Ferill 111. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 111 . mál.


117. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 34/1995, um vörugjald af olíu.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.

    Í stað ártalsins „1996“ í 21. gr. komi: 1998.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verði á ákvæði I til bráðabirgða:
    Í stað ártalsins „1996“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: 1998.
    Í stað ártalsins „1995“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: 1997.
    Í stað ártalsins „1995“ í 2. málsl. 1. mgr. komi: 1997.
    Í stað ártalsins „1996“ í 2. mgr. komi: 1998.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verði á ákvæði II til bráðabirgða:
    Í stað ártalsins „1996“ í 1. og 2. mgr. komi: 1998.

4. gr.


    Lög þessi öðlast gildi þegar í stað.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í maí 1995 setti fjármálaráðherra á stofn sérstaka samráðsnefnd um olíugjald í samræmi við bráðabirgðaákvæði III við lög nr. 34/1995, um vörugjald af olíu. Nefndin hafði það hlutverk að vera til ráðgjafar um undirbúning og framkvæmd laganna, þar með talið um setningu reglugerðar. Enn fremur átti hún að kanna þær forsendur sem liggja til grundvallar fjárhæð gjaldsins. Samráðsnefndin var skipuð fulltrúum fjármálaráðuneytis, samgönguráðuneytis, skattyfirvalda, Vegagerðarinnar, olíufélaganna, Bændasamtaka Íslands, FÍB, LÍÚ, Samtaka iðnaðarins og Samtaka landflutningamanna.
    Nefndin skilaði fjármálaráðherra skýrslu um niðurstöður sínar þann 5. október sl. Niðurstaða meiri hluta nefndarinnar var eftirfarandi:
    Gildistöku laga nr. 34/1995, um vörugjald af olíu, sem koma eiga til framkvæmda um næstu áramót, verði frestað um tvö ár meðan unnið er að útfærslu hagkvæmrar litunarleiðar í stað endurgreiðsluleiðar. Stefnt verði að því að leggja fram breytingarfrumvarp við lögin á árinu 1996, þar sem olíugjald með litun hefur verið útfært í lagatexta.
    Lög nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, verði áfram í gildi þar til olíugjaldi með litun gjaldfrjálsrar olíu verður komið á. Lögin verði þó endurskoðuð til að styrkja eftirlit og bæta úr helstu agnúum. Jafnframt verði eftirlit með ökumælum aukið.
    Skipuð verði ný nefnd eða nefndir til að útfæra litun gjaldfrjálsrar olíu, endurskoða lögin um fjáröflun til vegagerðar og athuga nánar forsendur gjaldsins og áhrif.
    Fulltrúi LÍÚ skilaði séráliti þar sem hann andmælir að fresta þurfi gildistöku laganna.
    Þegar frumvarp til laga um vörugjald af olíu var samið lá fyrir að kostnaður við að koma á olíugjaldskerfi með litun gjaldfrjálsrar olíu yrði það mikill að ekki væri réttlætanlegt að leggja það til. Því varð ofan á að taka þess í stað upp endurgreiðslukerfi þar sem þeir er ekki eiga að bera gjaldið fá það endurgreitt í gegnum virðisaukaskattskerfið.
    Meginástæðan fyrir tillögu samráðsnefndarinnar er sú að í Danmörku hefur verið þróuð ódýrari litunarleið en áður þekktist og þess vegna var komist að þeirri niðurstöðu að forsendur fyrir áframhaldandi starfi væru breyttar. Skattyfirvöld í Danmörku hafa tekið þátt í að þróa og prófa þessa litunarleið. Hafa þau sannreynt tæknibúnað þann sem notaður er við að lita olíuna og telja hann fullnægjandi. Tæknibúnaður þessi gerir það að verkum að litun gjaldfrjálsrar olíu verður langtum hagkvæmari kostur en áður var talið.
    Í ljósi þess að fyrirsjáanlegt er að unnt verði að taka upp litun með tiltölulega hagkvæmum hætti taldi nefndin óráðlegt að leggja í kostnað við að byggja upp endurgreiðslu- og eftirlitskerfi til nota í stuttan tíma. Ljóst er að til þess að endurgreiðslukerfið geti gengið á fullnægjandi hátt þarf að byggja á mikilli skráningarvinnu hjá aðilum sem ekki eiga að bera gjaldið bæði vegna olíunotkunar og við verkbókhald. Einnig þarf að ráða fólk til bókhaldseftirlits og til að safna stoðupplýsingum til nota við eftirlitið. Þá mun það verða skattyfirvöldum mikil fyrirhöfn að sannreyna olíueyðslu ökutækja jafnt sem vinnuvéla þar sem eyðslan er háð því hvers konar verkefni og aðstæður unnið er við. Ávallt mun því vera til staðar óvissa um olíueyðslu sem veikir möguleika skattyfirvalda til að sýna fram á misnotkun.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að gildistöku laga nr. 34/1995, um vörugjald af olíu, verði frestað um tvö ár, þannig að gildistaka þeirra verði 1. janúar 1998. Um leið er gildistími laga nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, framlengdur um tvö ár. Stefnt er að því að lagt verði fram frumvarp þegar á næsta ári þar sem olíugjald með hagkvæmri litunarleið hefur verið útfært í lagatexta. Gert er ráð fyrir að sérstök undirbúningsnefnd verði stofnsett sem m.a. hefur það verkefni að kynna sér nákvæmlega þá litunaraðferð sem í vændum er í Danmörku svo og litunarkerfi annarra nágrannaþjóða.
    Jafnframt frumvarpi þessu mun verða lagt fram frumvarp um breyting á lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, þar sem m.a. verða lagðar til breytingar á ákvæðum um brot, undanskot, sektir og málsmeðferð.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting


á lögum nr. 34/1995, um vörugjald af olíu.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að frestað verði upptöku olíugjalds í tvö ár meðan unnið verði að undirbúningi litunar gjaldfrjálsrar olíu. Jafnframt er lagt til að gildistími þungaskatts verði framlengdur í sama tíma.
    Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1996 er kostnaðarframlag vegna upptöku olíugjalds 24 m.kr. Fjárhæð þessi þarf að lækka vegna frestunar olíugjalds. Skýrist það af því að áætlaður kostnaður við undirbúning og rekstur olíugjaldskerfis fellur niður en í stað þess fellur til kostnaður vegna undirbúnings litunarkerfis.
    Gert er ráð fyrir að skipuð verði sérstök nefnd sem vinni að undirbúningi litunarkerfis. Verkefni hennar verða m.a. að kanna væntanlegt litunarkerfi í Danmörku, prófa tækjabúnað til litunar, litunarefni o.fl. Nauðsynlegt þykir að nefndin hafi fastan starfsmann. Áætlaður kostnaður vegna þessa er 6,5 m.kr.