Ferill 80. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 80 . mál.


81. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir.



1. gr.


    Á eftir 3. málsl. 8. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum sem um elli- og örorkulífeyri.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Þegar Alþingi hafði til afgreiðslu breytingar á almannatryggingalögum, nr. 67/1971, í desember 1993 og lögum um almannatryggingar var skipt upp í tvennt, í lög um félagslega aðstoð og lög um almannatryggingar, var gerð breyting á ákvæði laga um endurhæfingarlífeyri. Í 2. mgr. 12. gr. laga um almannatryggingar, nr. 67/1971, sagði m.a. um endurhæfingarlífeyri:
    „Endurhæfingarlífeyrir skal nema sömu fjárhæð og elli- og örorkulífeyrir. Um tekjutryggingu og aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum sem um elli- og örorkulífeyri. Sjúkrahúsvist í greiningar- og endurhæfingarskyni skerðir ekki bótagreiðslur.“
    Við breytinguna 1993 voru ákvæði um endurhæfingarlífeyri flutt yfir í lög um félagslega aðstoð og urðu að 8. gr. þeirra laga. Er sú grein að mestu samhljóða 12. gr. laga um almannatryggingar, nr. 67/1971, nema síðari hluti greinarinnar sem hljóðar svo:
    „Endurhæfingarlífeyrir skal nema sömu fjárhæð og grunnlífeyrir örorkulífeyris ásamt tekjutryggingu. Sjúkrahúsvist í greiningar- og endurhæfingarskyni skerðir ekki bótagreiðslur.“
    Hér er rétturinn til tengdra bóta ekki lengur inni í greininni.
    Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarps laga um félagslega aðstoð sagði um 8. gr.:
    „Samhljóða 2. mgr. 12. gr. laga um almannatryggingar.“
    Í umræðum á Alþingi um þessar lagabreytingar voru þingmenn og hagsmunaaðilar, sem kallaðir voru til umsagnar hjá heilbrigðis- og trygginganefnd Alþingis, sannfærðir af formanni nefndarinnar um að þessar breytingar hefðu ekki áhrif á réttindi lífeyrisþega.
    Þar til 1. október sl. fengu þeir sem úrskurðaðir hafa verið á endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins tengdar bótagreiðslur og hlunnindi eins og 75% öryrkjar, þ.e. uppbót á lífeyri vegna lyfjakostnaðar eða umönnunarkostnaðar, barnalífeyri ef börn undir 18 ára eru á framfæri viðkomandi, heimilisuppbót ef hann býr einn o.s.frv., einnig hlunnindi sem fylgja bótagreiðslunum og 75% örorku, svo sem lægra gjald fyrir læknisþjónustu og lyf. Eftir 1. október hefur Tryggingastofnun synjað umsóknum um tengdar bætur með endurhæfingarlífeyri. Hæstu greiðslur til þess sem er óvinnufær og í endurhæfingu eftir slys eða sjúkdóm frá Tryggingastofnun ríkisins eru nú 37.360 kr. á mánuði.