Ferill 134. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 134 . mál.


160. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, er verði 2. mgr., sem orðast svo:
    Tryggingagjald samkvæmt lögum þessum er samsett af tveimur gjöldum, almennu tryggingagjaldi og atvinnutryggingagjaldi.

2. gr.


    Í stað 1. mgr. 2. gr. laganna komi þrjár málsgreinar er orðast svo:
    Atvinnutryggingagjald skal vera 1,5% af gjaldstofni skv. III. kafla.
    Fyrir lok október ár hvert skal Atvinnuleysistryggingasjóður gefa fjármálaráðherra skýrslu um fjárhagslega stöðu sjóðsins, þar sem gerð verði grein fyrir fyrirsjáanlegum útgjöldum á næsta fjárhagsári með hliðsjón af fyrirliggjandi spá Þjóðhagsstofnunar um atvinnuleysi og öðrum atriðum sem áhrif hafa á fjárhagslega stöðu sjóðsins. Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta atvinnutryggingagjalds skal fjármálaráðherra flytja frumvarp þar að lútandi á Alþingi.
    Almennt tryggingagjald skal lagt á í tveimur gjaldflokkum, sérstökum og almennum. Í sérstökum gjaldflokki, sbr. 4. mgr., skal hundraðshluti gjaldsins vera 2,05% af gjaldstofni og í almennum gjaldflokki, sbr. 5. mgr., skal hundraðshluti gjaldsins vera 5,35% af gjaldstofni.

3. gr.


    3. gr. laganna orðast svo:
    Tekjur af atvinnutryggingagjaldi skulu renna til Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Tekjum af almennu tryggingagjaldi skal ráðstafað sem hér segir:
    Vinnueftirlit ríkisins fái í sinn hlut sem nemi allt að 0,08% af gjaldstofni skv. III. kafla. Þetta hlutfall skal ákveðið með reglugerð sem félagsmálaráðuneytið setur í samráði við stjórn stofnunarinnar fyrir eitt ár í senn.
    Tekjur af almennu tryggingagjaldi umfram það sem ákveðið er í 1. tölul. renni til Tryggingastofnunar ríkisins til að fjármagna lífeyris- og slysatryggingar almannatrygginga eftir reglum sem fjármálaráðherra setur með reglugerð.
                  Um hlutdeild opinberra byggingarsjóða í almennu tryggingagjaldi fer eftir ákvæðum laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, svo og ákvæðum lánsfjárlaga og fjárlaga hverju sinni.

4. gr.


    Eftirfarandi breytingar verði á 3. mgr. 6. gr. laganna:
a.     Í stað fjárhæðarinnar „720.000“ í 2. málsl. komi: 748.224
b.     3. málsl. falli brott.

5. gr.


    Í stað orðsins „tryggingagjalds“ í viðauka I við lögin komi: almenns tryggingagjalds.

6. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1996 og koma til framkvæmda við staðgreiðslu tryggingagjalds á árinu 1996 og álagningu á árinu 1997.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum. Meginbreytingin sem hér er lögð til felst í því að lagt er til að tryggingagjaldi verði skipt upp í tvö gjöld, atvinnutryggingagjald og almennt tryggingagjald. Þannig verði í lögunum gerður skýr greinarmunur á tryggingagjaldinu eftir því hvort tekjurnar renna til Atvinnuleysistryggingasjóðs eða til annarra. Gert er ráð fyrir að hundraðshluti tryggingagjaldsins hækki um 0,5% til að mæta aukinni fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs. Jafnframt er gert ráð fyrir að lögum um Atvinnuleysistryggingasjóð verði breytt á þann veg að fellt verði út ákvæði sem kveður á um að ríkissjóður leggi sjóðnum til jafnhátt framlag og nemur tekjum hans af tryggingagjaldi.
    Þá eru lagðar til breytingar til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi til laga um tekjuskatt og eignarskatt sem fjármálaráðherra leggur fram. Þar er um að ræða afnám sjálfvirkrar verðbreytingar fjárhæðar í 3. mgr. 6. gr. og er lagt til að fest verði í lög sú fjárhæð sem lögð var til grundvallar við álagningu tryggingagjalds í ár.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Lagt er til að tryggingagjaldi verði skipt upp í tvö gjöld, þ.e. atvinnutryggingagjald og almennt tryggingagjald. Gert er ráð fyrir að tekjum af atvinnutryggingagjaldi verði að fullu ráðstafað til Atvinnuleysistryggingasjóðs en tekjum af almennu tryggingagjaldi verði ráðstafað til annarra sem fengið hafa tekjur af tryggingagjaldi hingað til. Breytingin hefur ekki í för með sér breytingar á innheimtu tryggingagjalds heldur snýr hún einungis að því að draga skýrar línur á milli þess hluta tryggingagjaldsins sem ráðstafað er til Atvinnuleysistryggingasjóðs og þess hluta sem ráðstafað er til annarra.

Um 2. gr.


    Lagðar eru til breytingar á skatthlutföllum. Breytingar þessar fela annars vegar í sér þá skiptingu sem ákveðin er í 1. gr. frumvarpsins og hins vegar hækkun á hlutfalli tryggingagjaldsins sem skilar sér að fullu í atvinnutryggingagjaldinu til að mæta aukinni fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs.
    Það nýmæli er í greininni að gert er ráð fyrir að sú skylda verði lögð á fjármálaráðherra að flytja frumvarp til laga um breytingar á skatthlutfalli atvinnutryggingagjalds ef í ljós kemur að því þurfi að breyta sökum fjárhagslegrar stöðu sjóðsins eins og hún er í lok október ár hvert með hliðsjón af fyrirliggjandi spám um atvinnustig og öðrum þeim atriðum sem áhrif kunna að hafa á fjárhagslega stöðu sjóðsins á næsta fjárhagsári. Eðli máls samkvæmt getur þetta hvort heldur sem er leitt til hækkunar gjaldsins eða lækkunar.

Um 3. gr.


    Lagðar eru til breytingar á 3. gr. laganna sem fjallar um ráðstöfun tryggingagjalds til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í 1. og 2. gr. frumvarpsins. Þá er gert ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð sett reglur um með hvaða hætti tekjum af tryggingagjaldi skuli ráðstafað til að fjármagna lífeyris- og slysatryggingar almannatrygginga. Lagt er til að fjármálaráðherra geti með reglugerð sett reglur um hvernig tekjum af tryggingagjaldi skuli ráðstafað til að standa straum af lífeyris- og slysatryggingum almannatrygginga. Gert er ráð fyrir að við setningu slíkra reglna verði höfð hliðsjón af fjárhagslegri stöðu hvorrar tryggingagreinarinnar um sig.

Um 4. gr.


    Í þessari grein er tekin úr sambandi sú sjálfvirka verðbreyting sem innbyggt hefur verið í lögin að gerð skuli árlega á fjárhæð þeirri sem tilgreind er í 3. mgr. 6. gr. laganna. Er þessi breyting af sama toga og þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpi því sem fjármálaráðherra leggur fram um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Um 5. gr.


    Í þessari grein er lögð til breyting á viðauka I við lögin til samræmis við skiptingu tryggingagjalds í atvinnutryggingagjalds og almennt tryggingagjald, sbr. 1. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.