Ferill 139. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1995. – 1065 ár frá stofnun Alþingis.
120. löggjafarþing. – 139 . mál.


165. Tillaga til þingsályktunarum nýtt mat á jarðskjálftahættu og styrkleika mannvirkja á Suðurlandi.

Flm.: Guðni Ágústsson, Guðmundur Lárusson, Lúðvík Bergvinsson,


Árni Johnsen, Ísólfur Gylfi Pálmason.    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera ítarlega úttekt á íbúðarhúsum, atvinnuhúsnæði og öðrum mannvirkjum á Suðurlandi með tilliti til jarðskjálftahættu. Í framhaldi af slíkri úttekt verði gerð áætlun um úrbætur til að styrkja eða úrelda mannvirki sem talin eru ótraust. Jarðskjálfta- og jarðfræðingum verði falið að kortleggja nákvæmlega svæði með tilliti til staðbundinnar jarðskjálftahættu, svo sem staði þar sem í jarðskjálftum er hætta á sprungum á yfirborði og staði þar sem laus yfirborðslög geta magnað upp áhrif jarðskjálfta. Að þessu verði unnið í samstarfi við sveitarfélög á Suðurlandi.

Greinargerð.


    Þótt farið sé eftir byggingarstaðli við byggingu húsa er ekki öruggt að þau muni þola stóran jarðskjálfta. Þekkingunni sem byggingarstaðlar eru grundaðir á fleygir stöðugt fram og oft mundu menn hafa byggt öðruvísi hér áður fyrr ef þekkingin hefði verið meiri. Þá er ekki ólíklegt að stundum hafi reglugerðum ekki verið fylgt nægilega vel eftir við gerð húsa og undirstöðu þeirra. Einnig eru dæmi um að burðarvirki húsa hafi verið veikt með síðari tíma breytingum. Markmiðið með úttektinni er að finna veika hlekki eða slysagildrur út frá þeirri þekkingu sem best gerist nú. Með úrbótum á grundvelli slíkrar úttektar má draga úr því tjóni sem stór skjálfti gæti valdið.
    Þekkingu á jarðskjálftasvæði Suðurlands hefur mjög fleygt fram á síðari árum. Gert hefur verið áhættumat sem byggist á reynslu og almennri þekkingu á eðli Suðurlandssvæðisins. Þetta áhættumat er gróft í þeim skilningi að það tekur ekki til staðbundinna frávika sem geta verið veruleg innan svæðisins. Sprungur hafa verið kortlagðar og um sumar er vitað að þær hafa breyst í stórum jarðskjálftum. Með nýrri tækni er unnt að meta staðbundin frávik frá almennu áhættunni á svæðinu. Með nýja jarðskjálftamælanetinu, svokölluðu SIL-kerfi, er unnt að rekja virkar sprungur neðan jarðar þótt þær sjáist ekki á yfirborði sem og að finna spennustefnu, hvort tveggja út frá mælingum á smáskjálftum. Þá er einnig unnt með staðbundnum mælingum og jarðfræðilegu mati að finna staði þar sem líkur eru á að jarðskjálftabylgjur frá stórum skjálftum magnist upp.