.