Ferill 79. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 79 . mál.


79. Frumvarp til laga



um lífeyrisréttindi alþingismanna og ráðherra.

Flm.: Pétur H. Blöndal, Árni M. Mathiesen, Einar Oddur Kristjánsson,


Guðmundur Hallvarðsson, Hjálmar Jónsson, Kristján Pálsson,


Vilhjálmur Egilsson.



I. KAFLI

Breyting á lögum um eftirlaun alþingismanna, nr. 46/1965,

með síðari breytingum.

1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Alþingismaður skal greiða í lífeyrissjóð sem starfar án ríkisábyrgðar. Skal hann velja sér lífeyrissjóð sem staðfestur hefur verið af fjármálaráðuneytinu enda heimili reglur sjóðsins aðild. Iðgjaldsframlag Alþingis skal vera í samræmi við reglur lífeyrissjóðsins en þó ekki hærra en 6,5% af launum þingmanns. Að öðru leyti skulu gilda reglur viðkomandi lífeyrissjóðs.
    Alþingismenn skulu vera í sérstakri deild innan Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins með sérstöku reikningshaldi vegna áunninna réttinda. Þátttaka í alþingismannadeild sjóðsins hefur ekki áhrif á rétt né skyldur alþingismanna til að vera í öðrum deildum sjóðsins.

2. gr.

    Við lögin bætast ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Kjaradómur, sbr. lög nr. 120/1992, skal meta til tekna þau meðaltalshlunnindi sem alþingismönnum eru veitt samkvæmt lögunum 1. október 1995 og hækka þingfararkaup alþingismanna varanlega sem þeim hlunnindum nemur. Miða skal við hlunnindi vegna lífeyrisréttinda umfram þau réttindi sem 10% heildariðgjald veitir. Í því sambandi skal líta til aldursdreifingar þingmanna sem sátu á Alþingi 1. október 1995, aldursdreifingar maka þeirra, áunninna réttinda þeirra, lífslíkna, dreifingar starfstíma þingmanna miðað við reynslu undanfarinna 30 ára, iðgjalds þingmanns (4%) af hækkun launa og þeirra auknu lífeyrisréttinda sem þau iðgjöld gefa og 2% raunvaxta. Ekki skal taka tillit til tekjuskatts.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laganna skal þingmönnum, sem sátu á Alþingi 1. október 1995, heimilt að greiða iðgjald til alþingismannadeildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins út kjörtímabilið, og njóta þeir þá ekki hækkunar launa skv. 1. tölul. þann tíma. Skulu þeir tilkynna stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins ákvörðun sína innan tveggja mánaða frá því að lög þessi öðlast gildi.
    Lífeyrisþegar, alþingismenn, fyrrverandi alþingismenn, makar þeirra og börn, sem eiga rétt fyrir tíma fyrir gildistöku laga þessara, skulu halda þeim rétti. Þó skal allur lífeyrisréttur miðast við grundvallarlaun í stað þingfararkaups. Grundvallarlaunin skulu vera þingfararkaupið í október 1995 og hækka í hlutfalli við hækkun vísitölu neysluverðs frá þeim tíma. Sama gildir um rétt þeirra þingmanna sem óska eftir að greiða áfram iðgjald til alþingismannadeildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins skv. 2. tölul. Þingseta eftir að greiðslu iðgjalda lýkur til þingmannadeildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins telst ekki til réttinda samkvæmt lögum þessum.
                  Falli þingmaður frá innan sex mánaða frá því hann greiddi síðast iðgjald samkvæmt lögum þessum á maki hans rétt til makalífeyris skv. 4. gr. og börn hans rétt til barnalífeyris skv. 5. gr. Ella skal makalífeyrir aldrei verða hærri en 75% af þeim ellilífeyri sem hinn látni þingmaður átti eða hefði átt rétt til og ekki myndast réttur til barnalífeyris.
                  Verði þingmaður öryrki innan sex mánaða frá því hann greiddi síðast iðgjald samkvæmt lögum þessum á hann rétt til örorkulífeyris skv. 4. tölul. 2. gr.
                  Þegar úrskurðaður lífeyrir lækkar ekki.

II. KAFLI

Breyting á lögum um eftirlaun ráðherra, nr. 47/1965,

með síðari breytingum.

3. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra skal greiða í lífeyrissjóð sem starfar án ríkisábyrgðar. Skal hann velja sér lífeyrissjóð sem staðfestur hefur verið af fjármálaráðuneytinu enda heimili reglur sjóðsins aðild. Iðgjaldsframlag ríkissjóðs skal vera í samræmi við reglur lífeyrissjóðsins en þó ekki hærra en 6,5% af launum ráðherra. Að öðru leyti skulu gilda reglur viðkomandi lífeyrissjóðs.
    Ráðherrar skulu vera í sérstakri deild innan Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins með sérstöku reikningshaldi vegna áunninna réttinda. Þátttaka í ráðherradeild sjóðsins hefur ekki áhrif á rétt né skyldu ráðherra til að vera í öðrum deildum sjóðsins.

4. gr.

    Við lögin bætast ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
    Kjaradómur, sbr. lög nr. 120/1992, skal meta til tekna þau meðaltalshlunnindi sem ráðherrum eru veitt samkvæmt lögunum 1. október 1995 og hækka ráðherralaun varanlega sem þeim hlunnindum nemur. Miða skal við hlunnindi vegna lífeyrisréttinda umfram þau réttindi sem 10% heildariðgjald veitir. Í því sambandi skal líta til aldursdreifingar ráðherra sem embætti gegndu 1. október 1995, aldursdreifingar maka þeirra, áunninna réttinda þeirra, lífslíkna, dreifingar starfstíma ráðherra miðað við reynslu undanfarinna 30 ára, iðgjalds ráðherra (4%) af hækkun launa og þeirra auknu lífeyrisréttinda sem þau iðgjöld gefa og 2% raunávöxtunar. Ekki skal taka tillit til tekjuskatts.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. gr. laganna skal ráðherrum, sem gegndu embætti 1. október 1995, heimilt að greiða iðgjald til ráðherradeildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á meðan þeir sitja, þó lengst út kjörtímabilið, og njóta þeir þá ekki hækkunar launa skv. 1. tölul. þann tíma. Skulu þeir tilkynna stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins ákvörðun sína innan tveggja mánaða frá því að lög þessi öðlast gildi.
    Lífeyrisþegar, ráðherrar, fyrrverandi ráðherrar og makar þeirra, sem eiga rétt fyrir tíma fyrir gildistöku laga þessara, skulu halda þeim rétti. Þó skal allur lífeyrisréttur miðast við grundvallarlaun í stað ráðherralauna. Grundvallarlaunin skulu vera ráðherralaunin í október 1995 og hækka í hlutfalli við hækkun vísitölu neysluverðs frá þeim tíma. Sama gildir um rétt þeirra ráðherra sem óska eftir að greiða áfram iðgjald til ráðherradeildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins skv. 2. tölul. Starfstími eftir að greiðslu iðgjalda lýkur til ráðherradeildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins telst ekki til réttinda samkvæmt lögum þessum.
                  Falli ráðherra frá innan sex mánaða frá því hann greiddi síðast iðgjald samkvæmt lögum þessum á maki hans rétt til makalífeyris skv. 4. gr. Ella skal makalífeyrir aldrei verða hærri en 75% af þeim ellilífeyri sem hinn látni ráðherra átti eða hefði átt rétt til.
                  Verði ráðherra öryrki innan sex mánaða frá því hann greiddi síðast iðgjald samkvæmt lögum þessum á hann rétt til örorkulífeyris skv. 2. gr.
                  Þegar úrskurðaður lífeyrir lækkar ekki.

III. KAFLI

Gildistaka.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Um 80% vinnandi fólks ber að greiða til lífeyrissjóða sem verða að standa undir væntanlegum lífeyrisgreiðslum með eignum sínum, væntanlegum iðgjöldum og ávöxtun eigna eingöngu. Ef eignir og ávöxtun nægja ekki verður að hækka iðgjald eða lækka lífeyri. Þetta fólk, verkafólk, iðnaðarmenn og skrifstofufólk, hefur töku ellilífeyris við 70 ára aldur. Það ávinnur sér árlega sem lífeyrisrétt 1,8% af meðallaunum sínum yfir ævina (oft skert) og það greiðir iðgjöld allt að 75 ára aldri. Lífeyrir þess er verðtryggður miðað við neysluvísitölu sem hækkar yfirleitt minna en laun. Opinberir starfsmenn geta aftur á móti hafið töku lífeyris 65 ára eða jafnvel fyrr með 95 ára reglunni, ávinna sér 2,0% fyrir hvert ár, greiða iðgjöld einungis í 32 ár, og ellilífeyrir þeirra miðast við hæstlaunaða starf sjóðfélagans um ævina og hækkar eins og laun. Örorkulífeyrir opinberra starfsmanna er þó lakari. Til þess að standa undir öllum núverandi réttindum opinberra starfsmanna þyrfti iðgjaldið að vera nálægt 27% af launum en ekki 10% eins og nú. Hið opinbera ber ábyrgð á þessum sjóðum og greiðir mismuninn.
    Undanfarið hafa almennu sjóðirnir verið að taka til í sínum garði. Réttindi hafa verið skert, sérstaklega makalífeyrisréttindi. Lífeyrir hefur verið tengdur neysluvöruvísitölu en ekki launum sem að jafnaði hækka nokkuð meira. Háir vextir hafa og bætt stöðu þessara lífeyrissjóða. Skerðing lífeyrisréttinda ásamt góðri ávöxtun hefur bætt stöðu flestra almennra lífeyrissjóða þannig að þeir eiga núna fyrir skuldbindingum.
    Á sama tíma og þessar skerðingar hafa dunið yfir hinn almenna launþega horfir hann á sífellt vaxandi skuldbindingu vegna opinberra starfsmanna sem honum verður gert að greiða með sköttum, skuldbindingu vegna lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna sem í engu hafa verið skert.
    Í þessu frumvarpi er bent á lausn á þessum vanda hvað varðar eftirlaun þingmanna. Hlunnindin verði reiknuð út og launin hækkuð sem því nemur. Sambærileg lausn kæmi til greina til þess að leysa vanda Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og annarra opinberra lífeyrissjóða. Með þessu móti er verið að gera starfskjör og laun gegnsærri.
    Þyki skynsamlegt að auka valfrelsi sjóðfélaga í lífeyrissjóði er nauðsynlegt að iðgjaldið ásamt uppsafnaðri eign standi undir væntanlegum lífeyrisgreiðslum. Annars mun fólk leita til þess lífeyrissjóðs sem veitir hæst réttindi án þess að taka nauðsynlegt iðgjald, t.d. Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Skuldbindingin mun lenda á ábyrgðaraðila sjóðsins, þ.e. ríkissjóði. Sú breyting, sem hér er lögð til, er forsenda þess að valfrelsi verði aukið.
    Þeir lífeyrissjóðir, sem njóta ábyrgðar ríkissjóðs eða sveitarfélaga, hafa enn ekki tekið á vanda sínum. Hjá þeim sjóðum hafa hlaðist upp geigvænlegar skuldbindingar. Þannig nemur skuldbinding Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, umfram eignir sjóðsins, um 70 milljörðum kr. eða 300 þús. kr. á hvert einasta mannsbarn í landinu eða um 600 þús. kr. á hvern vinnandi mann. Til viðbótar er skuldbinding sveitarfélaga vegna lífeyrisréttinda starfsmanna þeirra sem talin er vera um 100 þús. kr. á hvern íbúa eða 200 þús. kr. á hvern vinnandi mann. Þessar skuldbindingar hækka um rúmlega milljón á vinnustund. Á þessum vanda verður Alþingi að taka sem fyrst en Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins starfar samkvæmt lögum frá Alþingi.
    Til þess að Alþingi geti með trúverðugum hætti tekið á þessum vanda mega lífeyriskjör alþingismanna ekki víkja um of frá þeim lífeyriskjörum sem kjósendur þeirra njóta almennt. Auk þess er mikilvægt að þingmenn hafi óbundnar hendur þegar þeir fjalla um þann mikla vanda sem blasir við vegna skuldbindinga opinberu sjóðanna. Þeir mega ekki fjalla um eigin kjör þegar þeir taka á þeim vanda.
    Segja má að lífeyrismál þingmanna sé hluti af dulbúningi tekna sem allt of oft er iðkaður hér á landi. Samið er um einhverja lága taxta sem láglaunahóparnir fá, en svo eru greiddar alls konar viðbætur og sporslur ofan á það kaup til útvalinna. Þessi feluleikur skekkir allan samanburð á milli einstaklinga, stétta og jafnvel á milli landa. Sem dæmi má nefna að meðallaun hjá ASÍ-fólki fyrir dagvinnu eru 89 þús. kr. á mánuði og eru þá eðlilega margir með nokkuð hærri laun. Launataxtar eru miklu lægri (sjá fréttabréf kjararannsóknarnefndar mars 1995). Þessi feluleikur er notaður til þess að halda niðri launum láglaunahópa, t.d. kvenna. Þess vegna ætti Alþingi að vera í fararbroddi við að hætta þessum feluleik. Hér er lagt til að þingmenn fái metin og greidd þau hlunnindi sem hingað til hafa verið falin.
    Lögum um eftirlaun alþingismanna var breytt 1982, en áður átti þingmaður engan rétt til lífeyris fyrr en eftir tvö kjörtímabil (6–10 ár) en þá bar honum 35% af þingfararkaupi. Maki átti hálfan rétt. Þessum reglum var breytt með lögum nr. 73/1982. Með þeim lögum voru teknar upp þáverandi reglur Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um makalífeyri en þó með fullri verðtryggingu, þ.e. bætt var 20% við makalífeyrisréttinn sem áður var hálfur ellilífeyrisrétturinn. Ekki virðist hafa verið tekið tillit til þess að þingmenn starfa oft mjög stutt eðli málsins samkvæmt (varaþingmenn oft í tvær vikur) en opinberir starfsmenn eru jafnan lengi í starfi. Ákvæðum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins var svo breytt með 6. gr. laga nr. 47/1984 og gilti 20% aukning eingöngu um þá opinbera starfsmenn sem eru í starfi við fráfall. Reglum um eftirlaun þingmanna var ekki breytt.
    Þessar reglur eru eftirfarandi: Þegar opinber starfsmaður hefur starfað í eitt ár hefur hann áunnið sér rétt til ellilífeyris sem er 2% af launum. Ef hann félli frá fengi eftirlifandi maki hans helminginn af þeim rétti (1%) auk 20% eða 21% af launum hins látna. Eftir 10 ára starf er ellilífeyrisrétturinn orðinn 20% en makalífeyrisrétturinn er helmingurinn af þeim rétti (10%) auk 20%, alls 30%. Lífeyrisréttur eftirlifandi maka er því miklu hærri en ellilífeyrisréttur sjóðfélagans fyrstu árin. Það er fyrst eftir 20 ára starf að ellilífeyrisréttur sjóðfélaga í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins verður hærri en makalífeyrir eftirlifandi maka. Þessari reglu má líkja við framreikninginn hjá almennu sjóðunum. Ef sjóðfélagi, sem hefur greitt í SAL-sjóð í þrjú ár og greiðir enn í sjóðinn, fellur frá fær eftirlifandi maki makalífeyri eins og sjóðfélaginn hefði greitt til 70 ára aldurs. Hér er um umtalsverð réttindi að ræða því að réttur eftirlifandi maka sjóðfélaga, sem hefur starfað í aðeins þrjú ár, getur verið 35% til 50% af þeim launum sem sjóðfélaginn greiddi iðgjald af. Ýmsar skorður eru þó settar á rétt til makalífeyris, mismunandi eftir sjóðum.
    Hjá alþingismannadeild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins þarf sjóðfélaginn ekki að vera greiðandi í sjóðinn til þess að fá makalífeyri. Það hefur í för með sér að varamaður, sem sest á þing í tvær vikur og aldrei meir, fær ellilífeyrisrétt sem nemur 2 / 52 af 2% eða 0,08% af þingfararkaupi eða 150 kr. á mánuði frá 65 ára aldri. Hins vegar á maki hans rétt til æviloka á 20,04% af þingfararkaupi eða 39.080 kr. á mánuði frá dauða þingmannsins. Skuldbinding vegna makalífeyrisréttinda 210 þingmanna, sem hafa verið eitt ár eða skemur á þingi (meðaltal 1,7 mánuði), er 365 millj. kr. (53% af makalífeyri allra þingmanna) eða um 1,7 millj. kr. á mann og er það óneitanlega mikil skuldbinding fyrir allt niður í tveggja vikna veru á Alþingi (sjá úttekt á alþingismannadeild Lífeyrisjóðs starfsmanna ríkisins). Varla hefur þetta verið ætlun Alþingis og þarf að leiðrétta það. Í frumvarpinu er gerð tilraun til að leiðrétta þetta með því að setja það skilyrði að makalífeyrir verði aldrei hærri en 75% af ellilífeyrinum. Rétt er að benda á að eftir að skylda og réttur til að greiða í þingmannadeildina er afnuminn er enginn þingmaður lengur virkur greiðandi í sjóðinn og þingmenn munu væntanlega njóta framreiknings í öðrum lífeyrissjóði að eigin vali eftir sex mánuði.
    Í fylgiskjali er sýnt hvernig uppsöfnuð réttindavinnsla er hjá þingmönnum, ráðherrum, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og almennu lífeyrissjóðunum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér eru felld niður réttindi og skyldur þingmanna til þess að greiða í þingmannadeild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Þingmannadeildinni er lokað fyrir frekari greiðslu iðgjalda og verður því ekki um aukningu réttinda að ræða. Þessi réttindi krefjast 56% iðgjalds af launum í stað þeirra 10% sem greidd eru. Sú er niðurstaða tryggingafræðilegrar úttektar á stöðu deildarinnar frá 1. desember 1993. Þess í stað er þingmönnum gert að greiða iðgjald til lífeyrissjóðs sem ekki nýtur ábyrgðar launagreiðanda, þ.e. Alþingis, enda heimili reglur sjóðsins aðild þingmanna. Ekki er ljóst hvaða lífeyrissjóðir muni heimila alþingismönnum aðild en tryggt er að þeir eiga rétt á aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda.

Um 2. gr.


    Í 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða er kveðið á um að reikna skuli út hvers virði þessi hlunnindi eru þingmanninum umfram þau réttindi sem hann fær með greiðslu í annan lífeyrissjóð að eigin vali og verði þá miðað við að laun skuli hækka sem þessum hlunnindum nemur. Við það verður að hafa í huga að makalífeyrisréttindin vegna varamanna, sem kosta um 365 millj. kr. af 2.300 millj. kr. skuldbindingu eða 16%, eru ekki vegna kjörinna aðalmanna og því lækkar nauðsynlegt iðgjald nokkuð. Til grundvallar mati á hlunnindunum er lögð aldursdreifing þingmanna og maka þeirra og áunnin réttindi, sem haldast, eru dregin frá. Hins vegar verður þingmaðurinn að greiða 4% af hækkun þingfararkaups en fær á móti aukin lífeyrisréttindi. Frítekjumark skatta mun ekki hafa nein áhrif þar sem þessi hópur fólks verður væntanlega yfir þeim mörkum sem lífeyrisþegar. Hins vegar kynni hátekjuskatturinn að koma inn í þessa mynd en hann er tímabundinn og því er gert ráð fyrir að áhrifum hans verði sleppt. Gert er ráð fyrir að til grundvallar mati á hlunnindum verði notuð 2% ávöxtunarkrafa enda er lífeyririnn háður tekjum. Þó kæmi til greina að nota hærri ávöxtunarkröfu en ávöxtunarkrafan hefur mikil áhrif á niðurstöðuna.
    Í 2. tölul. ákvæðisins er kveðið á um rétt núverandi þingmanna til þess að velja eldra fyrirkomulag frekar en hið nýja, enda voru þau kjör í boði þegar kosið var til Alþingis.
    Í 3. tölul. er fjallað um geymdan rétt. Þar er sagt að þeir sem eigi eldri rétt skuli halda honum. Hins vegar verði sá réttur verðtryggður miðað við vísitölu neysluverðs til þess að koma í veg fyrir að áunninn réttur, sem núna miðast við þingfararkaup, hækki vegna þeirrar hækkunar sem verður á þingfararkaupinu þegar þingmenn afsala sér góðum lífeyrisrétti.
    Hinn margumræddi makalífeyrisréttur, sem ekki hefur þegar orðið virkur vegna dauða og tekinn var upp 1982, er skertur verulega og verður ekki hærri en 75% af áunnum ellilífeyri. Þó helst núverandi regla gagnvart þeim sem eru greiðendur í sjóðinn næstu sex mánuðina en það er sá tími sem það tekur að öðlast slík réttindi í almennu lífeyrissjóðunum. Sama gildir um örorku- og barnalífeyri. Ekki verður hróflað við þeim rétti sem þegar hefur stofnast til vegna örorku eða dauða.

Um 3. gr.


    Hér eru felld niður réttindi og skyldur ráðherra til þess að greiða í ráðherradeild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Ráðherradeildinni er lokað fyrir frekari greiðslu iðgjalda og verður því ekki um aukningu réttinda að ræða. Þessi réttindi krefjast 80% iðgjalds af launum í stað þeirra 10% sem greidd eru. Sú er niðurstaða tryggingafræðilegrar úttektar á stöðu deildarinnar frá 6. desember 1993. Þess í stað er ráðherrum gert að greiða iðgjald til lífeyrissjóðs sem ekki nýtur ábyrgðar launagreiðanda, þ.e. ríkissjóðs, enda heimili reglur sjóðsins aðild ráðherra. Ekki er ljóst hvaða lífeyrissjóðir muni heimila ráðherrum aðild en tryggt er að þeir eiga rétt á aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda.

Um 4. gr.


    Í 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða er kveðið á um að reikna skuli út hvers virði þessi hlunnindi eru ráðherranum umfram þau réttindi sem hann fær með greiðslu í annan lífeyrissjóð að eigin vali og verði þá miðað við að laun skuli hækka sem þessum hlunnindum nemur. Til grundvallar mati á hlunnindunum er lögð aldursdreifing ráðherra og maka þeirra og áunnin réttindi, sem haldast, eru dregin frá. Hins vegar verður ráðherrann að greiða 4% af hækkun ráðherralauna en fær á móti aukin lífeyrisréttindi. Frítekjumark skatta mun ekki hafa nein áhrif þar sem þessi hópur fólks verður væntanlega yfir þeim mörkum sem lífeyrisþegar. Hins vegar kynni hátekjuskatturinn að koma inn í þessa mynd en hann er tímabundinn og því er gert ráð fyrir að áhrifum hans verði sleppt. Um ávöxtunarkröfuna vísast til athugasemda við 1. tölul. 2. gr.
    Í 2. tölulið er kveðið á um rétt núverandi ráðherra til þess að velja eldra fyrirkomulag frekar en hið nýja, enda voru þau kjör í boði þegar þeir tóku að sér embættið.
    Í 3. tölul. er kveðið á um geymdan rétt. Þar er sagt að þeir sem eigi eldri rétt skuli halda honum. Hins vegar verði sá réttur verðtryggður miðað við vísitölu neysluverðs til þess að koma í veg fyrir að áunninn réttur, sem núna miðast við ráðherralaun, hækki vegna þeirrar hækkunar sem verður á ráðherralaunum þegar ráðherrar afsala sér góðum lífeyrisrétti. Núverandi réttur til maka- og örorkulífeyris helst gagnvart þeim, sem eru greiðendur í sjóðinn næstu sex mánuðina en það er sá tími sem það tekur að öðlast slík réttindi í almennu lífeyrissjóðunum. Ekki verður hróflað við þeim rétti sem þegar hefur stofnast til vegna örorku eða dauða.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Fylgiskjal.





(Línurit)