Ferill 98. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 98 . mál.


103. Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)


1. gr.

    1. mgr. 9. gr. laganna hljóðar svo:
    Verðbréfasjóður verður eingöngu stofnaður sem hlutafélag.
    

2. gr.

    Í stað 2. og 3. mgr. 11. gr. laganna kemur ný málsgrein sem hljóðar svo:
    Stjórnarmenn skulu vera búsettir hér á landi. Þeir skulu vera lögráða, hafa óflekkað mannorð, vera fjár síns ráðandi og mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld. Ríkisborgarar þeirra ríkja, sem eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eru undanþegnir búsetuskilyrðinu, enda séu viðkomandi ríkisborgarar búsettir í EES-ríki. Ráðherra er heimilt að veita þeim sem búsettir eru í öðrum ríkjum sömu undanþágu.

3. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna orðast svo: Rekstrarfélag verður eingöngu stofnað sem hlutafélag og skal hafa aðsetur hér á landi.
    

4. gr.

    1. málsl. 13. gr. laganna orðast svo: Daglegur stjórnandi rekstrarfélags skal uppfylla sömu skilyrði og framkvæmdastjóri fjárfestingarfyrirtækis samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.
    

5. gr.

    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein er hljóðar svo:
    Vörslufyrirtæki ber ábyrgð gagnvart rekstrarfélagi og eigendum hlutdeildarskírteina vegna tjóns sem þeir kunna að verða fyrir og rekja má til ásetnings eða gáleysis starfsmanna vörslufyrirtækis við framkvæmd verkefna þess skv. 1. mgr.
    

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
    1. málsl. orðast svo: Gefa skal út verðbréf í formi hlutdeildarskírteina til þeirra sem fá verðbréfasjóði fjármuni til ávöxtunar og óska eftir því.
    Við bætist ný málsgrein er hljóðar svo:
                  Hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða eru undanþegin stimpilgjöldum.

7. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
    1. mgr. orðast svo:
                  Verðbréfasjóði, eða einstökum deildum hans, er eingöngu heimilt að fjárfesta með eftirfarandi hætti:
         
    
    Í framseljanlegum verðbréfum sem skráð hafa verið á skipulegum verðbréfamarkaði samkvæmt skilgreiningu laga um verðbréfaviðskipti.
         
    
    Í nýútgefnum, framseljanlegum verðbréfum, enda sé í skilmálum vegna útgáfu þeirra skuldbinding um að sótt verði um skráningu verðbréfanna á skipulegum verðbréfamarkaði skv. 1. tölul. Skráning verðbréfa samkvæmt þessu ákvæði skal fara fram eigi síðar en einu ári frá útgáfu þeirra.
    Ný málsgrein bætist við, svohljóðandi:
                  Verðbréfasjóði er óheimilt að selja verðbréf sem ekki eru í eigu hans á þeim tíma sem sala þeirra fer fram.
    

8. gr.

    1. mgr. 23. gr. laganna orðast svo:
    Verðbréfasjóði eða einstökum deildum hans er óheimilt að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum annarra verðbréfasjóða en þeirra sem uppfylla skilyrði laga þessara. Fjárfesting verðbréfasjóðs í öðrum verðbréfasjóðum má þó ekki fara yfir 5% af eignum hans eða einstakra deilda hans.
    

9. gr.

    1. mgr. 26. gr. laganna orðast svo:
    Verðbréfasjóði er óheimilt að fjárfesta í fasteignum eða lausafé.
    

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna:
    1. mgr. orðast svo:
                  Verðbréfasjóði er óheimilt að taka önnur lán en skammtímalán til að standa straum af innlausn hlutdeildarskírteina. Slík lán mega ekki nema meiru en sem svarar 10% af eignum sjóðsins eða einstakra deilda innan hans.
    2. mgr. fellur brott.
    

11. gr.

    Á eftir 37. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi, og breytist númeraröð annarra greina samkvæmt því:
    Rekstrarfélag skal gefa út útboðslýsingu fyrir hvern verðbréfasjóð sem það annast rekstur á samkvæmt lögum þessum. Í útboðslýsingu skulu koma fram nauðsynlegar upplýsingar til að viðskiptavinum sé kleift að meta kosti fjárfestinga í hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóðs.
    Nánar skal kveðið á um útboðslýsingar verðbréfasjóða skv. 1. mgr. í reglum sem bankaeftirlitið setur.
    

12. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með þátttöku sinni í Evrópska efnahagssvæðinu (EES) skuldbatt Ísland sig til að lögtaka meginefni ýmissa tilskipana Evrópusambandsins (ESB) á sviði fjármálaþjónustu. Með setningu laga nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, var löggjöf um starfsemi verðbréfasjóða samræmd gildandi reglum um verðbréfasjóði innan Evrópusambandsins, sbr. tilskipun Evrópusambandsins um verðbréfasjóði (85/611/EBE).
    Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur í samvinnu við viðskiptaráðuneytið og bankaeftirlit Seðlabanka Íslands yfirfarið lög nr. 10/1993 í því skyni að ganga úr skugga um að fullnægjandi samræming hafi náðst milli innlendrar löggjafar um verðbréfasjóði og fyrrnefndrar tilskipunar Evrópusambandsins um verðbréfasjóði. Athugun ESA leiddi í ljós að íslensk löggjöf um verðbréfasjóði telst í öllum helstu atriðum nægilega samræmd tilskipuninni. Hins vegar komu jafnframt í ljós einstök atriði sem skildu á milli. Settu fulltrúar ESA fram sjónarmið stofnunarinnar um þau atriði sem þeir töldu nauðsynlegt að bæta við eða breyta í gildandi lögum til að fullkominni samræmingu yrði náð. Bréf ESA um þetta efni frá 11. nóvember 1994 er birt sem fylgiskjal I með frumvarpinu. Athugasemdir og ábendingar stofnunarinnar hafa verið yfirfarnar af hálfu viðskiptaráðuneytis og bankaeftirlits. Nokkrar þeirra eru þess eðlis að ekki er talin ástæða til breytinga á gildandi lögum. Aðrar eru hins vegar taldar eiga við rök að styðjast og að nauðsynlegt sé að taka tillit til þeirra með breytingum á lögum um verðbréfasjóði. Svar viðskiptaráðuneytisins við bréfi ESA er birt sem fylgiskjal II með frumvarpinu.
    Auk framangreinds hefur vinnuhópur á vegum viðskiptaráðuneytis nú um nokkurt skeið unnið að athugun á nauðsynlegum breytingum á gildandi lögum um verðbréfaviðskipti vegna gildistöku tilskipunar um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta frá 10. maí 1993 innan EES-svæðisins (93/22/EBE). Að nokkru hefur verið tekið tillit til væntanlegra breytinga á skilgreiningum laga nr. 9/1993 í þessu frumvarpi. Er það nauðsynlegt vegna innbyrðis samræmis í löggjöf á verðbréfamarkaði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Breyting sú, sem hér er lögð til, felur fyrst og fremst í sér samræmingu við nýleg lög um hlutafélög og einkahlutafélög í því skyni að taka af vafa um félagsform verðbréfasjóða. Skv. 1. mgr. 133. gr. laga um einkahlutafélög ber í eldri lögum að líta svo á að tilgreining hlutafélaga feli einnig í sér einkahlutafélög. Þá er sérstaklega tekið fram í 2. mgr. sama ákvæðis að tiltekin starfsemi verði ekki rekin í formi einkahlutafélags. Þar er verðbréfasjóða ekki getið enda þótt telji verði eðlilegt að svo hefði verið gert. Þá leiðir sú breyting, sem hér er lögð til, af sér að felld er niður heimild til að stofna verðbréfasjóð í öðru félagsformi en sem hlutafélag.
    

Um 2. gr.


    Sú breyting, sem hér er lögð til, er til samræmis við ákvæði gildandi laga um hlutafélög og einkahlutafélög auk þess sem sambærileg framsetning er ráðgerð í lögum um vátryggingastarfsemi. Þykir eðlilegt að slíks samræmis sé gætt í löggjöf um fjármagnsmarkað.
    

Um 3. gr.


    Um skýringar við þetta ákvæði vísast til þess sem segir í athugasemdum við 1. gr.
frumvarpsins.

Um 4. gr.


    Í gildandi lögum um verðbréfasjóði er gert ráð fyrir að framkvæmdastjóri rekstrarfélags hafi leyfi til verðbréfamiðlunar. Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti er lagt til að horfið verði frá því að hér á landi starfi bæði verðbréfamiðlarar og verðbréfafyrirtæki en þess í stað gert ráð fyrir tvenns konar fjárfestingarfyrirtækjum, þ.e. verðbréfamiðlunarfyrirtækjum og verðbréfafyrirtækjum. Verði þessi tillaga að lögum munu einstaklingsbundin leyfi til verðbréfamiðlunar heyra sögunni til. Til að gæta samræmis er lagt til að framkvæmdastjóri rekstrarfélags verðbréfasjóðs verði að uppfylla sömu skilyrði og framkvæmdastjóri fjárfestingarfyrirtækis. Í 3. gr. fyrrgreinds frumvarps kemur fram að framkvæmdastjórar þurfa að vera búsettir hér á landi, vera lögráða og hafa óflekkað mannorð. Þá skal menntun þeirra eða starfsreynsla og starfsferill vera með þeim hætti að tryggt sé að þeir geti gegnt stöðu sinni á forsvaranlegan hátt. Einnig verða þeir að uppfylla kröfur um þekkingu á verðbréfaviðskiptum samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur.
    

Um 5. gr.


    Ákvæði þetta er tilkomið til samræmis við tilskipun Evrópusambandsins um verðbréfasjóði (85/611/EBE) og í framhaldi af ábendingum ESA. Að mati ESA er nauðsynlegt að kveðið sé á um ábyrgð vörslufyrirtækja með beinum hætti í lögum nema unnt sé að sýna fram á ótvíræða dómaframkvæmd í þessu sambandi. Eðli máls samkvæmt er ekki um dómaframkvæmd að ræða í þessum efnum hér á landi enn sem komið er og því var talið rétt að mæla fyrir um ábyrgð vörslufyrirtækja eins og hér er lagt til.
    

Um 6. gr.


    Lagt er til að sú breyting verði á 1. mgr. 16. gr. laganna að einungis sé skylt að gefa út hlutdeildarskírteini til þeirra viðskiptavina verðbréfasjóða sem þess óska. Með þessu er möguleiki að auka hagræðingu í starfsemi verðbréfasjóða, enda er gert ráð fyrir því að í stað hlutdeildarskírteina fái viðskiptavinir kvittanir fyrir keyptum hlutdeildarskírteinum óski þeir ekki eftir formlegum hlutdeildarskírteinum. Viðskiptavinir geta hins vegar hvenær sem er óskað eftir að skírteini séu gefin út þeim til handa. Þessi háttur er almennt hafður á við kaup á hlutdeildarskírteinum erlendra verðbréfasjóða og er því verið að samræma framkvæmd að vissu leyti. Þessi háttur yrði væntanlega einnig hafður á komi til pappírslausra verðbréfaviðskipta hér á landi.
    Lagt er til að við 16. gr. bætist ný málsgrein þess efnis að hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða verði undanþegin stimpilgjöldum. Víðast hvar erlendis hafa stimpilgjöld verið felld niður á peningamarkaði. Með því að leggja til niðurfellingu stimpilgjalda á hlutdeildarskírteinum er því stefnt að því að jafna samkeppnisstöðu innlendra verðbréfasjóða gagnvart erlendum verðbréfasjóðum sem heimilt er að markaðssetja sig hér á landi. Þá má einnig benda á að stimpilgjöld af hlutdeildarskírteinum kunna að vissu leyti að fela í sér tvísköttun þar sem ýmsar eignir verðbréfasjóða eru stimpilgjaldsskyldar. Auk þess kann stimpilgjaldsskylda hlutdeildarskírteina að vera óþarflega íþyngjandi fyrir viðskiptamenn verðbréfasjóða.
    

Um 7. gr.


    Samkvæmt gildandi lögum um verðbréfasjóði er meginreglan sú að sjóðirnir skuli fjárfesta í verðbréfum sem skráð eru á „opinberum verðbréfamarkaði eða ganga kaupum og sölum á öðrum skipulegum markaði“. Samkvæmt frumvarpi til nýrra laga um verðbréfaviðskipti, sem lagt er fram á Alþingi samhliða þessu frumvarpi, er gert ráð fyrir að breyting verði á skilgreiningum að þessu leyti þannig að hugtakið skipulegur markaður nái yfir Verðbréfaþing Íslands og sambærilegar kauphallir erlendis og aðra verðbréfamarkaði innan eða utan Evrópska efnahagssvæðisins þar sem verðbréf ganga kaupum og sölum og sem viðurkenndir hafa verið með lögmætum hætti. Er sú breyting, sem lögð er til í a-lið þessarar greinar, eðlileg til að samræmis sé gætt í löggjöf á verðbréfasviði.
    Tilskipun Evrópusambandsins um verðbréfasjóði bannar þeim að stunda það sem þar er nefnt „uncovered sales of transferable securities“, einnig nefnt „short sale“. Átt er við að verðbréfasjóði sé óheimilt að selja verðbréf sem ekki eru í eigu sjóðsins á þeim tíma sem salan fer fram, þ.e. verðbréfasjóði er óheimilt að taka verðbréf að láni tímabundið til að selja þau. Eru viðskipti af þessu tagi talin fela í sér of mikla áhættu til að réttlætanlegt sé að verðbréfasjóðir, sem afla sér fjármagns frá almenningi, stundi þau. Vegna mistaka var ákvæði af þessu tagi ekki í frumvarpinu sem varð að gildandi lögum um verðbréfasjóði. Í b-lið þessarar greinar er lagt til að úr þessu verði bætt og lögin fyllilega samræmd tilskipun Evrópusambandsins að þessu leyti.
    

Um 8. gr.


    Komið hefur í ljós að í ákvæði 1. mgr. 23. gr. laga um verðbréfasjóði vantar efnisþætti sem er að finna í sambærilegu ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um verðbréfasjóði. Samkvæmt tilskipuninni er tekið fram að verðbréfasjóðum sé óheimilt að fjárfesta í hlutdeildarskírteinum annarra fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum, þ.e. verðbréfasjóða, nema þeir uppfylli ákvæði tilskipunarinnar. Gildandi ákvæði 1. mgr. 23. gr. laga um verðbréfasjóði hefur hins vegar ekki að geyma þessa takmörkun á fjárfestingum verðbréfasjóða og er því ekki að fullu í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins. Með þeirri breytingu, sem hér er lögð til, eru gildandi lagaákvæði samræmd tilskipuninni. Eftir sem áður er fjárfesting samkvæmt ákvæðinu bundin við 5% af eignum verðbréfasjóðs eða einstakra deilda hans.
    

Um 9. gr.


    ESA hefur bent á að tilskipun Evrópusambandsins um verðbréfasjóði heimili almennt ekki að fjármunir, sem verðbréfasjóðir afla frá almenningi, séu festir í fasteignum. Undantekning sé gerð frá þessu samkvæmt tilskipuninni að því er varðar svonefnd fjárfestingarfélög (invest companies) en þar sem gildandi löggjöf hér á landi geri ekki ráð fyrir slíkum félögum eigi undantekning tilskipunarinnar ekki við. Af skilgreiningu laga nr. 9/1993 á hugtakinu verðbréf, sem einnig á við um túlkun laga um verðbréfasjóði, leiðir að ekki hefur verið um almenna heimild verðbréfasjóða að ræða til að fjárfesta í fasteignum samkvæmt gildandi lögum. Því var talið eðlilegt að fallast á sjónarmið ESA í þessu sambandi og taka af allan vafa um heimildir verðbréfasjóða að þessu leyti. Verður enda ekki séð, að teknu tilliti til rekstrarfyrirkomulags verðbréfasjóða samkvæmt gildandi lögum, að hagsmunir þeirra krefjist þess að þeir fjárfesti í fasteignum til nota í starfsemi sinni.
    

Um 10. gr.


    Þessi grein þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að hér er um að ræða breytingu sem leiðir af breytingum sem gerð er grein fyrir í athugasemdum við 9. gr. frumvarpsins.
    

Um 11. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að rekstrarfélögum verði gert að gefa út útboðslýsingar vegna hvers verðbréfasjóðs sem þau annast rekstur á samkvæmt lögum nr. 10/1993. Í gildandi lögum um verðbréfasjóði er ekki að finna nein ákvæði um útboðslýsingar verðbréfasjóða, enda þótt gert sé ráð fyrir tilvist útboðslýsinga í fjölmörgum ákvæðum tilskipunar Evrópusambandsins um verðbréfasjóði. Af hálfu ESA var rík áhersla lögð á nauðsyn þess að ákvæði laga nr. 10/1993 yrðu samræmd tilskipuninni um þetta atriði. Eðlilegt og nauðsynlegt væri að tryggja viðskiptavinum aðgang að upplýsingum um starfsemi verðbréfasjóða á hverjum tíma þannig að viðskiptavinir sjóðanna gætu á hverjum tíma metið þá fjárfestingarkosti sem þeim stæðu til boða af hálfu verðbréfasjóða. Fallast verður á þessi almennu sjónarmið enda eðlilegt að sambærilegar kröfur séu gerðar til verðbréfasjóða að þessu leyti við þær sem gerðar eru til annarra útgefenda verðbréfa sem boðin eru almenningi.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að nánar verði kveðið á um útboðslýsingar verðbréfasjóða í reglum sem settar verði af bankaeftirlitinu. Við útfærslu reglna samkvæmt ákvæðinu verður stuðst við þær leiðbeiningar um útboðslýsingar verðbréfasjóða sem er að finna í tilskipun Evrópusambandsins um verðbréfasjóði. Þá kynni einnig að verða höfð hliðsjón af reglum Verðbréfaþings Íslands um útboðslýsingar, eftir því sem við getur átt. Eðlilegt þykir að kveðið sé á um þessi efni í reglum fremur en settum lögum enda heppilegt að hafa sveigjanleika til breytinga á reglum af þessu tagi, verði talin ástæða til, án þess að til lagabreytingar þurfi að koma.
    

Um 12. gr.


    Greinin þarfnast ekki sérstakra skýringa.



Fylgiskjal I.
    
    

Bréf frá eftirlitsstofnun EFTA til íslenskra stjórnvalda


með athugasemdum við ýmis lagaákvæði á sviði fjármálaþjónustu.


(11. nóvember 1994.)


    
    Efni:     Breytingar á löggjöf og reglugerðum innan lands til að tryggja fullt samræmi við tilskipanir þær sem til umræðu voru á „pakkafundi“ í Reykjavík dagana 24.–25. október 1994.
    
    Ágæti viðtakandi:
    Í kjölfar fundarins, sem getið er hér að framan, hefur skrifstofa fjármagnsflutninga og fjármálaþjónustu farið yfir niðurstöður viðræðna við fulltrúa íslenskra stjórnvalda að því er varðar eftirfarandi tilskipanir:
    Fyrstu tilskipun um bankamál (77/780/EEC).
    Aðra tilskipun um bankamál (89/646/EEC).
    Tilskipun um peningaþvott (91/308/EEC).
    Tilskipun um verðbréfasjóði (UCITS) (86/611/EEC).
    Fyrstu tilskipun um bifreiðatryggingar (72/166/EEC).
    Aðra tilskipun um bifreiðatryggingar (84/5/EEC).
    Þriðju tilskipun um bifreiðatryggingar (90/232/EEC).
    Tilskipun um tryggingamiðlun (77/92/EEC).
    Að lokinni þessari yfirferð hefur stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að til þess að ríkisstjórn yðar uppfylli að fullu skilyrði þessara tilskipana þurfi að gera ýmsar breytingar á íslenskri löggjöf.
    Ákvæði þau, sem Ísland á eftir að taka upp, eru talin upp í viðaukum við bréf þetta.
    Til að auðvelda vinnu við breytingarnar mun stofnunin senda stjórnvöldum yðar bæklinga af því tagi sem sýndir voru á fundinum. Yfirleitt verður um að ræða fimm bæklinga, einn fyrir hvert EFTA-ríki fyrir hverja tilskipun sem um ræðir. Í hverjum bæklingi er sett fram endurskoðuð samanburðartafla fyrir upptöku tilskipunarinnar svo og texti þeirra ráðstafana sem gerðar eru til þess að taka viðkomandi ákvæði upp í landsrétt.
    Bæklingarnir lýsa að sjálfsögðu aðstæðum eins og þær eru nú í hinum einstöku EFTA-ríkjum, áður en breytingar hafa verið gerðar á lögum í því skyni að tryggja fullt samræmi við tilskipanirnar eins og farið er fram á í þessu bréfi og sambærilegum bréfum til hinna EFTA-ríkjanna. Bæklingarnir ættu engu að síður að gera upptöku tilskipananna gegnsærri og veita raunhæf og nytsamleg dæmi um það hvernig hin einstöku ríki EFTA hafa framkvæmt ákvæði þeirra.
    Að því er varðar ráðstafanir til breytinga á landsrétti vil ég bjóða stjórnvöldum yðar að veita Eftirlitsstofnuninni, að því er varðar sérhvern lið (eða undirlið þegar við á) sem tilgreindur er í viðaukum með þessu bréfi, eftirfarandi upplýsingar:
    Í því tilviki að ríkisstjórn yðar hyggist samþykkja eða sé í þann veginn að samþykkja breytingar í því skyni að taka upp viðkomandi ákvæði:
         
    
    tímasetningu þegar breytingin eða breytingarnar verða samþykktar,
         
    
    tímasetningu þegar breytingin eða breytingarnar taka gildi,
         
    
    lögin, reglugerðir eða stjórnsýsluákvæði þar sem breytingin eða breytingarnar verða teknar upp.
    Í því tilviki að ríkisstjórn hyggist ekki gera ráðstafanir til breytinga, þá rökin fyrir þeirri ákvörðun.
    Þessar upplýsingar eru nauðsynlegar til þess að stofnunin geti tekið formlega afstöðu til þess hvort og þá hvenær tryggt verði að fyrrnefndar tilskipanir muni taka fullt gildi á ljósan og ótvíræðan hátt að íslenskum lögum. Þessar upplýsingar skulu berast stofnuninni fyrir 12. desember 1994.
    

Virðingarfyllst,



Hannu von Hertzen


framkvæmdastjóri.





Ákvæði sem Íslandi er boðið að taka upp


að loknum „pakkafundi“ í Reykjavík


dagana 24.–25. október 1994.



     Fyrsta tilskipun um bankamál (77/780/EEC)(FBD).
    Önnur tilskipun um bankamál (89/646/EEC)(SBD).
    
A. Umsókn um leyfi (3. gr. FBD).
    
    Ráðstafanir til að tryggja að upplýsingar um starfsáætlun, þ.m.t. um tegund viðskipta og skipurit lánastofnunarinnar fylgi umsókn um leyfi (3(4)(1/) og 3(4)(2/) FBD).
    
B. Samstarf/samvinna milli lögbærra aðila.
    
    Ráðstafanir til að tryggja möguleika á samráði/samstarfi milli lögbærra aðila aðildarríkjanna í eftirfarandi tilvikum:
         
    
    Samstarf milli lögbærra yfirvalda til þess að hafa eftirlit með starfsemi lánastofnana (7(1)FBD),
         
    
    samráð samkvæmt 7. gr. SBD milli lögbærra stjórnvalda áður en leyfi er veitt,
         
    
    samráð samkvæmt SBD 11(2) þegar virkur eignarhluti er keyptur eða aukinn,
         
    
    samstarf um eftirlit með lausafjárstöðu útibúa (14(2(1/)SBD),
         
    
    samstarf um eftirlit með áhættu sem skapast vegna opinnar stöðu á markaði (14(3)SBD),
         
    
    upplýsingar til stjórnvalda í heimaríkjum frá íslenskum stjórnvöldum þegar erlend lánastofnun, sem opnar útibú á Íslandi, hlítir ekki kröfum íslenskra stjórnvalda (21(3)1/)SBD), og upplýsingar til stjórnvalda í heimaríkjum, varðandi þær ráðstafanir sem íslensk stjórnvöld hafa gert (21(3)(3/) og 21(4)(1/)SBD).
    
     (Frekari upplýsingar er að finna í meðfylgjandi eintaki af 15. og 16. gr. austurrísku bankalaganna.)
    
    Ráðstafanir til að tryggja að hægt sé að birta aðilum lagaleg skjöl sem eru nauðsynleg til aðgerða varðandi lánastofnanir (21(4)(2/)SBD).
    
C. Tilefni til leyfissviptinga (8. gr. FBD).
    
    Ráðstafanir til að tryggja að unnt sé að afturkalla leyfi:
         
    
    ef það er ekki nýtt innan 12 mánaða (8(1)(a)(1/)FBD),
         
    
    ef lánastofnun hefur hætt starfsemi í sex mánuði (8(1)(a)(2/)FBD).
    
D. Þagnarskylda (12. gr. FBD).
    
    Ráðstafanir sem aflétta trúnaði af upplýsingum sem veittar eru vegna málshöfðunar eða kröfumála þegar lánastofnun hefur verið lýst gjaldþrota.
    Reglur sem kveða á um takmarkanir á notkun fenginna upplýsinga (12(4)FBD).
    Reglur um upplýsingaskipti milli lögbærra stjórnvalda á Íslandi (12(5)FBD).
    
E. Réttur til að leita til dómstóla.
    
    Reglur sem tryggja rétt til að leita til dómstóla ef sótt er um starfsleyfi og ákvörðun hefur ekki verið tekin innan sex mánaða eftir að allar upplýsingar hafa verið lagðar fram (13(2/)FBD).
    Reglur sem tryggja rétt til að leita til dómstóla ef lögbær stjórnvöld á Íslandi veita ekki þær upplýsingar sem getið er um í 19. gr. SBD (19(3).3(2/)SBD).
    Reglur sem tryggja að leita megi til dómstóla vegna ráðstafana sem gerðar eru skv. 3., 4., og 5. lið 21. gr. SBD (21(6)(2/)SBD).
    
F. Um eignarhlut lánastofnana (12. gr. SBD).
    
    Ráðstafanir sem tryggja að þegar farið er fram úr báðum takmörkunum í 1. og 2. lið 12. gr. SBD sé sú upphæð sem eigið fé skal ná yfir hærri talan af upphæðunum tveimur (12(8)(2/)SBD).
    
G. Sannprófun á staðnum (2. mgr. 15. gr. SBD).
    
    Ráðstafanir er tryggja stjórnvöldum gistiríkis möguleika á að sannreyna upplýsingar varðandi lánastofnun sem staðsett er í öðru aðildarríki að beiðni stjórnvalda heimaríkis innan ESB í samræmi við 7. mgr. 7. gr. tilskipunar EB um eftirlit á samstarfsgrundvelli nr. 92/30/EEC.
    
H. Starfsemi sem fer fram í gistiríki innan ESB (2. mgr. 18. gr. SBD).
    
    Ráðstafanir sem tryggja
         
    
    að fjármálastofnanir, sem eru dótturfyrirtæki annarrar lánastofnunar eða annarra fjármálastofnana og uppfylla skilyrði skv. 2. mgr. 18. gr. SBD, geti stofnað útibú í öðrum aðildarríkjum (18(2)SBD),
         
    
    að fjármálastofnanir, sem eru dótturfyrirtæki fjármálafyrirtækis sem getið er um í a-lið hér að framan og uppfylla skilyrði 2. mgr. 18. gr., geti stofnað útibú í öðrum aðildarríkjum (18(2)4 SBD).
    
    

Ráðstafanir sem Íslandi er boðið að grípa til


í kjölfar „pakkafundar“ í Reykjavík


dagana 24. og 25. október 1994.


    
     Tilskipun um peningaþvætti (91/308/EEC).
    
     Að forðast grunsamleg viðskipti (7. gr.).
    
    Ráðstafanir til að tryggja að stjórnvöld einstakra ríkja sem vinna gegn peningaþvætti geti, í samræmi við skilyrði í íslenskum lögum, beint þeim fyrirmælum til fjármálastofnana að ljúka ekki tilteknum grunsamlegum viðskiptum ((2/)7. gr. tilskipunarinnar).
    
    
    
    

Ráðstafanir sem Íslandi er boðið að gera


í kjölfar „pakkafundar“ í Reykjavík


dagana 24.–25. október 1994.


    
    
     Tilskipun um verðbréfasjóði („UCITS“) (85/611/EEC) (UCD).
    
A. Skyldur varðandi uppbyggingu verðbréfasjóða (2. mgr. 7. gr. og 9. gr.).
    
    Ráðstafanir til að tryggja ábyrgð vörslufyrirtækis gagnvart rekstrarfélagi og handhafa hlutdeildarskírteinis fyrir skaða sem þau verða fyrir vegna óréttlætanlegrar vanrækslu eða ófullnægjandi efnda á skyldum sínum.
        Að öðrum kosti skal leggja gögn fyrir eftirlitsstofnun EFTA til sönnunar þess að íslenskur fordæmisréttur tryggi hið framansagða.
    
B. Skyldur varðandi fjárfestingarstefnu verðbréfasjóða (UCITS).
    
    Breytingar á 26. og 27. gr. íslenskra laga um verðbréfasjóði (UCITS) þannig að þeim sé óheimilt að fjárfesta í fasteignum eins og nú er.
        Þetta er nauðsynlegt þar sem reglur varðandi fjárfestingarstefnu verðbréfasjóða (UCITS), eins og þær eru skilgreindar í 19.–26. gr. UCD, heimila ekki að fé, sem aflað er hjá almenningi, sé fest í fasteignum. Eina undantekningin sem er veitt er skv. c-lið 2. mgr. 19. gr. UCD, og hún á einungis við um fjárfestingarfyrirtæki sem eru ekki til á Íslandi skv. 1. og 2. gr. íslenskra laga um verðbréfasjóði, sbr. 12. gr. sömu laga.
    Ráðstafanir til að tryggja fulla upptöku heimildar til verðbréfasjóða til að fjárfesta allt að 25% eignar sinnar í tilteknum skuldabréfum sem gefin eru út af lánastofnun sem hefur skráða skrifstofu í aðildarríki og lýtur samkvæmt lögum opinberu eftirliti sem hefur það markmið að vernda eigendur skuldabréfanna og tryggja að fé, sem aflast af útgáfu þeirra, sé fest í eignum sem nægja til þess að mæta kröfum er tengjast bréfunum og sem notaðar yrðu á forgangsgrundvelli til þess að endurgreiða höfuðstól og uppsafnaða vexti ef til gjaldþrots útgefanda kæmi (1. liður 4. mgr. 22 gr. UCD).
    Ráðstafanir ber að gera til þess að taka upp skyldu til þess að geta í sjóðsreglum um þau ríki, stjórnvöld eða alþjóðlegar opinberar stofnanir sem gefa út eða ábyrgjast verðbréfin sem verðbréfasjóðurinn hyggst fjárfesta meira en 35% af eignum sínum í (2. mgr. 23 gr. UCD).
    Ráðstafanir til þess að tryggja að verðbréfasjóðir megi aðeins eignast verðbréf í öðrum verðbréfasjóðum ef hinir síðarnefndu falla undir UCD og að slíkar fjárfestingar megi aldrei vera umfram 5% af eignum sjóðsins (1. og 2. mgr. 24. gr. UCD).
    Ráðstafanir til að tryggja að fjárfestingar verðbréfasjóðs í verðbréfum annars verðbréfasjóðs, sem lýtur sama eða mjög skyldu rekstrarfélagi, eða í verðbréfum mjög skylds fjárfestingarfyrirtækis séu því aðeins heimilar að um sé að ræða verðbréfasjóð sem sérhæfir sig í fjárfestingum á tilteknu landsvæði eða í tiltekinni atvinnugrein (1. tölul. 3. mgr. 24. gr. og 2. tölul. 4. mgr. 24. gr. UCD).
    
C. Skyldur varðandi upplýsingar sem veita skal eigendum verðbréfa.
    
    Ráðstafanir til þess að tryggja fullt samræmi við 23., 27., 28., 29., 30., 32., 33. og 35. gr. UCD varðandi þá skyldu verðbréfasjóðs að gefa út útboðslýsingu og skyldur um efni slíkra útboðslýsinga.

    D. Almennar skyldur verðbréfasjóða (42. gr.).
    
    Ráðstafanir til að tryggja að verðbréfasjóðir ráðist ekki í sölu framseljanlegra verðbréfa sem þeir hafa enn ekki eignast.



Fylgiskjal II.
    
    

Svar viðskiptaráðuneytis til eftirlitsstofnunar EFTA


vegna athugasemda stofnunarinnar við


ýmis lagaákvæði á sviði fjármálaþjónustu.


(12. desember 1994.)


    
    Ráðuneytið vísar til bréfs yðar frá 11. nóvember 1994 (skjal yðar nr. 94-16553 D) þar sem þér teljið upp ákvæði átta tilskipana á sviði fjármálaþjónustu sem að yðar mati hafa ekki verið teknar upp á Íslandi. Þetta ráðuneyti ber ábyrgð á upptöku fjögurra af tilskipununum átta:
              Fyrstu tilskipun um bankamál (77/780/EEC),
              annarri tilskipun um bankamál (89/646/EEC),
              tilskipun um peningaþvætti (91/308/EEC),
              tilskipun um verðbréfasjóði (UCITS) (85/611/EEC).
    Hér á eftir fer svar ráðuneytisins við sérhverju þeirra atriða sem upp eru talin í viðaukanum við bréf yðar.
    
Fyrsta og önnur tilskipun um banka (77/780/EEC og 89/646/EEC).
    
A.1                Gerð verður ráðstöfun til breytinga í breytingarfrumvarpi við lög nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði, er tekur mið af ákvæðum í tilskipuninni um eiginfjárkröfu og tilskipuninni um innstæðutryggingu sem nú er verið að semja. Frumvörpin verða lögð fyrir Alþingi 1994–1995 og verða væntanlega að lögum á því þingi.
B.2                Gerðar verða ráðstafanir varðandi liði (a)–(f) með breytingu á reglugerð fyrir Seðlabanka Íslands. Þetta er hægt að gera fyrir janúarlok 1995.
B.3                  Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. A.1.
C.4                  Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. A.1.
D.5–7        Gerð verður ráðstöfun til breytinga. Ákvæðin ættu að komast inn í lög um Seðlabanka Íslands. Frumvarp til nýrra laga um Seðlabanka Íslands hefur verið samið og verður það væntanlega lagt fyrir Alþingi í nánustu framtíð.
E.8–10    Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. A.1.
F.11            Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. A.1.
G.12             Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. B.2.
H.13             Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. A.1.

Tilskipun um peningaþvætti (91/308/EEC).
    
    Fulltrúar þessa ráðuneytis og Seðlabanka Íslands skýrðu Eftirlitsstofnun EFTA frá því á „pakkafundinum“ í Reykjavík að það væri mat þeirra að 7. gr. hefði verið tekin upp með fullnægjandi hætti í 7. gr. laga nr. 80/1993, um aðgerðir gegn peningaþvætti. Ráðuneytið er enn þeirrar skoðunar að annar málsliður 7. gr. tilskipunarinnar skyldi ekki aðildarríki til þess að veita stjórnvöldum einstakra landa sem vinna gegn peningaþvætti vald til þess að gefa fjármálastofnunum fyrirmæli um að ljúka ekki grunsamlegum viðskiptum. Ráðuneytið telur enn fremur að slík skylda sé í raun gefin í skyn í 2. og 7. gr. laganna. Ef saksóknari upplýsir fjármálastofnun um grun um peningaþvætti væri þeirri stofnun skylt að ljúka ekki viðskiptunum skv. 2. gr. og 2. mgr. 7. gr. laganna. Ráðuneytið hyggst því ekki gera ráðstafanir til breytinga á þessu.

Tilskipun um verðbréfasjóði (UCITS) (85/611/EEC).
    
A.1            Gerð verður ráðstöfun til breytingar. Frumvarp til breytinga á lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði (UCITS), er nú í smíðum. Frumvarpið verður lagt fyrir Alþingi 1994–1995 og verður væntanlega afgreitt sem lög á því þingi.
B.2            Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. A.1.
B.3            Íslensk stjórnvöld og eftirlitsstofnun EFTA virðast sammála um að ákvæðið í 1. lið 4. mgr. 1. gr. sé heimildarákvæði. Ráðuneytið staðhæfir að þessari heimild megi beita hvenær sem er. Ákveði íslensk stjórnvöld að beita þessari heimild verður það gert með því að beita reglum sem Seðlabanki Íslands gefur út (sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1993, um verðbréfasjóði). Þar til þessar reglur hafa verið gefnar út verður heimildinni einfaldlega ekki beitt. Ráðuneytið hyggst því ekki gera ráðstafanir til breytinga.
B.4            Ekki verður gerð ráðstöfun til breytinga, með sömu rökum og í B.3.
B.5            Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. A.1.
B.6            Ekki verður gerð ráðstöfun til breytinga, með sömu rökum og í B.3.
C.7            Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. A.1.
D.8            Gerð verður ráðstöfun til breytinga, sbr. A.1.
    

Virðingarfyllst,



Finnur Sveinbjörnsson


skrifstofustjóri


    
Gunnar Viðar

lögfræðingur





Fylgiskjal III.
    
    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 10/1993,


um verðbréfasjóði.


    Frumvarp þetta er lagt fram um leið og fjögur önnur frumvörp er öll varða peningastofnanir og verðbréfaviðskipti. Eins og hin frumvörpin fjögur miða breytingar þessa frumvarps að því að aðlaga íslensk lög gildandi rétti á Evrópska efnahagssvæðinu, auk þess sem nokkrar breytingar eru lagðar til í ljósi reynslunnar af núverandi lögum.
    Ekkert þeirra breytingarákvæða sem er að finna í frumvarpi þessu kemur ríkissjóði sérstaklega við og því verður ekki séð að samþykkt frumvarpsins valdi ríkissjóði kostnaði.