Ferill 101. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 101 . mál.


106. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 11/1993, um Verðbréfaþing Íslands

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
    Í stað orðsins „febrúarmánaðar“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: aprílmánaðar.
    Við bætist ný málsgrein, sem verður 2. mgr., og hljóðar svo:
                  Stjórnarmenn skulu vera búsettir hér á landi, vera lögráða, hafa óflekkað mannorð og vera fjár síns ráðandi. Þeir mega ekki á síðustu þremur árum hafa í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld.
    Í stað orðins „febrúarmánaðar“ í 2. mgr. kemur: aprílmánaðar.
    

2. gr.

    Í stað orðsins „febrúarlok“ í 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: apríllok.
    

3. gr.

    Í stað orðsins „verðbréfafyrirtæki“ í 2. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: fjárfestingarfyrirtæki skv. 8. gr. laga um verðbréfaviðskipti.
    

4. gr.

    Við 9. gr. laganna bætist nýr töluliður, 1. tölul., svohljóðandi, og breytist röð annarra töluliða samkvæmt því: að uppfylla kröfur um eigið fé sem gerðar eru til hlutaðeigandi lögum samkvæmt.
    

5. gr.

    5. mgr. 17. gr. laganna hljóðar svo:
    Birta skal endurskoðaðan ársreikning í B-deild Stjórnartíðinda.
    

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til nýrra laga í stað laga nr. 9/1993, um verðbréfaviðskipti. Breytingarnar eru nauðsynlegar eftir að ákveðið var að tilskipun Evrópusambandsins um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta frá 10. maí 1993 (93/22/EBE) skyldi einnig gilda innan Evrópska efnahagssvæðisins. Sú tilskipun og fyrirsjáanlegar breytingar á lögum um verðbréfaviðskipti leiða til þess að nauðsynlegt er að breyta gildandi ákvæðum laga nr. 11/1993 um aðild að Verðbréfaþingi Íslands.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að miðað verði við apríllok varðandi kjör stjórnarmanna Verðbréfaþings í 1. mgr. 3. gr. laganna. Breytingin er til samræmis við breytingu sem lögð er til á tímasetningu aðalfundar Verðbréfaþings í 2. gr. frumvarpsins og vísast þangað um frekari skýringar.
    Lagt er til að við lögin bætist ný 2. mgr. 3. gr. þar sem fram komi almenn hæfisskilyrði stjórnarmanna Verðbréfaþings Íslands. Eðlilegt þykir að kveðið sé á um almenn hæfisskilyrði stjórnarmanna Verðbréfaþings í lögum um þingið en slík ákvæði eru ekki fyrir hendi í gildandi lögum. Ákvæðið er að mestu í samræmi við hæfisskilyrði nýlegra laga um hlutafélög og einkahlutafélög. Sams konar ákvæði eru ráðgerð í löggjöf á vátryggingarsviði og öðrum lögum á verðbréfasviðinu.
    Þá breytingu sem lögð er til á 2. mgr. laganna leiðir af breytingum á 5. gr. laganna, sbr. 2. gr. frumvarpsins.
    

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að aðalfundartími Verðbréfaþingsins verði færður til loka apríl í stað febrúar eins og gert er ráð fyrir í gildandi lögum. Að mati stjórnar Verðbréfaþingsins hefur núverandi skipan ekki gefist vel vegna þess að að tímamörk eru of þröng. Þykir því eðlilegt að verða við tilmælum þingsins um rýmkun að þessu leyti.
    

Um 3. gr.


    Þá breytingu sem hér er lögð til, leiðir af breyttri hugtakanotkun samkvæmt frumvarpi til breytinga á lögum um verðbréfaviðskipti sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu. Í fyrrnefnda frumvarpinu er notað hugtakið fjárfestingarfyrirtæki sem heildarhugtak yfir verðbréfafyrirtæki annars vegar og svonefnd verðbréfamiðlunarfyrirtæki hins vegar. Þykir því rétt að nota sama hugtak í lögum um Verðbréfaþing Íslands. Tilvísun til fjárfestingarfyrirtækja í lögunum hefur hins vegar ekki efnislega breytingu í för með sér að því er varðar aðild að Verðbréfaþinginu þar sem einungis verðbréfafyrirtæki með alhliða starfsleyfi samkvæmt frumvarpi til laga um verðbréfaviðskipti er ætlaður aðgangur að þinginu.
    

Um 4. gr.


    Breyting sú, sem hér er lögð til, er tilkomin vegna ákvæðis í tilskipun Evrópusambandsins um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta sem mælir fyrir um að réttur fjárfestingarfyrirtækja samkvæmt tilskipuninni til aðildar að skipulegum verðbréfamarkaði sé háður því skilyrði að hlutaðeigandi fyrirtæki uppfylli ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um eigið fé fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana frá 15. mars 1993 (93/6/ EBE). Slíkar eiginfjárkröfur munu koma fram í lögum sem gilda um starfsemi hlutaðeigandi stofnana og þykir því nægilegt að vísa til þeirra á þann hátt sem hér er gerð tillaga um.
    

Um 5. gr.


    Hér er lagt til að felld verði brott kvöð um að birta ársskýrslu Verðbréfaþings Íslands í B-deild Stjórnartíðinda. Er slík kvöð talin óþarflega íþyngjandi og kostnaðarsöm. Nægilegt ætti að vera að birta ársreikning þingsins opinberlega með þessum hætti.
    

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.
    
    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 11/1993,


um Verðbréfaþing Íslands.


    Frumvarp þetta er lagt fram um leið og fjögur önnur frumvörp er öll varða peningastofnanir og verðbréfaviðskipti. Lagðar eru til minni háttar breytingar á núverandi lögum til að aðlaga lögin gildandi rétti á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Ekki verður séð að umræddar breytingar valdi kostnaði fyrir ríkissjóð.