Ferill 137. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 137 . mál.


163. Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 120. löggjafarþingi 1995.)



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
    Í stað fjárhæðarinnar „5,62 kr.“ kemur: 5,86 kr.
    Í stað fjárhæðarinnar „3,65 kr.“ kemur: 3,80 kr.
    Í stað fjárhæðarinnar „2.870 kr.“ kemur: 2.993 kr.
    Í stað fjárhæðarinnar „18.136 kr.“ kemur: 18.915 kr.

2. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
    Orðin „en eindagi er síðasti dagur næsta mánaðar eftir gjalddaga“ í 1. málsl. 1. mgr. falla brott.
    Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er verður 2. málsl. og orðast svo: Eindagar bifreiðagjalds eru 31. janúar og 31. júlí ár hvert.
    Í stað fjárhæðarinnar „500 kr.“ í 2. mgr. kemur: 523 kr.

3. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
    Við 1. mgr. bætist nýr málsliður er verður 2. málsl. og orðast svo: Eiganda eða umráðmanni bifreiðar er þó ekki skylt að færa sönnur á að hafa greitt gjaldfallið bifreiðagjald fyrr en eftir eindaga.
    2. mgr. orðast svo:
                  Óheimilt er að skrá eigendaskipti að bifreið nema gjaldfallið bifreiðagjald hafi áður verið greitt.
    

4. gr.


    5. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    Í stað orðanna „Bifreiðaeftirliti ríkisins“ í 7. gr. laganna kemur: skoðunarstöðvum.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 39/1988, um bifreiðagjald. Samkvæmt lögunum er meginreglan sú að greiða ber bifreiðagjald af öllum bifreiðum sem skráðar eru hér á landi. Upphæð bifreiðagjalds, sem lagt er á tvisvar á ári, er í dag ákvörðuð með þeim hætti að í lögunum er kveðið á um grunnfjárhæðir sem fjármálaráðherra er svo heimilt að hækka í réttu hlutfalli við hækkun sem kann að verða á vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. lög 42/1987, með því að gefa út reglugerð. Lagt er til að upphæð bifreiðagjaldsins verði ákveðin í lögunum og felld niður heimild ráðherra til að hækka gjaldið með reglugerð. Í stað þess verði tekin ákvörðun um það hvort hækka eigi gjaldið í tengslum við afgreiðslu fjárlaga ár hvert. Er hér um að ræða breytingu til samræmis við breytingar sem lagt er til að verði á lögum um tekjuskatt- og eignarskatt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með þessu frumvarpi er lagt til að upphæð bifreiðagjalds verði ákveðin í lögunum. Til að gera þessa breytingu mögulega eru fjárhæðir þær sem fram koma í lögunum hækkaðar til samræmis við upphæð gjaldsins við álagningu 1. júlí 1995, sbr. auglýsingu nr. 344/1995 um hækkun bifreiðagjalds 1. júlí 1995. Ekki er gert ráð fyrir hækkun á gjaldinu. Í 5. gr. laganna er heimild ráðherra til að hækka bifreiðagjaldið með reglugerð í réttu hlutfalli við vísitölu byggingarkostnaðar og er lagt til að hún verði felld brott. Í framtíðinni verður það því hlutverk löggjafans að ákveða hækkun bifreiðagjalds í stað þess að lögin kveði á um vísitölubundna hækkun.

Um 2. gr.


    Lagt er til að eindagar bifreiðagjalds verði færðir fram um einn mánuð. Eindagar gjaldsins verða því 31. janúar og 31. júlí ár hvert. Meginástæða þessarar breytingar er að gera breytinguna, sem lögð er til í 3. gr. frumvarpsins, mögulega. Þar er lagt til að heimilt verði að skoða bifreið fram að eindaga þrátt fyrir að bifreiðagjaldið sé gjaldfallið. Því að það er skilyrði fyrir árlegri aðalskoðun bifreiðar að gjaldfallið bifreiðagjald hafi verið greitt. Hafi gjaldfallið bifreiðagjald ekki verið greitt er aðila neitað um skoðun. Framkvæmdin hefur því verið sú að í tvo mánuði á ári hefur aðilum verið neitað um skoðun án þess að bifreiðagjaldið hafi verið fallið í eindaga. Hefur þessi framkvæmd mælst illa fyrir og verið bent á að þar sem ekki sé komið að eindaga sé bifreiðagjaldið ekki komið í vanskil og þess vegna ekki ástæða til þess að neita að skoða bifreiðina. Til þess að auðvelda innheimtu, minnka álag á skoðunarstöðvum og aðlaga innheimtu gjaldsins að þörfum gjaldenda er lagt til með frumvarpi þessu að styttur verði tíminn milli gjalddaga og eindaga og skoðunarstöðvum verði heimilað að skoða bifreiðar fyrir eindaga þrátt fyrir að bifreiðagjald hafi ekki verið greitt.
    Í c-lið greinarinnar er lagt til að fjárhæðin 500 kr. verði hækkuð í 523 kr, en fjárhæðin 523 kr. er sú fjárhæð sem fram kemur í lögunum, reiknuð miðað við vísitölu október 1995. Um er að ræða lækkun í framkvæmd því að samkvæmt auglýsingu nr. 344/1995, um hækkun bifreiðagjalds 1. júlí 1995, var lágmarksgjaldið 1.183 kr. Er því ekki í lögum þessum um hækkun að ræða miðað við framkvæmdina í dag. Lágmarksgjald vegna nýskráningar hefur verið hækkað reglulega til samræmis við fjárhæðirnar í 1. gr. frumvarpsins og lögbundna vísitöluhækkun en var ekki hækkuð í lögum nr. 122/1993 eins og fjárhæðirnar í 1. gr. laganna. Lagt er til að í framtíðinni verði hækkun bifreiðagjalds háð ákvörðun löggjafans í tengslum við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.

Um 3. gr.


    Með þessari breytingu er tekin skýr afstaða til þess að óheimilt sé að skrá eigendaskipti að bifreið hafi gjaldfallið bifreiðagjald ekki verið greitt. Tilgangur þessarar breytingar er fyrst og fremst sá að tryggja betri innheimtu bifreiðagjalds og koma í veg fyrir að kaupendur bifreiða lendi í að þurfa að greiða bifreiðagjald sem lagt var á fyrri eiganda, en eins og fram hefur komið er það skilyrði fyrir skoðun að gjaldfallið bifreiðagjald hafi verið greitt. Gert er ráð fyrir að upplýsingar um þessa tilhögun muni koma fram á sölutilkynningum sem Bifreiðaskoðun Íslands hf. lætur útbúa og notaðar eru við eigendaskipti almennt. Jafnframt er sett ákvæði um að heimilt sé að skoða bifreiðar þrátt fyrir að gjalddagi bifreiðagjalds sé liðinn sé eindagi gjaldsins ekki kominn. Átt er við þrjátíu daga tímabil frá 1. til 31. janúar og 1. til 31. júlí sem skapast við álagningu gjaldsins 1. janúar og 1. júlí ár hvert. Þessi breyting tengist breytingunni í 2. gr.

Um 4. gr.


    
    Í 5. gr. laganna er ráðherra heimilað að hækka upphæð bifreiðagjalds með reglugerð í samræmi við hækkun vísitölu byggingarkostnaðar, sbr. lög nr. 42/1987. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpi þessu er lagt til að felld verði niður heimild ráðherra til að hækka bifreiðagjaldið með reglugerð. Í samræmi við þá fyrirætlan er lagt til að 5. gr. laganna verði felld brott og þess í stað verði ákvörðun um það hvort hækka eigi gjaldið tekin í tengslum við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.

Um 5. gr.


    Hér er einungis um orðalagsbreytingu að ræða. Þegar lögin tóku gildi 20. maí 1988 sá Bifreiðaeftirlit ríkisins um skoðun bifreiða. Í dag eru nokkrar skoðunarstöðvar og hefur verið gerður samningur við þær um innheimtu gjaldsins fyrir ríkissjóð.

Um 6. gr.


    Ákvæði þetta þarfnast ekki skýringa.