Ferill 96. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 96 . mál.


100. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99 8. september 1993, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.

    Í 1. mgr. 2. gr. laganna breytast eftirfarandi orðskýringar:
    Greiðslumark lögbýlis er tiltekinn fjöldi ærgilda eða magn mjólkur mælt í lítrum sem ákveðið er fyrir hvert lögbýli og veitir rétt til beingreiðslu úr ríkissjóði.
    Heildargreiðslumark er tiltekið magn mjólkur mælt í lítrum sem ákveðið er samkvæmt búvörusamningi með tilliti til heildarneyslu innan lands og skiptist milli lögbýla eftir greiðslumarki þeirra.

2. gr.

    Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætast eftirfarandi orðskýringar:
    Beingreiðslumark er tiltekin fjárhæð sem ákveðin er í 37. gr. og skiptist milli lögbýla eftir greiðslumarki þeirra.
    Vetrarfóðraðar kindur eru ær, hrútar, sauðir og lömb sem sett eru á vetur og talin eru fram á forðagæsluskýrslu.

3. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Verðlagning sauðfjárafurða samkvæmt þessari grein fellur niður frá og með 1. september 1998. Frá þeim tíma metur verðlagsnefnd framleiðslukostnað sauðfjárafurða fyrir meðalbú.

4. gr.

    Við 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. laganna bætist: nema annað sé tekið fram í samningi sem gerður er á grundvelli a-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna eða í bókunum með slíkum samningi.

5. gr.

    21. gr. laganna orðast svo:
    Landbúnaðarráðherra getur heimilað innheimtu allt að 5% verðskerðingargjalds af úrvinnslu- og heildsölukostnaði afurðastöðva í sama skyni og 20. gr. kveður á um, enda liggi fyrir ósk um innheimtu frá landssamtökum viðkomandi afurðastöðva. Sé úrvinnslu- og heildsölukostnaður ekki ákveðinn af fimmmannanefnd skal Framleiðsluráð landbúnaðarins áætla slíkan kostnað sem landbúnaðarráðherra staðfestir.
    Til að jafna skilaverð til framleiðenda fyrir kindakjöt sem selt er á erlendum mörkuðum samkvæmt samkomulagi sem kveðið er á um í 62. gr. laganna getur landbúnaðarráðherra heimilað innheimtu á verðjöfnunargjaldi sem má nema mismun á auglýstu viðmiðunarverði Framleiðsluráðs landbúnaðarins og skilaverði við útflutning (fob). Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð ákvæði um útreikning verðjöfnunargjaldsins eftir gæða- og vöruflokkum, svo og ákvæði um innheimtu og ráðstöfun gjaldsins.

6. gr.

    29. gr. laganna orðast svo:
    Nú er ákveðið það magn mjólkur sem framleiðendum eru tryggðar beingreiðslur fyrir samkvæmt heimild í 30. gr. og verð hennar til framleiðanda er ákveðið skv. 8. gr. og er þá afurðastöð skylt að greiða framleiðanda fullt verð innan greiðslumarks samkvæmt gildandi verðlagsgrundvelli á innleggsdegi, sbr. þó 22. gr. Ber að inna greiðslu af hendi eigi síðar en 10. dag næsta mánaðar eftir innleggsmánuð. Heimilt er að semja um annan hátt á greiðslum en að framan greinir.
    Taki mjólkursamlag við mjólk umfram greiðslumark framleiðanda sem verður utan heildargreiðslumarks við lokauppgjör skal samsvarandi magn mjólkurafurða markaðsfært erlendis á ábyrgð mjólkursamlags og framleiðanda. Framleiðsluráð landbúnaðarins getur þó heimilað sölu þeirra innan lands ef gengið hefur á birgðir og skortur á mjólkurvörum er því fyrirsjáanlegur. Um greiðsluskyldu afurðastöðva fyrir innlegg umfram greiðslumark mjólkur, en innan efri marka þess, fer eftir gildandi samningum landbúnaðarráðherra og Bændasamtaka Íslands skv. a-lið 1. mgr. 30. gr. laganna.
    Fyrir innlagt kindakjöt skal greiða óháð greiðslumarki lögbýlis, en uppgjör skal sérgreint eftir því hvort kjötið er selt innan lands eða flutt á erlendan markað. Fyrir kindakjöt, sem flytja þarf á erlendan markað, skal afurðastöðvum gert kleift með verðjöfnun að greiða framleiðendum sama verð. Skal uppgjörið miðað við að sama verð greiðist fyrir kjöt af sömu gæðum. Fyrir kjöt, sem notað er sem hráefni í unna vöru sem fer til útflutnings, skal miða greiðslu við það jafnaðarverð sem fæst fyrir sambærilegt hráefni við útflutning.
    Framleiðsluráð landbúnaðarins skal fyrir 1. september ár hvert gera áætlun um framleitt magn kindakjöts. Jafnframt skal áætla hvernig haga beri afsetningu framleiðslunnar og þá tekið mið af birgðastöðu við upphaf sláturtíðar. Kynna skal sláturleyfishöfum og sauðfjárframleiðendum áætlun um útflutningsþörf. Við lok haustsláturtíðar, þó eigi síðar en 1. nóvember, skal Framleiðsluráð að fengnum tillögum Bændasamtaka Íslands og Landssamtaka sauðfjárbænda ákveða og tilkynna framleiðendum og sláturleyfishöfum um það magn og hlutfall kindakjöts sem flytja skal á erlendan markað.
    Sláturleyfishafa er skylt að leggja til kjöt til útflutnings samkvæmt ákvörðun Framleiðsluráðs landbúnaðarins eða semja við annan sláturleyfishafa um verkun og útflutning á sama magni. Sé þess ekki kostur er viðkomandi sláturleyfishafa heimilt að greiða vegna útflutningskvaðar gjald sem Framleiðsluráð landbúnaðarins ákveður hverju sinni og svarar til mismunar á heildsöluverði kindakjöts innan lands og skilaverði við útflutning.
    Uppgjör við sauðfjárframleiðendur skal tryggja að allir taki þátt í útflutningi með sama hlutfalli af framleiðslu sinni að undanskildu því magni sem framleiðandi tekur til eigin nota samkvæmt heimild í reglugerð. Undanþegnir útflutningsuppgjöri eru einungis þeir framleiðendur sem hafa 0,7 vetrarfóðraðar kindur eða minna á hvert ærgildi greiðslumarks, enda liggi fyrir fullnægjandi vottorð um ásetning þeirra. Hafi framleiðandi fjölgað vetrarfóðruðu fé frá því sem hann hafði veturinn 1994/1995 getur landbúnaðarráðherra ákveðið að fenginni tillögu framkvæmdanefndar búvörusamninga að sú framleiðsla, sem svarar til fjölgunarinnar, fari öll á erlendan markað. Skal þá miðað við sama hlutfall af framleiðslu og fjölgun nemur. Því til viðbótar skal framleiðandi taka þátt í útflutningi eins og um óbreytta bústærð væri að ræða. Heimild þessari skal aðeins beita haustin 1996 og 1997.
    Hafi verið tekin ákvörðun um verðskerðingu skv. 20. gr. og/eða 1. mgr. 21. gr. er afurðastöð skylt að halda henni eftir við uppgjör og standa Framleiðsluráði landbúnaðarins skil á hinu innheimta verðskerðingarfé.

7. gr.

    Fyrirsögn IX. kafla laganna verður: Um framleiðslu og greiðslumark sauðfjárafurða 1995–2000.

8. gr.

    36. gr. laganna orðast svo:
    Markmið með ákvæðum þessa kafla um framleiðslu sauðfjárafurða eru:
    að auka hagkvæmni og samkeppnishæfni sauðfjárframleiðslu til hagsbóta fyrir sauðfjárbændur og neytendur,
    að treysta tekjugrundvöll sauðfjárbænda,
    að ná jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða,
    að sauðfjárrækt sé í samræmi við umhverfisvernd.

9. gr.

    37. gr. laganna orðast svo:
    Frá og með 1. janúar 1996 verður beingreiðslumark sauðfjárafurða 1.480 millj. kr. á ári og skiptist hlutfallslega eins milli lögbýla og heildargreiðslumark sauðfjár verðlagsárið 1995/1996 gerði. Það tekur breytingum með vísitölu neysluverðs, sbr. 39. gr. laga þessara. Aðilar að Samningi um framleiðslu sauðfjárafurða geta hvor um sig óskað eftir endurskoðun á beingreiðslumarki sauðfjárafurða annað hvert ár verði breytingar á markaði kindakjöts.

10. gr.

    38. gr. laganna orðast svo:
    Greiðslumark skal bundið við lögbýli. Framleiðsluráð landbúnaðarins skal halda skrá yfir greiðslumark lögbýla og handhafa réttar til beingreiðslu samkvæmt því. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður handhafi beingreiðslu. Þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða sem standa að búrekstri getur hver og einn þeirra verið handhafi beingreiðslu.
    Tilkynna skal fyrir 15. september ár hvert um greiðslumark lögbýlisins á næsta almanaksári. Greiðslumark lögbýla fyrir almanaksárið 1996 skal þó tilkynnt 1. febrúar 1996.
    Fram til 1. júlí 1996 eru heimil aðilaskipti greiðslumarks á milli lögbýla, enda séu uppfyllt skilyrði sem ráðherra setur í reglugerð.
    Heimilt er að flytja greiðslumark milli lögbýla: við sameiningu lögbýla; ef eigandi lögbýlis, sem hefur búið og stundað framleiðslu síðastliðin tvö ár, flytur á annað lögbýli; og ef eigandi að sérskráðu greiðslumarki flytur á annað lögbýli.
    Greiðslumarki, sem ríkissjóður kaupir á árinu 1995 eða 1996 eða fellur til ríkisins skv. 41. gr. , skal úthluta til lögbýla samkvæmt nánari ákvæðum sem ráðherra setur með reglugerð.

11. gr.


    39. gr. laganna orðast svo:
    Beingreiðsla greiðist úr ríkissjóði til handhafa í samræmi við greiðslumark lögbýlisins eins og það er á hverjum tíma. Beingreiðsla skal vera 3.734 kr. á hvert ærgildi á ári og tekur árlegum breytingum eftir vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 174,1 stig 1. október 1995.
    Réttur til beingreiðslu flyst milli aðila innan lögbýlis við ábúendaskipti og við breytingu skráningar ef um hjón eða sambýlisfólk er að ræða.
    Til að fá fulla beingreiðslu þarf handhafi að eiga að lágmarki 0,6 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks árið 1996. Nái ásetningur ekki þeirri tölu skerðist beingreiðsla hlutfallslega. Ásetningshlutfall skal endurskoðað árlega af framkvæmdanefnd búvörusamninga. Á lögbýlum þar sem búfjárbeit kemur í veg fyrir eðlilega framkvæmd uppgræðslu eða veldur of miklu álagi á beitiland er landbúnaðarráðherra heimilt að ákveða lægra ásetningshlutfall að fenginni umsögn Landgræðslu ríkisins og/eða Skógræktar ríkisins. Þá er heimilt að víkja frá framangreindu ásetningshlutfalli hjá framleiðendum sem hafa skorið niður fé til útrýmingar sjúkdómum.
    Heimilt er að semja við bændur um lækkun ásetningshlutfalls án lækkunar beingreiðslu ef þeir taka þátt í umhverfisverkefnum í samráði við Landgræðslu ríkisins eða Skógrækt ríkisins, stunda nám eða starfsþjálfun eða taka þátt í atvinnuþróunarverkefnum.
    Þá er heimilt að skerða eða fella niður beingreiðslu ef sauðfjárbóndi gefur rangar upplýsingar um ásettan fjölda sauðfjár eða stundar ólöglega sölu eða dreifingu á kjöti af heimaslátruðu sauðfé eða brýtur á annan hátt reglur eða samningsbundin ákvæði um afsetningu afurða.
    Réttur til beingreiðslu fellur niður þegar 70 ára aldri er náð, þó þannig að viðkomandi heldur beingreiðslu út almanaksárið. Þegar um hjón eða sambúðarfólk er að ræða skal miða við aldur þess sem yngra er. Sé um aðila að félagsbúi að ræða skerðist beingreiðsla aðeins sem nemur hlut þess sem náð hefur greindu aldursmarki. Beingreiðsla fellur fyrst niður samkvæmt ákvæði þessu árið 1997. Lögbýli heldur greiðslumarki sínu óskertu þótt réttur til beingreiðslu falli niður vegna aldurs beingreiðsluhafa eða búskaparhlés án þess að samið sé um búskaparlok og greiddar bætur fyrir.

12. gr.

    40. gr. laganna orðast svo:
    Á árunum 1995 og 1996 er ríkissjóði heimilt að kaupa greiðslumark til framleiðslu sauðfjárafurða, allt að 30.000 ærgildi, og greiða förgunarbætur vegna fækkunar áa eftir nánari ákvæðum í reglugerð sem ráðherra setur.

    

13. gr.


    41. gr. laganna orðast svo:
    Landbúnaðarráðherra úthlutar greiðslumarki sem losnar með samningum um kaup ríkissjóðs á greiðslumarki og um búskaparlok. Við þá úthlutun skal taka mið af greiðslumarki lögbýlis og hlutdeild sauðfjárframleiðslu í heildartekjum framleiðanda. Við útreikning vegna úthlutunar skal miða við greiðslumarksskrá mjólkur og sauðfjárafurða eins og þær voru 1. maí 1995. Tekjuviðmiðun skal vera árið 1994.
    Beingreiðslur, sem lausar eru án samninga um búskaparlok, skulu renna til sameiginlegra markaðsaðgerða.

14. gr.

    43. gr. laganna orðast svo:
    Allir þeir sem hafa greiðslumark til ráðstöfunar eða hagnýtingar eða hafa með höndum framleiðslu sauðfjárafurða eru háðir þeim breytingum á réttarstöðu sem lög þessi hafa í för með sér.
    Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um greiðslumark lögbýla, beingreiðslur, framkvæmd og tilhögun þeirra, frávik frá ásetningshlutfalli, kaup ríkissjóðs á greiðslumarki og úthlutun þess.

15. gr.

    Í stað orðanna „Stéttarsamband bænda“ í 1. mgr. 2. gr., 1–5. mgr. 4. gr., 1. mgr. 7. gr., 1. og 2. mgr. 8. gr., a-lið 1. mgr. 30. gr., 2. mgr. 34. gr., 42. gr., 2. mgr. 47. gr. og 2. mgr. 48. gr. laganna koma í viðeigandi falli orðin: Bændasamtök Íslands.

16. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felldur 4. málsl. 20. gr. laganna, svo og ákvæði til bráðabirgða með lögum nr. 99 28. júní 1995, um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Heimilt er á árunum 1996–1997 að veita þeim framleiðendum, sem aukið hafa sauðfjárgreiðslumark lögbýlisins frá greiðslumarksskrá eins og hún var 1. maí 1995, undanþágu frá skerðingu beingreiðslu sem ella yrði vegna ásetningskröfu 3. mgr. 39. gr. laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið að tilhlutan landbúnaðarráðherra og í samráði við Bændasamtök Íslands. Tilgangur frumvarpsins er að lögfesta nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, vegna ákvæða í samningi um sauðfjárframleiðslu milli landbúnaðarráðherra f.h. ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands frá 1. október 1995, en sá samningur felur í sér breytingar á sauðfjárhlutanum í samningi sömu aðila um stefnumörkun í mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt sem undirritaður var 11. mars 1991.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar eru gefin fyrirheit um þá endurskoðun sem nú hefur farið fram og þar er sérstaklega vikið að þeim mikla vanda sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir og felst í tekjuhruni greinarinnar og sívaxandi birgðasöfnun vegna minnkandi neyslu kindakjöts.
    Með búvörusamningnum frá 1991 voru gerðar grundvallarbreytingar á starfsskilyrðum sauðfjárræktar. Útflutningsbætur voru aflagðar, framleiðsluskilyrði voru þrengd og niðurgreiðslur voru færðar af heildsölustigi yfir í beingreiðslur til bænda. Sú hagræðing, sem að var stefnt, m.a. með kaupum ríkissjóðs á 3.700 tonnum af fullvirðisrétti, gekk ekki eftir og er orsakanna ekki síst að leita í erfiðu atvinnuástandi sem dró úr vilja bænda og möguleikum til að breyta um starf. Því varð að skerða framleiðslumöguleika allra sauðfjárbænda í verulegu mæli sem hefur síðan ásamt neyslusamdrætti valdið því tekjuhruni sem áður var nefnt.
    Samningur sá, sem nú liggur fyrir, nær yfir tímabilið 1995–2000. Um efni hans vísast til fylgiskjals II með frumvarpi þessu. Samningurinn var samþykktur á búnaðarþingi 11. október 1995.
    Í samningnum er greint frá þessum markmiðum:
    að auka hagkvæmni og samkeppnishæfni sauðfjárframleiðslu til hagsbóta fyrir sauðfjárbændur og neytendur,
    að treysta tekjugrundvöll sauðfjárbænda,
    að ná jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða,
    að sauðfjárrækt sé í samræmi við umhverfisvernd.
    Helstu breytingar sem ákvæði samningsins fela í sér eru eftirfarandi:

Frjáls verðlagning í áföngum.


    Sauðfjárafurðir eru nú verðlagðar til framleiðenda af verðlagsnefnd búvöru (sexmannanefnd) og slátur- og heildsölukostnaður ákvarðaður af fimmmannanefnd. Gildandi lög kveða á um að uppgjöri fyrir innlegg í haustsláturtíð skuli lokið 15. desember.
    Þessi ákvæði verða nú afnumin í tveimur áföngum. Á næsta ári fellur staðgreiðsluskylda fyrir kindakjöt niður og skapar það svigrúm fyrir sveigjanleika í verðlagningu. Næsta haust verður einnig horfið frá opinberri verðlagningu slátur- og heildsölukostnaðar. Á árinu 1998 verður síðan horfið frá opinberri ákvörðun afurðaverðs til framleiðenda, og þar með verður öll verðmyndun kindakjöts frjáls.

Framleiðslustýring aflögð.


    Greiðslumark sauðfjárbænda er samkvæmt gildandi lögum, annars vegar viðmiðun fyrir beingreiðslur og hins vegar kvóti á þá framleiðslu sem þeir geta lagt inn í afurðastöð og fengið fullt verðlagsgrundvallarverð fyrir. Framleiðsla umfram kvóta skal fara á erlendan markað við því verði sem þar fæst en framleiðsla innan kvóta seljast innan lands.
    Framleiðslukvótinn er nú aflagður og greiðslumark hvers lögbýlis skilgreinir eingöngu rétt framleiðanda til beingreiðslu, sem ákveðin er 3.734 kr. fyrir hvert ærgildi.
    Hver afurðastöð verður ábyrg fyrir uppgjöri við einstaka framleiðendur fyrir það kjöt sem selt er innan lands, en útflutningur verður á sameiginlegri ábyrgð framleiðenda sjálfra.

Stuðningur óháður framleiðslu.


    Samkvæmt því fyrirkomulagi sem nú gildir þurfa sauðfjárbændur að framleiða að lágmarki 80% af greiðslumarki lögbýlisins til að fá fulla beingreiðslu.
    Nú er hins vegar horfið frá þessari framleiðslukröfu, en í staðinn kveðið á um að bóndinn skuli eiga a.m.k. 0,6 kindur fyrir hvert ærgildi til að fá fulla beingreiðslu. Þessi viðmiðun þýðir að meðaltali mun minni framleiðslu en eldri krafan og er í raun einungis krafa um að sá sem stuðnings nýtur skuli vera sauðfjárbóndi.

Áhersla á umhverfismál og atvinnuþróun.


    Auk þess sem að framan greinir er gert ráð fyrir mun meiri sveigjanleika í framleiðslu þar sem unnt er að semja um minni ásetning, allt niður í fjárleysi, taki bændur að sér sérstök skilgreind verkefni á sviði umhverfisverndar, landgræðslu og skógræktar, stundi nám eða starfsþjálfun eða taki þátt í atvinnuþróunarverkefnum. Í slíkum tilvikum geta þeir haldið óskertum beingreiðslum.

Heildarstuðningur (beingreiðslumark) umsamin fjárhæð.


    Samhliða því að framleiðslukvóti er afnuminn og rofin eru tengsl milli framleiðslu sauðfjárafurða og beingreiðslu, en stuðningnum ætlað víðtækara hlutverk í umhverfis- og atvinnuþróun sveitanna, er samið um fasta beingreiðslufjárhæð sem skal vera 1.480 millj. kr. á ári, þó þannig að hvor samningsaðili getur óskað endurskoðunar á upphæðinni annað hvert ár verði breytingar á markaði kindakjöts.

Uppkaup greiðslumarks.


    Á þessu ári og næsta er áformað að kaupa allt að 30.000 ærgildum greiðslumarks og samsvarandi fjölda áa í því skyni að draga úr framleiðslu og færa stuðningsgreiðslur til þeirra bænda sem byggja afkomu sína að mestu á sauðfjárrækt. Alls er ráðgert að verja til þessara aðgerða 443 millj. kr. á þremur árum.

Aðrar stuðnings- og hagræðingargreiðslur.


    Stefnt er að því að ná jafnvægi í birgðum kindakjöts fyrir 1. september 1996 með markaðsaðgerðum innan lands og útflutningi. Samningurinn kveður á um að ríkissjóður leggi fram 250 millj. kr. í þessu skyni á árunum 1995–1997, en á móti komi verðskerðingarfé sem haldið er eftir við uppgjör sauðfjárafurða, sbr. heimildir í 20. og 21. gr. laganna.
    Samið er um fastar fjárhæðir til niðurgreiðslna á ull og vaxta- og geymslukosnaðar á árunum 1997–2000, en með breyttu fyrirkomulagi, þannig að ráðstöfun fjármuna verði á ábyrgð bænda.
    Þá hefur samningurinn að geyma ákvæði um sérstök framlög til hagræðingar og vöruþróunar og umhverfisverkefna.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 2. gr.


    Með 1. gr. frumvarpsins er breytt skilgreiningu á hugtakinu „greiðslumark lögbýlis“ á þann veg að í stað þess að sauðfjárgreiðslumark lögbýlis sé mælt í kílógrömmum kindakjöts verði það mælt í ærgildum. Þetta er gert vegna þess að greiðslumarkið verður ekki lengur tengt beint við framleitt magn, heldur verður gerð krafa um lágmarksásetning fjár til að framleiðandi öðlist rétt til fullrar beingreiðslu. Við umreikning á núverandi greiðslumarki er miðað við að eitt ærgildi samsvari 18,2 kg kindakjöts. Heildargreiðslumark á nú einungis við um mjólkurframleiðslu.
    Í 2. gr. frumvarpsins er aukið við orðskýringar laganna. Beingreiðslumark er nýtt hugtak og kemur í stað heildargreiðslumarks sauðfjár. Það er ákveðin fjárhæð sem deilist út í beingreiðslum samkvæmt greiðslumarki einstakra lögbýla í stað þess að heildargreiðslumark var annars vegar heildarinnleggskvóti fyrir kjöt á innlendan markað en hins vegar viðmiðun fyrir beingreiðslur. Nýjar viðmiðanir við fjáreign greiðslumarkshafa krefjast þess að skýrt liggi fyrir hvað átt er við með vetrarfóðraðri kind.

Um 3. gr.


    Hér er lagt til að bætt verði við 8. gr. laganna nýrri málsgrein sem kveður á um það að opinberri verðlagningu sauðfjárafurða verði hætt 1. september 1998. Hins vegar verði verðlagsnefnd búvöru frá þeim tíma falið að meta framleiðslukostnað sauðfjárafurða fyrir meðalbú til þess að þær upplýsingar liggi fyrir og unnt sé að fylgjast með kostnaðarþróun búgreinarinnar og meta áhrif af þeirri breytingu sem felst í ákvæðinu.

Um 4. gr.


    Í bókun með hinum nýja samningi frá 1. október 1995 segir: „Aðilar munu beita sér fyrir því að horfið verði frá opinberri skráningu heildsöluverðs fyrir sauðfjárafurðir þegar haustið 1996.“ Í 14. gr. gildandi laga er kveðið á um að fimmmannanefnd skuli „leitast við að ná samkomulagi um heildsöluverð búvara þar sem gengið er út frá því afurðaverði til framleiðenda sem ákveðið hefur verið skv. 7.–12. gr. og rökstuddum upplýsingum um kostnað við vinnslu og dreifingu búvara“. Hér er lagt til að við þetta ákvæði verði bætt orðunum: nema annað sé tekið fram í samningi sem gerður er á grundvelli a-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna eða í bókunum með slíkum samningi. Þannig er tryggt að á grundvelli fyrrgreinds samnings verði heildsöluverð kindakjöts ekki lengur ákvarðað af fimmmannanefnd frá næsta hausti.

Um 5. gr.


    Fyrri málsgrein greinarinnar er að mestu samhljóða núgildandi 21. gr. laganna. Tekið er mið af þeirri breytingu sem frumvarpið gerir ráð fyrir, að úrvinnslu- og heildsölukostnaður verði ekki ákvarðaður af fimmmannanefnd og Framleiðsluráði landbúnaðarins falið að áætla þann kostnað sem innheimta gjaldsins er byggð á.
    Í síðari málsgrein greinarinnar er veitt heimild til gjaldtöku af útfluttu kindakjöti í þeim tilgangi að jafna skilaverð til framleiðenda.

Um 6. gr.


    Hér eru lagðar til breytingar á 29. gr. gildandi laga sem fela í sér afnám þeirra ákvæða er varða uppgjör fyrir innlagðar sauðfjárafurðir en ákvæði um greiðslu fyrir mjólk gildi áfram.
    Hvað kindakjöt varðar er nú gert ráð fyrir að uppgjör afurðastöðva við einstaka framleiðendur verði með tvennu móti eftir því hvort um er að ræða sölu innan lands eða hvort kjötið er flutt úr landi. Svo sem fram kemur í skýringum við 3. gr. frumvarpsins verður verðmyndun á kjöti sem selt er innan lands alfarið í höndum sláturleyfishafa og framleiðenda á árinu 1998, en strax frá næsta hausti er gert ráð fyrir að framleiðendur semji við sláturleyfishafa um greiðslufyrirkomulag fyrir afurðir. Við útflutning kindakjöts er gert ráð fyrir að framleiðendur fái sama verð fyrir sömu gæði. Með gæðum er átt við mismunandi gæðaflokka samkvæmt kjötmatsreglum, en einnig getur komið til útflutningur á kjöti sem framleitt er samkvæmt stöðlum um lífræna ræktum og ætla má að skili framleiðendum hærra verði. Einnig verður unnt að láta mismunandi verð gilda eftir árstímum.
    Til að tryggja að verðjöfnun þessi dragi ekki úr hvata til að fullvinna vöru og auka þannig verðmæti útflutningsins er verðjöfnun einungis miðuð við kjötverð á hráefnisstigi. Sérstakt ákvæði er um að framleiðendur geti verið undanþegnir þátttöku í útflutningi takmarki þeir fjáreign sína og annað tímabundið ákvæði um að auka megi þátttöku í útflutningi ef fé er fjölgað milli ára. Bæði þessi ákvæði eru til þess fallin að draga úr útflutningsþörf.

Um 7. og 8. gr.


    Greinarnar þarfnast ekki skýringar.

Um 9. gr.


    Greinin fjallar um beingreiðslumark sauðfjárafurða sem verður óbreytt frá núverandi heildargreiðslumarki sem þýðir óbreyttar beingreiðslur til bænda. Að öðru leyti vísast til skýringa í almennum athugasemdum með frumvarpinu.

Um 10. gr.


    Greinin fjallar um greiðslumark lögbýla og hefur að geyma hliðstæð ákvæði og nú gilda um skráningu þess og tilkynningu. Hins vegar verða kaup og sala greiðslumarks óheimil frá 1. júlí 1996 en áfram verður möguleg tilfærsla milli lögbýla, svo sem við sameiningu lögbýla.

Um 11. gr.


    Hér er fjallað um beingreiðslur og rétt framleiðenda til þeirra. Þær miðast við greiðslumark lögbýla sem verður mælt í fjölda ærgilda í stað kílógramma kindakjöts. Um fjárhæð beingreiðslu fer samkvæmt gildandi lögum eftir verðlagningu kindakjöts. Hún er 50% af skráðu grundvallarverði hverju sinni en verður föst fjárhæð sem tekur breytingum eftir vísitölu neysluverðs.
    Um 3. og 4. mgr., sem fjalla um ásetningskröfu og hugsanlega skerðingu beingreiðslu, vísast til almennra athugasemda með frumvarpi þessu.

Um 12. og 13. gr.


    Greinarnar fjalla um kaup ríkissjóðs á greiðslumarki og endurúthlutun þess. Stefnt er að því að auka við greiðslumark lögbýla hjá þeim aðilum sem byggja lífsafkomu sína að miklu leyti á sauðfjárrækt um allt að 10%. Í samningnum á fylgiskjali II með frumvarpinu eru ákvæði um kaup þessi og úthlutun, sbr. greinar 2.4 og 2.8.

Um 14. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 15. gr.


    Í greininni eru taldar upp þær málsgreinar og greinar í lögunum þar sem heitið Stéttarsamband bænda kemur fyrir og því breytt í Bændasamtök Íslands. Er það gert í kjölfar sameiningar Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands í ein heildarsamtök bænda, sbr. lög nr. 130/1994, en þau samtök hlutu síðar nafnið Bændasamtök Íslands.

Um 16. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Nauðsynlegt er lögfesta heimild til að víkja frá ásetningskröfu þeirri sem tilgreind er í 3. mgr. 39. gr. laganna í þeim tilvikum þegar framleiðandi hefur keypt eða aukið með öðrum hætti við greiðslumark lögbýlisins frá og með 1. maí 1995. Þeir aðilar, sem þetta varðar, gætu að öðrum kosti verið skyldaðir til að flytja út kindakjöt sem svaraði til þeirrar bústofnsaukningar sem þeir yrðu að stofna til þannig að þeir héldu fullum beingreiðslum.

Fylgiskjal I.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breytingu


á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum,


nr. 99/1993, með síðari breytingum.


    Þann 1. október 1995 gerðu landbúnaðarráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, og Bændasamtök Íslands með sér samning um breytingar á samningi landbúnaðarráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, og Stéttarsambands bænda um framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða frá 11. mars 1991. Helstu fjárhagsleg atriði samningsins eru:
    1. Samkvæmt 9. gr. frumvarpsins eru beingreiðslur bundnar til tveggja ára í stað eins árs áður. Sem fyrr tekur stuðningur ríkisins mið af neyslu kindakjöts innan lands. Samkvæmt eldri samningi hefði greiðslumark ársins 1996 orðið 7.000 tonn og beingreiðslur alls 1.440 m.kr. en í nýjum samningi eru beingreiðslur bundnar við 1.480 m.kr. fyrstu tvö ár samningstímans sem svarar til 7.200 tonna á ári. Neysla kindakjöts hefur verið að dragast saman undanfarin ár. Vegna óvissu um þróun sölumála innan lands er samanburður ekki gerður til lengri tíma en til og með 1997. Samkvæmt þessari forsendu felst í samningnum 80 m.kr. aukning í beingreiðslum til bænda fyrstu tvö ár samningstímans.

Samtals


Beingreiðslur

1995

1996

1997

1996–1997



Núgildandi samningur     
1.637
1.440 1.440 2.880
Nýr samningur     
-
1.480 1.480 2.960
Mismunur     
-
40 40 80

    2. Stuðningsgreiðslur til að laga búvöruframleiðsluna að breyttum aðstæðum verða á samningstímanum 986 m.kr. Af þessum greiðslum verður 443 m.kr. varið til uppkaupa á um 30 þúsund ærgildum skv. 12. gr. frumvarpsins, 250 m.kr. í afsetningu birgða, 218 m.kr. í hagræðingu og vöruþróun og 75 m.kr. í umhverfisverkefni. Ekki er gert ráð fyrir þessum stuðningsgreiðslum í núgildandi samningi.

Samtals


Stuðningsgreiðslur

1995

1996

1997

1998

1999

2000

1996–2000



Uppkaup     
125 206 112 443
Birgðaráðstöfun     
150
63 37 250
Hagræðing og vöruþróun     
83 50 45 40 218
Umhverfisverkefni     
15 20 20 20 75
Samtals     
150
188 341 182 65 60 986

    3. Frá og með 1997 er samið um fasta krónutölu í vaxta- og geymslugjöld, svo og niðurgreiðslur á ull. Verður ráðstöfun þessara fjárhæða á ábyrgð bænda. Samið er um að á árinu 1996 verði ullarniðurgreiðslur 230 m.kr. og vextir og geymslukostnaður um 279 m.kr. Til samanburðar er í fjárlögum ársins 1995 gert ráð fyrir að niðurgreiðslur á ull verði í 250 m.kr. og vaxta- og geymslukostnaður 290 m.kr.
    Að öllu samanlögðu má gera ráð fyrir að samkvæmt nýjum samningi muni heildarkostnaður ríkissjóðs vegna kindakjötsframleiðslu verða um 1.066 m.kr. hærri á árunum 1996 til 2000 en ef núgildandi samningur væri í gildi sama tíma. Þá er ekki er tekið tillit til hugsanlegra lækkana vaxta- og geymslugjalda og niðurgreiðslu á ull sem gæti orðið með nýja samningnum.



Fylgiskjal II.


Samningur um framleiðslu sauðfjárafurða.


    Landbúnaðarráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, og Bændasamtök Íslands gera með sér eftirfarandi samning um breytingar á samningi landbúnaðarráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, og Séttarsambands bænda um framleiðslu mjólkur- og sauðfjárafurða frá 11. mars 1991.

I.


    I. kafli samningsins breytist í heild sinni og verður svohljóðandi:

I. kafli.


Sauðfjárafurðir.


    Markmið þessa kafla eru;
—    að auka hagkvæmni og samkeppnishæfni sauðfjárframleiðslu til hagsbóta fyrir sauðfjárbændur og neytendur,
—    að treysta tekjugrundvöll sauðfjárbænda,
—    að ná jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða,
—    að sauðfjárrækt sé í samræmi við umhverfisvernd.
    Þessum markmiðum hyggjast samningsaðilar ná með því að breyta rekstrarumhverfi sauðfjárframleiðslunnar, með frjálsara verðlagskerfi, með uppkaupum og tilfærslum greiðslumarks og með því að styðja sauðfjárbændur sem vilja hætta búskap.

1. gr.

Hugtök.


1.1     Beingreiðslumark.
    Beingreiðslumark er tiltekin fjárhæð sem ákveðin er í 2. gr. og skiptist milli greiðslumarkshafa.

1.2     Greiðslumark lögbýla.
    Greiðslumark lögbýla er tiltekinn fjöldi ærgilda sem ákveðinn er fyrir hvert lögbýli, sbr. 2. gr. tölul. 2.2 og veitir rétt til beinnar greiðslu úr ríkissjóði.

1.3     Ærgildi.
        Við umreikning greiðslumarks til ærgilda miðast við 18,2 kg kjöts.

1.4     Vetrarfóðruð kind.
        Ær, hrútar, sauðir og lömb sem sett eru á vetur og talin fram á forðagæsluskýrslu.

2. gr.

Greiðslumark.


2.1     Beingreiðslumark.
    Beingreiðslumark verður 1.480 milljónir kr. við upphaf samningstímans og skiptist hlutfallslega eins milli greiðslumarkshafa við upphaf þessa samnings og heildargreiðslumark gerði á verðlagsárinu 1995/96.
    Hvor aðili fyrir sig getur óskað eftir eftir endurskoðun á beingreiðslumarki annað hvert ár verði breytingar á markaði kindakjöts.

2.2     Greiðslumark lögbýla.
    Greiðslumark er bundið við lögbýli og skal skráð í einu lagi, nema um fleiri sjálfstæða rekstraraðila sé að ræða sem standa að búinu.
    Beingreiðsla greiðist úr ríkissjóði til greiðslumarkshafa á samningstímanum í samræmi við greiðslumark eins og það er á hverjum tíma. Beingreiðsla verður 3.734 kr. á hvert ærgildi á ári.
    Tilkynna skal greiðslumarkshöfum fyrir 15. september ár hvert greiðslumark næsta árs. Greiðslumark ársins 1996 skal þó tilkynna fyrir 1. febrúar það ár.
    Til þess að fá fullar beingreiðslur þarf sauðfjárbóndi að eiga að minnsta kosti 0,6 vetrarfóðraðar kindur fyrir hvert ærgildi greiðslumarks fyrir árið 1996. Nái ásetningur ekki þeirri tölu skerðast beingreiðslur hlutfallslega. Ásetningshlutfall þetta skal endurskoða árlega af framkvæmdanefnd búvörusamninga.
    Greiðslumark getur flust milli lögbýla: a) við sameiningu jarða, b) ef eigandi lögbýlis, sem hefur búið og stundað framleiðslu sl. 2 ár, flytur á annað lögbýli og c) ef eigandi að sérskráðu greiðslumarki flytur á aðra jörð.
    Réttur til beinna greiðslna flyst milli aðila innan lögbýlis við: a) ábúendaskipti, og b) við breytingu skráningar ef um hjón eða sambýlisfólk er að ræða.
    Heimilt er að semja við bændur um lækkun ásetningshlutfalls án lækkunar beingreiðslu ef þeir taka þátt í umhverfisverkefnum í samráði við Landgræðslu ríkisins eða Skógrækt ríkisins, stunda nám eða starfsþjálfun eða taka þátt í atvinnuþróunarverkefnum samkvæmt nánari reglum.
    Á jörðum, þar sem búfjárbeit kemur í veg fyrir eðlilega framkvæmd uppgræðslu eða veldur of miklu álagi á beitiland, verður heimilt að lækka ásetningshlutfall að fenginni umsögn Landgræðslu ríkisins og/eða Skógræktar ríkisins.
    Greiðslumarki, sem keypt er á samningstímanum eða fellur til ríkisins skv. lið 2.4, verður endurúthlutað til greiðslumarkshafa eftir nánari reglum í gr. 2.8.
    Heimilt verði að skerða eða fella niður beinar greiðslur ef sauðfjárbóndi gefur rangar upplýsingar um ásettan fjölda sauðfjár eða stundar ólöglega sölu eða dreifingu á kjöti af heimaslátruðu sauðfé.

2.3     Viðskipti með greiðslumark.
    Fram til 1. júlí 1996 verða viðskipti með greiðslumark heimil. Á þeim tíma er þeim sem skráðir eru fyrir greiðslumarki heimilt að eiga viðskipti með greiðslumark. Sé ábúandi annar en eigandi þarf samþykki allra fyrir viðskiptum.

2.4     Uppkaup á greiðslumarki og fækkun fjár.
    Öllum greiðslumarkshöfum verður gert tilboð um kaup á greiðslumarki:
    Fyrir þá sem semja fyrir 15. nóvember 1995 gilda eftirfarandi skilmálar:
         
    
    Greiddar verða 5.500 kr. fyrir hverja á sem fargað er, allt að einni á fyrir hvert ærgildi greiðslumarks. Greiðsla verði innt af hendi í ársbyrjun 1996.
         
    
    Greiðslumarkshafi fær bætur sem svarar til þriggja ára beingreiðslna. Gjalddagar verða sömu og um beingreiðslur væri að ræða.
         
    
    Fyrir hverja á umfram greiðslumark greiðast 2.000 kr., þó aðeins fyrir ær og gemlinga sem koma fram á ásetningsskýrslu 1994/95 hjá samningsaðila.
    Fyrir þá sem semja fyrir 1. júlí 1996 gilda eftirfarandi skilmálar:
         
    
    Greiddar verða 5.500 kr. fyrir hverja á sem fargað er, allt að einni á fyrir hvert ærgildi greiðslumarks. Greiðsla verði innt af hendi í ársbyrjun 1997.
         
    
    Greiðslumarkshafi fær bætur sem svara til tveggja ára beingreiðslna. Gjalddagar verða sömu og um beingreiðslur væri að ræða.
    Þeir sem semja 1. júlí 1996 eða síðar á samningstímanum fái bætur sem svara til tveggja ára beingreiðslna. Gjalddagar verða sömu og um beingreiðslur væri að ræða.
    Samningshafar undir stafliðum a, b og c skulu undirgangast kvaðir um að framleiða ekki sauðfjárafurðir á samningstímanum.
    Þeim bændum, sem óska að verða undanþegnir útflutningsskyldu, sbr. lið 3.1, og tilkynna það fyrir 1. nóvember 1995, skal gert tilboð um að greiddar verði 2.000 kr. fyrir hverja á sem fargað er. Til þess að ná fram tilskilinni fækkun er miðað við ásetning samkvæmt forðagæsluskýrslu veturinn1994/95.

2.5     Aldurstakmark 70 ár.
    Beingreiðslur falla niður árið eftir að greiðslumarkshafi verður 70 ára. Þegar um hjón eða sambúðarfólk er að ræða skal miða við aldur þess sem yngra er. Ákvæði þetta tekur gildi í ársbyrjun 1997. Öllum þeim sem þetta snertir bjóðast samningar samkvæmt grein 2.4.
    Ef einn eða fleiri aðilar að félagsbúi eða annars konar félagsformi um búskap eru orðnir 70 ára skulu beingreiðslur skertar sem svarar hlut þess eða þeirra sem eru 70 ára eða eldri.

2.6     Beingreiðslur eftir búskaparhlé.
    Falli beingreiðslur niður, m.a. vegna aldurs bónda eða ákvörðunar um búskaparhlé, án þess að gerður hafi verið samningur um búskaparlok í sauðfjárrækt, heldur viðkomandi lögbýli greiðslumarki á samningstímanum. Til að fá beingreiðslur að loknu hléi þarf að tilkynna um búskaparáform fyrir upphaf framleiðsluárs.

2.7     Umhverfisverkefni.
    Sauðfjárbændum gefst kostur á að skila inn greiðslumarki en í staðinn takast á við önnur hagnýt verkefni á sviði umhverfis-, landgræðslu- og skógræktarmála. Sett verða skýr markmið og auglýst eftir umsóknum ár hvert. Samið verði um skiptingu á fjármagni eftir verkefnum.

2.8     Endurúthlutun.
    Stefnt skal að því að sauðfjárbændur, sem hafa frá 180–450 ærgilda greiðslumark í sauðfé samkvæmt greiðslumarksskrá verðlagsárið 1995/1996, fái allt að 10% aukningu beinna greiðslna.
    Sá sem hefur innan við 180 ærgilda greiðslumark í sauðfé skal þó hafa möguleika á að sækja um aukningu með rökstuðningi um að sauðfjárframleiðsla sé aðalatvinna viðkomandi greiðslumarkshafa og hann geti sýnt fram á að afkoma hans byggist að stærstum hluta á sauðfjárframleiðslu. Settar verða nánari verklagsreglur.
    Aukning verði aðeins að því marki að heildargreiðslumark (sauðfé + mjólk ) fari ekki yfir 450 ærgildi á fjölskyldu. Fjölskylda er skilgreind sem aðilar sem skila sameiginlegu framtali.
    Greiðslumarki, sem losnar með samningum um búskaparlok, verður fyrst úthlutað vegna framleiðsluárs 1996 og síðan árlega eftir því sem greiðslumark losnar.
    Beinar greiðslur sem lausar eru án samninga skulu renna til sameiginlegra markaðsaðgerða.
    Við útreikning vegna endurúthlutunar skal miðað við greiðslumarksskrár mjólkur og sauðfjárafurða eins og þær voru 1. maí 1995. Tekjuviðmiðun skal vera árið 1994.

2.9     Skráning greiðslumarks.
    Framleiðsluráð landbúnaðarins skal, í umboði landbúnaðarráðuneytisins, halda skrá yfir rétthafa greiðslumarks og færa jafnóðum þær breytingar sem á henni verða. Tilfærsla greiðslumarks skal skráð hjá viðkomandi búnaðarsamböndum og taka gildi þegar staðfesting Framleiðsluráðs landbúnaðarins liggur fyrir.

3. gr.

Framleiðsla og uppgjör.



3.1     Framleiðsla og ráðstöfun.
    Innlegg og afurðauppgjör er óháð greiðslumarki sem ákveðið er skv. 1. og 2. gr. Áður en sláturtíð hefst fari fram áætlanagerð um framleitt magn af kindakjöti. Jafnframt verði áætlað hvernig haga megi afsetningu framleiðslunnar og þá tekið mið af birgðastöðu við upphaf sláturtíðar. Sláturleyfishöfum og sauðfjárframleiðendum verði kynnt áætlun um útflutningsþörf. Að lokinni sláturtíð verði tekin endanleg ákvörðun um það magn kindakjöts sem flytja skal á erlendan markað. Uppgjör við sauðfjárframleiðendur skal tryggja að þeir taki þátt í útflutningi með sama hlutfalli af framleiðslu sinni. Undanþegnir útflutningi eru einungis þeir sem hafa 0,7 vetrarfóðraðar kindur eða minna á hvert ærgildi greiðslumarks og fer þá öll framleiðsla þeirra til innanlandssölu, enda liggi fyrir sauðfjártalning búfjáreftirlitsmanns, staðfest af öðrum trúnaðarmanni. Framleiðendur skuldbindi sig jafnframt til þess að leggja aðeins inn afurðir þess fjár.
    Hafi sauðfjárbóndi fjölgað ásettu fé frá því veturinn 1994/95 verður heimilt að ákveða að sú framleiðsla sem svarar til fjölgunarinnar skuli fara öll á erlendan markað. Heimild þessi gildi fyrir árin 1996 og 1997. Framkvæmdanefnd búvörusamninga gerir tillögu um notkun á þessari heimild.

3.2     Uppgjör á afurðum.
    Hver sauðfjárbóndi fær séruppgjör frá sláturleyfishafa fyrir kjöt framleitt fyrir innanlandsmarkað og séruppgjör fyrir kjöt framleitt til útflutnings. Fyrir það hlutfall framleiðslunnar, sem framleitt er fyrir innanlandsmarkað, semji sauðfjárbændur við sláturleyfishafa um verð og kjör, sbr. lið 4.1. Fyrir það magn, sem umfram er og skal fara til útflutnings, verði sameiginlegt uppgjör sláturleyfishafa þannig að sama verð greiðist öllum sauðfjárbændum. Til að uppgjörsreglur hvetji til frekari þróunar og framleiðslu á fullunnum kjötafurðum til útflutnings greiði vinnsluaðili fyrir hráefni eins og um útflutning á óunnu kjöti hafi verið að ræða.

3.3     Slátrun.
    Sláturleyfishafa er skylt að leggja til kjöt í útflutning í hlutfalli sem ákveðið er skv. lið 3.1, semja um skipti á kjöti við sláturleyfishafa með heimild til útflutnings eða gera verktakasamning við útflutningshús um slátrun þess hluta innleggs hússins sem flytja þarf úr landi. Heimilt er að krefja einstaka sláturleyfishafa um greiðslu inn á jöfnunarreikning við sameiginlegt uppgjör svo jafna megi tekjur af útfluttu kjöti milli sauðfjárbænda.

3.4     Vaxta og geymslukostnaður.
    Frá ársbyrjun 1997 verður ráðstöfun vaxta- og geymslugjalda falin bændum. Auk þess að mæta vaxta- og geymslukostnaði er heimilt að nota hluta gjaldsins til að örva slátrun utan hefðbundins sláturtíma, enda dragi sú slátrun úr þörf á birgðahaldi. Framlögum ríkissjóðs árið 1996 vegna vaxta- og geymslugjalda verður ráðstafað á hefðbundinn hátt.

Ár 1997 1998 1999 2000
Upphæð
í milljónum kr.
240 225 225 225

3.5     Niðurgreiðslur á ull.
    Frá ársbyrjun 1997 verður ráðstöfun fjár til niðurgreiðslna á ull falin bændum. Framlögum ríkissjóðs árið 1996 vegna niðurgreiðslna á ull verður ráðstafað á hefðbundinn hátt.

Ár 1997 1998 1999 2000
Upphæð í milljónum kr. 210 210 210 210

4. gr.

Verðlagning.



4.1     Verðlagning.
    Fyrir verðlagsárin 1996/97 og 1997/98 fari verðlagning sauðfjárafurða til bænda eftir ákvæðum 7.–12 gr. laga nr. 99/1993 með þeim sveigjanleika sem þar gefst. Árið 1996 verður horfið frá ákvæðum 29. gr. laga númer 99/1993 um greiðslu afurðaverðs. Árið 1998 verður horfið frá opinberri ákvörðun afurðaverðs enda hafi komið til framkvæmda þær aðgerðir sem samningurinn kveður á um til að ná jafnvægi í birgðum sauðfjárafurða. Verðlagsnefnd búvara verði falið að meta framleiðslukostnað sauðfjárafurða fyrir meðalbú.

5. gr.


Framlög til hagræðingar og aðlögunar.


    Á árunum 1996 til 2000 verður varið til uppkaupa á greiðslumarki og bústofni, afsetningar birgða, hagræðingar og vöruþróunar og umhverfisverkefna auk annarra verkefna eftirfarandi fjárhæðum ár hvert:
1996 1997 1998 1999 2000
Uppkaup 125 206 112
Birgðaráðstöfun 63 37
Hagræðing og vöruþróun 83 50 45 40
Umhverfisverkefni 15 20 20 20
    Allar upphæðir eru í milljónum króna.

    Framkvæmdanefnd búvörusamninga getur tekið ákvörðun um aðra skiptingu, annarra fjármuna en til uppkaupa, milli verkefna og ára en að ofan greinir. Haustið 1995 verður enn fremur varið 150 millj. kr. til afsetningar birgða.

6. gr.

Ýmis ákvæði.


6.1     Birgðamál.
    Gerð verði áætlun um að ná jafnvægi í birgðum sauðfjárafurða fyrir 1. september 1996, með markaðsaðgerðum innan lands og útflutningi. Það haust koma til framkvæmda ákvæði um framleiðslu og uppgjör skv. 3. gr. Hluta af ráðstöfunarfé samningsins verði varið til þessa verkefnis.

6.2     Fjárleysi.
    Samningi um uppkaup á greiðslumarki skv. lið 2.4 fylgi kvöð um fjárleysi á viðkomandi jörð á samningstímanum. Ábúanda er þó heimilt að halda allt að 10 vetrarfóðraðar kindur enda séu afurðir þeirra ætlaðar til eigin nota.

6.3     Greiðslutilhögun.
    Allar fjárhæðir í samningi þessum skulu miðaðar við verðlag 1. október 1995 og taka breytingum þaðan í frá samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þar sem ekki er tekið fram hvenær greiðslur fara fram innan ársins verður eftir því sem við á hafður líkur háttur á og áður.

6.4     Endurskoðun.
    Aðilar samnings þessa geta hvor um sig óskað eftir viðræðum um endurskoðun á einstökum atriðum hans. Að þremur árum liðnum skulu samningsaðilar gera úttekt á framkvæmd samningsins með tilliti til markmiða hans. Í framhaldi af því skal hefja undirbúning viðræðna um áframhaldandi stefnumörkun á þessu sviði.

II.


    Við grein 10.1 í samningnum bætist svohljóðandi ákvæði: Um endurskoðun á I. kafla samnings þessa fer þó eftir lið 6.4.

III.


    Við grein 11.1 í samningnum bætist svohljóðandi ákvæði: Ákvæði í I. kafla samnings þessa skulu gilda til 31. desember árið 2000, svo og ákvæði í V. kafla að því er tekur til sauðfjárafurða. Á grundvelli þessa samnings verður síðast ákvarðað greiðslumark fyrir haustslátrun árið 2000.


Reykjavík, 1. október 1995.



F.h. Bændasamtaka Íslands,     F.h. ríkisstjórnar Íslands,

með fyrirvara um samþykki     með fyrirvara um samþykki Alþingis
Búnaðarþings          vegna nauðsynlegra lagabreytinga

Ari Teitsson, form. (sign)     Halldór Ásgrímsson
                                       starfandi landbúnaðarráðherra (sign)
Arnór Karlsson (sign)     
                                       Friðrik Sophusson
Guðbjartur Gunnarsson (sign)     fjármálaráðherra (sign)

Hrafnkell Karlsson (sign)

Þórólfur Sveinsson (sign)



Bókanir.


    Í stað staðgreiðslu skal stefnt að greiðslu 80% afurðaverðs fyrir innanlandssölu fyrir 15. desember.
    Aðilar munu beita sér fyrir því að horfið verði frá opinberri skráningu heildsöluverðs fyrir sauðfjárafurðir þegar haustið 1996.
    Að tveimur árum liðnum skulu samningsaðilar endurskoða ákvæði 3. gr., liði 3.1, 3.2 og 3.3, um ráðstöfun og uppgjör afurða.
    Til þess að auðvelda búskaparlok standi bændum til boða að Jarðasjóður kaupi jarðir þeirra, seljist þær ekki á frjálsum markaði.
    Aðilar munu beita sér fyrir áframhaldandi hagræðingu í slátrun og vinnslu sauðfjárafurða.

Reykjavík, 1. október 1995.




F.h. Bændasamtaka Íslands,     F.h. ríkisstjórnar Íslands,

Ari Teitsson, form. (sign)     Halldór Ásgrímsson
                                       starfandi landbúnaðarráðherra. (sign)
Arnór Karlsson (sign)

Guðbjartur Gunnarsson (sign)

Hrafnkell Karlsson (sign)

Þórólfur Sveinsson (sign)